Yfirlætisleg ofhleðsla og bull

Um <3 eftir Þór Þorbergsson

Bókin <3 eftir Þór Þorbergsson byrjar á ljóðinu Manifestó sem er vissulega manifestó bókarinnar. Markmiðalýsing. Ljóðið byrjar svo:

ég vil að þessi lestur rífi þig úr hversdeginum og dragi þig á skinninu út í stjörnuhimininn, klæði þig úr fötunum og fylli höfuð þitt af kirsuberjum, brenni augu þín á báli sprengistjarna, fylli þig af lífsunaði þar til þú ert að springa, taki hjarta þitt og breyti því í kristal og kljúfi hann svo í tvennt –

Augljóslega er hér um líkingamál að ræða en ég get samt sem áður fullyrt að ég er ekki nakinn kirsuberjahaus, brennueygður, unaðssprunginn og kristalsklofningshjartaður eftir lestur bókarinnar. Og ég er kyrfilega fastur í hversdeginum á lesstofunni, hlusta á regnið og kíki á klukkuna. Enda nógu stór krafa á ljóðabók að hún rífi mann úr hversdeginum, hvað þá að verund manns splundrist.

Meginefni bókarinnar er ástin og ástarsorg. Ljóðmælandi er í maníukenndu hugsanaflæði svo gott sem allan tímann og snýst það um þúið, viðfang ástarinnar, bæði í tilraunum til þess að fanga ástina og svo ástarmissinn. Ljóðmælandi spyr lesandann ótal spurninga sem mætti flestar endurorða sem „hefurðu elskað?“. Þetta eru spurningar eins og: hefurðu þorað að opna hjartað?, óttastu að það sé tómt?, gefið þig á vald einhvers og fórnað einhverju?, ertu hamingjusamur? og hefurðu komið inn í hjartahellinn þinn?

Þá verða straumhvörf í ljóðinu þegar ljóðmælandi játar að hafa skrifað ljóðið andvaka nóttina sem hann hætti með kærustunni sinni. Eftir það koma ástarjátningar þar sem þúið, sem hefur hingað til verið í karlkyni breytist í kærustuna og þar með í kvenkyn.

þú sagðir að ég hafi breytt lífi þínu
og þú sagðir svo fallega hluti
að ég þori ekki að hafa þá eftir
en þú ert samt farin … 

Eftir þetta er þúið aftur í karlkyni, kannski af því að hún er farin. Þá virkar þetta svolítið eins og ljóð inni í ljóði, og þá getur þúið alveg eins verið ljóðmælandi sjálfur. Hann byrjar að skoða sig og spyrja sig spurninga við lok sambandsins um leið og hann tekst á við erfiða tíma. Í öllu falli talar fyrsta persónan við aðra persónuna eins og meistari við lærling. Hefur þú elskað? Hefur þú elskað eins og ég?

Spurningar sem líta út fyrir að eiga virka viskulegar verða barnalegar þegar þær koma tugum saman í röð (á fyrstu fimm síðum ljóðsins taldi ég 37 spurningarmerki). En eru á sama tíma yfirlætislegar. Spurningarnar sem eiga að fá fólk til þess að endurhugsa líf sitt fá mig einna helst til að vilja leggja mig.

Ljóðið á eftir manifestóinu, Að synda í lofti, er í svipuðum stíl. Þetta er hippaleg frásögn sem sækir talsvert í beat skáldin, það er Howl lykt á köflum, eins og þegar ljóðmælandi fer að klifa á orðinu „sem“, lýsir „einhverju epískasta húspartí san francisco“ þar sem hópur fólks engist um og hristist af unaði og fer svo að tala um elskhugana sem hann gæti fundið „á berghain í berlín á öllum burning man hátíðunum“.

Þetta ljóð, og flest ljóð bókarinnar, er uppfullt af ofhlöðnum líkingum sem ganga ekki alveg upp, meðal annars vegna þess hve mikið er vaðið úr einni líkingu í aðra. Þór sækir mikið í stór orð og stórar hugmyndir sem rúmast ekki í línunum.

ég geng þessa jörð umkringdur fiðrildum
vinaböndin um úlnið minn eru gerð úr englaryki
harðari en demantar
gætu bundið niður fjöllin, skýin, Fenri
gætu breytt þeim Fenri sem úlnlið Týs át aftur í hvolp
þetta er fítónskraftur englaskarans sem umkringir mig
ef faðir minn er hápunktur visku alheimsins
þá var hann skotpallur eldflaugarinnar sem ég er

(úr Að synda í lofti)

Þetta er bara hálfgert bull. Líkingamálið gengur aðallega út á að lýsa því hve sterk vinaböndin úr englarykinu séu. Svo sterk að þau geta meira að segja bundið niður úlfinn Fenri „sem úlnlið Týs át“ og snúið tímanum við, hvernig sem það nú virkar. Og svona fyrst ljóðmælandinn er kominn í goðafræði ákveður hann að líkja sér við eldflaug sem skýst upp úr visku alföðursins og nær þannig áður óþekktum hæðum. Ljóðmælandinn á rosalega góða vini og þarf líka að koma því að hve rosalega vitur hann er. Sem er líka tilfinningin sem ég hef fyrir höfundi, að hann sé of upptekinn við að sýna hve klár hann sé í að búa til langsóttar líkingar til þess að velta því fyrir sér hvort hann ætti yfirleitt að vera að því.

Ljóðin Bréfið og Sambandsslitin eiga það sameiginlegt að vera laus við þessa ofgnótt líkinga sem annars plagar bókina. Þau eru bæði í formi samræðna innan gæsalappa. 

Bréfið

„manstu eftir fyrsta ástarbréfinu sem ég sendi þér?“
„já, ég kann það utan að, hvert einasta orð.“ 

Hér er ljóðmælandi loksins hættur að tala á lesandann. Hættur að reyna að rífa mann úr hversdeginum. Samræðuformið neyðir höfund til þess að slaka aðeins á. Kannski er það bara hvíldin og mótvægið við öllu hinu, en mér finnst þessi samræðuljóð vera nokkuð góð.