Ákveðin, afsakandi, fyrirgefandi, kaldhæðin

um Mörufeldur, móðurhamur

Allir vilja að ég hætt’essum ljóðum. Hætti að lesa þau nema kannski í laumi og hætti að birta ljóð.

„Afhverju þykist þú vera of góður fyrir skúffuna, gerpið þitt?“

Þetta er auðvitað helvítis kjaftæði og fólk játar einungis eigin smekkleysu, smáborgaralega fagurfræði og/eða fáfræði með þessum orðum. Sjáið til dæmis bara síðasta ár, tvöþúsundogsautján. Fullt af góðum höfundum gáfu út bækur. Bergþóra Snæbjörnsdóttir, Eiríkur Örn Norðdahl, Fríða Ísberg, Brynjar Jóhannesson, Bubbi, Hallgrímur Helgason. Jónas Reynir, Almar Atlason, Kristín Ómarsdóttir, Svikaskáldin, Dóri DNA, Kött Grá Pjé, Solveig Thoroddsen, Soffía Bjarnadóttir… og örugglega einhverjir fleiri með frábærar ljóðabækur

Einu sinni var ég í rútu með engri loftræstingu. Þegar ég nálgaðist áfangastað opnaði ég gluggann og tók þá eftir því að allir nautgripirnir við þorpið voru dauðir og öll húsin voru í eyði og sandurinn á ströndinni var svartur en ekki hvítur. Á rútustöðinni voru engar dyr en við glugggann var lítið búr með mörgum tegundum af fuglum. Þar með endaðist sá capítuli

Ég man aldrei nöfn en samt tókst mér að neimdroppa hart. Ég man aldrei nöfn og er því mjög líklega að gleyma einhverjum höfundum, að minnsta kosti einum (viljandi! ég vil samt að fólk haldi að ég flæði automatískt áfram og viti ekki sjálfur hvað gerist næst); Guðrún Heiður Ísaksdóttir gaf út bókina Mörufeldur, Móðurhamur síðasta vetur hjá Partus. Bókin er hrárri, ótuktarlegri og meinhæðnari en annað sem ég hef lesið frá Partus/Meðgönguljóðum. Ég taldi mig hafa neglt niður fagurfræði forlagsins en svo kom þessi bók og ég varð að endurskrifa allar mínar kenningar um Partus (þó ekki í fyrsta sinn). Nei, nei, ekki henda strokleðrum, rífa backspace úr takkaborðinu, það mun áfram vera þörf fyrir að stroka út. Ég er fyrir það fyrsta ekkert kennivald og þó svo ég væri það er ég ekki að mæla fyrir því að allar ljóðabækur séu hráar og það fyrsta sem öllum dettur í hug sé frábært. En eftir x-langa legu frá fólki í sömu kreðsunni hættir öllum ljóðum til að vera eins — Seattlehljóðið, 101 hrynjandi.

Endurtekningar eru gagnlegar. Endurtekningar geta verið dáleiðandi. Endurtekningar geta gert stofnanalegan texta lýrískan. Endurtekningar geta gert hversdagslegan texta að galdraþulu. Endurtekning er gagnleg til að búa til takt. Endurtekning getur fengið textabút til að hljóma í höfðum fólks löngu eftir að setningin er hætt að heyrast/sjást og þar með festist hún við óskyldan texta. Endutekning getur búið til eftirvæntingu, fengið lesandann/hlustandann til að spennast upp, hann finnur ekki ró fyrr en hann heyrir rununa aftur.

Í Mörufeldur, móðurhamur enda öll ljóð á:

Þar með endaðist sá capituli.

Leiðarstef Guðrúnar í bókinni er setning úr upprifjun Jóns Grunnvíkings af fyrsta kafla Heiðarvíga sögu, sem glataðist í eldi. Þannig gefur hún til kynna að ljóðverkið sé samansafn ótengdra brota úr hálfgleymdri ævi.

(af heimasíðu Partus)

Endurtekningin í textanum þjónar ekki þeim tilgangi að búa til takt. En endurtekning býr vissulega til einhverja hreyfingu, og óvissu um framhaldið. Hún býr líka til eftirvæntingu og ég hefði örugglega hringt fullur örvæntingar í höfundinn og spurt hvað í fökk væri að ef línuna hefði vantað í einu ljóði. En mikilvægasta hlutverk hennar er margræðnin. Eftir að hafa lesið bókina nokkrum sinnum, hef ég lesið þessa línu með mörgum mismunandi áherslum í huganum. Ákveðin, afsakandi, fyrirgefandi, kaldhæðin. Sum ljóðin sem eru við fyrstu sýn virðast nokkuð svarthvít en verða margradda með lokalínunni:

Ég veit að ég á að vera hamingjusöm af því að það er allt fullkomið í lífi mínu. Í staðinn fyrir að njóta þess þá bý ég til ömurlegar aðstæður og lem mig fyrir framan spegilinn. Í gær áttaði ég mig á því að ég er búin að eyða tíu árum af ævi minni í að brjóta mig niður andlega og eyðileggja það sem fer vel í lífi mínu. Ég veit ekki af hverju ég hata mig svona mikið. Þar með endaðist sá capituli.

Oh, það er eitthvað þægilegt við þetta hversdagslega sjálfshatur textans. Svart kaffi og einlægt sjálfshatur er jafn heimilislegt og dánarfregnir og mjólkurkex. Stundum fyllist ég samt noju þegar ég les textana eftir að hafa heyrt „þar með endaðist sá capituli“ fulloft og sannfærist um að ljóðmælandinn sé að sannfæra mig um að allt muni breytast þegar það er nokkuð ljóst að ekkert muni breytast. Við erum alltaf í sama farinu. Þá les ég textana bara aftur með nýjum áherslum á endurtekningunni og verð aftur jákvæður.

Ég mun aldrei verða svona venjuleg kona með silkislétt hár og óaðfinnalega húð sem ríkisbubbar og stjórnmálamenn og virðulegir menn snobba fyrir og ég mun aldrei verða þannig kona sem fær sendar gjafir og atvinnutilboð frá ríkinu upp að dyrum því ég mun alltaf verða þessi kona sem fer í skýrslutöku hjá lögreglunni eftir fyllerí. Þar með endaðist sá capitulli.

Mig langar að eiga einhverja go-to línu þegar fólk dissar ljóð við mig. Kannski prufa ég næst að segja: Þar með endaðist sá capitulli, hendi bók Guðrúnar í fólk og skelli hurðum. Bókin á eflaust eftir að sannfæra einhverja (og mér finnst gaman að vera dikk).

Þar með endaðist sá capítuli.