Brynja Hjálmsdóttir

Ljóð eftir Brynju Hjálmsdóttur


Hún deplar augunum hratt hratt hratt til að losna við alla hundana

Segir: Hér er enginn hundur
Enginn svartur hundur sem liggur á engum sófa

Þú ert ekki svartur hundur
Það liggur ekki á þér neinn svartur hundur
Þú ert ekki að kremjast undan svörtum hundi allan daginn
líka þegar það er sól og þú ert í fríi úr vinnunni

Þegar sólin skín á þig varparðu skugga
sem er ekki í laginu eins og svartur hundur
Enga angan leggur frá svörtum feldinum
Öllum svörtum hundum hefur verið útrýmt
Við það tók fólkið gleði sína á ný

Klifurjurtin í garðinum þínum
fléttar sig ekki utan um líkneski af svörtum hundi
Þau hafa verið urðuð öll með tölu

Þegar það er nótt er enga svarta hunda að sjá
í felum
upp við svarta húsveggi

 

 

Ljóðið er úr Okfrumunni, ljóðabók sem kemur út hjá Unu útgáfuhúsi í haust.