Úr Jarðarberjatungli

Nornirnar í Bústaðahverfi

Þær drekka melónuvín á morgnanna
í hannyrðabúðinni í Grímsbæ.
Sauma bútasaumskanínur með lafandi augu
í heilagri þögn – með Camel lights í munnvikinu.

Gröfina sem þær grófu í bakgarðinum
fylltu þær með dömunærbuxum, Calluna Vulgaris og fuglabeinum,
fyrir hina drekana sem eru tjóðraðir í svefnherbergjum.
Þær mynduðu þannig sama kraft
og þegar börn fæðast

og þegar tungl springa
og þegar hvalir tala.

Þær drekka melónuvín á nóttunni
og dansa berrassaðar í kringum Grímsbæ.
Páfagaukarnir á öxlum þeirra kroppa í eyrun
hvísla: saudade saudade, þetta endar allt hér.

Trópíska Eden

Herbergið var rennibrautagarður og í honum var alltaf ágúst.
Stærsta rennibrautin krullaðist upp í loft alla leið til himnaríkis.

Ég fór margar salíbunur, tipsí í pínulitlu bikiníi.
Stundum komst þú með, við héldumst í hendur á fullri ferð og skríktum þar til klórinn þrykktist upp í okkur.

Við drukkum marglitaðan kokteil sem ég skírði Sirkús og allir klöppuðu.
Partýgestir fengu blómakrans og hjartalaga sólgleraugu til að þurfa ekki að píra augun.

Við gleymum því aldrei aldrei aldrei, Ingvar E, Eva Sólan og ég hverju við hvísluðum að hvert öðru í heitapottinum.