Vestrænt frjálslyndi þvær hendur sínar

Um harðstjórn: Tuttugu lærdómar sem draga má af tuttugustu öldinni

Mál og menning gefur út bókina Um harðstjórn: Tuttugu lærdómar sem draga má af tuttugustu öldinni eftir Timothy Snyder í íslenskri þýðingu Guðmundar Andra Thorssonar. Ritið er athyglisvert fyrir margra hluta sakir, þrátt fyrir að vera stutt í sniðum og hraðlesið – ekki nema 153 síður í litlu broti. Það vakti mikla athygli þegar það kom út á síðasta ári, sat víða hátt uppi á vinsældalistum bókabúða, og hefur Snyder verið mjög áberandi í fjölmiðlum, bæði í gegnum pistlaskrif sem og viðtöl og spjallþætti. Svo má auðvitað nefna Bókmenntahátiðina í Reykjavík á síðasta ári, en ég leyfi mér að giska á að sú koma hans hafi leitt til þessarar þýðingar?

Áður en lengra er haldið vil ég upplýsa að ég hef lítið verið hrifinn af sagnfræði Snyders og söguskýringum. Leggja þau spil á borðið í upphafi. Stafar það þó helst af þekktasta verki hans, Bloodlands frá 2010, ásamt hinum ýmsu pistlum eftir hann sem ég hef lesið. Sú bók er þó auðvitað ekki til umfjöllunar hér og ég geri mitt allra besta til að dæma þetta verk á eigin forsendum og hafði ekki lesið það fyrr en nú. Þetta er þó þrautinni þyngra á tíðum í ljósi þess að Snyder á það til að varpa fram vafasömum og jafnvel stórundarlegum fullyrðingum sem hann útskýrir ekki nánar. Það er kannski skiljanlegt í ljósi smæðarinnar, ritið er augljóslega ekki meint sem ítarlegt sagnfræðirit heldur kjarnyrt og kraftmikil hugvekja. En gerir það þó að verkum að vafasamar sögutúlkanir hans, sem finna má annars staðar, læðast óhjákvæmilega inní skilning manns á verkinu. 

Þar má helst nefna hvernig hann slengir saman kommúnisma (á þó oftast við stalínisma með því hugtaki) og nasisma eins og í grunninn séu þetta sömu eða svipaðar stefnur. Maður getur a.m.k. ekki skilið hann öðruvísi en að hann setji samasemmerki þarna á milli. Það er engin réttlæting í því fólgin að viðurkenna að hryllingur nasismans og stalínismans var eðlisólíkur – burtséð frá því hvor var verri. Greining hans á þessum stefnum skortir allan núans, svo ekki sé meira sagt.  Í ritinu sem hér um ræðir er það sama uppá tengingnum. Getum tekið þetta dæmi:

Bæði fasismi og kommúnismi voru viðbrögð við hnattvæðingunni: við raunverulegri og ímyndaðri misskiptingu af völdum hennar og úrræðaleysi lýðræðiskerfisins við að bregðast við henni

(bls.12).

Þetta finnst mér stórundarleg söguskýring. Í rauninni er ég ekki viss um hvernig eigi að skilja hana. Í framhaldinu heldur hann því fram að „Fasistar settu andlit á alþjóðavæðinguna, héldu því fram að flókin úrlausnarefni sem henni fylgdu væru afleiðing af samsæri gegn þjóðinni“ (bls.12). Hann talar svo um að kommúnistar hafi stjórnað með alræðisvaldi í fleiri áratugi, en útskýrir ekkert nánar hvernig rússneska byltingin og Sovétríkin hafi verið „viðbrögð við hnattvæðingunni“.

Hér virðist hann vera að vísa í fyrstu hnattvæðingu kapítalismans, sem er betur þekkt sem nýlendustefnan, og leiddi vissulega til mikils framfara- og friðartímabils á síðari hluta 19.aldar og byrjun 20 – fyrir efri stéttir Vesturlanda. Það tímabil endaði svo með Fyrri heimsstyrjöldinni annars vegar og svo endanlega með Kreppunni miklu aðeins síðar – alverstu og dýpstu krísu kapítalismans nokkurn tímann (er þó í rauninni enn of snemmt að segja um fjármálakrísuna 2008). Kommúnisminn komst til valda í Rússlandi og fasisminn á Ítalíu uppúr fyrri atburðinum og nasisminn í Þýskalandi í skugga seinni. Svo í einhverjum skilningi er þetta rétt hjá honum. 

En það er meira en lítið vafasamt hvernig hann setur þetta fram. Eins og stefnurnar hafi einungis snúist um höfnun á flóknum úrlausnum alþjóðavæðingar, ekki um hryllilegar afleiðingar hnattvædds kapítalisma sem leiddu ekki einungis til örbirgðar, kúgunar og eymdar hjá stærsta hluta þjóðanna sem hér um ræðir, heldur byggðist þetta framfaraskeið Vesturlanda fyrst og fremst á fáheyrðri villimennsku, kerfisbundnu og miskunnarlausu arðráni og jafnvel þjóðarmorðum í nýlendunum – en það telur Snyder ekki þörf á að nefna. Ég get ekki skilið hann öðruvísi en að hnattvæðingin hafi þó augljóslega verið jákvætt fyrirbæri, svo jákvætt að hann telji enga þörf á að útskýra það. Kannski með einhverjum hnökrum, en þessar alræðisstefnur hafi þó aðallega nýtt sér þá til að afla fylgis virðist vera (sbr. Gyðingar hjá nasismanum, óljóst hvernig bolsévikar passa inní þetta). Ég botna engan veginn í söguskýringu á tilurð Sovétríkjanna sem minnist ekki á kapítalisma og þá hrikalegu heimsvaldastefnu sem var fylgifiskur hans á þeim tíma (takmark bolsévika var ekki einungis að frelsa sárþjáða alþýðu Rússlands undan kúgun heldur líka að binda enda á villimennskuna í nýlendunum – alþjóðleg samstaða og samheldni var ekki bara eitthvað sem þeir skreyttu sig með á tyllidögum eins og er algengast nú á dögum), eða Kreppuna miklu í Þýskalandi. Raunar minnist Snyder ekki á kapítalisma einu sinni í allri bókinni. Að segja að ég botni ekki í þessu er þó mjög gjafmilt. En ég læt hann njóta vafans. 

Mögulega væri hægt að koma honum til varnar með því að segja að hann sé einungis að draga fram og benda á hliðstæðurnar við ástandið í dag – með djúpstæðri gremju og jafnvel uppreisn gegn nýjustu hnattvæðingunni (e. globalisation) og forseta Bandaríkjanna sem boðar einangrunarstefnu með einkunnarorðum (America first) sem vísar beint í ameríska hreyfingu, með Lindbergh í broddi fylkingar, sem studdi fasisma á sínum tíma. En það myndi hann þó auðvitað gera mun betur með því að ræða raunverulega rót vandans: þá miklu þjáningu, örvæntingu og neyð sem kapítalismi í djúpri krísu hefur leitt yfir íbúa Vesturlanda enn eina ferðina á mjög svipaðan hátt. Aðstæður verkafólks í ryðbelti BNA, úthverfum og smábæjum Frakklands og fyrrum iðnaðarsvæðum Bretlands eru auðvitað ekki sambærileg við þau sem almenningur bjó almennt við á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar. En versnandi lífsskilyrðin og tilvistarlega óöryggið, ásamt þeirri tilfinningu að stjórnmálastéttin  þjóni alfarið hinum ríku og skeyti engu um raddir eða vilja fólksins, pólitísk uppgjöf annars vegar og örvænting sem leiðir til blindrar trúar á leiðtoga sem segja það sem fólk vill heyra hins vegar (gósentíð fyrir alls konar con-men m.ö.o.), er vissulega sambærileg 1. Ég skil hreinlega ekki hvernig Snyder getur horft framhjá þessu, eða ekki talið það nauðsynlegt að ræða.

Svo virðist sem Snyder kannist hreinlega ekki við neitt í stjórnskipan, hugmyndafræði eða aðgerðum Vesturlanda sem gæti mögulega hafa orsakað þá djúpstæðu krísu sem við finnum okkur í. Hann talar um Trump eins og einhvers konar utanaðkomandi ógn, sem svindlaði sér til valda með blekkingum og hjálp Rússa (annað stórt atriði í fari Snyder sem ég hef ekki þolinmæði fyrir en hef ekki rúm til að ræða hér: hálf fanatísk tortryggni og jafnvel andúð á nútíma Rússlandi sem hann hefur oft gefið í skyn að sé engu skárra en gömlu alræðisríkin). Hann telur enga þörf á að ræða það sem ég myndi telja vera það mikilvægasta í þessu samhengi: rót vandans. Hvers vegna svo margir hafi kosið frambjóðanda eins og Trump til forseta Bandaríkjanna – það er eitthvað sem hann telur varla skipta neinu máli. Hann ræðir það a.m.k. ekki. Hvað þá að hann telji að það sé einhverja lærdóma af því að draga. 

Heimssýn Snyders er í öllum lykilatriðum sú sem kennd er við frjálslynda (e. liberals) í BNA. Sem sagt: að Vesturlönd hafi vissulega gert „mistök“ hér og þar sem gagnrýnt er þegar þannig liggur við, en þau séu þó óvéfengjanlega siðmenntuð, byggi á æðri gildum eins og frelsi og lýðræði, og vilji ávallt öllum vel. Ásetningurinn er alltaf góður, þó þeim verði stundum á í messunni. Sama þótt þær afleiðingar kosti milljónir manns lífið og leggi heilu löndin varanlega í rúst (Víetnam og Írak sem dæmi). Svo ekki sé talað um viðvarandi arðrán á auðlindum þriðja heims ríkja og þau hryllilegu lífsskilyrði sem þau dæma ódýra vinnuafl sitt til  í sömu ríkjum. Eitthvað sem passar ekki inní þessa heims- og sjálfsmynd og er því aldrei rætt.  

Við ritun þessarar umfjöllunar rakst ég fyrir tilviljun á nýjan pistil eftir Snyder í The Guardian þar sem hann talar um nauðsyn þess að BNA bæti fyrir brot sín gegn frumbyggjum Ameríku. Sem er auðvitað gott framtak og málefni sem ég styð af öllu hjarta. En áhugavert er að sjá hann ræða þetta málefni, stærstu og hryllilegustu útrýmingu og fjöldamorð mannkynssögunnar, á ótal ólíkum siðmenningum og þjóðum, þar sem tvær heimsálfur voru svo gott sem hreinsaðar af fólki á nokkur hundruð árum (atburðir sem nasistar sóttu mikinn innblástur til nota bene) 2, með einhverju þurru, lagalegu tæknimáli ásamt veiku kalli um að axla ábyrgð. Þegar kemur að hryllingi nasismans og stalínismans eru hins vegar ekki spöruð stóru orðin, eldmóðinn og litríka tungumálið. Sagnfræðirit með gildishlaðnari tungumáli en Bloodlands hef ég bara sjaldan eða aldrei kynnst (ég bendi bara á titilinn). Þegar kemur að glæpum BNA hins vegar ræðir hann ekki einu sinni hryllinginn, sýnir sjónarmiðum beggja aðila fyllstu virðingu og skilning, og telur einhver tæknileg lagaatriði vera það sem höfuðmáli skiptir. 

Fyrir Snyder virðist sem svo að Trump sé algjörlega ný ógn við stjórnskipan Bandaríkjanna, eitthvað sem kom eins og þruma úr heiðskíru lofti. Við þurfum bara að streitast á móti og standa í lappirnar gegn þessari ógn, og Snyder kemur með ýmis ráð í því samhengi. Svo virðist sem allt falli aftur í sama, gamla góða farið þá? Ég veit það ekki, það er þó enginn vottur af neinum áhyggjum um að það að Trump hafi getað verið kjörinn forseti Bandaríkjanna, studdur af Repúblikanaflokki sem er hættur að nenna að þykjast hlusta eða taka mark á neinum öðrum en þeim allra ríkustu, og vinna hörðum höndum við að leggja allt það sem eftir er af velferðarkerfi og stofnunum sem þjóna almannahag í varanlegt rúst (þeir gætu í raun ekki hafa fundið sér betri einstakling til að beina athyglinni burt, halda fókusnum á ómerkilegum smáatriðum), sé í raun algjör áfellisdómur yfir vestrænni pólitík og stjórnskipan, tilefni til alvarlegrar naflaskoðunar. Það er augljóst öllum sem vilja sjá það að það er engin leið til baka héðan af, eina leiðin til að stöðva uppgang fasisma er róttækar félagslegar og pólitískar breytingar, nógu miklar handa nógum stórum hluta fólksins að það lægi reiðiöldurnar – eitthvað sem Snyder virðist þó ekki telja neina þörf á af þessu riti að dæma. 

Vissulega er margt nýtt við Trump, áður óséðar og alvarlegar hættur eins og hann bendir réttilega á, t.d. málflutninginn sem rímar vissulega skuggalega við fasisma. En það er pínlegt að sjá hann ræða t.d. undantekningarástand sem tæki nasista til að tryggja sér völd, sem eitthvað til að hafa í huga í framtíðinni, möguleg hætta til að vera á varðbergi gegn, án þess að ræða „stríðið gegn hryðjuverkum“ og alvarlega takmörkun borgararéttinda undir Bush (The Patriot Act), normaliseringu á aftökum á bandarískum ríkisborgurum án dóms og laga undir Obama (veit ekki með Snyder en hann er jú ein helsta hetja frjálslyndra sem forðast í lengstu lög að gagnrýna hann fyrir nokkurn skapaðan hlut) sem virti þar með sjálft Magna Carta að vettugi! (svo ekki sé minnst á morðum á borgurum annarra landa auðvitað, en það hefur alltaf verið í gangi). Hvað þá fangelsisiðnaðinn sem Bill Clinton gerði hvað mest til að blása út og hinir tveir bættu svo í með þeim afleiðingum að það eru mun fleiri í fangelsiskerfi BNA í dag en voru nokkurn tímann í gúlagi Sovétríkjanna. Að sjá Trump og stefnur hans sem einstakt og afmarkað fyrirbæri á slíkan hátt er einfaldlega skilningur sem ég hef enga þolinmæði fyrir. Núverandi ástand átti sér langan aðdraganda þar sem frjálslyndir fræðimenn eins og Snyder þögðu mest megnis þunnu hljóði og stungu höfðinu í sandinn.

Þessi blinda á syndir Vesturlanda á ekki einungis við núna nýlega,  hann nær absúrdískum hæðum með því að mæra Churchill sem hetju sem stóð einn gegn nasismanum. Snyder notar hvert tækifæri til að ræða hungursneyðirnar í Úkraínu og víðar í Sovétríkjunum. Réttilega. Bengal hungursneyðin sem Churchill bar beina og meðvitaða ábyrgð á og kostaði um fjórar milljónir manns lífið virðist þó vera nokkuð sem má bara skauta framhjá? Ásamt öllum hinum glæpunum hans gegn mannkyni, af nógu er að taka. Það er þó ekki það eina:

Í sameiningu, og með hjálp margra annarra bandamanna, unnu þessi þrjú miklu herveldi seinni heimsstyrjöldina. En hefði Churchill ekki haldið Bretlandi í stríði árið 1940 hefði ekki orðið um neina slíka styrjöld að ræða

(bls.67)

Hér er ég ekki alveg viss um hvert hann er að fara, en ég get þó ekki skilið þetta öðruvísi en sama gamla áróðurinn um að Bretland og Bandaríkin hafi unnið stríðið. Hann minnist þó á framlag Sovétríkjanna, sem er meira en hjá mörgum öðrum, það er þó svívirðilegt að setja hlutina fram á svona hátt – eitthvað sem hlýtur að vera viljandi gert og gegn betri vitund. Að láta líta út fyrir að framlag Bandaríkjanna og Bretlands til að ráða niðurlögum nasismans hafi á einhvern hátt verið nándar nærri því sambærilegt er svo augljóslega og borðleggjandi útí hött að slíkt frá einhverjum sem á að heita sagnfræðingur er hreinlega ótrúlegt. Á hann svo við með síðustu setningunni að ef ekki hefði verið fyrir Churchill þá hefði engin styrjöld orðið, afþví að nasistar hefðu bara yfirtekið Evrópu? Svona býst maður við frá Boris Johnson, ekki einhverjum sem vill láta taka sig alvarlega sem fræðimann. 

En þrátt fyrir að Snyder minnist ekki einu orði á kapítalisma þá minnist hann þó á nýfrjálshyggju (bókstaflega einu orði), sem er sú mynd sem hann tók á sig sem viðbragð við olíukrísunni 1973 og hefur verið ríkjandi hugmyndafræði og efnahagsstefna fyrst Vesturlanda og í dag raun alls heimsefnahagskerfisins, eins og ótalmargir fræðimenn hafa rakið og greint á síðustu árum og áratugum 3. Ekki ætla ég að rekja þá sögu sem ætti að vera flestum kunn hér, en nægir að nefna þær afleiðingar sem nýfrjálshyggjan hefur haft síðustu áratugi, þó sérstaklega eftir fjármálakrísuna 2008 sem hún leiddi beint til og mátti minnstu muna að heimshagkerfið færi gjörsamlega á hliðina: atvinnuleysi og óöryggi,  stöðnuð eða hrakandi lífskjör, algjörlega rofið samband stjórnmálaelítu og fólksins, verkalýðsfélög steingeld og gagnslaus (þau sem enn eru til), ásamt almennri örvæntingu og vonleysi sem sést í fjöldanum öllum af faröldrum af félagslegum og sálrænum vandamálum: fíkn, kvíði, þunglyndi, sjálfsvíg, o.s.frv. Þessi atriði, bein afleiðing af efnahagsstefnum sem stjórnmálaelíta Vesturlanda boðar ennþá eins og ekkert hafi í skorist (sumir, eins og Macron, reyna þó a.m.k. að dulbúa þær aðeins), eru einmitt þau sömu og stærsti hluti kjósenda Trumps, Brexit, Le Pen og annarra öfgahægriflokka benda iðulega á þegar haft er fyrir því að spyrja. Maður hefði haldið að þetta væri því lykilatriði í slíku riti, hvernig við stoppum uppgang fasismans sem við sjáum í dag. En Snyder kemur með enn aðra furðulega fullyrðingu:

Sumir gagnrýndu nýfrjálshyggju, í þeim skilningi að hugmyndin um hinn frjálsa markað hefði ýtt öllum öðrum út. Það mátti til sanns vegar færa, en sjálf notkun orðsins sýndi þó vissa þrælslund gagnvart óbreytanlegum yfirráðum

(bls.150).

Hér er ég heldur ekki viss hvað hann er að fara nákvæmlega og ætla bara að láta vera að reyna að krifja það. Þetta virðist vera einhvers konar vörumerki hans, þegar kemur að því að ræða hluti sem skipta máli, að fara útí einhverja óljósa orðaþoku og láta hlutina svo bara gott heita þar. Þetta er hreinlega glórulaust, af ástæðum sem ég hef þegar rætt.

Að því sögðu er þetta þó bók sem ég myndi alveg mæla með. Í ljósi nýlegra og vægast sagt sláandi fregna um að 41% Bandaríkjamanna, og 66% aldamótakynslóðarinnar (e. millennials) viti ekki hvað Auschwitz táknar, þá fagna ég að sjálfsögðu allri umræðu um lærdóma tuttugustu aldarinnar. Að rit Snyders hafi orðið metsölubók er einnig fagnaðarefni. Þýðingin er svo líka mjög góð og Snyder ræðir vissulega áhugaverð og mikilvæg dæmi, með áhugaverðum vísunum í fræðimenn eins og Klemperer og Arendt. 

Vandamálið er bara það að þessi umræða á skilið mun meira en blindan vestrænan bias Snyders sem er svo öfgafullur að hann virkar umfram allt annað kómískur. 4

   [ + ]

1. Fyrir mun dýpri og meira upplýsandi umfjöllun og greiningu á einmitt þessum hliðstæðum okkar tíma og lok 19.aldar og byrjun 20. má sterklega mæla með annarri nýútkominni bók Age of Anger: A History of the Present eftir Pankaj Mishra, bók sem tekst mun betur að gera það sem rit Snyders segist gera.
2. Ein stærsta mýtan í þessu samhengi er að sjúkdómar séu orsökin. Þeir spiluðu auðvitað stórt hlutverk, en það gerði kerfisbundin útrýming Evrópumanna og svo Bandaríkjamanna ekkert síður. Sjá t.d. bók David Stannard: American Holocaust.
3. Einna best Robert Brenner: Economics of Global Turbulence og David Harvey: A Brief History of Neoliberalism.
4. Tek þó fram að ég hef ekki lesið nýjustu bók Snyders, The Road to Unfreedom, svo ég veit ekki hvort hann komi inná einhverja af þessum vanköntum þar.