Tom Hiddleston í hlutverki Posthumusar og Jodie McNee sem Innogen.

Ættarmót

Atburðarás
Kræst! Ok, nokkurnvegin svona:
Þegar sagan hefst er Bretlandshirð í uppnámi. Innogen konungsdóttir hefur gifst munaðarlausum lágaðalsmanni, Posthumusi, en ekki Cloten, stjúpbróður sínum, syni seinni konu föður síns, Cymbeline konungi. Posthumus hefur verið gerður útlægur og Cloten hugsar sér gott til glóðarinnar, þó Innogen fyrirlíti hann. Jafnframt hefur drottningin áform um að myrða bæði Cymbeline og Imogen með eitri sem hirðlæknirinn útvegar henni. Hann hefur samt vit á að láta hana ekki hafa banvænt stöff, heldur svona Rómeóogjúlíu-efni sem fellir fólk í dá. Hún kemur því í hendurnar á Pisanio, þjóni Imogenar, sem hinni mestu hollustu. Rómverskur sendifulltrúi boðar komu sína til Bretlands til að innheimta ógreiddan skatt sem Cymbeline neitar að borga, undir áhrifum drottningar. Sendiboðinn boðar stríð. Posthumus heldur til Rómar í útlegðinni og hittir heimamanninn Iachimo  Sá dregur í efa trygglyndi Innogenar og veðjar um að hann geti forfært hana. Bregður sér til Englands, og tekst að smygla sér í svefndyngju prinsessunnar, rænir hana skartgrip og getur síðan við heimkomuna lýst útlitseinkennum hennar þannig að Posthumus sannfærist um að hún hafi sofið hjá honum. Posthumus fyllist andstyggð á henni og konum almennt og sendir henni bréf og biður hana að hitta sig í Milford Haven í Vales, en biður Pisanio i öðru bréfi að fylgja henni og drepa hana þar. Pisanio fylgir henni, en drepur ekki, heldur segir henni alla söguna. Hún ákveður að dulbúa sig sem karlmann (Fidele) og fá far suður á bóginn með rómverska sendifulltrúanum. Pisanio gefur henni að skilnaði lyfin frá drottningunni, sem hann telur vera hina hollustu dropa. Við hirðina kemst Cloten að brotthvarfi Innogenar, og fer á eftir henni í fötum Posthumusar, staðráðinn í að drepa hann, nauðga henni og giftast síðan. Á meðan hefur Innogen villst í velsku fjöllunum og ratað á helli einn þar sem þrír menn búa, Belarius og synir hans Guiderius and Arvirargus. Reyndar eru þeir þar undir öðrum nöfnum, en þarna eru komnir synir Cymbeline sem Belarius rændi þegar þeir voru kornabörn, þegar hann sjálfur var dæmdur í útlegð. Drengirnir vita ekkert um uppruna sinn, en hænast umsvifalaust að „drengnum“ sem er í raun systir þeirra. Innogen leggst veik, en þeir fara til veiða. Guiederius hittir þar Cloten og eftir snörp orðaskipti verður Cloten höfðinu styttri. Innogen hefur tekið inn lyf drottningar og lagst í dá. Hellisbúar syrgja hana sem dána og leggja til hvílu við hlið hins höfuðlausa Clotens (sem er klæddur eins og Posthumus). Meðan þeir bregða sér frá vaknar Innogen og telur líkið vera af Posthumusi. Rómverski sendifulltrúinn á leið þarna hjá og Innogen ræður sig til hans sem skutilsveinn. Posthumus gengur til liðs við rómerska innrásarherinn og stríðið hefst. Hellisbúarnir ganga til liðs við varnarsveitir Cymbeline og Posthumus í dulargerfi líka, og saman tekst þeim nánast einum síns liðs að sigra Rómverjana. Posthumus bregður sér aftur í rómversku klæðin og er handtekinn ásamt Innogen og sendifulltrúanum, sem leiðir innrásina, og Iachimo. Foreldrar Posthumusar og guðinn Júpíter birtast honum í draumi og fullvissa hann um að allt fari vel. Drottningin deyr og játar á dánarbeði allar syndir sínar, hatur á eiginmanninum og áform um að koma honum og dótturinni fyrir kattarnef. Þegar fangarnir og stríðshetjurnar eru leiddar fyrir konung uppgötvast smám saman hvernig í öllu liggur. Innogen og Posthumus ná aftur saman, Iachimo játar fláttskap sinn og er fyrirgefið, Belarius uppljóstrar um ætterni „sona“ sinna, og Cymbeline lofar að greiða skattinn. Öllum er boðið til veislu.

To shame the guise o’ the world, I will begin
The fashion, less without and more within.

5.1.32–33

Um 1614 sest Shakespeare endanlega í helgan stein. Eða kannski var þetta ekkert svo fastmótuð og endanleg ákvörðun að það orðalag sé viðeigandi. Hann er talinn hafa sest að í gamla heimabænum einhverjum árum fyrr. Þar hafði hann fjárfest duglega og það hefur sennilega alltaf/lengi verið partur af planinu að enda þar, í faðmi fjölskyldunnar. En tíminn frá því að síðasta verkið fer á fjalirnar og þar til skáldið deyr er ekki nema tvö til þrjú ár. Hver veit hvort skrifbindindið hefði haldið ef heilsan hefði leyft.

Síðustu sex verkin mynda tvær sæmilega snyrtilegar þrenningar, þó djúpristar ályktanir um einhverskonar heildarhugsun eða meðvitaða þematík séu að mínu mati varasöm blindgata. Seinni þristurinn er reyndar sjaldnast tekinn þeim tökum, enda eini samnefnari Cardenio, The Two Noble Kinsmen og Henry VIII – All is True einfaldlega samverkamaðurinn John Fletcher.

Öllu meira púðri – eða bleki – hefur verið eytt í að tengja saman fyrri þrenninguna; Cymbeline, The Winter’s Tale og The Tempest. Oft er skellt á þessi verk stimplinum „rómönsur“, stundum „tragikómedíur“, eða einfaldlega „Late Plays“. Það er allavega óumdeilanlegt.

Með (ó)hæfilegri einföldun má segja að rómönsuheitið vísi til innihalds en tragikómedían til efnistaka. Hér eru sagðar ólíkindalegar sögur, gjarnan flóknar, með dassi af yfirnáttúru, göldrum og öðrum furðum utan reynsluheims venjulegs fólks. Og við framsetninguna er hið harmræna og hið gleðilega látið stíga dans, leika jafnvægislist. Ekki síst er boðið upp á eftirvæntingu yfir að komast að því hvernig öllu muni lykta. „Hvað gerist næst?“ er komið til sögunnar sem aðalgleðigjafi áhorfandans. Nokkuð sem harmleikir og hefðbundnir gamanleikir treysta ekki á til að halda athygli gestanna. Þeir fyrrnefndu enda með dauða, þeir seinni með hjúskap. Þetta vita allir og ætlast til að svona fari.

Þó svo hægt sé að tína til almenn einkenni á þennan nýja „flokk“ leikrita (og Pericles er oft látinn fylgja með í honum) þá er hitt jafn augljóst að leikritin þrjú eiga hvert um sig fjöldamargt sameiginlegt með fyrri verkum skáldsins, einkum gleðileikjunum. Þá er líka auðvelt að sjá ýmis rómönsu/tragikómedíueinkenni á verkum skrifuðum fyrr á ferlinum. Svo eru Cymbeline, The Winter’s Tale og The Tempest líka umtalsvert ólík innbyrðis. Allt er þetta róf og ef skáldið tekur nýja stefnu hér undir lokin þá er það aflíðandi beygja fremur en gatnamót með umferðarljósum og 90° hornum.

Það er víst illgreinanlegt í nákvæmlega hvaða röð rómönsuþrenningin varð til. Reyndar eru ágætisrök til fyrir því að Shakespeare hafi verið að vinna í þeim öllum nánast samtímis, svona ca. 1609–1611, sem er auðvitað vatn á myllu þeirra sem vilja líta á þær sem gegnumpælda trílógiu, jafnvel einhverskonar uppsúmmeringu á ævistarfinu. 

Við skulum fylgja meginstraumnum og byrja á Cymbeline. Eða „The Tragedy of Cymbeline“ eins og það heitir í heildarútgáfunni frá 1623, þar sem því er skotið aftast í harmleikjakaflann, aftast í bókinni, og nafnið látið breiða yfir þá augljósu staðreynd að þetta er svo sannarlega ekki tragedía, og titilpersónan auk þess langt frá því að vera miðpunktur verksins. Cunobelinos var svo auðvitað einn af fornkonungum á Bretlandseyjum, svo verkið gæti þess vegna átt heima með söguleikjunum, og þá með King Lear. En nei. Gangverkið í Cymbeline stillir verkinu upp hjá gleðileikjunum. Það endar reyndar ekki beinlínis með hjónabandi heldur sáttum og endurfundum aðskilinna ungra hjóna, en engu að síður er kómedíubragur á atburðarás og efnistökum, þó ekki sé þetta nú ýkja fyndið, frekar en t.d. All’s Well that Ends Well og Measure for Measure, síðustu atlögur Shakespeares að gamanleikjaforminu.

Það eru miklar líkur á að Cymbeline sé fyrst í röðinni, en önnur ástæða til að byrja á því gæti þess vegna verið úr páskaeggi: illu er best aflokið. Þetta er með allralélegustu verkum Shakespeares.

Ég veit ekki alveg hvað það er. Eitt er nú að rammflókinn og margflæktur söguþráðurinn dreifir athyglinni og tekur dýrmætan tíma og pláss frá persónusköpun og skáldlegu flugi. Persónurnar eru sífellt að útskýra hvað er að gerast, hvað gerðist fyrir löngu síðan og hvað þær ætla að gera næst, í hvaða dulargervi þær ætla að bregða sér og í hvaða tilgangi. Útskýringarnar undirstrika ólíkindin og veikar „mótívasjónir“ og öll þessi fyrirferðamikla upplýsingagjöf er með eindæmum stirð. Til dæmis er upphafsatriðið mögulega það versta sem Shakespeare setti á blað/svið. Það langversta reyndar, því almennt var hann alger meistari í byrjunum.

En það er ekki bara þetta. Það er óvenjulega lágt ris á þeim skáldskap sem þó gefst tími til að deila með áhorfanda/lesanda. Varla neitt sem fangar athyglina eða hefur andann í hæðir. Persónugalleríið er líka annars flokks. Iachimo hefur ekkert í félaga sína í skúrkafélaginu, hvað þá hin lit- og nafnlausa drottning. Cloten er hvorki fyndinn né hlægilegur, hvað þá ógnvekjandi og konungurinn fyrst og fremst óskiljanleg týpa. Posthumus: það lifir engin hetja af svona illa undirbyggðar sveiflur. Og þó persónur verksins keppist við að lofa prinsessuna, og hún hafi sýnt bein í nefi þegar hún giftist að girndarráði skömmu áður en sagan hefst, þá er Innogen sjálf merkilega lítið sjarmerandi. Hún hefur nákvæmlega ekkert í Rosalind, sína augljósustu hliðstæðu.

Og já, ég sagði Innogen. Undanfarna áratugi hefur sannfæring fræðimanna farið vaxandi fyrir því að m-ið í „Imogen“, eins og nafnið birtist í F, heildarútgáfunni frá 1623, sé mislestur á tveimur n-um. Ritháttur annálanna sem Shakespeare sækir í um þessa fjölskyldu er „Innogen“, og þó m-ritháttinn sé að finna í nafnaskrá í króníkum Holinsheads þá gefur stafrófsröðin þar skýrt til kynna að þar er m-ið prentvilla. 

Þetta er auðvitað pínu skrítið fyrir þær fjölmörgu konur og stúlkur í hinum enskumælandi heimi sem hafa verið skírðar Imogen eftir að ritstjórar F komu nafninu í umferð. Þeim til huggunar  má grugga vatnið aðeins með að benda á að í Breta sögum, íslenskri þýðingu á Historia Regum Britanniae, konungasögum Geoffrey frá Monmouth frá 13. öld, er nafnið skrifað „Imnógen“, svo m-ið er ekki bara einhver ensk sautjándualdardilla. 

Þetta íslenska handrit hefur farið framhjá Valerie Wayne, Arden-ritstjóranum, sem skrifar skýrt og skemmtilega um leikritið, þó hún haldi auðvitað eins og allir slíkir dálítið með „sínu“ verki og finnist það merkilegra en það er. Verstur er kaflinn sem túlkar textann út frá „nýlendufræðum“, en fátt kemur blóði nútímafræðimanna á jafn mikla og freyðandi hreyfingu og þau fræði. Hér eru þau síst til að bæta úr skák, því miður, enda nokkuð augljóst að staður og stund er síst í huga skáldsins, svo hrærigrautarlegt sem slíkt er í Cymbeline.

En um hvað er það þá? Ein hugmynd gengur í gegnum allt verkið og tengir saman hina ólíkindalegu viðburði og bláþráðótta rás þeirra. Mannkostir og hvernig þeir leggjast í ættir. Aðallega aðalsættir auðvitað. 

Persónunum verður tíðrætt um þetta. Cloten er t.d. viss um að hann sé betri en flestir í krafti móður sinnar. Það er auðvitað rangt, en það er samt ekki svo að minna tignir menn séu betri en hann, heldur eru þeir sem hann heldur vera sér óæðri í raun tignari. Og gera hann höfðinu styttri, eftirmálalaust fyrir vikið. Belariusi/Morgan verður tíðrætt um tign fóstursona sinna, sem kippir í konungakynið þó fóstrið sé frumstætt.

O thou goddess,
Thou divine Nature, how thyself thou blazon’st
In these two princely boys! They are as gentle
As zephyrs blowing below the violet,
Not wagging his sweet head; and yet as rough,
Their royal blood enchafed, as the rudest wind,
That by the top doth take the mountain pine,
And make him stoop to the vale. ‘Tis wonder
That an invisible instinct should frame them
To royalty unlearn’d, honour untaught,
Civility not seen from other, valour
That wildly grows in them, but yields a crop
As if it had been sow’d. Yet still it’s strange
What Cloten’s being here to us portends,
Or what his death will bring us.

4.2.218–232

Og drengirnir líta strax á Innogen/Fidele sem jafningja sinn, og finna til skyldleika við hana, þó þeir viti hvorki hver hún er, né þeir sjálfir. Ótrúlega margir klæðast dulargerfum eða villa á annan hátt á sér heimildir í verkinu. Sumir árum saman, aðrir öðru hverju. Og enginn sér í gegnum þessi dulargerfi, en allir greina ættarmót og aðalsgöfgi um leið.

Helsta hreyfiafl atburðanna er síðan hreinlega veðmál um mannkosti. Wayne fer vel og rækilega yfir það sem hún kallar „The Calumny Plot“, sögur sem ganga út á að konur séu hórkenndar ranglega. Þema sem var vinsælt í „rómönsum“ miðalda og endurreisnar. Einna elst, og þekktust, er sagan af Súsönnu, apókrífur viðauki við Daníelsbók biblíunnar, sem ég endursagði svona um árið, þegar ég las og skrifaði um Biblíuna: 

Sagan af Súsönnu er hinsvegar lítil, snotur og alveg óyfirnáttúruleg glæpasaga með Daníel í hlutverki spæjarans. Þegar hin fagra Súsanna neitar að láta að vilja tveggja gamalla saurlífisseggja saka þeir hana um að hafa tekið framhjá bónda sínum með ungum fola. Lýðurinn er að safna saman grjóti til aftökunnar þegar Daníel finnur upp á því snjallræði að yfirheyra hin gröðu gamalmenni hvorn í sínu lagi. Þeir verða tvísaga og allt fer vel.

Dóttir Shakespeares hét einmitt Susanna og Valerie Wayne minnir á að hún lenti einmitt í málaferlum út af svona kjaftasögu, kærði mann fyrir meiðyrði árið 1613, en sá hafði slúðrað um að hún hefði haldið framhjá eiginmanni sínum, John Hall, og væri auk þess með kynsjúkdóm. Um þetta skrifaði Peter Whelan fjári gott leikrit, The Herbal Bed, sem ég sá í Stratford árið 1996. Ekki síst er það eftirminnilegt fyrir það að þar sá ég í fyrsta sinn bæði David Tennant og Joseph Fiennes, sem seinna átti eftir að leika sjálfan Shakespeare af list í hinni vanmetnu Shakespeare in Love. Man að okkur þótti heldur lítið til hans koma, en hann var vissulega ekki orðinn „Joseph Fiennes“ þá.

En þetta var nú útúrdúr. Svívirðileg árás Iachimos á heiður Innogen og hjónaband hennar og Posthumusar er dramatískt hjarta verksins. Í því er að finna bitastæðustu textabrotin. Fyrst ber að nefna mínídramað þar sem Iachimo athafnar sig í dyngju prinsessunnar.

Innogen sleeps. IACHIMO comes from the trunk

IACHIMO

The crickets sing, and man’s o’er-labour’d sense
Repairs itself by rest. Our Tarquin thus
Did softly press the rushes, ere he waken’d
The chastity he wounded. Cytherea,
How bravely thou becomest thy bed, fresh lily,
And whiter than the sheets! That I might touch!
But kiss; one kiss! Rubies unparagon’d,
How dearly they do’t! ‘Tis her breathing that
Perfumes the chamber thus: the flame o’ the taper
Bows toward her, and would under-peep her lids,
To see the enclosed lights, now canopied
Under these windows, white and azure laced
With blue of heaven’s own tinct. But my design,
To note the chamber: I will write all down:
Such and such pictures; there the window; such
The adornment of her bed; the arras; figures,
Why, such and such; and the contents o’ the story.
Ah, but some natural notes about her body,
Above ten thousand meaner moveables
Would testify, to enrich mine inventory.
O sleep, thou ape of death, lie dull upon her!
And be her sense but as a monument,
Thus in a chapel lying! Come off, come off:

Taking off her bracelet

As slippery as the Gordian knot was hard!
‘Tis mine; and this will witness outwardly,
As strongly as the conscience does within,
To the madding of her lord. On her left breast
A mole cinque-spotted, like the crimson drops
I’ the bottom of a cowslip: here’s a voucher,
Stronger than ever law could make: this secret
Will force him think I have pick’d the lock and ta’en
The treasure of her honour. No more. To what end?
Why should I write this down, that’s riveted,
Screw’d to my memory? She hath been reading late
The tale of Tereus; here the leaf’s turn’d down
Where Philomel gave up. I have enough:
To the trunk again, and shut the spring of it.
Swift, swift, you dragons of the night, that dawning
May bare the raven’s eye! I lodge in fear;
Though this a heavenly angel, hell is here.

Clock strikes

One, two, three: time, time!

Goes into the trunk. The scene closes

2.2.14–55

Það er líka fútt í viðbrögðum Posthumusar eftir að Icahimo snýr aftur til Rómar og tekst á endanum að sannfæra eiginmanninn að hann hafi verið kokkálaður. Hann fyllist þá taumlausu kvenhatri og tjáir það í stuttri einræðu sem Wayne segir að Shakespeare sæki nokkuð beint í texta eftir rómverska satíruskáldið Juvenal sama efnis. Þetta er allavega nokkuð skýrt þó ekki séu skilaboðin falleg.

Could I find out
The woman’s part in me! For there’s no motion
That tends to vice in man, but I affirm
It is the woman’s part: be it lying, note it,
The woman’s; flattering, hers; deceiving, hers;
Lust and rank thoughts, hers, hers; revenges, hers;
Ambitions, covetings, change of prides, disdain,
Nice longing, slanders, mutability,
All faults that may be named, nay, that hell knows,
Why, hers, in part or all; but rather, all;
For even to vice
They are not constant but are changing still
One vice, but of a minute old, for one
Not half so old as that. I’ll write against them,
Detest them, curse them: yet ’tis greater skill
In a true hate, to pray they have their will:
The very devils cannot plague them better.

2.5.20–36

Ég hef tvívegis séð Cymbeline á sviði. Árið 2007 kom einn af frægari og langlífari „frjálsu“ leikhópum Breta, Cheek by Jowl, í heimsókn í Þjóðleikhúsið með uppfærslu leiðtoga síns, Declan Donnellan, á verkinu. Ég man ekki glöggt eftir sýningunni. Til dæmis mundi ég ekki eftir Posthumusi, sem var leikinn af ekki minni stjörnu en Tom Hiddlestone. En hann var auðvitað ekkert orðinn Tom Hiddlestone þá.

Árið áður tók eftirlætisleikhópurinn minn, Kneehigh, þátt í heildarflutningi verkanna í samstarfi við Royal Shakespeare Company. Sýning þeirra er ákaflega óeftirminnileg, fyrir utan þetta sérlega glæsilega lag við annan tveggja söngtexta verksins, hinn gullfallega útfararsálm bræðranna yfir Innogen, sem þeir vita ekki að er bæði systir þeirra og sprellifandi. Klárlega mín eftirlætistónsetning þess (reyndar fara Kneehighmenn ekki alveg nákvæmlega með ljóðið, enda virðing fyrir texta ekki eitt af boðorðum klúbbsins). Aðrar ágætar eru t.d. sú sem John Dankworth samdi fyrir konu sína, Cleo Laine og öllu klassískari útgáfa Rogers Quilter. Eitt af því sem inngangur Valerie Wayne gaf mér var síðan meðvitund um að í diskasafni mínu leyndist Fear no more eftir mitt uppáhalds söngleikjaskáld, sjálfan Stephen Sondheim. Hann laumaði því inn í lítt þekktan söngleik upp úr gleðileik Aristófanesar, Froskarnir, sem ég hafði keypt fyrir löngu en aldrei sett í græjuna. Ákaflega Sondheimskt lag.

Fear no more er reyndar ekki sungið, eins og texti verksins er útfærður í F, þar sem Guiderius og Arvirargus segjast ekki treysta sér til þess ógrátandi. Samt virðist það ætlað til söngs, og mögulega er einhver saga þarna að baki. Mögulega voru leikararnir í hlutverkunum lítt til söngs fallnir og þurft að skjóta inn afsökun fyrir því að þeir létu sér nægja að flytja ljóðið. Um það verður ekkert vitað framar, en í dag er alsiða að syngja þetta. Hitt söngljóðið í Cymbeline er ótvírætt ætlað til söngs. Það er talið að upprunalega lagið við Hark, the Lark! hafi varðveist, en það er eftir Robert Johnson, hirðlútuleikara Jakobs I sem vann mikið í leikhúsunum meðfram. Öllu frægari er tónsetning Schuberts, sem er að því ég best veit ekki ætluð fyrir leikhúsflutning, og sennilega sjaldan eða aldrei notuð sem slík.

BBC-myndin frá 1983 er falleg útlits en einstaklega deyfðarlega leikin. Sérstaklega virðast Helen Mirren (Innogen), Michael Pennington (Posthumus) og Claire Bloom (drottningin) halda að þetta túlki sig sjálft, sem er alrangt. Það er helst að Robert Lindsay (Iachimo) hafi eitthvað fram að færa. En það dugar ekki til til að gera þetta skemmtilegt, því miður.

Það er öllu meiri sannfæring í framgangi leikhópsins í uppfærslu Melly Still fyrir RSC 2016. Svolítið búið að kynbreyta (víxla kóngi og drottningu t.d.) og á Ítalíu tala menn ítölsku, frönsku og latínu með enskum textum varpað á bakvegg. Allt pínu post-apocalyptic í útliti (skilst að post-brexit hafi verið konseptið). Þetta er kröftug og flott uppfærsla, en sýnir ágætlega að það dugar ekki til að búa til sannfærandi drama úr þessum skrítna óskapnaði.

Textinn

Ég setti mér fyrir lesverkefni. Að lesa öll verk Shakespeares, leikrit og ljóð, nokkurnveginn í líklegri ritunartímaröð. Já og horfa á kvikmyndagerðir eða kvikmyndaðar sviðsetningar þeirra.  Langflest leikritanna hef ég lesið áður, ýmist á frummálinu eða íslensku. Mörg hef ég séð og tveimur leikstýrt. Ljóðin þekkti ég lítið sem ekkert. Síðan skrifa ég eitthvað smávegis um hvert og eitt. Greiningu, gagnrýni, ágrip af fyrri reynslu minni af verkinu. Svona nokkurnvegin hvað sem mér dettur í hug út frá lestrinum. Starafugl birtir þessar ritsmíðar á föstudögum, meðan verk endast.