Þar sem kvíðinn á heima

Um fyrstu sex bækurnar í seríunni Tólf eftir Brynjar Jóhannesson

Ég er að gera þetta vitlaust. Ég geri alltaf allt vitlaust. Bækurnar tólf – í seríunni Tólf – eftir Brynjar Jóhannesson koma til mín allar í einum pakka. Umslagi með hörðu baki. Þær komu út ein í mánuði allt árið 2017 og maður átti að mjatla þeim ofan í sig, einni í einu, en nú liggja þær á skrifborðinu mínu einsog doðrantur. Tólf bækur.

Ágætis vinkona mín, finnska ljóðskáldið Henriikka Tavi, gaf árið 2012 út tólf ljóðabækur, í tengslum við doktorsritgerð sína frá Jyväskylä-háskóla. Eina í mánuði. Rök hennar fyrir þessu tiltæki voru efnahagsleg. Ef maður ætlaði að lifa af því að gefa út ljóðabækur, sagði Henriikka – slaga í lágmarkslaun, eða í það minnsta hungurmörk – þá þyrfti maður að gefa út að minnsta kosti eina bók á mánuði. Ég veit ekki hvort nokkuð slíkt vakti fyrir Brynjari en hann hefur látið hafa eftir sér, í viðtali á Starafugli, að hugmyndin sé að hefja hráleikann til vegs og virðingar.

Ætli það haldist ekki svolítið í hendur að vinna hratt og skrifa hátt. Að minnsta kosti hrátt. Þegar ég skrifa handrit, brýt um og hanna kápu á einum mánuði er hálfútilokað að þetta verði pent og fallegt. Ég hefði heldur ekki farið út í svona verk ef það væri ætlunin. Og svo kemur hávaðinn svolítið eðlilega með hraðanum, finnst mér.

Tilhneigingin í sjálfs- og smáútgáfu síðustu árin hefur frekar verið í hina áttina – bækurnar hafa kannski ekki verið dýrar og innbundnar en ritstjórnarferlið hefur verið langt og mikill „alvörusvipur“ á útgáfunni. Brynjar stillir sér að talsverðu leyti gegn þessu – en umfangið, þó ekki væri annað, krefst þess samt að maður taki þetta alvarlega.

JANÚAR: ÉG

Ég er stór

heill heimur

svo stór að ég get ekki hugsað mig
get ekki rúmað mig

Fyrsta bók ársins er bók skáldsins, ljóðmælandans: á forsíðu situr Brynjar Jóhannesson sjálfur með byssufingur á hækjum sér og virðist vera að skíta í ruslagám. Symbólisminn æpir á mann. Bókin ryðst svo strax af stað einsog hún rúmi varla sjálfa sig; þetta er kláði og æði og æðislegt og þreytandi og æðislega þreytandi og bara þreytandi. Boring boring og unboring boring, svo maður snúi út úr fyrir ameríska skáldinu Kenneth Goldsmith.

Á ári sem verður sennilega minnst sem ári góða fólksins (og/eða hasstaggana) byrjar ljóðmælandi á að spyrja hvar góða fólkið sé?

Hvar er góða fólkið þegar ég er misskilinn. Hvar er góða fólkið þegar ég fæ kvíðakast í vinnunni en get ekki sagt neinum og þarf að halda áfram að þykjast í lagi fyrir framan óteljandi börn sem öskra og hlaupa og toga mig hingað og þangað. Hvar er góða fólkið þegar ég er lítill í mér og enginn hlær að bröndurunum mínum.

#karlmennskan. Það má með sanni segja að góða fólkið hafi svarað kallinu.

Það eru vel að merkja engin spurningamerki í þessu ljóði – því einsog Gertrude kvað um árið

There are some punctuations that are interesting and there are some punctuations that are not. Let us begin with the punctuations that are not. Of these the one but the first and the most the completely mostuninteresting is the question mark.

FEBRÚAR: FLUGVÉL

tökum flugið gjúgg í borg í bæ hvað ert það þú sem ert bæjarstjóri hér þá meina ég menningarlega tökum flugið sem minnkar landið

Flugvél hefst rólegar en Ég (þetta er ekki byrjunin hér að ofan heldur úr miðri bók) en er fljótlega komin aftur á sömu slóðir: Áfengi, kynhvöt og kvíði eru lykilhugtök og þau ryðja sér ofan í mann með óskipulögðu offorsi, ekki einsog verið sé að fita gæs með vél, meira einsog Alicia Silverstone gubbar matnum upp í börnin sín. Það er eitthvað við bókina, sérstaklega fyrri hluta hennar, sem manni finnst þannig samhangandi að það sé einsog hún hafi hreinlega verið skrifuð í einu andartaki – eða hugsanlega í flugtaki. Editerað, en ekki mikið, og samfelld hugsun.

Í síðari hluta eru svo stakari athugasemdir – næstum AndraSnæslegar. „þegar þú ert lítill kall að kaupa í matinn / horfa aðrir niður í gegnum skýin“.

MARS: OG

Og er límið í tilverunni, samtengingin sem gerir ekkert annað en að festa hluti saman.

þar sem tvö fyrirbæri
koma saman

þar er og

Það var og.

Mörg skáld hafa í gegnum tíðina verið upptekin af hliðskipun orða og fyrirbæra; því hvernig má raða upp óskyldum eða lítt skyldum hugtökum og skapa spennu á milli þeirra. Allen Ginsberg vildi meina að þessi tækni væri sambærileg við strokbyltingar Cézannes í málaralistinni, að þær veittu tungumálinu meiri dýpt – gerðu heim þeirra þrívíðan og fjórvíðan og fimmvíðan. Dæmið sem er gjarnan tekið er vetnisglymskrattinn (hydrogen jukebox) úr Ýlfri (Howl). Vetnið mætir glymskrattanum (og glymurinn skrattanum, jukeið boxinu) svo úr verður eitthvað allt annað – einhver hringiða sprengikrafts. Og beitir þessari tækni í sjálfu sér sparlega en hún fjallar eiginlega meira um hana.

og hestur og tölva verða að tölvu ofan á hesti eða mynd af hesti í tölvu eða tölvan og hesturinn verða eign einhvers eins og Sammi á bíl og hest og tölvu og ogið er að Sammi eigi hest og Sammi eigi tölvu og kannski er ogið bara samhengi hlutanna eins og skúringakona og eldflaugabensín. Þetta er eldfimt og.

Og skúringarnar og eldflaugabensínið eru eilíflega endurkomandi – þau eru vetnið og glymskrattinn sem okkur er gert að íhuga.

APRÍL: STRÍÐ

Ég á eintök 31 og 32 af Stríði. Annað fékk ég í áðurnefndum bunka en hitt eignaðist ég fyrr. Í einhverjum skilningi er ég – einsog svo oft, af svo óteljandi ástæðum – óhæfur til þess að segja nokkuð um hana. Höfundurinn, þessi Brynjar sem skítur í ruslagáma, gaf mér hana nefnilega á upplestri og sagði að hún væri innblásinn af ljóði sem ég gaf út 2003 – Það er ekki að fara að hefjast neitt stríð – í Nihil Obstat. Og nú er það sem sagt hafið, sagði hann, nú er stríðið hafið. Ég var í fyrsta lagi skelfingu lostinn – var hann að kasta hanskanum? átti ég að kýla hann? ég sem skildi byssustinginn eftir heima – og rjóður í framan af því sem ég upplifði auðvitað sem smjaður. Miðaldra karlmenn eiga ekki stærri hjúkkit augnablik en þegar yngra fólk gefur í skyn að þeir séu relevant. Þannig virkar nú bara egóið í okkur. Sorrí not sorrí.

Bókin er óðamála, einsog stríð, og hún gerist í samtíma sem er í senn óþolandi seif og óþolandi óöruggur.

kannski ef þeir sprengdu höfn í hornafirði hætti ég að vera með samviskubit yfir áhyggjum mínum

Hún er allur kvíðinn og allt kvíðaleysið og kvíðinn yfir kvíðaleysinu og hversdagurinn og óþolandi fréttirnar – óraunverulegar sprengjurnar sem maður finnur ekki fyrir, bælir kannski, og sofnar með í hjartanu áður en  maður vaknar aftur í sprengjulausum veruleikanum og fer í skólann. Eða, þið vitið, Brynjar fer í skólann, við hin förum í vinnuna (nema þau okkar sem eru í skóla eða eru atvinnulaus eða í fríi eða í stríði).

MAÍ: SUÐ

Stuttir titlar. Síðustu tveir hálfríma. Tveir hingað til hafa verið tveir bókstafir (Og og Ég).

Byrjunin á Suð er enn hægari en í Flugvél og það er ekki laust við að mann langi dálítið að dvelja við í þessari mótsagnakenndu kyrrð.

ég hækka í græjunum
til þess að
heyra
í eigin hugsunum

fyrir suðinu í ljósaperunum
í viftunni
og í ísskápnum

Þetta er þægilegur staður. Ég las þessi orð líka með heyrnartól á hausnum til þess að drekkja suðinu í loftræstikerfinu og lofthreinsivélinni, svo það sé bara sagt. En Brynjar veður af stað aftur og brátt lemur mann orðagnóttin, hvað sem líður heyrnartólum og öðrum varúðarráðstöfunum. Það er ekki laust við að manni finnist vinnumórallinn hjá þessum ljóðmælanda/skáldi – sem sagðist fyrir nokkrum bókum hata vinnu – vera í það mesta.

Stafrænt er alltaf líkamlegt, allt í skýinu er á sterkum iðandi hörðum diskum og hversu mikið sem þig langar upp úr hvirflinum eru hótanirnar þykkari en súrefnissameindir og tölvupósturinn fer úr símanum mínum upp í geim og aftur til jarðar í birgi fullu af hörðu efni. Allt snýst og skýst svo með krókaleiðum í fartölvuna þína á örskotsstundu í minni óþökk.

Þetta er fallegt. En hausinn á mér er að gefa sig.

JÚNÍ: KRAKÁ

Það vantar alla grimmd í þig, pjakkur
litli sæti strákur, sagði hún
alla grimmd og strauk mér um höfuðið.
Vantar alla grimmd í þig, maður
sagði hann og kýldi mig í öxlina
ekki fast,
aldrei fast
rétt svo að mig verkjaði
ekki arða af grimmd í þér.

Eftir að hafa gefið út fimm bækur fær Brynjar styrk til þess að fara til Krakár í Póllandi og skrifa þá sjöttu. Þetta er ekki óalgengt mynstur en alla jafna gefur fólk út sínar „fimm bækur“ á lengri tíma. Kannski tólf árum. Eða lengur. Sigfús Daðason gaf út fyrstu sex á 41 ári. Ferill Brynjars er hraðari en flestra.

Það er annað tempó í Kraká. Það er kannski sumarfrí í henni. Eða í það minnsta slökun – eða allavega 25% minni kvíði og það þrátt fyrir að höfundur gefi sér tíma til þess að fá samviskubit yfir því að skrifa ekki um helförina (enda útrýmingarbúðir í næsta bæ). Ljóðmælandi reynir að skilja heimamenn, fer á ljóðaupplestra og getur í eyðurnar, bendir á brauðin í bakaríinu og matseðlana á veitingahúsunum – hann lifir lúxuslífi, hefur mest áhyggjur af því hvort hreingerningakonan komi ekki áreiðanlega í dag (hún kom ekki í gær) og borðar á sig gat dag eftir dag, slæpist og starir út í loftið. Og samt segjast félagar hans þarna úti, meðslæpingjar hans, ætla að koma til Íslands sem flóttamenn og hafa greinilega ekki lesið fyrstu fimm bækurnar, lifa sennilega í einhvers konar blekkingu um Ísland, og þó – kannski fer jafn vel um þau í Reykjavík og fór um höfund/ljóðmælanda/Brynjar/plús-x/ég-ið í Kraká. Kannski er kvíðinn bara heima, sama hvar maður á heima.

Dómur um síðari sex bækur seríunnar Tólf birtist síðar.