Að trúa er að sjá er að blekkjast

Í i8 gefur nú að líta samsýningu 5 listamanna frá Ameríku sem nefnist á ensku Seeing believing having holding og er þýtt sem Að sjá er að trúa er að halda á og handleika. Það er meira en freistandi að leggja út af titli sýningar þar sem skírskotað er í sjálfan sannleikann í öllu sínu loðna veldi. Og ekki svíkja verkin um vísanir í hina marghöfða nútíma truntu falsfréttir og valstaðreyndir. Eða svo sýnist mér. 

En hvernig get ég leyft mér að blanda saman trú og sannleik? Það er auðvitað óábyrgt en kannski ég sæki mér liðsstyrk til Errol Morris sem best er þekktur fyrir heimildamyndir sem gjarnan fjalla um tengsl fólks við atburð og sýn þeirra á hið sanna. „Heimurinn er galinn og enginn sannleikur til“ hefur Morris látið hafa eftir sér. Hann snýr á haus orsakasamhenginu í frasanum Að sjá er að trúa og segir Að trúa er að sjá. Þetta sagði Tom heitinn Wolfe líka ef ég man rétt. Og fátt finnst manni skiljanlegra. Fyrst veit maður eitthvað og þannig verður það manni sýnilegt. 

Á sama hátt skiptir máli hvernig sýning ratar til manns. Eflaust rak fyrst á fjörur minar frá þessari sýningu heiti hennar og kannski mynd. Svo þegar komið er inn úr dyrum i8 tekur á móti gestum gríma eða höfuðmynd með heldur hrollvekjandi útgeislun. Allt í kring blasa við manni tví- og þrívíðar veggmyndir og skúlptúrar á gólfi, á stöplum og sumir hangandi úr lofti. Hvert verk um sig faglega og snyrtilega unnið og framsett, en einhverstaðar var ákveðinn tónn sleginn sem setur mark sitt á verkin og sýninguna. Í öllu falli mætast og renna verkin saman eins og þræðir í bandi og reyndast þau hlutgerving hugrenningatengsla sem titillinn kallar fram. Þessu fá þau áorkað í krafti hvers annars undir handleiðslu sýningarstjórans Dan Byers sem leiðir hér saman fjölbreyttan hóp listmanna. Þau eru (í stikkorðastíl):

Michelle Lopez: Hér er minnsti horrorinn, og kannski mesta Listin (undirstrikað og með stóru L-i). Hefðbundnir skúlptúrar, nútímaleg næmni fyrir sambandi efna. Frágangur gallalaus. Pappírsverkið gallalaus galli; miðill fyrir leik hennar og þyngdaraflsins. Hún brýtur pappírinn langsum, þyngdin togar í blaðið og brýtur þversum. Einföld og öflug mynd af sambandi eða samskiptum manns og umhverfis.

B. Ingrid Olson leikur sér að mörkunum. Veggmyndirnar eru á mörkum málverks og skúlptúrs. Í þeim er falin sjónblekking með máluðu skuggavarpi í bland við hið sanna skuggavarp. Ljósmyndir (af myndum) í kassa sem verða skúlptúrískar. Speglar og líkami. Myndum/verkum troðið inn í listsögulegt samhengi, eins og til að þóknast einhverjum en með snúð, afundin. Eins og hún viljandi geri of mikið til að benda á fáránleikann í kröfunni um listsögulegar vísanir. 

Kelly Akashi: hefðbundnir miðlar, brons og gler. flúrað blásið gler eins og skrautmunir. Eitt og sér banal en fær aukna vigt í sambandi við hin verkin. Sum verkin kitschuð í drasl. Á sama tíma holdleg stemmning, lífræn og hörð (þó ekki köld).

Kahlil Robert Irving. Samsuðuverk. Þekkt form: neysluvara. Einnota umbúðir i bland við texta/úrklippur, stríð, kúgun, óréttlæti. Sjónarhorn á heimsmálin. Leirverk mótuð í þéttar einingar með litlu andrúmi. 

Daniel Rios Rodriguez.  Suður-Amerísk hefð í efnisvali, litum og mynstri. flótti? endurlausn? fundnir hlutir settir inn á flötinn. Trúarlegt eða andlegt yfirbragð. Söfnun, smáhlutir. Rannskókn/leikur. Persónulegu lífið blandað í myndina. Söfnun sem skrásetning/staðfesting a tilvist/tilveru.

Byers tekst að mynda sterka túlkun á þeim samfélagsmeinum í Ameríku sem fá þar að skjóta rótum núna. Myndmálið er fjölbreytt og miðlarnir margir þó segja megi að þeir eigi allir sammerkt að vera gerðir til að standast tímans tönn. (ljósmyndir, gler, postulín, brons, stál…Það er kannski ekki síst þetta klassíska efnisval sem kveikir þá kennd að hér standi maður andspænis (eða mitt á meðal) verka sem lýsa óbeit á nútímanum sem nokkurs konar meinvarp frá þeirri stefnu sem Trump og hans líkar standa fyrir.  Ég komst í það minnsta ekki hjá að finnast stafa megnri andúð og holdlegri sem og andlegri þjáningu frá verkunum í heild, þó hvert og eitt hefði frá minnu að segja. 

Sem (obskjúr) dæmi um samspil verkanna mætti nefna verk Kahlil Robert Irving Small block – Mixed Melodies, (Jason Stockley cant run, Google scroll), 2016 og Kelly Akashi Figured Finger (Encased Digit), 2018.  

Kahlil Robert Irving Small block – Mixed Melodies, (Jason Stockley cant run, Google scroll), 2016

 

Kelly Akashi Figured Finger (Encased Digit), 2018.

Hér sér maður fyrir sér fingur skrolla niður endalausan Google refilinn og Jason Stockley, lögreglumaður sem sýknaður var af morðákæru, reynir að hlaupa undan réttvísinni –  nei annars, hann er sloppinn undan réttvísinni og hleypur nú undan kviðdómi alnetsins. Hér er sannleikurinn eins og sápa á baðgólfi. Og fingurinn skrollar. Og fingurinn er brottnuminn. Og fingurinn er settur í glerhjúp. Skrollaðu nú puttinn þinn. Finndu nú sannleikann. Úr bronsi. Efni óendanleikans. 

Hvað er sannara en hendur okkar? Ég hreyfi fingurinn, hann hreyfist. Fingurinn hreyfist, það er ég sem hreyfi hann. Ég og fingurinn tengjumst. Ef það er ekki satt, hvað þá? En notaður smokkur og C3PO? Tengist það? Já, núna. 

Michelle Lopez – C3PO – 2008

Samspil formfastra, hefðbundinna efna og hinna fljótandi efnistaka með sinn loðna karakter orsakar þau margbrotnu og líflegu hugrenningatengsl sem er styrkur sýningarinnar. Frá henni stafar baráttuandi í formi spéspegils sem vísar að einangrunarstefnu og vænisýki en á sama tíma örmögnun og að manni finnst frelsandi uppgjöf frammi fyrir vonlausu rugli. Við horfum daglega upp á harmleik sækja í sig veðrið og öll vopn, og þá sérstaklega sannleikann, slegin úr höndum okkar. Er þá ekki alveg eins gott að stunda bara dægurmenningu og kynlíf?

En það er fleira í þessu. Hinn sanni harmleikur er ekki pólitískur heldur á hann sér stað á persónulega sviðinu. Samruni C3PO (er eitthvað til saklausara en C3PO?) og getnaðar/smitvarnar felur í sér einhverja þokukennda skynvillu og umkomuleysi sem, í bland við önnur þemu verkanna fer að minna á félagslega harmleiki eins og t.d. ópíóðafaraldurinn.  En vísar jafnframt í endurminningar eða leifturkenndar upprifjanir og yfir hangir enn og aftur spurningin um hvað er satt. 

Sjáið verk Kahlil Robert Irving Fence. Þetta er bæði í senn ámátleg tilraun til að fjalla um einangrunar/aðskilnaðar/fangelsunarstefnu sem og eldur til hreinsunar á múrum; heilandi sáttameðferð hins kúgaða á aðferðum kúgarans. Og ef svo er, hver ætlar að skera úr um hvort þetta sé sönn ást eða Stokkhólms-heilkenni? 

Kahlil Robert Irving – Fence, 2016

 

Svo, í ljósi þessa, kannski maður bjóði lesendum upp á frumleg orðsifjaspell:

truth <> trúður,/trú

Nú er á enda sú algilda kenning að trúðurinn segi satt. Líklegast er að æðsti trúður veraldar segi sjaldnast satt og alls ekki þegar hann kveðst segja satt. Þar fyrir utan er bannað að hlæja að honum.1 En sannleikurinn sem þannig opinberast er sá að tengsl okkar við sannleikann eru blússandi huglæg. Tengsl okkar við sannleikann er tilbúningur sem stríðandi öfl keppast um að móta. Og þau eru viðkvæm eftir því. 

Áferðafagur óhugnaður

Í i8 er einhver svellandi óhugnaður. Að sjá er að trúa er að halda á og handleika er vel samsett og kröftug sýning á sinn dannaða hátt. Hver listamaður er nægilega ólíkur hinum til að verkin bæti hvort annað upp, frekar en hitt eins og stundum er. 

 

   [ + ]

1. Sem segir okkur auðvitað að þetta er alls enginn trúður.