Walter Deverell, 1850. 2. þáttur, 4. sena.

Staffadjamm fer úr böndunum

Atburðarás
Tvíburasystkinin Víólu og Sebastían frá Messínu rekur á land í Illyríu eftir skipbrot, og halda bæði að hitt hafi farist. Víóla ákveður að dulbúa sig sem karlmann og gerist hirðmaður Orsínós greifa, sem er við það að veslast upp af ást til Ólivíu, ungrar aðalskonu í nágrenninu sem vill ekki hlusta á neinar kvonbænir, enda nýbúin að missa bæði föður sinn og bróður. Allt heimilið syrgir, eða á að gera það, en drykkfelldur frændi Ólivíu er sestur upp hjá henni, með fávísan aðalsmann í föruneyti sínu og þeir drekka allar nætur, stundum í félagsskap fíflsins Feste og í skjóli þjónustustúlkunnar Maríu. Brytinn Malvólíó hefur horn í síðu djammaranna og svo fer að þeim tekst að narra hann til að gera hosur sínar „grænar“ fyrir húsmóðurinni, sem álítur hann geggjaðan og lætur loka inni. Samhliða þessu hefur Víóla orðið ástfangin af Orsínó, án þess að geta tjáð honum ást sína sakir dulargerfisins, og Ólivía fallið fyrir Víólu, sem greifinn hefur sent á hennar fund með ástarjátningar. Allt leysist þetta farsællega þegar bróðirinn Sebastían birtist. Ólivía fær hann, Orsínó fær hina afhjúpuðu Víólu og drykkfelldi frændinn hverfur á braut með Maríu. Malvólíó hyggur á hefndir.

„Þrettándakvöld hef ég aldrei séð á sviði.“

Ég var ekki fyrr búinn að setja þessa setningu niður en rann upp fyrir mér að víst hef ég það séð. Meira að segja skrifað um það leikdóm í Morgunblaðið. Þetta var líka hið nafnkunna Rustaveli-leikhús, þjóðleikhús Georgíumanna, sem sló í gegn á Vesturlöndum með brilljant túlkun á Ríkarði III 1979. Nú var sami leikstjóri mættur á Listahátíð í Reykjavík 2004 með Twelfth Night, or What You Will.

Flott orð, Twelfth. Sjö stafir, einn sérhljóði.

Eins og þeir sem nenna að lesa dóminn sjá var ég hæfilega hrifinn, og eins og ráða má af fyrstu setningu þessarar greinar var sýningin ekki sérlega eftirminnileg. Eitt rifjast þó upp fyrir mér. Komið hafði verið fyrir textaskjá fyrir ofan sviðið svo grúsískan stæði ekki í vegi fyrir skilningi á gangi mála. Þó ég sé sæmilega verseraður í verkinu var skjárinn sífellt að fanga athyglina. Glórulausast var það samt þegar jólaguðspjallinu var skotið inn í sýninguna og maður glápti á orðin „Það bar til um þessar mundir að boð komu …“ og svo framvegis. Eins og þetta væru spánýjar fréttir.

Ég þusa svolítið yfir því í dómnum að Robert Sturua skildi endilega vera að leggja svona út af nafni verksins, enda með það á hreinu að það væri jafn kæruleysislega valið og önnur kómedíunöfn Shakespeares um miðbik ferilsins. Þá var ég heldur ekki búinn að lesa Ardeninngang Keir Elam. Þar er farið rækilega í saumana á hinum ýmsu vísunum verksins í fyrstu dagana í lífi Jesúbarnsins, og öll dýrlinganöfnin sem Shakespeare dritar á persónur sínar (Sebastian, Antonio, Andrew, Valentine), og hvernig hátíðisdagar þeirra safnast saman í upphafi árs, upp úr þrettándanum.

Þetta eru nú samt mjög „lesbundnar“ tengingar. Bókmenntalegar og þrífast illa á leiksviði. Fyrir utan hina almennu stemmingu í húsi Ólivíu þar sem starfsfólk og slímsætir gestir djamma allar nætur þrátt fyrir sorgina sem húsmóðirin vill að ríki ein, og vanmáttugar tilraunir siðameistarans Malvólíós til að halda uppi aga. Jólin eru ekkert verri bakgrunnur fyrir þetta en hver annar, og þá leið fór Kenneth Branagh í mjög fínni sjónvarpsmynd sem hann gerði uppúr leikritinu, með jólatré og snjó í rómantískri umgjörð.

Og talandi um djamm og staff: Þetta er eina leikrit Shakespeares þar sem þjónustufólk er, ef ekki hreinlega í aðalhlutverki (það má lengi rífast um hver er í því hér) þá alla vega í forgrunni og að minnsta kosti jafn-nostursamlega teiknað og litað og húsbændurnir. Þjónustustúlkan fær meira að segja að giftast aðalbornu partýdýri utansviðs í lokin.

Önnur sérstaða felst í umfangi tónlistar. Hvergi er sungið eins mikið í kanónunni, eða talað um tónlist, söng og dans. Verkið hefst náttúrulega á ástsjúkum Orsino greifa að biðja músíkanta sína að endurtaka lag:

If music be the food of love, play on;
Give me excess of it, that, surfeiting,
The appetite may sicken, and so die.
That strain again! it had a dying fall:
O, it came o’er my ear like the sweet sound,
That breathes upon a bank of violets,
Stealing and giving odour! Enough; no more:
‘Tis not so sweet now as it was before.
O spirit of love! how quick and fresh art thou,
That, notwithstanding thy capacity
Receiveth as the sea, nought enters there,
Of what validity and pitch soe’er,
But falls into abatement and low price,
Even in a minute: so full of shapes is fancy
That it alone is high fantastical.

1.1.1–15

Ein frægasta byrjunarræða safnsins. Sem reyndar er oft færð aftur fyrir 1.2., og hinna mjög svo óljóðrænu en lógísku byrjun:

VIOLA
What country, friends, is this?

CAPTAIN
This is Illyria, lady.

1.2.1–2

Fyrirferð tónlistar í Þrettándakvöldi hefur lengi verið tengd við þýðingarmikla breytingu í leikaraliði The Lord Chamberlain’s Men, eins og kompaní Shakespeares hét á þessum árum og mætti snarast sem Leikfélag starfsmannastjórans. Um aldamótin 1600 komst rót á einn af burðarásum félagsins, grínistann Will Kempe. Ekki er vitað hvað gekk á, né nákvæmlega hvenær Kempe skellti endanlega á eftir sér hurðinni, en í Twelfth Night kveður augljóslega við annan trúðatón en áður. Feste er skrifaður fyrir annarsslags mann. Sá hét Robert Armin, sem virðist hafa verið bæði ljóðrænni og kassavanari performer en leikmyndanagarinn og spunarokkurinn forveri hans. Mig grunar reyndar að hinn anarkíski Kempe eigi alveg sinn skerf af sköpunarverkum á borð við Falstaff og Spóla, fyrir utan augljós spunaeinkenni grínsins í Two Gentlemen.

Mikilvægast er þó að Armin var ekki síður söngvari en grínisti. Svo nú er meira sungið, og það eru fíflin sem kveða sér hljóðs. Touchstone í As You Like It er stundum talinn debúthlutverk Armins, en mér finnst hann vera meiri Kempe-týpa. Jarðbundinn graðkall sem ekki syngur. En hann gæti vissulega verið skrifaður með Kempe í huga, en leikinn af Armin eftir að forverinn rauk á dyr. Um það fáum við aldrei að vita.

Svona pælingar um leikhóp Shakespeares hafa skotið upp kollinum öðru hverju í þessum skrifum, og eru nýr angi minnar Shakespearedellu, hef hingað til hugsað mest lítið um þetta. En það er margt skemmtilegt að spá í. Fyrr hef ég minnst á að í þremur leikritum frá 1594 til svona 1598 er sérstaklega talað um að ein stúlkan sé óvenju lágvaxin, svo sennilega hefur einn stelpustrákanna verið lágur til hnésins. Um svipað leyti er líka einhver í hópnum velskumælandi og með þekkingu á siðum og þjóðtrú þar um slóðir, og setur svip sinn á Falstaff-leikritin þrjú, Henry V og Drauminn.

Við höfum held ég líka talað um Jon Sinklo/Sinclair, sem átti langan leikferil samhliða Shakespeare og vitað er að lék í verkum hans, mest smáhlutverk. Sinklo virðist hafa haft það sér til ágætis að vera renglulega vaxinn, svo mjög að hlutverk voru „sérsniðin“ á hann, þeirra frægast sennilega lyfsalinn í Romeo and Juliet. Trúlega hefur væskillinn Sir Andrew Aguecheek í leikritinu sem hér er undir líka verið á heimavelli Jons og jafnvel hans stærsta hlutverk.

Við minntumst nýlega á að í kringum aldamótin 1600 hafi greinilega verið tveir frábærlega hæfileikaríkir drengir í liðinu þegar krefjandi kvennapör eru áberandi í nokkur ár. Twelfth Night er síðasta verkið í þeirri röð með þær „ástkonur“ Oliviu og Violu í framlínunni.

As You Like It og Twelfth Night eru gjarnan sögð tindarnir tveir á gleðileikjasmíð Shakespeares. Það er alveg verjanleg skoðun, þó Draumurinn og Much Ado séu skemmtilegri og The Tempest sé á sínum eigin háa prívatstalli hjá mörgum aðdáendum. Þetta eru giska ólík verk. Í AYLI er ástin og samlifið skoðað úr ýmsum áttum og skeggrætt um bæði sturlun ástarinnar og möguleika á hjónalífshamingju. Allt slíkt er mjög til hliðar í TN. Þrátt fyrir kynuslann er allt frekar línulegt, þríhyrningur Orsínós, Víólu og Ólivíu mjög jafnhliða. Það er samt svolítið gaman af samtali „strákanna“ um hvað ástartilfinningar karla eru mikið merkilegri og dýpri:

ORSINO
There is no woman’s sides
Can bide the beating of so strong a passion
As love doth give my heart; no woman’s heart
So big, to hold so much; they lack retention
Alas, their love may be call’d appetite,
No motion of the liver, but the palate,
That suffer surfeit, cloyment and revolt;
But mine is all as hungry as the sea,
And can digest as much: make no compare
Between that love a woman can bear me
And that I owe Olivia.

2.4.93–103

Víóla/Sesaríó er sammála sínum manni um að sitt er hvað ástir kvenna og kalla, en auðvitað líka á öndverðum meiði:

We men may say more, swear more: but indeed
Our shows are more than will; for still we prove
Much in our vows, but little in our love.

2.4.116–118

Öllu dýpra kafar TN ekki í samskipti kynjanna.

Tindarnir tveir eru líka ólíkir að formi. AYLI er dálítill óskapnaður en fullt af skondnum atvikum, persónum og tilsvörum. TN er aftur á móti haganlega plottað og „atburðadrifið“. Almennt er ég meiri Þrettándakvöldsmaður.  Betur gert leikrit í flesta staði myndi ég segja. Fyndnin er t.d. fyndin, sem hún er ekki nema sjaldan í AYLI, eða hjá Shakespeare heilt yfir. Feste á t.d. betri einlínunga en Touchstone.

fools are as like husbands as pilchards are to herrings; the husband’s the bigger:

3.1.34

Eða þegar aulinnn sir Andrew löðrungar Sebastían sem hann heldur að sé væskillinn Sesaríó (tvíburasystir Sebastíans í karlmannsgervi) og fær karlmannlegar móttökur og heilsan að sjómannasið. Gott plottdrifið grín sem á sér enga hliðstæðu í As You Like It, og varla í kanóninum.

Og pay-off senan, þegar Malvólíó mætir flírubrosandi og áleitinn við Ólivíu, í gulu sokkunum með krossböndunum, er frábærlega skrifuð, gott eldsneyti í sviðsfynd. Þetta er t.d. þessi drullufyndna setning:

Sad, lady! I could be sad: this does make some obstruction in the blood, this cross-gartering; but what of that?

3.4.19–20

Malvólíó er líka næsta hliðstæðulaus týpa, sem og örlög hans. Ég gleymi því alltaf að hugmyndir brytans um að ná ástum Ólivíu eru EKKI úr falsaða bréfinu hennar Maríu, heldur fantasía sem hann hefur nært lengi. Bréfið einfaldlega staðfestir fyrir honum að draumurinn er í þann mund að rætast. Fram að því eru líka allar leiðir færar með að gera Malvólíó að óþolandi púrítana eða rödd skynseminnar. Fyrri kosturinn býður upp á meira kómískt payoff, en ekkert í textanum krefst þess beinlínis. Það er líka spennandi viðfangsefni túlkenda að skoða hvort, og þá hvenær, meðferðin á Malvólíó eftir að hann er „tekinn úr umferð“ fer að vekja alvöru samúð með honum og þá mynda spurningamerki yfir kátu djömmurunum og hjálparkokkum þeirra.

Það er til slatti af kvikmynduðum Þrettándakvöldum. Ég held talsvert upp á sjónvarpsmyndina sem var gerð eftir uppfærslu Kenneths Branagh 1988. Talsvert minna finnst mér varið í kvikmynd Trevors Nunn frá 1996. Elam er þarna sammála mér og talar m.a. um illa kveðna stakhendu í inngangi Nunnmyndarinnar og lausa málfræðienda í styttingum. Sem er nú bara aumingjaskapur. Hann ætti að sjá fráganginn minn á sýningahandritinu að Measure for Measure sem ég setti upp hjá Leikfélagi Kópavogs og röðin kemur brátt að.

Fleiri myndir eru til. Ekki tókst mér að hafa uppi á Playboy-útgáfunni frá 1972 sem Elam segir vera „a mixture of sexual-revolution exuberance and soft-porn kitsch“. Hann gefur ekki mikið fyrir BBC-myndina frá 1980 en er öllu hrifnari af sjónvarpsmynd John Dexter frá 1970. Hún er líkt og Branaghmyndin í heilu lagi á Youtube og reyndist vera sniðuglega útfærð aðlögun. Skemmtilegt t.d. að láta upphafsræðu Orsínós vera ávarp til tónlistarmanna undir glugga Ólivíu, og láta Víólu verða vitni að þessu samtali. Sem skýrir af hverju hún ætlar sér að kynna sig fyrir Orsínó sem „eunuch“ og tónlistarmann. Myndin er ákaflega rómantísk í túlkun og einhver hefði þurft að hrista Joan Plowright (Víóla/Sebastían) og banna henni að horfa stöðugt út í fjarskann í stað þess að tala við fólkið á settinu.

Hér er einvalalið á ferð. Auk Plowright má þarna t.d. sjá Alec Guinnes sem Malvólíó (fínn) og sjálfan Tommy Steele sem Feste (afleitur). John Moffat stelur senunni hvað eftir annað sem Sir Andrew, ekki síst fyrir að geta auðveldlega verið forfaðir Frímanns Gunnarssonar. En stórleikararúsínan er tvímælalaust Ralph Richardson. Orðspor hans er alveg á pari við Olivier og Gielgud en Ralph á ekki eins „íkonískar“ bíórullur svo hann fellur svolítið í skuggann hjá okkur sem ekki sáum hann á sviði. Hér er Sir Ralph dýrðlegur Toby Belch. Farið t.d. á 17.45 og sjáið masterklass í „drunk acting“ (mínus fótaburðurinn reyndar):

OLIVIA
By mine honour, half drunk. What is he at the gate, cousin?

SIR TOBY BELCH
A gentleman.

OLIVIA
A gentleman! what gentleman?

SIR TOBY BELCH
‘Tis a gentle man here–a plague o’ these pickle-herring! How now, sot!

FESTE
Good Sir Toby!

OLIVIA
Cousin, cousin, how have you come so early by this lethargy?

SIR TOBY BELCH
Lechery! I defy lechery. There’s one at the gate.

OLIVIA
Ay, marry, what is he?

SIR TOBY BELCH
Let him be the devil, an he will, I care not: give me faith, say I. Well, it’s all one.

1.5.112–125

Sir Ralph tekst láta þetta hljóma eins og Shakespeare hafi verið með meirapróf í að skrifa texta fyrir dauðadrukkna. Þetta er ágæt mynd og ákaflega „meinstrím“.

Meinstrím er auðvitað löngu hætt að vera meinstrím, svo uppfærsla Simon Godwin í breska þjóðleikhúsinu, sem send var út í fyrra í NT Live prógramminu góða, tekin upp af óprúttnum aðilum og deilt á ribbaldasíðum, er líka meinstrím í öllu sínu flippi. Stjarna sýningarinnar er leikkonan Tamsin Greig, sem ég og margir aðrir muna eftir úr snilldarþáttunum Black Books. Hún túlkar Malvólíó (Malvólíu) sem heiftarlega OCD-þjakaða innskápaða lesbíu og er auðvitað glæsileg. Og morðfyndin. Náði t.d. öllum grínsafanum úr þessum orðum þegar hún rithandargreinir falsaða bréfið sem sannfærir hana um ást húsmóðurinnar (Þess ber að geta að í Elísabetanska aukamerkingu orðsins „cut“ bættist seinna „n“):

By my life, this is my lady’s hand these be her very C’s, her U’s and her T’s and thus makes she her great P’s. It is, in contempt of question, her hand.

2.5.85–87

Það er eiginlega enn magnaðra hvað henni verður mikið úr dramanu í seinni senunum, þegar Feste kvelur hana í myrkrakompunni og þó sér í lagi þegar hún stendur frammi fyrir húsmóður sinni og öllu „fína fólkinu“ og afhjúpast sem kjáni. Alvöru tragík, reyndar á kostnað þess að stórfenglegir kækirnir og einhverfurófstextameðferðin víkur úr túlkuninni. Flott hvernig hún tekur áhorfendur inn á sinni síðustu setningu:

I’ll be revenged on the whole pack of you!

5.1.371

Þetta er um margt frábær sýning og margir fleiri brillera. Tim McMullan er fínn Toby Belch og Daniel Rigby skelfilega hlægilegur Andrew Aguecheek. Verst er lögnin á Olivíu sem Phoebe Fox gerir að algeru fiðrildi svo öll melankólían fer út um gluggann. Oliver Chris nær frekar að varðveita lýríska tóninn í Orsino, þó hann nái líka að gera hann pínu fyndinn.

Alvöruleysið kostar alveg smá. Chris og Tamara Lawrence (Viola) eru bæði mjög fín, en nokkuð fjarri því að ná sömu dýpt í samskipti Orsínós og Víólu og t.d. Benedict Cumberbatch ná hér fyrirvaralaust, í hvunndagsfötunum, beint ofan í typpabrandara:

Það þarf jafnvægi í þetta stórkostlega leikrit. Eitt af stærstu afrekum Shakespeares. Það eru margar leiðir að þessum ballans en fullt af pyttum að detta í. Og seint verður það þurrausið.

Syngjum lokalag


Textinn.


Ég setti mér fyrir lesverkefni. Að lesa öll verk Shakespeares, leikrit og ljóð, nokkurnvegin í líklegri ritunartímaröð. Já og horfa á kvikmyndagerðir eða kvikmyndaðar sviðsetningar þeirra.  Langflest leikritanna hef ég lesið áður, ýmist á frummálinu eða íslensku. Mörg hef ég séð og tveimur leikstýrt. Ljóðin þekkti ég lítið sem ekkert. Síðan skrifa ég eitthvað smávegis um hvert og eitt. Greiningu, gagnrýni, ágrip af fyrri reynslu minni af verkinu. Svona nokkurnvegin hvað sem mér dettur í hug út frá lestrinum. Starafugl birtir þessar ritsmíðar á föstudögum, meðan verk endast.