Ásta er búin að segja þetta

að nálgast málefni og umræðu dagsins eins og ljóð

Ljóðið Svaðilför með tvö mölt eftir Ástu Fanneyju Sigurðardóttur endar á því að ljóðmælandi ferðast um borgina í strætó „í skeifu í mjódd á hlemm“ og nefnir það sem fyrir augu ber. Þar verður til öflug endurtekning þegar æ fleiri „hótel og hótel og hótel“ hafa risið upp. Þetta var langt frá því að vera nýtt umræðuefni. Ég hef ekki tölu á öllum skoðanapistlunum í fréttablaðinu sem birtust þá um hættur hótelbúbblunar, þau væru ljót, þau dræpu miðbæinn sem túristana langaði að sjá og eyddu hinum raunverulega miðbæ. Í ljóðinu er augljós afstaða þó hún sé ekki orðuð beint, ljóðmælandi telur upp öll hótelin svo orðið hótel verður fáránlegt og þrúgandi of. Og það var eitthvað annað en ég hafði séð í öllum pistlunum. Eitthvað nýtt. Síðan þá hef ég heyrt ógrynni ljóða þar sem hótel eða lundabúð er notað sem punchline og ég er löngu kominn með leið. Stundum þannig að mig langi til að benda skáldunum á ljóðið hennar Ástu og segja þeim að hún sé þegar búin að tækla þetta.

Og ég hugsa svipað mjög reglulega. Ég fylgist með sjálfum mér lesa fréttir, mynda mér skoðun, lesa hugleiðingar annarra, skítkast enn annarra, hártoganir, uppfærðar fréttir, mynda mér enn á ný skoðun og les svo enn frekari hugleiðingar sem ég furða mig á að séu ekki að segja mér neitt nýtt. Að engin séu búin að upphugsa núansaðri skoðanir á máli stundarinnar og fyrst svo sé að fólk sé yfirleitt að tjá sig. Til hvers eru þau ýmist að reyna að segja mér eitthvað sem ég er löngu búinn að sannfærast um eða eitthvað sem ég er búinn að hafna.

Fyrir utan augljósu sjálfhverfuna (innst inni veit ég að markmið fæstra sé að sannfæra mig persónulega) er þetta sífelldur þorsti í eitthvað nýtt. Hvort sem það sé ljóð sem er spennandi, víkkar fyrir mér ljóðahugtakið eða veltir upp spurningum sem ég hafði ekki velt fyrir mér áður, eða pistill sem er þokkalega skrifaður sem veitir einhvers konar nýja innsýn, eitthvað nýtt take. Ég hef til dæmis séð óteljandi mismunandi útfærslur á skoðuninni Klausturmennirnir eru vondir og ættu að segja af sér. Og mér leiðist að sjá það aftur, af því það er ekki nýtt, ekki ferskt, ekki fagurfræðilega spennandi. Það sama má segja um útfærslurnar á „við höfum jú öll sagt eitthvað óheppilegt í ölæði.“ Þetta er þreytt. Þetta er grínbolurinn á nágrannanum sem maður hlær ekki yfir á hverjum degi, passívt aggressívu skilaboðin í ruslageymslunni. Ég þarf að beita mig hörðum aga til þess að taka einu sinni eftir þessu. Og þessi leiði er sjálfur orðið þreytt take.
.
Og enn sitja þessir þingmenn, bærinn er enn fullur af lundabúðum og hótelum.
.
Kannski er ekki alveg rétt að nálgast málefni og umræðu dagsins eins og ljóð. Að nálgast hana svona fagurfræðilega. Ég get ekki endilega ætlast til þess að skoðanasystkini mín séu öll góðir pennar, skrifi eitthvað fyndið þegar mig langi til að hlæja og séu í sífellu að opna augun mín fyrir nýjum hliðum og sjónarhornum. Ekki að andspyrna eigi að vera afþreying, en ef ætlunin er að halda athyglinni hlýtur hún að minnsta kosti að þurfa að vera fréttnæm. Annars stendur jafnvel óvininum á sama.