Um Ólaf Gunnarsson (1948) má hafa mörg orð 1
. Hann er virkur rithöfundur. Fyrsta skáldsaga hans, Milljón prósent menn, kemur út þegar hann stendur á þrítugu. Fyrir skáldsögur sínar er hann þekktastur. Síðan skrifar hann smásögur, barnasögur og bækur almenns eðlis. Gerðar eru og leikgerðir upp úr verkum hans. Hans þekktasta verk er efalítið skáldsagan Tröllakirkja (1992) þótt árið 2003 fái hann Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir skáldsöguna Öxin og jörðin. Aukinheldur er Ólafur þýðandi skáldsagna og leikrita.
Nú bregður svo við að Ólafur skrifar minningaskáldsögu þar sem þrír nafntogaðir íslenskir listamenn eru í sviðsljósinu. Hér um ræðir Dag Sigurðarson (1937-1994) skáld, Alfreð Flóka Nielsen (1938-1987) myndlistarmann/teiknara og Steinar Sigurjónsson (1928-1992) rithöfund.2 Ef til vill eru þeir ekki svo þekktir hjá yngri kynslóðum en á sínum tíma eru þeir talsvert á milli tannana á fólki. Þeir binda nefnilega bagga sína ekki sömu hnútum og samferðamenn sínir. Fyrir það fyrsta skera þeir sig úr þegar kemur að listsköpun á Íslandi. Þar eiga þeir engan (í það minnsta fáa) sinn líkan. Í annan stað lifa þeir öðruvísi lífi, hafa annan þankagang, annað verðmætamat en meðaljóninn. Í þriðja lagi eru þeir allir drykkfelldir fram úr hófi. Hvað sem því líður eru þessir karakterar athyglisverðir og hafa máske ekki þann stað í íslenskri listasögu sem þeim ber.
Svo hafði orðið ofan á sú hugsun að með mér hyrfu þessar mannlýsingar að fullu og að því væri nokkur skaði fyrir komandi kynslóðir sem ef til vill kysu að lyfta þessum vinum mínum á þann stall sem þeim bar. (bls. 218)
Af tilvitnun þessari má ráða að Ólafur segir frá í fyrstu persónu. Hann segir frá kynnum sínum af þessum mönnum sem svo að segja hefjast árið 1963 þegar Ólafur les alræmt og umdeilt viðtal, „Minn fyrirrennari var krossfestur“ við Alfreð Flóka. „Viðtalið setti Ísland á annan endann.“ (bls. 7)
Persónuleg kynni takast á með Ólafi, Flóka, Degi og Steinari. Verki lýkur á ferð Ólafs í Fossvogskirkjugarð „þars“ hann fer að leiði Alfreðs Flóka á þrjátíu ára ártíð hans. Dagur og Steinar hvíla þar einnig.
Verkið dregur ekki dul á að téðir menn hafi oft verið til vandræða. Ekki er leitast við að draga upp upphafna mynd af þeim. Engan veginn.
Og fyrst ég var að segja frá þeim á annað borð var mér engin leið að segja frá þeim öðruvísi en ég mundi þá, hví að draga fjöður yfir þær minningar og búa til úr þeim sætabrauðsdrengi? (bls. 218)
Um Alfreð Flóka segir hann:
Ja, oft var hann mér erfiður á meðan hann lifði og ekki skánar það [tilefnið er að Ólafur, Ingibjörg, kona Alfreðs Flóka og Erla, kona Ólafs eru að leitast við að planta blómum á leiðið og er það vandkvæðum bundið], segi ég og hlusta á rödd mína og heyri að það er gamall maður sem talar. (bls. 218)
Fjórða aðalpersónan er Ólafur sjálfur. Sögurnar/minningarnar eru dregnar upp úr hugarfylgsnum hans. Hann segir frá kynnum sínum og vináttu sem sannlega hefir sínar hæðir og lægðir. Þremenningarnir eru öfgakenndir í háttum og sveiflast frá góðmennsku og rausnarskap til árásargjarnar ellegar ofbeldisfullrar hegðunar og ölmusubæna. Persóna Ólafs er jarðbundnari og þá ef til vill smáborgaralegri. Hann er sá sem ætíð virðist hafa að bíta og brenna, brauð og brennivín svo og húsaskjól. Þeim heiðursmönnum helst illa á pening, Bakkus ræður helst til of oft för, skapferli þeirra og háttarlag er þeim einatt til vansa. Til Ólafs leita þremenningarnir sér liðsinnis við hin og þessi tilefni, bæði í Reykjavík og Kaupmannahöfn. Oftar en ekki þegar þeir finna hjá sér þörf til að vökva sálarblómið og það er ósjaldan. Mikil og stöðug áfengisneysla einkennir alla samveru þeirra.
Þessi lýsing gefur tilefni til að vitna í grein Agnesar Vogler á Bókmenntavefnum þar sem sagt er að Ólafur leitist við að „reyna á ramma hefðbundins raunsæis með því að koma ýktum persónum fyrir í raunsæislegu umhverfi“. Slíkt má heimfæra upp á Listamannalaun. Steinar er meira að segja svo á skjön að „[h]ann getur ekki einu sinni verið rétt skráður í kirkjugarði.“ (bls. 219).
Aukinheldur bregður fyrir fjöldanum öllum af annáluðum persónuleikum. Tryggvi Ólafsson (1940) listmálari, Jón Gunnar Árnason SÚMARI og myndhöggvari (gerði Sólfarið), Jóhann Páll Valdimarsson (1952) bókaútgefandi, Jóhann Hjálmarsson (1939) skáld, Úlfur Hjörvar (1935 – 2008) rithöfundur og þýðandi, Nína Björk Árnadóttir rithöfundur, ljóð- og leikskáld (1941-2000) og Bragi Kristjónsson (1938) fornbókasali svo minnst sé á nokkra.
Það að útkomi saga með þessum þrem herramönnum gefur tilefni til að ætla að aðallega fjallað sé líf þeirra og list. Sú er ekki raunin. Það er fremur að hér sé minningum Ólafs púslað saman og mynda þær, eins og gefur að skilja, ekki órjúfanlega heild. Þannig er það með minningarnar, þær eru iðulega fullar af eyðum.
Hvernig frásagnir eru þetta þá? Líkast til fer ágætlega á því að notast við orðið anekdóta. Ólafur segir stuttar sögur af sjálfum sér og þeim, Ólafur vitnar í þeirra sögur hver af öðrum, frásagnir annarra af þeim eður frásagnir þeirra af sér. Svona í grunninn. Sögur af öðrum fá einnig að fljóta með. Allajafna eru þetta ölhreifar frásagnir, en sú góðgleði kann að enda með ósköpum og gerir það aftur og aftur. Auðvitað má hér einfaldlega brúka orðið drykkju- og svallsögur en einnig sögur af persónum á jaðrinum. Við þetta má bæta að þáttur Ólafs hverfist einnig um hvernig hann verður rithöfundur, hans efasemdir og leið hans að því markinu, manns sem „[á] meðal raunverulegra listamanna“ líður „alltaf eins og loddara.“ (bls. 15)
Lesandans er að leggja út frá sögunum, túlka þær. Þar er ekki loku fyrir það skotið að skorinorður textinn geti hrært í tilfinningalífi viðkomandi. Lesa má hann sem skemmti-, eða harmsögu, sögu tíðaranda, hann veitir innsýn í líf Íslendinga (aðallega listamanna) í Kaupmannahöfn „þars“ oft var glatt á hjalla, strögl listamanna (laun listamanna) og annarsþenkjandi. Menn sem sjaldan fá monnípening en þegar það gerist eyða þeir honum oft á einu bretti og ekki í listsköpunina heldur til að blóta Bakkusi.
Það má hlæja að sérlunduðu hátterni, það má jafnframt reiðast yfir því. Það má líta á þá alla fjóra sem óttalega aula sem hafi ekki endilega haft einhverja snilligáfu: Ekkert innan verksins, nema þá að þeir séu sagðir hafa slíka, styður það (hér er því klárlega ekki haldið fram að þeir hafi ekki verið frambærilegir listamenn). Þetta er saga af áfengissýki, dyntum og aumingjaskap (einnig af hálfu Ólafs). Þetta er saga af breyskum en jafnframt áhugaverðum mönnum. Yfir vötnum svífur melankólía og söknuður án þess að slíkt sé beint fært í orð. Saga sem þessi ætti sannlega að vekja áhuga fólks á því að kynna sér líf og list þessara lávarða listar og lánleysis, þessara jaðarmanna í íslenskri listasögu. Ef það tekst þá er það ekkert nema gúmsílúms.
1. | ↑ | Í titli greinar er vísað í dægurlagatexta Megasar, „Birkiland“ af plötunni Loftmynd frá árinu 1987. |
2. | ↑ | Auðvitað er rangt að smætta tilveru fólk niður eftir atvinnuheiti, sérstaklega persónur á við þeir sem hér eiga í hlut. Það er samt gert. |