Hærri hversdagsstaðall

Um matreiðslubókina Beint í ofninn eftir Nönnu Rögnvaldardóttur

Með tilkomu internetsins gerbreyttist það magn af upplýsingum sem við höfum aðgang að. Við getum öll opnað næsta tæki við okkur og fundið upplýsingar um allt sem okkur hefur alltaf langað að vita. Ef vitum hvar við eigum að leita, það er að segja. Það mætti segja að Douglas Adams hafi verið forspár þegar hann gaf sögupersónum sínum svarið við spurningunni um lífið, alheiminn og alltsaman. Svarið er klárt, það er 42, enginn er hins vegar almennilega á hreinu hver spurningin er.

Matreiðslubækur eru í grunninn samansafn af upplýsingum. Aðgengi að internetinu ætti tæknilega séð að geta komið í staðinn fyrir stæðilegustu matreiðslubókasöfn enda eru uppskriftir á internetinu til í svo gríðarlegu magni að það ógnar jafnvel kattamyndum og klámi.  Samt hafa sjálfsagt aldrei komið út jafn margar matreiðslubækur og einmitt nú. Það eru nefnilega ekki allar uppskriftir á internetinu jafn vandaðar, eins og allir vita sem hafa séð myndbönd af gerð „matar“ sem ber nöfn á borð við Ultimate Bacon Bomb og Ultimate Triple-decker Chocolate Cheesecake Tower. Fólk leitar ekki lengur að upplýsingum heldur að einhverjum sem þau treysta til að veita sér upplýsingarnar. Það er ekki furða að internetið hafi gert stjörnur úr matarbloggurum bæði hér á landi og erlendis. Það er heldur ekki furða að allflestir af þessum bloggurum hafi gefið út bækur. Internetið er óendanlegt en bók er viðráðanleg, þegar spurningin er ekki stærri en hvað á að vera í matinn í kvöld.

Nanna Rögnvaldardóttir er ein fróðasta manneskja um matargerð á Íslandi. Hún hefur bókstaflega skrifað alfræðiorðabók um matargerð, til viðbótar við þær hátt í tuttugu bækur sem hún hefur gefið út. Í mínum bókaskáp eru til fimm aðrar bækur eftir hana, þó mismikið notaðar. Nýjasta bókin hennar, Beint í ofninn, kom út í haust þar sem Nanna einbeitir sér að uppskriftum að mat sem hægt er að undirbúa á tiltölulega skömmum tíma, í einum pott eða fati, og láta svo malla í ofninum. Bókin er andlegt framhald af Matnum hennar Nönnu, bók sem, líkt og Beint í ofninn, hefur undirtitilinn „Heimilismatur og hugmyndir“. Undirtitillinn vísar til þess að hér séu á ferðinni einfaldar og hversdaglegar uppskriftir, auk upplýsinga og hugmynda um alls kyns möguleg hliðarspor frá uppskriftunum. Hugmyndin er að bæta í hugmyndabanka heimiliskokka og mögulega gefa óöruggum en áhugasömum kokkum færi á að stíga út fyrir kassann. Mitt eintak af Matnum hennar Nönnu er gríðarlega blettótt og opnast á vinsælum uppskriftum, sem er einhver mesti gæðastimpill á matreiðslubækur sem þekkist.

Beint í ofninn er fallega myndræn, og hver uppskrift fær heilar tvær opnur, aðra með myndum og uppskriftinni, hina með upplýsingum um réttinn, hráefnin og hvernig best sé að nýta afganga eða breyta til. Myndirnar sýna annars vegar tilbúinn réttinn og hinsvegar öll hráefnin í uppskriftinni, sem er bæði skemmtilegt og praktískt. Textinn er ítarlegur og ætti að henta jafnvel spurulustu kokkum. Þar er farið yfir skammtastærð, undirbúning, mögulegar tilbreytingar við uppskriftina, hverjir geta borðað matinn, hvað sé gott að bera fram með og hvernig maturinn geymist. Þar að auki er fjallað um framandi hráefni og farið yfir önnur not fyrir þau. Nanna lætur svo hugleiðingu eða fróðleik fylgja með hverjum rétti fyrir sig og sá texti er heimilislegur og tekur sig ekki of alvarlega, ekki frekar en maturinn í bókinni. Á bloggsíðu Nönnu er tilvitnun í breska matarskríbentinn Jane Grigson, „We have more than enough masterpieces. What we need is a better standard of ordinariness.“ Hún stendur við þessi orð, maturinn í bókinni er girnilegur, frumlegur og litríkur en umfram allt heimilislegur hversdagsmatur.

Til að geta skrifað almennilegan dóm um bókina hafði ég ákveðið að bjóða fólki í mat og elda tvær uppskriftir úr bókinni. Þvínæst steingleymdi ég að ég hefði boðið fólki í mat og mundi ekki eftir því fyrr en samdægurs og áætlað matarboð. Ég sá í hendi mér að ef uppskriftirnar væru jafn einfaldar og Nanna lofaði þá gæti ég þó reddað mér með því að fara heim, fletta upp uppskriftunum, kíkja í búð og henda svo matnum saman á mettíma. Það hefði vel getað gengið ef ekki hefði komið til annað strik í reikninginn. Það var kalt úti og ég var þreytt. Ég nennti því engan veginn að fara heim til að ná í bókina og þurfa svo að fara aftur út í búð. Í síðustu tilraun til að standa við gefin loforð og geta boðið fólki upp á eitthvað annað en Svepperoni og Ostagott ákvað ég að koma við í búðinni, kaupa nokkur hráefni sem mig minnti að Nanna notaði í bókinni og vona það besta. Eftir á að hyggja reyndist það hið mesta heillaskref því það hefði varla verið í anda Nönnu né bókarinnar að reyna að fylgja uppskriftinni út í ystu æsar.

Þegar ég hugsa um hversdagsmat fæ ég yfirleitt klígju í hálsinn enda var ég matvant barn og hryllir við tilhugsunina um fiskibollur,  bjúgu og soðnar kartöflur. Hversdagsmaturinn hennar Nönnu er hins vegar aðeins nútímalegri en það sem ólumst flest upp við. Í bland við hefðbundin hráefni eru edamame-baunir, butternut-kúrbítur og chorizo, auk þess sem margar uppskriftanna innihalda ekkert kjöt. Nýstárlegu hráefnin eru þó allt eitthvað sem er farið að fást allan ársins hring í stærri verslunum auk þess sem Nanna útskýrir notkun þeirra og tilgreinir aðra notkunarmöguleika. Útkoman er nokkurn veginn fíflheld, jafnvel fyrir varkárustu kokka.

Á endanum eldaði ég lambabuff með parmesankartöflum og butternut-kúrbít og sæta kartöflu í balsamedik dressingu. Það var ódýrt, fljótlegt og bragðgott. Þetta var eitthvað sem mér hefði ekki dottið í hug að elda og hráefni sem hefðu venjulega ekki ratað í innkaupakörfuna. Ef það hefðu verið afgangar hefði ég mögulega reynt að gera eitthvað úr þeim daginn eftir, en mögulega bara borðað þá kalda með gaffli úr boxinu. Ég vona að Nönnu finnist það í lagi, veit að Nigella leyfir það allavega. Ég myndi því segja að markmiði bókarinnar sé náð og gott betur. Ég mun kannski ekki teygja mig eftir þessari bók þegar ég fer að undirbúa jólamatinn en það er allt í lagi, þá get ég bara flett Jólamatnum hennar Nönnu.

Ef það eina sem mig vantaði væri uppskrift þá gæti ég bara farið á netið að finna hana. Á sama hátt gæti ég líka skipulagt máltíðirnar mínar eftir næringaráætlunum en það er bara ekki nándar nærri eins skemmtilegt. Aðrar matreiðslubækur eru ítarlegri, nákvæmari og með tilkomumeiri uppskriftum fyrir áhættusækna kokka en það er ekki tilgangurinn hér. Matreiðslubækur á borð við þessa gera það bæði einfalt og skemmtilegt að elda, líka þegar maður kemur þreyttur heim. Uppskriftirnar eru ekki flóknar en þær virka og mikill afrakstur fyrir litla vinnu hlýtur að teljast kostur. Þessi bók er kannski ekki að fara að kenna mér nýja tækni eða gerbreyta því hvernig ég hugsa um matargerð en mun kannski gera matseldina á virkum dögum aðeins einfaldari. Ég held því áfram að treysta Nönnu til að segja mér hvað ég á að borða.