Fortíðin læðist aftan að þér

Um sakamálasöguna Rof eftir Ragnar Jónasson (1976). Verkið kom fyrst út árið 2012 en var gefið út aftur á síðasta ári í endurskoðaðri útgáfu. Veröld gefur út. 312 síður. 50 kaflar. Hver kafli er 6,24 síður að meðaltali.



Spyrja má sig hví hér sé fjallað um verk frá árinu 2012. Mætti svara því til að ástæðan sé sú að verkið kom út í endurskoðaðri útgáfu í fyrra. Málið dautt. En þetta er ekki alveg svo einfalt. Einfalt samt. Á næstunni stendur til að gefa glæpa- og sakamálasögum meiri gaum en verið hefir. Slíkar sögur eru jú það skáldsagnaform sem mestra vinsælda nýtur á Íslandi. Á Starafugli hafa vissulega birst umfjallanir um glæpasögur en kannski ekki svo margar. Úr því skal bætt.

Ragnar Jónasson er oft nefndur í sömu andrá og Arnaldur Indriðason og Yrsa Sigurðardóttir sem notið hafa hvað mestrar velgengni íslenskra höfunda heima og erlendis. Hafa þau stundum verið nefnd konungur og drottning íslenskra glæpasagna. Ragnar Jónasson er þá ef til vill krónprinsinn.

Ragnar hefir, síðan hans fyrsta verk kom út árið 2009, gefið út verk á ári hverju. Árið í fyrra var  engin undantekning. Nýverið kom út sagan Þorpið, hans tíunda útgefna verk. Þess má reyndar geta að hann hefir og þýtt verk Agöthu Christie. Fyrsta þýðingin kom út 1994. Um Þorpið stendur til að fjalla áður en langt um líður. Áður en það verður gert er ekki út vegi að hafa eins konar kynningu á höfundi, nokkurs konar inngang. Til þess atarna var valin sú leið að taka til umfjöllunar eldra verk Ragnars.

Nú er auðvitað ljóst að mikið hefir verið fjallað um verk Ragnars. Það hefir bara ekki verið gert hér.

Rof er fjórða verk höfundar. Strax með sínu fyrsta verki, Falskri nótu, er hann talinn hafa slegið nýjan tón í íslenskum glæpa- og sakamálasögum. Glæpasögu-Gróa vill meina að sögur hans skeri sig nokkuð úr. Glæpa- og sakamálasögur eru í grunninn formúlukenndar og margar hverjar fyrirsjáanlegar. Það er og sjaldgæft að stílsnilld sé hægt að spyrða við slíkar sögur, sjaldgæft að þær séu brautryðjandi. Ekki er oft sem bókmenntaverk á mælikvarða Glæps og refsingar Dostojevskís, Ilms Patriks Süsskinds og Grámosinn glóir Thors Vilhjálmssonar reka á okkar fjörur. Hér er þó ekki líku saman að jafna. Bækur Ragnars eru hefðbundnari en svo. Látum nægja að segja að hann skrifi öðruvísi sögur, öðruvísi glæpasögur. Alltént á íslenskan mælikvarða.



Í fyrstu sex verkum höfundar er um sömu aðalpersónu að ræða, Ara Þór Arason sem er voða venjulegur maður eitthvað. Í fyrsta verkinu, Fölsk nóta (2009: Verkið á sér þó stað tveim árum áður), er hann ungur maður í guðfræðinámi sem lendir í því að rannsaka hvarf föður síns. Faðir hans hvarf fyrir níu árum og móðir hans lést um svipað leyti. Hann er drengur einn og yfirgefinn. Þessi saga telst ekki hreinræktuð eða dæmigerð íslensk glæpasaga. Hún er fremur í ráðgátustíl.

Í næstu sögu hefir Ari undið sínu kvæði í kross og er orðinn lögreglumaður á Siglufirði. Þar rannsakar hann mál í næstu fimm sögum: Snjóblinda (2010, Myrknætti (2011), Rof (2012), Andköf (2013) og Náttblinda (2014). Næstu þrjár Dimma (2015), Drungi (2016) og Mistur (2017) hafa aðra aðalpersónu, lögreglukonuna Huldu sem líkt og Ari á sér ekki svo gleðilega fortíð. Í Þorpinu sem nýverið kom út kveður við annan tón. Hvorki Ari né Hulda eru þar í aðalhlutverki. Þar er auk þess ekki um löggusögu að ræða þótt vissulega séu glæpir framdir.

Líkt og áætla má af nafnbótum sagnanna er dvalist við myrkur, dimmu, drunga og mistur. Það er skuggsýnt í þeim auk þess sem veðurfar og einangrun spila vegamikla rullu. Veður, náttúra og landslag geta svo aukinheldur aukið við einangrunartilfinningu og dulúð sem ríkt er af í verkunum. Eru það jafnframt tæki sem óspart er gripið til. Við slíkar aðstæður er oft og tíðum erfitt að athafna sig, fólk þarf að fikra sig hægt og rólega áfram. Þannig er það einnig með þessi verk. Í þeim er sjaldan æsingur eða hasar. Framvindan er róleg og seigfljótandi.

Við þetta ber að bæta að eitt meginþema verkanna er hvernig fortíðin á til að læðast (áhersla á læðast) aftan að fólki. Oftlega er tvinnað saman fortíð og nútíð, bæði hvað sakamálin varðar svo og persónulegt líf sögupersónanna. Þær eru það sem þær eru og gera það sem þær gera vegna fortíðar sinnar, vegna þess sem þær hafa upplifað. Oftast hafa þær lent í sálrænu áfalli af einhverjum toga. Það eiga Ari og Hulda sammerkt og reyndar einnig aðalpersóna Þorpsins, Una. Ennfremur er, líkt og hjá Agöthu Christie ætíð unnið með það þema að allir hafi eitthvað að fela. Í Siglufjarðarbókunum er unnið með lítið samfélag þar sem allir þekkja alla en samt ekki og aðkomufólk er e.t.v. ekki (alltaf) hjartanlega velkomið.



Víkjum nú að Rofi. Fyrst skal nefna að sögusvið verksins eru þrjú. Siglufjörður, Héðinsfjörður og Reykjavík. Héðinsfjörður er næsti fjörður við Siglufjörð og var, fyrir komu Héðinsfjarðarganganna (þau opnuðu 2010), einstaklega einangraður. Hluti sögunnar er látinn gerast þar um miðjan sjötta áratug síðustu aldar þrátt fyrir að hann hafi farið í eyði 1951.

Héðinsfjörður hefur verið í eyði frá árinu 1951. Saga af ábúendum við vestanvert Héðinsfjarðarvatn eftir þann tíma er því að sjálfsögðu hreinn hugarburður. (bls. 6)


Hinn um það bil 1200 manna bær Siglufjörður er svo ennfremur ekki beinlínis í alfaraleið þrátt fyrir göngin. Samtíðarhlutinn (sennilega 2011) á sér stað eftir að göngin voru tekin í gagnið. Engu að síður er Siglufjörður einangraður sakir þess að bærinn er í sóttkví í kjölfar dauða fransks ferðamanns sem lést þar úr hitasótt. „Hitasóttin var sum staðar kölluð franska veikin og var draugalegt um að litast í bænum.“ (bls. 17) Undir þessum kringumstæðum ákveður Ari „að gefa sér tíma til að skoða gamalt sakamál fyrir mann sem hann þekkti lítið sem ekki neitt.“ (bls. 15) Málið snýst um dauðsfall ungrar konu í Héðinsfirði árið 1955. Systursonur konunnar, Héðinn, biður Ara um að líta á málið.

Héðinn fæddist þar 1956 eftir að foreldrar hans, Guðmundur og Guðfinna fluttust þangað „rúmu ári áður, þegar fjörðurinn var farinn í eyði“ (bls. 18) ásamt Jórunni, systur Guðfinnu, og Maríusi manni hennar. Jórunn deyr á dularfullan hátt eftir að hafa innbyrt rottueitur. Opinberlega er hún talin hafa gert það fyrir slysni. Flestir hallast þó að því að um sjálfsmorð hafi verið að ræða, að einangrunin, myrkrið og yfirgnæfandi fjöllin hafi lagt sitt af mörkum til að ýta borgarbarninu sem hún var fram af brúnni.

Fallegur… svaraði Héðinn, röddin hálfpartinn fjaraði út meðan hann hugsaði sig um. „Eflaust má segja það. Það er þó ekki það fyrsta sem mér dettur í hug. Þarna hefur verið gríðarlega erfitt að búa í gegnum aldirnar. Snjóþyngsli og hrikalega einangrun á veturna, ótal snjóflóð; það var enginn leikur að bjarga sér ef illa áraði – og hægara sagt en gert að komast yfir að næsta bæ, svo ég tali ekki um næsta kaupstað.“ (bls. 19)


Það sem ýtir þessu af stað er ljósmynd af hjónunum í Héðinsfirði ásamt unglingi sem heldur á Héðni. Héðinn vissi ekki til þess að þar hafi verið einhver annar en þau fimm. Héðinn spyr því „Hver er þessi unglingur og hvað varð um hann? Átti hann sök á dauða frænku minnar?“ (bls. 25)

Ekki er vitað með vissu hvað fékk þau til þess að flytjast í fjörðinn. Tvö borgarbörn, systurnar, vel stæður Guðmundur og Maríus, einnig borgarbarn. Var það ævintýramennska, vilji til að prófa eitthvað nýtt eða einhver önnur ástæða?

Vel stæð hjón frá Siglufirði, Guðfinna og Guðmundur, ákváðu að freista gæfunnar og flytja til Héðinsfjarðar árið 1955 og halda firðinum, sem var farinn í eyði, í byggð. Jórunn og Maríus sem höfðu þá búið á Siglufirði í eitt ár eða svo voru ekkert alltof vel stæð fjárhagslega, fluttu með þeim í húsið í Héðinsfirði. (bls. 134)


Sagan hefst þó ekki fyrir norðan heldur í Reykjavík. Nánar tiltekið í íbúð á jarðhæð við Ljósvallagötu. Þar býr Róbert tuttugu og átta ára verkfræðinemi ásamt Sunnu og syni hennar Kjartani. Ljóst er að Róbert var lengi vel áfengishneigður mjög. Eftir að hafa fótbrotnað í knattspyrnuleik byrjaði hann að halla sér að flöskunni. Fótbrot sem eyðilagði mögulega glæstan frama á því sviðinu. „Hann hafði verið þurr í rúm tvö ár.“ (bls. 10) Er hann við að koma lífi sínu á réttan kjöl. „Hann átti Sunnu – og dálítið í Kjartani litla líka. En svo átti hann líka sínar gömlu minningar sem hann vildi helst ekki leiða hugann að.“ (bls. 11)

Í fyrsta kafla uppgötvar hann að óboðinn gestur hafði komið inn í íbúðina á meðan hann og Sunna áttu í ástarleik. Engu var stolið, engu var hróflað við. Þetta veldur honum miklu hugarangri og „[h]ann vonaði að það hefði verið rétt ákvörðun að segja Sunnu ekki frá bleytunni á gólfinu, fótsporunum eftir óboðinn gest sem komið hafði inn úr dembunni.“ (bls. 14) Hér er nefnilega líklega einhver að fylgjast með þeim.

Svartklædd manneskja stóð í miðjum garðinum. Hann – eða hún – var í einhvers konar regnjakka með hettuna uppi, laut höfði og skýldi andlitinu með höndunum. (bls. 63)


Og einn hábjartan daginn er svo Kjartan numinn á brott.

Þessum sögum vindur samhliða og tengjast í gegnum fréttakonuna Ísrúnu sem rannsakar barnshvarfið og flytur fréttir af ástandinu á Siglufirði, sóttkvínni. Hún tekur viðtal við Ara og í framhaldinu liðsinnir hún honum við Héðinsfjarðarrannsóknina. Hann á jú ekki heimangengt.

Auk þessa rannsakar Ísrún morð á Snorra Ellertssyni. „Faðir hans, Ellert Snorrason, var landsþekktur stjórnmálamaður sem nú var sestur í helgan stein. Hafði setið óslitið á þingi um árabil og gegnt ráðherraembættum.“ (bls. 57) Snorri er svartur sauður sem valdið hefir foreldrum sínum vonbrigðum gegnum tíðina, til dæmis með tíðri notkun vímuefna. Inn í það mál blandast Lára, aðstoðarmanneskja Marteins forsætisráðherra. Augljóslega er í því máli einhvers staðar pólitískan maðk að finna í mysunni.

Eins og persóna Ragnars er siður burðast Ísrún með sálræna byrði. Hún hafði „verið fórnarlamb nauðgunar nokkrum árum áður.“ (bls. 66) Aukiheldur glímir hún við sjúkdóm sem gæti orðið henni, ungri konunni, að aldurtila.

Í verkinu eru því þrjú mál sem hægt og rólega upplýsast. Verkið sjálft er rólegt og lítið um æsing. Ítrekað er notast við áðurnefnd meðöl til þess að kalla fram uggandi andrúmsloft. Stöðugt er endurtekið hve illa myrkur, kuldi, ótti, einangrun, einsemd fara með fólk, hvernig það leggst á sálina. Og allir virðast hafa eitthvað að fela.

Sögumaður er alvitur og sér inn í höfuð persónanna þótt sumu sé haldið leyndu. All mörgum persónum bregður fyrir en þær eru skýrt aðgreindar svo og framvinda sögunnar. Persónurnar spila mismikla rullu en flest allar eru þær púsl í heildarmyndinni sem smám saman raðast saman.

Um þessa sögu mætti hafa fleiri orð en látum hér staðar numið og drögum aðeins saman. Þessi saga þokast hægt og rólega áfram. Til að mynda er morð framið frekar seint. Vissulega er ofbeldi á síðum verksins að finna en það er ekki yfirdrifið og ekki er keyrt á hasar og blóðsúthellingum. Ekki eru aðalpersónurnar töffarar eða norrænar táfýlulöggur eins og Erlendur hans Arnalds. Gegnumgangandi er unnið þematískt með myrkur, einangrun og sálrænar byrðar og hvernig fortíðin getur læðst aftan að fólki. Er því meira unnið með andrúmsloft en oftlega er glæpasagna siður. Þetta er bara hreint ekki svo slæmt.