August Strindberg eftir Edvard Munch, 1896

August og ég

„Næst var gáfnapróf. Andra fannst hann geta svarað öllu nema „Strindberg“. „Finnst á Vestfjörðum,“ skrifaði hann eftir umhugsun.

Pétur Gunnarsson, Ég um mig frá mér til mín (1978)

 

 

Þetta byrjaði þegar ég ákvað af hálfgerðri rælni að lesa nýlega ævisögu Strindbergs eftir enska rithöfundinn og fræðikonuna Sue Prideaux. Og varð eiginlega uppnumin. Hluti ef því var að þetta er frábær bók. Skýr og skemmtilega skrifuð, þó það finnist alveg að 350 síður nægja varla til að gera efninu verðug skil. Aðalmálið er samt að Prideaux miðlar svo vel því sem skýrir megnið af hrifningunni: hvað þetta hefur verið stórbrotinn maður. Og stórbrotinn á svo einstakan, trylltan, mótsagnakenndan og heillandi hátt.

 

Svo ég ákvað að lesa smá. Það varð nú alveg slatti áður en yfir lauk. Hér á eftir fara lausbeislaðar persónulegar hugleiðingar um það sem fyrir varð. Ekki djúprist eða traust greining, hvað þá nokkur nothæf heildarmynd, nema þá af mér sem lesanda og mínum fyrstu viðbrögðum við því sem ég les. Vonandi ekki leiðinlegt samt.

 

 

Ég kom svo sem ekki alveg grænn og óspjallaður að verkefninu. Árið 1992 komu út í tveimur bindum þýðingar Einars Braga á vænu úrvali af leikritum Strindbergs. Á þeim árum var leiklist í algeru aðalhlutverki í mínu lífi, svo ég varð mér úti um þessar bækur og las leikritin upp til agna. Hef ekki lesið neitt þeirra síðan þangað til nú. Ég varð sem sagt alls ekkert uppnuminn þá.

 

Eftir því sem ég man best voru það fyrst og fremst tvö verk sem mér þótti verulega varið í, sem jafnframt mætti kalla á öndverðum formpólum þessa fjölskrúðuga höfundaverks. Hinn táknþrungni og „óraunsæislegi“ Draumleikur (Ett Drömspel, 1891) og söguleikritið um Gústaf Vasa (Gustav Vasa, 1899). Raunsæislegu síkódrömun gerðu lítið fyrir mig og kammerleikirnir þóttu mér bragðlaust fóður. Sama ár tók ég þátt sem aukaleikari í uppfærslu Alþýðuleikhússins á Fröken Julie (Fröken Julie, 1888), sem dugði ekki til að koma mér í samband við það rómaða verk, sennilega langlífasta leikrit Strindbergs.

 

Mig hefur lengi grunað að sjálf þýðingin væri að einhverju leyti sökudólgurinn. Hún sé dálítið sviplaus, eins og vill henda þegar leikrit eru þýdd án þess að annað auga þýðandans sé á yfirvofandi uppfærslu. Ég er ekki lengur jafn efins um verk Einars. Þó íslenskar þýðingar á verkum skáldsins séu misjafn sauður, gerðar á löngu tímabili af mis-nafntoguðum andans mönnum, er óneitanlega einhverskonar heildarsvipur með þeim sem getur ekki verið frá neinum kominn öðrum en August Strindberg sjálfum. Þetta á líka við um textana í leikritasafninu.

 

 

Eftir þessi nokkuð snörpu kynni af leikskáldinu Strindberg í upphafi tíunda áratugarins hef ég algerlega leitt hann hjá mér. Ein ástæða þess er sú að ég leit fyrst og fremst á hann sem leikskáld. Sögulega forvitnilegt en ekkert sérlega merkilegt leikskáld sem ætti ekkert erindi við mig, og ég væri þannig séð búinn að „afgreiða“. Ég efaðist heldur ekkert um þá skoðun sem blasti við í leikhúsunum: að verk hans ættu lítið tilkall til sviðsins. Fyrir utan Júlíu hef ég séð tvö verk á sviði: Glæp og Glæp (Brott och Brott, 1899) og Pelíkanann (Pelikanen, 1907). Tvö önnur verka hans hafa ratað á íslensk svið eftir að ég komst til vits og ára (og flutti suður): Draumleikur og Dauðadansinn (Dödsdansen, 1901). Sá hvorugt.

 

Ein af opinberunum bókar Prideux fyrir mig var að minna mig á hve önnur skrif en leikritun eru fyrirferðarmikil í höfundaverkinu, bæði að magni og mikilvægi. Ekki síst sjálfsævisöguleg skrif, sem eru mjög umfangsmikil, en svo var Strindberg mjög nútímalegur með að láta sjálfan sig flæða nokkuð stjórnlaust saman við „hreinræktaðan“ skáldskap sinn í öllum formum. Mig grunar að Prideux geri mögulega minna úr leikskáldinu á kostnað annarra þátta en margir myndu gera, en þetta eru bara grunsemdir og ég er ekkert að fara að lesa sexhundruð blaðsíðna múrstein Michael Meyer um skáldið til að hrekja þær eða staðfesta.

 

 

Það fyrsta sem ég las eftir að ég lagði frá mér ævisöguna var leikritið Til Damaskus (Till Damaskus, 1898). Aftur las ég þýðingu Einars Braga. Ég var að gæla við að reyna að lesa það á sænsku, en það hefðu orðið harmkvæli sem hefðu aðallega snúist um að skilja sænskuna frekar en verkið og höfund þess.

 

Ég skil vel að verkið hafi ekki höfðað til mín í fyrri lestri. Þá var ég jafnvel enn bundnari leikhúsinu sem lesandi en í dag, og það er morgunljóst að þetta verk á ekkert erindi upp á svið. Bæði er formið ódramatískt með öllu. Vegferð „Hins óþekkta“ frá einum stað á annan þar til endapunkti er náð og ferðin til baka hefst hefur vissulega formeinkenni miðaldahelgileikja, en innihaldið hefur enga dramatíska spennu. Það sama má segja um annað náskylt leikrit sem ég las nú í fyrsta skipti, Þjóðveginn (Stora landsvägen, 1909), síðasta sviðsverkið sem Strindberg lauk við og Þórarinn Eldjárn þýddi fyrir Útvarpsleikhúsið 2001. Þar er jafnvel búið að eima burt enn meira af dramatískum kostum. Óræðni og táknvísi ríkir ofar hverri kröfu um framvindu og leikræna spennu og í því andrúmslofti þrífst illa hin áþreifanlega og líkamlega list leikhússins.

 

Annað sem Til Damaskus og Þjóðvegurinn eiga sameiginlegt og truflar mig við þau sem sviðsverk er hve einarðlega innhverf þau eru. Það er varla rétt að kalla það „sjálfsævisögulegt“, því vissulega geta dramatískir viðburðir á lífshlaupi skálds orðið honum gott efni í leikrit. Það er frekar sú tilfinning að Strindberg sé að reyna að skrifa sig frá, eða gera upp sára lífsreynslu eða fingraför á sál sinni í verkunum. Nokkuð sem ég hefði n.b. ekki tekið eftir hefði ég ekki haft ævisöguatriðin í kollinum. En það blasir við: bæði í „atburðarás“ Til Damaskus, fyrsta leikverkinu sem Strindberg lætur frá sér eftir sturlunarástand Inferno-krísunnar 1894–96, og einnig í sálrænu innihaldi þess. Hér er til dæmis veigamikið þema að vera sakaður um, og játa á sig, misgjörðir eða glæpi sem maður er saklaus af, nokkuð sem var snar þáttur í hinu hroðalega „uppeldi“ sem Strindberg bjó við, segir eftirminnilega frá í fyrstu og frægustu sjálfsævisögubókinni, Tjänstekvinnans son (1886) og Prideux lýsir á áhrifaríkan hátt í sinni bók.

 

Það leiðir okkur að þeirri þverstæðukenndu staðreynd að þó mér sé mjög til efs að Til Damaskus eigi nokkurt einasta erindi á leiksvið er það að mínu mati einhverskonar snilldarverk  á pappírnum, og þar með í huga lesandans. Ekki síst vegna hinnar vægðarlausu sjálfsrýni og sjálfhverfu sem á sinn þátt í að gera framhaldslíf þess á leiksviðum heimsins í besta falli tvísýna.

 

 

Þetta er reyndar Til Damaskus I sem ég er að tala um. Strindberg skrifaði tvö framhaldsleikrit, sem njóta minna álits en hið fyrsta og Einar Bragi hefur ekki með í sinni bók. Mig grunar að það sama gildi um aðra svona „seríu“, Dauðadansinn I og II (Dödsdansen, 1900). Fyrra verkið er umtalsvert betra en það seinna, og hefur orðið langlífara á sviði, enda fjári bitastætt fyrir stórleikara á besta aldri af báðum kynjum að brillera í.

 

Andrúmsloftið í Dauðadansinum er magnað, þrengslin sem lesandinn upplifir í herberginu þar sem kapteinninn og kona hans heyja sitt djöfullega stríð eiga mikinn þátt í áhrifunum. Það losnar um þessa spennu í seinna verkinu, þar sem flókið ástar- stjórnmála- og fjármálaplott fleytir sögunni áfram, en áhrifin sýnu daufari. Ef marka má Prideaux byggir Strindberg kapteinshjónin á Önnu systur sinni og eiginmanni hennar, Hugo von Philp, svo sjálfsævisögulegt efni getur skilað kröftugri dramatík.

 

 

Ef við flokkum leikverk Strindbergs í draumleiki, stofuraunsæi, og söguleiki, eins og stundum er gert (og er hvorki nákvæmt né fullnægjandi), þá eigum við eftir að líta á þann síðastnefnda. Mörgum gæti sýnst það vera minnst áhugaverði flokkurinn, og vissulega eiga þessi verk erfitt uppdráttar utan Svíþjóðar og hafa alltaf átt. Á hinn bóginn er nokkuð almenn sátt um að á þeim þrjúhundruð árum sem líða frá því Shakespeare byrjar að setja saman Rósastríðaleikritin þar til Strindberg hefst handa við að gera sænskum konungum, drottningum og öðru valdafólki skil, sé ekkert skáld sem verðskuldi að vera nefnt í sömu andrá og þeir tveir þegar kemur að þessari grein.

 

Söguleikritin eru fyrirferðarmikil í afrekaskránni. Tólf talsins – Shakespeare skrifaði tíu – og spanna allan ferilinn, frá 1872 þegar frumgerð Meistara Ólafs (Mester Olof) kemur út, þar til hann lýkur við Bjaelbo-Jarlen og Riksföreståndaren 1909, sama ár og Þjóðveginn, þremur árum áður en hann deyr.

Ég hafði heillast nokkuð af Gústaf Vasa um árið, kannski aðeins minna af Meistara Ólafi og ákvað að bæta þriðja söguleikritinu við, Eiríki XIV (Erik XIV, 1899). Það fór nú aðeins öðruvísi. Það er til íslensk þýðing á Eiríki fjórtánda, eftir Guðlaug Rósinkranz sem á Þjóðleikhússtjóraárum sínum hafði mikinn hug á að koma verkinu á svið en tókst það ekki. Ég hef, eins og fleiri, takmarkaða trú á menningarlegum hæfileikum Guðlaugs og sneri mér frekar til Þjóðarbókhlöðunnar. Þar fann ég enska þýðingu verksins í bók sem spyrðir það saman við fyrrnefnd verk undir nafninu The Vasa Trilogy. Sem er ekkert óviðurkvæmilegt – þau rekja nokkuð samfellda sögu frá ca 1531 til 1568, þó ritunartíminn spanni 28 ár. Meistari Ólafur rekur dramatíska atburði í  siðaskiptunum í Svíþjóð, Gústaf Vasa segir frá stórri krísu í valdatíð konungsins nokkrum árum síðar og Eiríkur XIV fjallar um son hans og stormasama valdatíð hans sem endurspeglast í stormasömu sálarlífi.

 

Þetta eru stórkostleg leikrit. Sálfræðilegt og pólitískt innsæi Strindbergs nýtur sín greinilega til fulls þegar sagnfræðin og heimildirnar skapa honum trausta ramma. Samspil og speglanir hins persónulega og pólitíska er oft algerlega snilldarlega sett fram í öllum verkunum, auk þess sem einstakar senur eru frábærlega hugsaðar. Upphafsatriði Gustafs Vasa, þar sem titilpersóna Meistara Ólafs hefur breyst úr hugrökkum og djúphyglum hugsjónamanni í kaldrifjaðan og frábærlega teiknaðan pólitískan „fixer“, er gott dæmi. Önnur er í Eiríki XIV þar sem hin englumlíka Karin Månsdotter, hjákona og síðar eiginkona konungs, ræðir málin við fyrrum elskhuga sinn og seinna við nánasta ráðgjafa konungs sem fallinn er í ónáð, og yfir þau rignir nöglum, hömrum og blómapottum sem trylltur konungurinn kastar af svölunum. Shakespeare er að sönnu meira skáld, en Strindberg er að skrifa fyrir nútímasvið og stendur okkur nær í sýn á mannlífið og stjórnmálin og það nýtist vel í þessum glæsilegu verkum.

 

 

„Strindberg never minded actors or directors making even drastic changes to his texts; he was quite without authorial vanity, always urging actors or directors to cut or change what they felt did not work.“ (Priedeux)

 

 

Eitt af því sem bók Sue Prideaux gerir ekki er að fara í saumana á sambandi Strindbergs og Ibsens. Eða afstöðu sinnar söguhetju til norðmannsins, sem hafði stórt málverk af keppinautnum í vinnustofu sinni til að hvetja sig til dáða og „til að hafa auga með þessum brjálæðingi“ eins og Henrik á að hafa sagt. Þetta voru náttúrulega gjörólíkir menn sem lifðu gjörólíku lífi og skrifuðu – mestanpart – gerólík verk. Oft samt með hinn í huga.

 

Afköst þeirra eru varla sambærileg. Ibsen skrifaði 24 leikrit og mest lítið annað, Strindberg í kringum sextíu, auk fjölda skáldsagna, smásagna, fræðirita, og sjálfsævisögulegra bóka. Síðari helmingur leikrita Ibsens falla öll í sama formið, Strindberg vinnur jafnhliða í öllum leikritunargreinum allan sinn feril og hættir aldrei að gera formtilraunir. Leikhúsið og leikritun er Ibsen allt, Strindberg hefur þúsund járn í eldinum, á köflum eru fæst þeirra bókmenntaleg og leiklistin á sjaldnast hug hans allan.

 

Arfleifðin er líka gerólík. Formið sem Ibsen fullkomnaði varð meginstraumur og stór hluti verka hans eru sífellt á fjölunum. Formtilraunir Strindbergs hvetja leitandi anda til dáða en enginn þeirra leysti gátuna um hvernig best sé að tjá sannleikann um mannlífið á sviði á sambærilegan hátt og stofudrömu keppinautarins. Hann er ekki gleymdur, en verkin hafa fæst lifað á verkefnaskránum.

 

Það er enda miklu fremur í öðrum formum sem hinn sláandi nútímalegi andi nær að tala til okkar.

 

 

„Einu sinni í mánuði átti að ákæra borgarfulltrúa (og dæma þá!) fyrir óráðsíu, og jafnframt átti, eins oft og færi gafst, að gagnrýna stjórnarfyrirkomulagið, en ekki ríkisstjórnina; ritstjórinn gætti þess vandlega að beita strangri ritskoðun og vera á verði gagnvart árásum á ákveðna þingmenn og ráðherra. Hverja? Það var leyndarmál, sem ritstjórinn vissi ekki einu sinni um, það fór eftir því hvernig vindurinn blés, og um það gat enginn dæmt nema blaðaútgefandinn sem enginn vissi hver var.“ (Rauða herbergið)

 

Næst á eftir Til Damaskus las ég Rauða herbergið (Röda rummet, 1879), hálfsjálfævisögulegt verk sem Svíar kalla sína fyrstu nútímaskáldsögu. Hún breytti mér í aðdáanda. Algerlega stórkostleg bók. Tilfinningarík en nístandi kaldhæðin, skarpskyggn og morðfyndin lýsing á borgaralegri rotnun og brasinu við að slíta sig frá henni og lifa samt af. Komin upp að hlið helstu uppáhaldsskáldsagna á borð við Meistarann og Margarítu og Svejk.

 

Þarna leikur lausum hala Strindberg sem nær ekki alveg vopnum sínum í leikhúsinu: samfélagsrýnirinn. Hið þunglamalega stofudrama getur fengist við sálarkreppur og persónulegar siðferðisklemmur, draumleikirnir henta vel í þokukennt táknsæisjórtur hinna hinstu raka, en þegar kemur að gangverki kapítalisma, pólitíkur og hins illa arfs stéttaskiptingar finnur hvorugur norrænu dramajöfranna leið til þess. Hún finnst ekki fyrr en suður í Þýskalandi nokkrum áratugum síðar.

 

En hið lausbeislaða form orða á blaði sem lúta engum lögmálum öðrum en áhuga, ástríðu og erindi þess sem heldur á pennanum reynist rétti miðillinn fyrir þetta ósvífna og afdráttarlausa þrítuga séní.

 

 

„When he was alone in the laboratory he made private potions and soon he had concocted a little phial of prussic acid. „To have death enclosed in a few drops under a glass stopper in his jacket pocket was a curiously pleasant feeling“, he wrote; his hand would creep secretly to his pocket to close round the glass.“ (Prideaux)

 

Eftir Strindberg „náði mér“ endanlega með Rauða herberginu ákvað ég að lesa allt sem ég finndi á íslensku á söguformi eftir þennan nýja uppáhaldshöfund. Svo nennti ég þegar upp var staðið ekki að eltast við smásögur og fleira smælki í tímaritum, hélt mig við innbundnar og útgefnar bækur. Það er ekki ýkja margt, og dálítið tilviljanakennt. Þó eru þar á meðal, fyrir utan Rauða herbergið, tveir af dáðustu textum skáldsins, sem vel má segja að séu hreinar andstæður. Og reyndust hvorugur hafa nein viðlíka áhrif á mig og fyrsta sænska nútímaskáldsagan.

 

Infernó (Inferno, 1897) er hin rómaða ferðasaga Strindbergs um krísuna miklu 1894–96. Ótrúlegar lýsingar á þráhyggju, vænisýki og fjölskrúðugu safni ranghugmynda. Og ekki síður tilraunum til að hrista vanlíðanina af sér, en mest þó að leita leiða til að lifa með órunum, enda skrifuð frá sjónarhóli þess sem býr við þá og lýtur á þá sem raunveruleika; oftast nær það mikilsverðasta og merkingarþrungnasta í heiminum.

 

Stórmerkilegt auðvitað, en ég náði engu sambandi við þetta. Almennt gerist það þegar fyrir mér verður dulspeki, hvað þá lotningarfullar útlistanir á Swedenborg, að ég breytist í kött sem textinn strýkur móti hárunum. Verstur er hinn algeri skortur á írónískum distans á ástandið sem Strindberg temur sér hér, sú krafa að lesandinn gangist ruglinu á hönd, fallist á merkingu allra merkingarlausu táknanna og tilviljananna: þetta er of mikið fyrir mig. Mér fór bara að leiðast og svo fór ég að pirrast og varð ósanngjarn og andstyggilegur. Rífðu þig upp úr þessu maður! Þú ert einn af klárustu köllum þinnar samtíðar, sérð í gegnum bókstaflega allt sem hrjáir samfélag og manneskjur. Hættu að reyna að búa til gull og taktu til í herberginu þínu!

 

Heimaeyjarfólkið (Hemsöborna, 1887) er svo allt önnur ella. Það er sérstök ánægja að hitta August fyrir þar sem hann ætlar sér greinilega ekki út á djúpmiðin. Prýðilegur róman um lífsbaráttu, ástarbrall og valdatafl skerjagarðsbænda. Ekki sérlega merkilegur, en aldrei minna en bráðskemmtilegur. Sveinn Víkingur þýðir og gerir það með prýði. Heimaeyjarfólkið kom út á íslensku 1969. Þýðing Þórarins Eldjárns á Inferno kom út 1998 og er einnig til mikils sóma.

 

 

„En nú þegar var stétt óánægðra manna farin að skjóta upp kollinum og það voru þeir, sem þegar voru fæddir en gátu ekki fengið jarðnæði. Þeir voru mjög hættulegir, því þeir áttu ekkert og höfðu því engu að tapa. Þeir fóru til skógar, því að þeir gátu ekki séð neina ástæðu til þess, að þeir ættu að þræla fyrir aðra, sem hirtu ávextina af iðju þeirra. Lassi lokaði sig inni með prestinum í marga daga, til að finna út einhverja sanngjarna ástæðu fyrir því, að einn ynni, en annar æti, en þeir gátu enga fundið.“

 

Sælueyjan (De Lycksaliges ö) er hluti af smásagnasafninu Sænsk örlög og ævintýri (Svenska Öden og Äfventyr) sem Strindberg sendi frá sér árið 1883. Einhver frekari brot úr því safni hafa ratað á prent í þýðingum en þessi nóvella er sú eina sem hefur komið út í heilu lagi það best ég fæ séð. Það gerðist árið 1938 í safaríkri þýðingu Magnúsar Ásgeirssonar.

 

Grunnhugmyndin er eitursnjöll: Hópur fátækra Svía verður skipreika við strönd hitabeltiseyjar. Þar drýpur smjör af hverju strái og fyrir vikið reynast öll helstu sigurverk siðmenningarinnar óþörf eða til trafala í lífsbaráttunni, sem reyndar er engin barátta lengur: lög, trú, valdakerfi, stéttskipting, eignaréttur, hjónaband. Una menn (og konur) svo glaðir við sitt um hríð. En þegar eldfjall á eyjunni fer að spú þurfa hinir sælu íbúar að flytja sig á aðra eyju þar sem náttúran er ekki jafn gjöful. Þar rekur Strindberg skref fyrir miskunnarlaust og meinfyndið skref hvernig samfélagið þróast í átt til þess sem tíðkaðist á hans tíð. Kreddur, ofbeldi og ójöfnuður snúa óhjákvæmilega aftur.

 

Það er skemmst frá því að segja að þessi ádeiludæmisaga er algert meistaraverk þeirrar bókmenntagreinar, og mætti mín vegna vera við hlið Animal Farm og Brave New World í bókahillum hugsandi fólks og á söluborðum þar sem uppbyggilegu lesefni er otað að fólki í fermingargjafaleit. Sennilega sú bók sem ég myndi ráðleggja Strindbergsjómfrúm að byrja á. Fyndin, tragísk og hugvekjandi.

 

Á svipuðu rófi en öllu lágfleygari eru tvær stuttar sögur úr öðru safni, Utopier i verkligheten (1885), sem Ársæll Árnason þýddi og komu út á íslensku 1922. Nýir siðir og Samvizkubit heita þær og einkennast báðar af skemmtilega áreynslukenndum hamingjusömum sögulokum, sem mörgum mun sennilega ofbjóða en öðrum gætu þótt krúttleg, einmitt vegna ólíkindanna og handaflsins sem Strindberg beitir. Sú fyrrnefnda er öllu bitastæðari smíð, en þar er til umfjöllunar eitt af meginefnum skáldsins alla tíð: mótsagnakennt eðli kynjasamskiptanna undir klafa líffræðinnar, mannlífsmóralsins og skipulags vestrænna samfélaga á hans dögum.

 

 

„The relations between husband and wife were unlovely and sad, for there had never been any love between them. The healthy, powerful natural instinct, which does not reflect, was absent; what remained was an unpleasant liaison founded on the uncertain calculations of a selfish friendship.“ (Giftas)

 

Árið 2003 kom út á íslensku lítil og snotur bók, Góðan dag, barnið mitt! Í henni má finna bréf sem Strindberg skrifaði Harriet Bosse, þriðju eiginkonu sinni, Anne-Marie dóttur þeirra, auk annars efnis, sem Björn Meldal setur í samhengi og þræðir saman í skipbrotssögu síðasta hjónabandsins og lýsingu á síðustu árum skáldsins. Helga Hilmisdóttir þýðir.

 

Það er harla lítið á þessari bók að græða, sérstaklega ef bók Sue Prideaux er við hendina. Framvindan er bláþráðótt og bréfin eru ekki vettvangur fyrir skáldið til að segja margt markvert öðrum en barninu sem þau flest eru stíluð á. Það má samt hafa aðeins gaman af einu leiðarstefi. Gamli óreiðumaðurinn er sífellt að senda dóttur sinni aura og brýna fyrir henni að þeir eigi alls ekki að fara í sparibaukinn!

 

Hitt vekur athygli að það fyrsta sem Google varpar upp þegar titill bókarinnar er sleginn inn er grein um hana af vefnum foreldrajafnretti.is, sem er almennt ekki vefur fyrir bókmenntaumfjöllun. Greinin virðist skrifuð 2005 og undir skrifar Gísli Gíslason í nafni Félags Ábyrgra Feðra.

 

Ætli „kvenhatur“ sé ekki fyrsta orðið sem kemur upp í huga ansi marga þegar Strindberg er nefndur? Og ætli nokkur klassískur höfundur þurfi að brjótast í gegnum sambærilegar ranghugmyndir til lesenda sinna? Hvort sem það er ævisagan sem maður les, eða verkin sjálf þá er engin leið að koma þessu hugtaki heim og saman við orðin á blaðinu. Vissulega er samband Strindbergs við konur það sem heitir „complicated“ á Facebook-máli, og er þá vægt til orða tekið. Það á bæði við um samskipti hann við einstaklinga og skoðanir á málefnum, samfélagi og menningu. Engin skýr skil eru heldur milli hins stormasama einkalífs og hugmyndafræðilegrar og heimspekilegrar greiningar. En „kvenhatur“? Það held ég ekki.

 

Hitt er annað mál að það er óvægið auga sem Strindberg beinir að samskiptum kynjanna þegar hann greinir hagsmuni, markmið og væntingar hvors um sig. Og hann er augljóslega sannfærður um að hagsmunir karls og konu fari alls ekki auðveldlega saman, og sé eðli eitthvað sem til er þá sé eðli kynjanna ólíkt og mögulega í grundvallaratriðum ósættanlegt.

 

Eitt af meistaraverkum skáldsins er smásagnasafnið Giftas sem kom út í tveimur hlutum 1884 og 1886 en hefur illu heilli ekki komið út á íslensku, svo ég las enska útleggingu sem finna má endurgjaldslaust á gutenberg.org.

 

Ef einhver tæki sig til og snaraði þessum frábæru sögum, en gengi illa að finna krassandi hliðstæðu frumtitilsins mætti stinga upp á að kalla safnið „Hinn pólitíski ómöguleiki hjónabandsins“. Í sögu eftir sögu rekur Strindberg sömu sögu með tilbrigðum sem öllu breyta. Hvernig hefðbundin kynhlutverk skapa öllum helsi. Hvernig einarðar hugsjónir um nútímalegt bræðra/systralag brotna á skerjum samfélagsins. Hvernig peningar eyðileggja allt. Hverju börnin breyta. Hvernig hvunndagsraunirnar ríða okkur á slig. Svo krossbregður lesandanum í þessi þrjú skipti sem allt fer vel að lokum.

 

Í þessum sögum eru áberandi mörg þeirra atriða sem einkenna Strindberg og gera hann áhugaverðan og lestursins virði. Einstalega skörp og óvægin greining á ríkjandi ástandi, siðvenjum og samfélagsbyggingu og áhrif þessa á lífsbaráttu og hamingjuleit einstaklinganna. Óþreyjufull leit að leiðum til að brjótast undan vanahugsun og stirðnuðum mannlífsformum og afdráttarlaus vilji til að horfast í augu við skipbrotin sem býður flestra tilraunanna.

 

Strindberg langaði að vera gullgerðarmaður en hann var of mikill vísindamaður til að það gæti gengið upp.

 

 

Eitt sérstæðasta og fjölhæfasta séní sem uppi hefur verið. Lokasvar.