Önnur breiðskífa Teits Magnússonar er komin út á vegum Alda Music. Hún nefnist Orna. Sú fyrri, 27, kom út fyrir fjórum árum síðan. Á henni, sem og 27, eru átta lög, sjö þeirra eru ný og þá er ábreiða af þjóðlaginu Hringaná. Þrír gestir koma við sögu, Dj. Flugvél og Geimskip, Mr. Silla og Steingrímur Teague.
Það fyrsta sem maður tekur eftir við hlustun á Ornu er sérstakur hljómurinn. Hann er afskaplega hlýr, tímalaus en jafnframt skítugur. Ekki þó vegna rifinna gítara heldur skítugur á þann hátt að manni dettur í hug að kannski hefði átt að þrífa seglana í upptökubúnaðinum áður en upptökur fóru fram. En auðvitað er leikurinn til þess gerður. Þetta skapar sérstakt andrúmsloft og kannski einhverskonar hugarskekkju. Öll eru lögin átta nokkuð hægfara og slök stemming yfir öllu saman. Það er enginn asi á Teiti. Söngurinn er að venju að öllu án alls æsings og alveg merkilegt hvað hann kemur miklum tilfinningum til skila á þennan hátt.
Textar eru flestir ágætir og hægt að finna sig í mörgu. Bestu lög eru Lífsspeki, Bara þú og titillagið Orna. Mér finnst hinsvegar Hringaná ekki falla nógu vel að stíl Teits. Verandi vanur að heyra það í flutningi Þursaflokksins eða þá Megasar og útgáfur beggja eru með alveg gífurlegu attetjúdi og með hliðsjón af því getur verið nokkuð erfitt að finnast viljandi flatneskja Teits eiga við. Það má vera að það venjist.
Í það heila þá er Orna góð plata og framför frá hinni annars ágætu 27 sem ég hlustaði mikið á þegar hún kom út á sínum tíma. Vonandi lætur Teitur okkur ekki bíða í önnur fjögur ár eftir næstu skífu.