Uggur og andstyggð á Kanaríeyjum

Umfjöllun um bókina Uggur og andstyggð í Las Vegas

Um erindi bókarinnar

Það fyrsta sem ég er vanur að spyrja mig þegar einhver ný þýðing (á eldra verki) verður á vegi mínum er hversvegna er þetta að koma út núna? Hvert er erindi verksins við samtímann? Það er kannski ekki nema von að maður velti þessu fyrir sér þegar Uggur og andstyggð í Las Vegas er annars vegar. Bókin kom fyrst út árið 1971 og skapaði talsverðan usla. Gagnrýnendur vissu margir hverjir ekki hvað þeim átti að finnast en dómarnir urðu víst jákvæðari eftir því sem bókin varð vinsælli.  Uggur og andstyggð gekk svo í endurnýjun lífdaga árið 1998 þegar leikstjórinn Terry Gilliam gerði kvikmynd byggða á sögunni með Johnny Depp í aðalhlutverki. Því er kannski ekki skrýtið að maður velti fyrir sér af hverju sagan er að koma út núna á íslensku 46 árum eftir að hún kom fyrst út á frummálinu og 19 árum eftir að kvikmyndin var frumsýnd. Það undarlega er að á sama tíma þykist ég vita að flestar tengingar milli verks eða þýðingar og einhverra brennandi málefna líðandi stundar verða líklega oftast til eftirá. Ég held að í flestum tilvikum þá lesi þýðandinn einhverja bók, hugsar sér svo að hann eða hún geti vel treyst sér til að snúa verkinu á annað tungumál, og hugsanleg útgáfa, erindi verks eða áhugi lesenda verði allt að seinni tíma vandamálum.

Það varð semsagt úr að ég hætti nokkuð snemma að velta þessum vinkli fyrir mér. Reyndar fannst mér bókin strax eiga heilmikið erindi við mig persónulega og mína eigin nálgun í hlutverki gagnrýnanda. Oft þegar ég stari í tölvuna og melti með mér hvern andskotann ég á að segja um einhverja bók þá finnst mér oft eins og ég heyri framtíðarlesendur mína hvísla gegnum auða síðuna:

„Skítt með verkefnið Frissi, hvað með þig? Hvernig hefur þú það?“

Það verður svo gjarnan úr að umfjallanir mínar fara að stórum hluta í að gera þessum ímynduðu framtíðarlesendum til hæfis.

Nú ætla ég ekki að halda því fram að ég sé helsti forsprakki gonzo-blaðamennsku (þó að hugmyndir þeirra Deleuze og Guattari um arðstöngla (e. rhizomes) tali vissulega máli mínu í þeim efnum) þá eru sameiginlegir fletir sannarlega fyrir hendi. Því varð það úr að á meðan ég las bókina þá hugsaði ég meira um erindi bókarinnar við mig persónulega heldur en einhverja víðari menningarlega, félagslega eða pólitíska skírskotun. Þá gerðist nokkuð merkilegt: Hliðstæðurnar fóru beinlínis að hrannast upp.

Martraðarkennd svipmynd úr fríinu á Kanarí.

Á meðan ég las bókina var ég nefnilega staddur á Kanaríeyjum sem ég vil meina að sé staður ekki eðlisólíkur Las Vegas í Bandaríkjunum. Báðir staðir eru að mestu lausir við allt sem kallast gæti staðbundin menning og báðir staðir gera út á ferðamennsku sem byggir í stystu máli á svölun allra heimilislegra fýsna í þægilegu loftslagi. Eins og títt er með alvöru túristastaði þá fann maður stundum fyrir gremju í garð annara túrista þarna, rétt eins söguhetjan í bók Hunters, samtímis því sem maður sýknaði sjálfan sig gjörsamlega af þessum sama stimpli. Ég var ekkert hyski. Bara venjulegur náungi í jogginggalla að halda uppá annað sætið í mínígolfinu með risastórum Bloody Mary kokteil klukkan ellefu um morgun. Ég var þarna til að skrifa mikilvæga bókaumfjöllun! Hyskið, það var fólkið sem hafði ferðast langleiðina upp að ströndum Afríku til að gúffa í sig kálbögglum á norskum bar. Og svo þarna breska fjölskyldan sem reykti út í eitt, fjórtán ára unglingurinn líka, og kannski sérstaklega sjálfur fjölskyldufaðirinn sem var í bol sem á stóð „Choking Hazard“ og svo ör sem benti niður. Hunter S. Thompson/Raoul Duke hefði nú haft sitthvað að segja um þetta fólk.

Óhófslifnaðurinn var skelfilegur. Ringulreiðin algjör. (Þessar fullyrðingar verða kannski að skoðast í því ljósi að ég lifi flesta daga ársins meinlætalífi í Svíþjóð). Enginn tími of heimskulegur fyrir einn skítkaldan. Pizza margaríta í öll mál. Ofaní kaupið bættist svo svefnleysi því ég er smábarnsforeldri. Ég er viðkvæmt lítið blóm sem þarf mína átta tíma. Mér leið stundum eins og ég væri að ryðga.

Skipulagt kaos: Um sjálft verkið og þýðinguna

Þegar ég las þessa þýðingu var orðið nokkuð langt síðan ég las bókina á frummálinu en í þetta skiptið kom það mér nokkuð mikið á óvart hversu vel skipulögð bókin er, tja, þrátt fyrir alla óreiðuna. Þessi bók sem hefur þá áru eða kannski frekar það orðspor að vera höfuðrit einhverskonar ofur-huglægra belg-og-biðu vinnubragða er kannski meira vandlega unnin heldur en við fyrstu sýn. Helstu þemu bókarinnar – hnignun ameríska draumsins og uppgjör á helstu vonum og vonbrigðum hippatímans – eru sett fram á furðulega skipulegan og úthugsaðan hátt. Virðing mín fyrir bókinni sem skáldsögu jókst talsvert í þetta skiptið, til dæmis þegar ég sá í viðauka þýðingarinnar að áhrif eins vímuefnisins í sögunni, „adrenókróm“, er skáldað eða ýkt, þá styrkir það þá trú manns að hlutverk allra þessara efna og allrar þessarar neyslu sé að þjóna einhverri stærri frásögn og styðja við einhverjar merkilegri hugmyndir. Þetta séu ekki bara dagbókarslitur uppúr gólfinu á einhverju hótelherbergi eftir erfiða nótt heldur séu hér stærri abstrakt hugtök á sveimi. Þýðandinn sjálfur, Jóhannes Ólafsson, gengur svo langt að kalla bókina „heimspekilega skáldsögu“ (268) sem kallist á við tilvistarspeki Sartres og Kierkegaards. Í þessu samhengi er líka merkilegt að nefna að vímuefnaneyslan í bókinni gengur nokkurnveginn á skjön við gremju söguhetjunnar yfir hinum koðnuðu draumum hippatímans um betra, eða að minnsta kosti opnara og áhugaverðara samfélag. Söguhetjan gerir sér fulla grein fyrir því að vímuefnanotkun hippana var aldrei að fara að skila neinum raunverulegum samfélags- eða hugarfarsbreytingum ein og sér. Þannig leit höfundurinn á sýrugúrúinn Timothy Leary (sá hugðist „kveikja á“ fólki með því að setja LSD í vatnsból heillar borgar) sem mesta falsspámann og hefur lýst því annarsstaðar að hann fyrirlíti Leary meira en sjálfan erkióvininn Richard Nixon.

Þýðingin er í stuttu máli vel unnin. Bókin hefur nokkuð rösklegt tempó og hið sérkennilega tungutak hennar kemst ágætlega til skila. Ég hafði líka mikið gagn af eftirmála bókarinnar og öðrum viðaukum sem útskýra ýmis atriði betur eins og til dæmis allt það fólk sem nefnt er á nafn í bókinni svo og öll þessi efni sem söguhetjan setur í sig en hvort tveggja eru atriði sem eru fólki kannski ekki jafn tungutöm nú og þau voru þegar sagan kom út.

Uppgangur fasismans og gjáin milli fólks

Eins og ég minntist á hér að ofan þá má lesa bókina sem uppgjör við hippatímann. Sögumaður upplifir sig á ákveðnum tímamótum og honum gremst hvernig hlutirnir virðast vera að þróast í Bandaríkjunum og víðar. Gremjan er augljóslega sprottin uppúr réttlátri reiði sem svo aftur virðist eiga upptök sín í væntumþykju fyrir þeim gildum sem höfundi finnst vera á hverfanda hveli. Græðgi, smekkleysi og uppgangur fasískra afla eru höfundi þannig mikið áhyggjuefni. Þetta kemur hvað skýrastr fram þegar hann mætir á lögregluráðstefnu um vímuefnavandann, hlustar á ræður og ræður við fólk. Gjáin milli jaðarhópsins sem Thompson/Duke tilheyrir og meginstraumsins sem ráðstefngestir tilheyra er gapandi. Í þessu samhengi fannst mér gott að rifja upp að mín eigin barnalega skýring á uppgangi fasisma byggir á að finna hinn allra lægsta samnefnara fasískrar hneigðar. Þetta er að mínu viti annarsvegar tilhneigingin til að geta ekki unað öðru fólki að gera það sem því sýnist og hinsvegar hvötin til að finnast aðrar manneskjur vera hyski. Þetta tvennt er skinkan og osturinn á hinni grilluðu samloku fasismans og þarna erum við við Thompson/Duke kannski ekki alveg saklausir, rétt eins og túristinn sem sér túrista í hverju horni en er þó enginn túristi sjálfur. Hvern andskotann á ég með að dæma einhvern fyrir að ganga í bol með mynd af hana og áletruninni „Stop staring at my cock“? Það er stóra spurningin.