Frábærar myndskreytingar Per Dybvig gefa sögunum um Doktor Proktor aukinn og skemmtilegan karakter. 

Pólitík, prakkaraskapur og prumpuduft

Bókaflokkurinn um Doktor Proktor

Hvort það er lærð hegðun eða meðfædd að flissa yfir prumpi skal ekkert fullyrt um hér, enda virðulegt vefrit, né heldur verður rætt hvort það sé manni eðlislægt að komast yfir þetta fliss og þá vanþroskamerki að gera það ekki. Við látum duga að segja þetta: Fretflissið er jafn eðlilegt og ósjálfrátt og hver annar andardráttur, það er sterkast í yngstu kynslóðinni, og þennan frumkraft hefur norski rithöfundurinn Jo Nesbø beislað í bókaflokki sínum um Doktor Proktor, uppfinningamann, og vini hans tvo, börnin Búa og Lísu, svo um munar. 

Fyrsta bókin – Doktor Proktor og Prumpuduftið – kom út í Noregi árið 2007 en á íslensku 1 árið eftir og naut strax talsverðra vinsælda og hefur verið þýdd vel á fjórða tug tungumála. Nesbø var hins vegar lentur á milli tveggja útgefenda á Íslandi – spennusögurnar um Harry Hole komu út hjá Uppheimum en Forlagið gaf út Doktor Proktor – og ekkert varð úr því að fleiri bækur í flokknum um Doktor Proktor kæmu út fyrren Uppheimar voru farnir veg allrar veraldar og Harry Hole kominn upp á Forlag. Síðan þá hafa birst Doktor Proktor og Tímabaðkarið (2015), Doktor Proktor og heimsendir, kannski (2016), Doktor Proktor og gullránið mikla (2017) og Getur Doktor Proktor bjargað jólunum (2017). 2 

Venjulegt fólk og flippað

Söguhetjurnar þrjár fá álíka mikið pláss en þó verður að segja að hinn dvergvaxni, rauðhærði, uppátækjasami og ýkjugjarni trompetleikari Búi steli jafnan senunni. Lísa er nokkurs konar „straight man“ gagnvart Búa – Sal Paradise gagnvart Dean Moriarty, Abbott gagnvart Costello, Watson gagnvart Holmes – og sem slík verða drættir hennar alltaf veikari. Án hennar gætum við þó aldrei notið skringileika Búa – eða leyft okkur að gremjast honum – líkt og uppfinningar Doktors Proktors væru ekki hálft eins skemmtilegar án ólíkindaláta Búa. Þó mætti líka færa rök fyrir því að lesendur nái betra og raunverulegra sambandi við Lísu og Proktor en við Búa, enda fáum við að vita meira um líf þeirra, á meðan Búi skautar fyrst og fremst áfram á persónuleika sínum. Við speglum okkur í Lísu, við erum „venjuleg“ einsog hún, en vildum óska þess að við værum flippuð einsog Búi. 

Sjálft prumpuduftið kjarnar allar sögurnar og er jafnan það sem kemur söguhetjunum til bjargar á ögurstundu. Prumpuduftið er, einsog má kannski ímynda sér, duft sem maður innbyrðir og veldur því að maður prumpar af gríðarlegum krafti. Af því er einnig til sterkara afbrigði, ofurprumpuduftið, en með því mætti sennilega setja jarðkringluna af sporbaug. Prumpuduftið er þó ekki eina uppfinning doktorsins – sem finnur aðallega upp misgagnslausa hluti, sem hann finnur reyndar oft gagn fyrir síðar – og má annars helst nefna tímabaðkarið, en í því má, með aðstoð tímasápunnar, ferðast í gegnum tíma og rúm. 

Hegðun, atferli og framkoma

Sögurnar vísa stöðugt í samtíma sinn og mannkynssöguna en alla jafna dálítið skakkt. Orrustan við Waterloo var þannig fyrst og fremst tíðindalaus og jólasveinninn reynist þunglyndur og helst til þaulsetinn á börum. Ekki verður vart mikillar pólitískrar innrætingar, þótt umfjöllunarefnin gæfu oft tilefni til, nema svona þetta sem þykir allra sjálfsagðast. Þannig er herra Þráinn – aðalvondikallinn – alltaf að troðast um á mjög breiðum Hummer og undirstrikað bæði hvað það er óumhverfisvænt og mikil frekja. En meira að segja gagnrýnin á kapítalismann í Getur Doktor Proktor bjargað jólunum – þegar herra Þráinn fær einkaleyfi á jólunum og bannar öllum sem versla fyrir minna en 100 þúsund krónur í verslunarmiðstöðinni sinni að halda þau heilög – nær einhvern veginn ekki að verða mjög „pólitísk“. Enda glæpurinn aldrei sá að neyslan sem slík sé sturluð eða kapítalisminn eða gjafabrjálæðið eða vistsporið, heldur fyrst og fremst að herra Þráinn vilji halda þessu öllu fyrir sig og sitja einn að gróðanum.

Þetta er svipað og í öðrum barnasögum, þar sem hinar ýmsu áskoranir heimsins eru jafnan smættaðar niður í eins konar persónuleg hegðunarvandamál. Gagnrýnin er á frekjuna og einokunarverslunina frekar en kerfið og samkeppnina og mun sennilega fara í taugarnar á þeim börnum sem eru bærilega lesin í marxískri kenningu. Ekki er þó ætlunin að gera lítið úr mikilvægi þess að vera góður og breyta rétt. 

Mikil lestrarnautn

Bækurnar um Doktor Proktor og félaga eru fyrst og fremst mjög skemmtilegar og þótt undirritaður hafi kannski saknað þess að þær væru dálítið meira nastí á köflum – einsog bækur þeirra Lindgrena, Astridar og Ole Lund, sem annars tróna á hinu norræna barnabókafjalli – þá runnu þær ljúflega niður, einsog hunang hreinlega, eða kraftmikil hljómkviða, liggur mér við að segja. Kannski vill maður að barnabækur séu einsog bestu barnabækurnar sem maður las sjálfur sem barn – kyndi hina nostalgísku frumnautn innra með sér. En börnin mín hlógu mikið og voru oft mjög spennt og það var iðulega erfitt að sannfæra þau um að nú yrðum við að láta staðar numið, það væri skóli á morgun, og kannski verða þessar bækur hluti af þeirra frumnautn þegar fram líða stundir. 

   [ + ]

1. Í þýðingu undirritaðs, vel að merkja
2. Allar hverjar Jón St. Kristjánsson þýddi af miklum myndugleik og málagleði.