Ábyggilegt kennslurit fyrir karlmenn

Ljóðabókin Ég er ekki að rétta upp hönd eftir Svikaskáld.
Svikaskáldin eru: Fríða Ísberg, Melkorka Ólafsdóttir, Ragnheiður Harpa Leifsdóttir, Sunna Dís Másdóttir, Þóra Hjörleifsdóttir og Þórdís Helgadóttir.

Orðið svikaskáld kallar fram í hugann mótþróasegg sem sýnir í ræðu og riti að gildi annarra séu ekki hans eða hennar. Skáld sem ætlar sér að nýta það rúm sem það hefur fengið til að tala fyrir hugmyndum sínum — sem umbylta og breyta; ekki að önnur skáld geti ekki gert það, en svikaskáld hlýtur að hafa það ofarlega í huga.

Ég er ekki að rétta upp hönd gerir það svo sannarlega. Ljóðasafnið í heild talar fyrir gríðarlegri vakningu, svo best ég fái séð, kvenna og karla í málefnum kvenna. Þá eru flest ljóðin í bókinni túlkanleg sem kvennabaráttuljóð, orð sem krefst lotningar. Sér í lagi má nefna sérstaklega öflug ljóð eins og Fylgjur, Artemis og Tvær. Ljóð sem eru full tvíræðni og tala upp á yfirborðinu við karlrembur og konur, segja þeim söguna í myndum, og undir niðri með byltingartali sem glittir í milli lína. Önnur ljóð eru ekki jafn beinskeytt, þau búa yfir meiri rósemd og innihalda afslappaðri pælingar, undirritaður eyddi þó góðu kortéri í að velta sér upp úr mögulegri merkingu ljóðsins Hambrigði sem myndlíkingu fyrir allskonar tilfinningar og upplifanir. Sunnu Dís Másdóttur er því boðið að gera undirrituðum grein fyrir merkingunni, hafi hún vilja til þess, við tækifæri.

Það er  leit að veikum hlekk í safninu öllu. Öll ljóðin stóðust skoðun án þess að hægt væri með hreinni samvisku að fetta fingur út í nokkuð, í fimmtíu og fimm ljóða safni má það teljast undravert. Jafnvel Michelin kokkur getur brennt matinn stöku sinnum svo ekki er við öðru að búast en að slæðst geti eitthvað á misjöfnu kalíberi með í ljóðabók af slíku umfangi. Gæðakröfur svikaskáldanna virðast því hvergi hafa farið forgörðum.

Það er skýrt merki um gæði ljóðanna og ótrúlegan mátt þeirra að í leit minni að merkingu þeirra — leit sem innihélt íhugun, andvökunætur þar sem orð og tilfinningar voru krufnar og undir lokin leikrænan upplestur á ljóðunum í von um að áherslur orðanna kæmu fram — hafi svo farið að hundurinn minn, Atlas, sem venjulega er eins og versti krakki með njálg þjótandi um íbúðina, nuddandi rassinum í dyrakarma og hrekkjandi köttinn, lagðist hjá mér og naut þess að heyra ljóðin óma um stofuna. Þetta dýr, sem aldrei situr kyrrt nema þegar broen er í gangi, sofnaði undir tilburðamiklum leiklestri ljóða.

Ljóðin eru ólík að gerð, mörg form fá að spreyta sig og tilfinningar skálda komast í flestum tilfellum afar vel til skila. Lesturinn, fyrir ungan karlmann, er upplýsandi reynsla. Hugarheimur kvenna, þrár þeirra og óttar, liggja í augum uppi svo skilja má betur byltingar þeirra og uppreisnir gegn ofríki og ofstopavaldi karlpungsins.

Þjóðvegur eitt

Á miðri leið
mæti ég tvílembdri rollu
það er farið að rökkva
og hún horfir á mig
ásakandi
lömbin spegileygð í fótsporum hennar

ég verð skyndilega skömmustuleg
meðvituð um barnleysi mitt
veit að hún er
á bakaleið
í heimahagann
líf hennar klofið í tvennt

Á sama tíma og ég upplifi mig sem utangarðsmann er ég les ljóðin er ég viss um að þau eru ætluð mér, hvort sem það er ætlan höfundar eða ekki. Í ljóðinu „Þjóðvegur eitt“ verður það kristaltært að ljóðin í safninu eru skrifuð af konum um reynsluheim kvenna; og því ekki úr vegi að álykta að kjörlesandi sé kona.. Þau hafa einnig ótalmargt að segja karlmönnum. Jafnvel mun meira en konum. Konur munu og ættu að lesa ljóðin — í þeim finnast samkennd, valdefling og samhugur um aukið jafnrétti. Karlmenn hinsvegar skulu lesa ljóðin. Með því lærist þeim að skilja og skynja upplifanir kvenna mun betur. Jafnrétti hættir að hljóma eins og árás á stöðu og réttindi þeirra  og minnir þá á að það jafnar hlut kvenna sem hefur verið rangur allt, allt of lengi. Ljóðasafnið er svo upplýsandi að ég kýs að kalla það ábyggilegt kennslurit fyrir karlmenn um umgengni við konur.

Allt þetta sé ég út úr fimmtíu og fimm ljóðum, spurningin sem ég spyr mig er hvað aðrir sjá.