Að kúga eða kúgast

Hún er Kærasta nr. 3 en samt er allt nýtt. Það eru engir leikir, engar grímur, ekkert kjaftæði. Þau fikra sig varlega nær hvort öðru, andlega og líkamlega, rúnta upp og niður sitt hvora fortíðina, útskýra sig. Þumall strýkur yfir fæðingarblett. Hálfmánalagað ör er uppgötvað neðan við hægri augabrún. Hreyfingar eru stúderaðar, kækir kortlagðir. Þegar hún prumpar í fyrsta skipti þá tekur hann utan um hana og þau hlæja saman. Þetta gerist uppi í rúmi, um morgun. Svo prumpar hann, það er um kvöld uppi í sófa, á meðan þau horfa á mynd. Þau taka það upp í vana sinn að herma eftir prumpunum. Nefna þau eftir hljóðum sem þau minna á. Tunnuprump er prump sem er hátt og langt, kjúklingaprump er krumpað prump. Eins og það sem heyrist þegar lófa er þrýst undir handarkrika og handleggurinn líkist nöktum kjúklingavæng.

Byssukúluprump er hátt og snöggt, silent but deadly er hljóðlátur dauði o.s.frv., o.s.frv.

„Í þetta skiptið mun ég ekki þykjast vera nein önnur en ég er,“ lýsir hún yfir. Þetta er í upphafi sambandsins. „Ég ætla ekki að eltast við að uppfylla einhvern fyrirfram gefinn blautan draum um hina fullkomnu kærustu. Ef þú spilar fúsball þá mun ég ekki allt í einu fá fúsballáhuga. Bara svo að það sé á hreinu, þá hata ég fúsball. Ég hata fúsball og ég hata sveitta hamborgara og ég hata að vera tekin aftan frá doggy style. Ég fæ nákvæmlega ekkert út úr því.“

„Amen,“ segir hann og lyftir glasinu sínu. Þetta er um kvöld, niðri í bæ.

Hann þekkir umrætt óöryggi aðeins of vel úr báðum fyrri samböndum. Kærasta nr. 1 sagðist elska harkalegt kynlíf og uppáhaldsþættina hans. Þegar leið á sambandið varð augljóst að hún elskaði hvorugt. Kærasta nr. 2 hafði logið því að hafa lesið sömu bækur og hann, sló um sig með tilvísunum eða staðreyndum um höfundana þegar þau spjölluðu saman á Tinder. Síðan höfðu þau byrjað saman og í hvert skipti sem hann minntist á einhverja af umræddum bókum, kom á hana fát: „Nei, ég átti alltaf eftir að lesa hana, manstu?“

Eftir Kærustu nr. 2 horfði hann stundum á aðlaðandi stelpur og ímyndaði sér hvers konar pottaplöntur þær væru.

Þyrftu þær mikla vökvun eða litla? Á hverjum degi? Á fimm daga fresti?

Kærasta nr. 3 er þykkblöðungur. Hún getur verið vatnslaus vikum saman án þess að kvarta. Hann fylgist með henni spjalla við sameiginlega kunningja á barnum, lauma orðagríni inn í samræðurnar sem enginn pikkar upp nema hann. Hún er sjálfsörugg og kaldhæðin, handtökin fumlaus, göngulagið ákveðið. Hann sér ekki fram á að vilja hrista hana af sér eins og skordýr. Þegar þau byrja saman á Facebook fær sambandið þeirra 450 læk. Hann horfir á prófílmyndirnar þeirra hlið við hlið og það rennur upp fyrir honum að þau eru það sem kallast power couple.

Þau hafa orð á því að hoppa ekki út í sambandið án björgunarhrings, en svo allt í einu losnar íbúð frænku hennar í Laugarnesinu, tveggja herbergja undir súð, fullkomin fyrir par en aðeins of dýr fyrir einstakling. Þau halda búslóðunum sínum til haga, gefa ekkert, henda engu. Hann merkir bækurnar sínar svo að lítið beri á. Það er bara svolítið snemmt að ætla að úrskurða um framtíðarhorfur sambandsins; rétt svo nokkrir mánuðir liðnir, bráðum hljóta alvöru hegðunarmynstrin að koma í ljós og skekkjumörkin með.

Þegar þau koma í ljós tekur hann á móti þeim eins og vel greiddur gestgjafi.

Það fer fyrir brjóstið á henni að hann skuli aldrei ganga frá eftir sig. Skápar eru opnir, klósettsetan skilin eftir uppi, diskar á borðum, glös á náttborðum, óhreinir sokkar alls staðar. Fyrst gerir hún grín að þessu, segir „ástin mín“ fyrir eða eftir setninguna, brosir eða hlær á meðan hún hristir höfuðið.
Svo koma upphrópunarmerkin.

Svo er allt hrópað hástöfum.

Þetta skeður í litlum sprengingum, iðulega áður en hún fær sér morgunmat. Á meðan hún bíður eftir hafragrautnum gerir hún æðiskenndar tiltektarrassíur, skammast út í hann og skipar fyrir. Þá er ekkert annað í stöðunni en að tína sokkana af gólfinu, helst án þess að segja nokkuð.

Hann lærir fljótt að svengd þýðir skapbræði sem kippa má í liðinn með mat og kaffi.

Hún sönglar endalausar lagleysur, tóna sem fara óreiðukennt þvers og kruss um allt rýmið, eins og flugur í leit að opnum glugga. Í sturtunni, eldhúsinu, fyrir framan tölvuna.

Hún drekkur ótrúlega mikið af vatni (af einhverjum ástæðum fer þetta í taugarnar á honum) og hún getur ekki verið stundvís. Skiptir ekki máli hversu snemma hún byrjar að laga sig til. Þau eru alltaf sein.

Hann lærir einfalt trikk til að flýta fyrir ferlinu þegar þau eru að verða sein og hún enn óákveðin um dress: Hann getur smjattað á gómnum, grett sig (mjög lítillega, t.d. bara með því að kipra augun) og spurt: „Er það?“

Hann notar öfuga sálfræði á fleiri sviðum sambúðarinnar, en af mikilli sparsemi, svo að hún komi ekki upp um hann. „Það besta við sjálfstæðar konur er hvað þær eru þægilega fyrirsjáanlegar,“ segir hann einu sinni við vinina þegar þeir tala um kvensur.

Það er ekki að ástæðulausu að fólk talar um að „pússa sig saman“. Hann venur sig á að henda sokkunum í þvottakörfuna og passar að vera ekki fyrir henni á morgnana. Stundum hættir hann að elska hana í smástund. Þegar þetta gerist í fyrsta skiptið þá bregður honum. Líður illa. Forðast heimilið í nokkra daga, hangir uppi í skóla og fer í ræktina þess á milli. Kvíðir því að þurfa að koma heim svona tilfinningalaus gagnvart henni. Svo fer hún í klippingu. Þau fara út um kvöldið og fá sér vínglas. Allt kemur aftur eins og hendi sé veifað.

Fegurð hennar og fyndni. Næmni á heiminn. Hreinskilni og snerpa og metnaður.

Hann lærir á ástina. Hún gengur í bylgjum; hann deyr úr ást, svo hægt og rólega birtast smáatriðin honum aftur, hvernig hún sötrar kaffið og tekur alltaf tvo sopa í einu. Sötr, sötr, svo leggur hún frá sér bollann. Á kvöldin þegar þau eru komin upp í rúm klórar hún sér blygðunarlaust í píkunni.

Þá snýr hann sér við og slekkur á náttlampanum.

Hann tekur eftir því að nærbuxurnar hennar eru allar (mjög margar a.m.k.) með gati beint fyrir ofan snípinn. Skapahárin stingast út um gatið og minna hann á þvæld lukkutröll.

„Af hverju rifna þær svona auðveldlega hérna?“ spyr hann og bendir á nærbuxur á snúrunni. Þetta á sér stað niðri í þvottahúsi, síðdegis.

„Þetta er klórugatið,“ útskýrir kærastan hans með grallaralegri sakbitni og gerir sig svo sæta til að vega upp á móti upplýsingunum. Kyssir hann ágengt og lengi svo að hann neyðist til að slá viðbjóðnum á frest.

Hún rakar engin líkamshár, sem er í tísku. Líkamshárin hennar (og þá aðallega skapahárin, handarkrikahárin og sportröndin) eru öll þykkari og dekkri en hárin á höfðinu á henni, sem eru ljósskollituð, fíngerð og glansandi.

Hún lítur á þau sem eins konar vald. Flaggar þeim eins og fullveldisfána.

Eftir nokkra mánuði í Laugarnesinu kemur að því að hún brýtur klósettmúrinn. Það gerist um kvöld, inni á baðherbergi. Þau standa yfir vaskinum og horfa á hvort annað tannbursta sig í speglinum. Hún gefur honum mjaðmaskot og hann gefur henni mjaðmaskot til baka. Hún er sæt. Hún getur aldrei haldið tannkreminu uppi í sér. Það lekur út um bæði munnvikin og niður á höku. Hún skyrpir, skolar andlitið og tannburstann, lyftir klósettlokinu upp, gyrðir niður um sig og pissar. Hátt hvæs fyllir baðherbergið. Hann lítur undan og stígur út fyrir.

Kvöld eftir kvöld pissar hún á meðan hann tannburstar sig. Prumpar í leiðinni og bætir við klósettskálartunnuprumpi á prumpheitaskrána þeirra.

Stundum gýs upp stæk hlandlykt og hann þarf að halda í sér andanum til að kúgast ekki. Hann minnist þess biturlega hvernig þau byrjuðu saman, heiðarleg, opinská með allar sínar tilfinningar, og stundum er hann næstum því búinn að snappa á hana, að hann þoli þetta ekki, hvort hún geti ekki klórað sér þegar hann sjái ekki til, pissað þegar hann sjái ekki til, hætt að drekka svona mikið vatn alltaf hreint, en auðvitað veit hann að slíkum beiðnum yrði tekið sem stríðsyfirlýsingu gegn sjálfstæði hennar.


Úr smásagnasfni Fríðu Ísberg Kláði sem kom út nýverið.