Að vanda til verka

Um Mannasiði eftir Maríu Reyndal

Páskamynd RÚV, Mannasiðir eftir Maríu Reyndal, hefur vakið mikla athygli enda á hún brýnt erindi við samtímann. Hún smellpassar inn í þá umræðu um kynbundið ofbeldi sem hefur verið ríkjandi í samfélaginu undanfarið. Myndin, sem sýnd var í tveimur hlutum, fjallar um menntaskólastrák sem er sakaður um að hafa nauðgað skólasystur sinni og áhrif þess á alla sem málið varðar.

Myndin í heild er sannfærandi. Umhverfið er klippt út úr reykvískum samtíma. Heillandi heimili fjölskyldunnar og þekktar byggingar (t.d. Menntaskólinn við Hamrahlíð og höfuðstöðvar ríkisútvarpsins) mynda kunnuglegan heim sem gerir myndina raunverulega. Unglingatíska og unglingamenning fær að skína. Úlfur Eldjárn sá um tónlistina og var nýrri íslenskri tónlist er gert hátt undir höfði. Lög Loga Pedro voru mjög áberandi og átti tónlist hans vel við þessa umfjöllun um heim unga fólksins.

Ungir leikarar eru í burðarhlutverkum myndarinnar. Eysteinn Sigurðsson fer með hlutverk menntaskólanemans Einars, meints geranda, og Ebba Katrín Finnsdóttir fer með hlutverk skólasysturinnar Elínar, þolandans. Tinnu, systur Einars, leikur Álfrún Laufeyjardóttir. Þau eiga öll hrós skilið fyrir áhrifaríka frammistöðu. Sveinn Ólafur Gunnarsson og Sólveig Guðmundsdóttir, sem fara með hlutverk foreldranna í verkinu, voru einnig mjög sannfærandi og saga þeirra ekki síður grípandi en saga yngri kynslóðarinnar. Vandað er til verka á öllum sviðum myndarinnar. Með henni sýnir íslenskt kvikmyndgerðarfólk hvað í því býr og hvaða möguleika íslenskt sjónvarp hefur upp á að bjóða.

Í Mannasiðum er áhersla lögð á það hversu erfið nauðgunarmál eru fyrir alla sem koma að þeim. Tvær sögur stangast á og afar erfitt reynist að sanna glæpinn. Sýnt er frá ferlinu sem Elín gengur í gegnum og þannig fjallað um sönnunarbyrðina sem liggur alfarið hjá þolendum kynferðisofbeldis. Bæði Elín og Einar fá tækifæri til að segja frá atburðum þessa örlagaríka kvölds. Þá koma ólík sjónarhorn fram. Það kemur ekki fram hvað gerist bak við luktar dyr og áhorfandinn fær tækifæri til að álykta sjálfur hvað hefur raunverulega gerst.

Framan af er samúðin með gerandanum, Einari, til jafns við Elínu. Áhorfandinn stendur sjálfan sig jafn vel að því að vera farinn að finnast Elín óþolandi, að hún hafi ákært Einar fyrir athyglina og með því eyðilagt líf heillar fjölskyldu. Vera hennar á samfélagsmiðlum er gerð hálf kjánaleg. Dregin er upp mynd af ungri konu sem nýtir sér samfélagsmiðla, #metoo og vinsældir til að koma illu orði á ungan mann. Með þessari aðferð við að miðla sögunni er lögð áhersla á áhrifin sem almannarómur hefur á þá ákvörðun þolenda að stíga ekki fram með sögur sínar og leggja fram kæru.

Gerandinn verður hér um bil að þolanda í augum áhorfenda, hann er útskúfaður úr vinahópnum, allt fer í háaloft á heimili hans á meðan hann horfir á gjörsamlega hjálparvana.  Lífið á heimili Einars breytist til muna eftir ákæruna. Hvöss orðaskipti og samskiptaleysi fara að einkenna líf foreldra Einars og systur þar til sterk fjölskylduböndin virðast ætla að rofna.

Menn sem nauðga geta verið góðir menn. Góðir menn gera mistök. En „mistökin“ eru of algeng. Þetta vandamál er stærra en myndin gefur kannski fyllilega í skyn. Lögð er áhersla á að ungur maður sem ætlar sér ekkert illt getur nauðgað, jafn vel án þess að gera sér grein fyrir því hvað hann hafi gert.

Myndin er byggð upp sem dæmisaga um það að hver sem er getur gert grafalvarleg mistök. Hún fjallar um aðstæðurnar sem myndast í kringum erfitt nauðgunarmál og áhrifin sem það hefur á fólkið í kring. Þessar aðstæður eru hins vegar allt of algengar til þess að hægt sé að afgreiða þær sem einsdæmi. Það hefði mátt skýra betur frá hlutverki samfélagsins. Taka hefði mátt dæmi um hvaða orsakir liggja að baki þessa vandamáls. Há tíðni nauðgana er eitthvað sem þjóðfélagið í heild þarf að bera ábyrgð á og bregðast við. Það þarf að breyta einhverju í uppeldi og mótun innan samfélagsins frekar en að afgreiða nauðgun sem mistök einstaklings sem vinna þarf úr. Auðvitað er hvert og eitt mál mikilvægt í sjálfu sér en í samfélagsádeilu eins og þessari mætti vera skýrari ádeila á sjálft samfélagið.

Það er þó nokkuð ljóst að þetta atriði hefur ekki alveg gleymst við gerð þáttanna. Einar er til dæmis staðinn að því að hafa verið að horfa á klám. Það mætti gera meira úr þessu atriði, sýna með skýrum hætti áhrif samfélagslegrar mótunar á unga drengi eins og Einar. Þeir sem eru meðvitaðir um þátt samfélagsins eru líklegir til að átta sig á áhrifum kláms á framferði Einars. En þeir sem þurfa á annað borð á þessari vitundarvakningu að halda eru kannski ekki jafn líklegir til að átta sig á merkingu slíkra smáatriða.

Elín fær á endanum tækifæri til að segja frá sinni hlið á málinu. Umræður á netinu undir merkjum #höfumhátt og #metoo virðast vera Elínu ákveðið haldreipi á þessum erfiðu tímum þar sem skrifræði dómskerfisins reynist henni illa. Þrátt fyrir að hún hafi stuðning samfélagsmiðanna virðist það duga skammt. Hún er ein á báti eftir að hún ákveður að hætta í skóla til að forðast því að mæta Einari. Hún gengur ein í gegnum langt og erfitt ferli. Hún mætir fagmannlegu en köldu viðmóti á þeim stofnunum sem fara með meðferð málsins. Gagnrýnt er hve miklum hindrunum þolendur nauðgana standa frammi fyrir ef þeir ákveða að leggja fram kæru. Að lokum virðist Elín þó vera reynslunni ríkari og kemur á endanum fram sem sterkur talsmaður gegn kynbundnu ofbeldi. Lögð er áhersla á mikilvægi þess að tala saman og reyna að finna sátt við sjálfan sig og aðra.

Mannasiðir er saga um venjulegt fólk í íslenskum samtíma og því dregur myndin fólk að skjánum. Sú aðferð að sýna frá reynslu og tilfinningum bæði þolenda og gerenda er áhrifarík leið til að ná til áhorfenda. Myndin fær vonandi einhverja, sem eru ekki meðvitaðir um ábyrgð samfélagsins á nauðgunarmenningu, til þess að leggja við hlustir. Mannasiðir er afar vandað sjónvarpsefni sem er íslensku kvikmyndagerðarfólki til sóma. Verkið er áminning til samfélagsins um að vanda til verka í mannlegum samskiptum, við úrvinnslu erfiðra mála og ekki síst við forvarnir gegn þeim. Myndin er mikilvægur þáttur í langri keðju þarfrar vitundarvakningar sem bindur vonandi enda á nauðgunarmenningu með tíð og tíma.