Fastur í Ódessa

I

Mér reyndist erfitt að lesa og meta efni þessarar bókar án þess að dauði Sigurðar Pálssonar litaði alla þá upplifun. Þessar sérstöku kringumstæður, að hið ástsæla skáld og þýðandi lést frá verkinu óloknu, veitir bókinni ósjálfrátt annan sess í huga Íslendings. Sölvi Björn Sigurðsson, sem lauk þýðingunni, ritar formála að bókinni sem fjallar í raun meira um hinn gengna meistara en um skáldið sem orti ljóðin. Ekkert af þessu er til vansa. Texti beggja þýðenda er fagur og þeirra vilji er án efa sá að Ilya Kaminsky sé í forgrunni. En bækur verða ekki til í tómarúmi og þýðingar ekki heldur. Dansað í Ódessa verður alltaf síðasta verk Sigurðar Pálssonar og metin þannig.

II

Það er alltaf sérstakt gleðiefni þegar ljóðabækur eru þýddar og gefnar út hérlendis. Bókmenntaheimurinn hér er óhjákvæmilega smár. Ljóðaheimurinn er agnarsmár. En vegna þess að ljóðahefðin er svo sterk hættir okkur til þess að halda það að þessi örheimur okkar sé sjálfbær. Að við þurfum ekki á því að halda að fá innspýtingu erlendis frá. Það læðist jafnvel að sú hugsun að þýddar ljóðabækur taki pláss frá innlendum og að íslenskir höfundar eigi að fá pláss frekar en erlendir. En við þurfum á nýju blóði að halda á þessu sviði sem og öðrum. Heimskt er heimaalið barn og allt það. Það er líka nauðsynlegt öðru hvoru að geta stillt erlendum skáldum upp við hlið íslenskra og metið hvar þau standa í alþjóðlegu samhengi. Þýðingar og útgáfa þeirra eru því þakkarvert fyrirtæki.

III

Mér finnst eftirtektarvert hvernig Kaminsky talar til annarra skálda, yrkir til þeirra og tileinkar þeim ljóð, segir jafnvel sögu þeirra, að teknu skáldaleyfi gef ég mér. Þessi nöfn eru mér ekki kunn en þetta var allt saman einkar heillandi og gaman að sjá hvernig hann launar þann innblástur sem ég reikna með að þessi skáld hafi veitt honum. Mér finnst þetta ekki endilega algengt hjá íslenskum skáldum. Væri jafnvel gaman að sjá meira af slíku. Kannski er nálægðin of mikil og þetta yrði vandræðalegt. En þó eru dæmi um þetta, það nýjasta sem ég man eftir eru ljóð Kristians Guttesen um Þórberg Þórðarson, og jú einnig reyndar Sigurð Pálsson, í bók hans Hrafnaklukkur. Þetta var reyndar ekki í eina skiptið sem þau hugrenningatengsl vöknuðu en mér þótti stíll ljóðanna helst í líkingu við það sem er í þeirri bók. Í það minnsta ef horft er til þeirra íslensku ljóðskálda sem ég hef lesið nýverið.

IV

Ljóð Ilya Kaminsky náðu ekki að heilla mig að því marki sem ég hef séð og heyrt að aðrir hafa látíð heillast. Mér fannst fortíðarsýnin helst til alltumlykjandi. Of mikið lagt upp úr því að mála dramatísk austantjaldsleiktjöld og ég sjá of lítið af ljóðaskáldinu sjálfu, þessum hér um bil jafnaldra mínum sem búið hefur öll sín fullorðinsár í Bandaríkjunum. Þetta er góð ljóðabók en mér leið samt aldrei eins og að ég væri að lesa eitt af fremstu ljóðskáldum samtímans. Ég þarf eitthvað meira en þessa bók til að sannfæra mig um að svo sé.

V

Ég fæddist í borginni sem er nefnd eftir Ódysseifi
og ég lofsyng enga þjóð

-Í hljómfalli snævarins
verða klaufaleg orð innflytjandans að mæltu máli.

(bls. 75)

Þetta heillaði mig. Þarna fannst mér ég tengjast því aðeins hver hann er, þessi Ilya Kaminsky.