Þýðing: Halla Kristjánsdóttir

Bjöguð bönd, ljótu leyndarmálin, hjónaband í krísu á tannhjóli vanans og þar fram eftir götunum

Um skáldsöguna Bönd eftir Dominico Starnone (1943) í þýðingu Höllu Kristjánsdóttur. 142 blaðsíður. Benedikt Bókaútgáfa gefur út. 2019. 2014 á Ítalíu.

 

Mér leiðist orðið svo ósegjanlega enda fullreynt löngu flest.

En ég finn það æ betur fyrir neðan þind hvað það er sem ég þrái mest1

 

Ungur maður horfir á konu sína liggja í rúminu og hugsar með sér: „Hreint ekki svo slæmt.“ Tíu árum seinna: „hvað í andskotanum er ég að gera.“ Þrjátíu ár líða: „Bráðum fer þessu að ljúka.“

 

Í þessu samhengi mætti leiða hugann að Meat Loaf. En það er önnur saga.

 

Hver kannast ekki við að líta til baka og sjá eftir einhverju sem viðkomandi hefir gert? Hver kannast ekki við að spyrja sig hvað væri ef ég hefði gert þetta, ef ég hefði gert hitt? Hvernig væri líf mitt ef ég hefði haldið mig við Gunnu Siggu eða Gunna Sigga?

 

Lífið er uppfullt af viðtengingarhætti, orsökum og afleiðingum.

 

 

Bönd fjalla um Aldo og Vöndu. Börn þeirra, Sandro og Anna, spila auk þess stóra rullu svo og Lidia, ástkona Aldos. Verkið skiptist í þrjár bækur. Í hverri bók er mismunandi sögumaður og þar af leiðandi sjónarhorn. Mismunandi sjónarhorn á sömu atburði. Sumpart. Í fyrstu bók hefir Vanda orðið, í þeirri næstu Aldo og í þeirri síðustu dóttir þeirra, Anna. Hverri bók er skipt frekar niður í kafla og hluta. Hvern hluta má lesa sem sjálfstæða einingu, sem smásögu eða nóvellu.

 

Hafir þú gleymt því háttvirti herra, skal ég minna þig á það: ég er eiginkona þín. Ég veit að þú varst einu sinni ánægður með það þótt þér þyki það allt í einu hvimleitt. Ég veit að þú lætur eins og ég sé ekki til, hafi aldrei verið til, því þú vilt halda andlitinu gagnvart því virðulega fólki sem þú umgengst. Ég veit að þig hryllir við venjulegu lífi, að þurfa að koma heim í kvöldmatinn og sofa hjá mér en ekki hverri sem þér sýnist (bls. 7)

 

Þannig byrjar ballið, byrjar á bréfi Vöndu til eiginmanns síns, Aldos. Árið er 1974 og þau hafa verið gift í að verða tólf ár. Gripið er í níu bréf hennar til Aldos sem spanna tímann 1974 til 1978. Þann tíma eru Aldo og Vanda aðskilin.

 

Aldo hefir yfirgefið Vöndu. Hann á sér unga ástkonu, Lidiu og tíminn sem hann ver með henni sem er einkar ólíkur þeim sem hann ver með eiginkonu sinni og börnum þeirra tveim, Sandro (1965) og Önnu (1969). Hann er spennandi og ekki bundinn á klafa vanans, hins hefðbundna, reglna samfélagsins.

 

Þú tókst þinn tíma, talaðir lengi hægt og rólega, um hlutverkin sem hjónabandið læsir fólk í – eiginmaður, eiginkona,móðir, faðir, börn – og þú lýstir okkur – mér og þér og börnum okkar – eins og tannhjóli í heilalausri vél hannaðri til að endartaka sömu leiðigjörnu hreyfingarnar út í bláinn. (bls.9)

 

Bréf Vöndu eru uppfull af ásökunum, biturð og gremju. Hann skilur þau, hana og börnin, samkvæmt henni, eftir í súpunni peningalega, lætur þau róa, hugsar ekki um börnin né föðurhlutverkið. Undirliggjandi er þó einnig annarskonar gremja. Skapraun sem lætur í veðri vaka að ekki sé öll sagan sögð, að Vanda hafi meira að segja.

 

Í annarri bók er stokkið fram í tímann. 2012. Aldo og Vanda eru roskin hjón á leið í frí. Þau hafa augljóslega ruglað saman reitum á ný eftir aðskilnaðinn.

 

En núna erum við, ég og hún, innan um allan farangurinn. Við höfum búið saman í fimmtíu og tvö ár, drögum mikinn slóða í árum talið. Vanda þykist vera afar hress sjötíu og sjö ára gömul kona og ég þykist vera sjötíu og fjögurra ára gamall draumóramaður. Hún hefur alltaf stjórnað öllu lífi mínu og hefur ekkert farið leynt með það og ég hef alltaf fylgt hennar ráðum. (bls. 30)

 

Aldo rekur viðburði frísins og svo hvernig þau koma að íbúð þeirra í Róm viku seinna:

 

Forstofan, sem alltaf var hrein og fín, var óþekkjanleg. Svo var eins og sófinn og sófaborðið í stofunni hefðu lent í flóðbylgju og annað kastast ofan á hitt. Gamla skrifborðið hennar Önnu lá afvelta á gólfinu. Skúffurnar allar tómar – eða búið að hvolfa úr þeim – lágu á gólfinu, ein upprétt, hinar á hvolfi innan um gamlar stílabækur, blýanta, penna, sirkla, reglustikur, dúkkur sem dóttir okkar hafði varðveitt, allt frá æsku til fullorðinsára. (bls. 40)

 

Brotist hefir verið inn kvöldið áður þar sem Sandro var í íbúðinni degi fyrr til að gefa ketti þeirra, Labes (nafnið merkir eyðilegging) að borða. Allt er á rúi og stúi. Eftir ferð á lögreglustöðina byrjar Aldo að taka til, taka út það sem ónýtt er, það sem heillegt er. Við þá iðjan rekur hann augun í ýmislegt úr fortíðinni, texta, bréf og bækur; endurminningar í allslags formi sem bera fyrri lífsskeiðum vitni

 

Og var þessi haugur ég sjálfur? Var ég í þessu hrafnasparki í bókunum sem ég hafði lesið? Var ég á þessum minnismiðum sem voru fullir af titlum og og tilvitnunum (bls. 55).

 

Hann rekur augun í myndir, myndir af þeim á mismunandi aldri, myndir af ferðum þeirra, myndir af allslags fólki. „Lífið yfirleitt vandlega skráð. Nútíðin og núliðna tíðin. Fortíðina var aftur á móti best að láta alveg eiga sig.“ (bls 57) Eins og gefur að skilja rekst hann á ýmislegt úr lífi þeirra hjóna og áttar sig á: „Ég var búinn að ýta því frá mér hvað ég hafði valdið Vöndu mikilli kvöl. Á einu sekúndubroti fannst mér sem ég þekkti hana ekki og það kom mér alveg í opna skjöldu.“ (bls. 57) Auðvitað finnur hann einnig bréfin sem Vanda hafði skrifað honum á sínum tíma, þegar hann tók sitt hliðarspor.

 

Í þriðji hluta rekur dóttir þeirra hjóna Anna, söguna. Í hnotskurn hljóðar hún svona:

 

Foreldrar okkar hafa veitt okkur fjórar afar nákvæmar sviðsmyndir. Fyrsta: mamma og pabbi eru ung og hamingjusöm, börnin lifa sæl í aldingarðinum Eden; önnur: pabbi finnur aðra konu, lætur sig hverfa til hennar, mamma missir tökin, börnin missa aldingarðinn; þriðja: pabba snýst hugur og flytur aftur inn á heimilið, börnin reyna að komast aftur inn í aldingarðinn, foreldrarnir gefa skýr skilaboð heima fyrir um að það sé óvinnandi vegur; fjórða: börnin uppgötva að það var aldrei neinn aldingarður og að þau verði að laga sig að helvíti. (bls. 126-127)

 

Hlutinn snýst ekki síst um afleiðingar ákvarðanna foreldranna á börnin. Sandro kemur hér einnig við sögu og hverfist hlutinn mikið til um samtal þeirra um fortíð þeirra, líf þeirra og foreldrana.

 

Þetta er ekki löng saga. Engu að síður tekst ágætlega að segja langa sögu, sögu í lögum. Má og vel rýna í verkið og finna á því nýjar hliðar. Í grunninn er umfjöllunarefnið þó allaugljóst. Tekið er á eftirsjá, orsökum og afleiðingum, þeim ákvörðunum sem teknar voru, spurningum um hvað hefði getað verið, hefði maður farið aðra leið. Þetta er verk sem veltir fyrir sér hamingjunni og óhamingjunni sem oftlega eru grátlega skyldar. Þetta er ágætis verk sem hefir burði til að vekja lesanda til umhugsunnar.

   [ + ]

1. Úr dægurlaginu „Viltu byrja með mér“ af plötunni Þrír blóðdropar (1993), Megas