Þýðing: Kári Páll Óskarsson

Úr Bréfum til James Alexander eftir Jack Spicer

3.

Það er ekki tilbreytingarleysi náttúrunnar heldur ljóðin handan náttúrunnar sem kalla hvert á annað yfir höfðum skáldanna. Höfuð skáldanna verandi hluti af náttúrunni. Það er ekki okkar að láta línur náttúrunnar stemma. Það er ljóðanna að láta línur náttúrunnar stemma. Vegna þess hve válega þær laðast að línum náttúrunnar, að höfðum okkar.

Við lýsum yfir þagnarbyltingu. Ljóðin yfir höfðum okkar, tungulaus, eru þreytt á að tala hvert við annað yfir skoðanablaðri okkar, bókmenntasjálfum okkar, tilraunum okkar til að beina þöglu samtali þeirra að áheyrendum. Þegar við ljáum máls mögnum við. Við erum símaskiptiborð, blekkt til að gerast hljómflutningstæki. Hinum skelfilegu (há)tölurum verður að leyfast þögn. Þeir eru ekki að tala við okkur.

Hvaða erindi eigum við þá með að tala um byltingu—við, höfuð skálda sem eitt heitir Jack og annað James, þrjú í fjarska sem heita Ebbe, Charles og Robert? Það er vegna þess að við, sem fórnarlömb þeirra, málpípur þeirra, verðum að læra að verða algjör fórnarlömb, algjörlega hluti af munni þeirra. Við verðum að læra að varir okkar eru ekki okkar eigin. Bylting er óarga menntun.

Til er fólk sem talar um ljóðlist eins og þreyttir tryggingasölumenn tala um hafnabolta. Við verðum að tortíma þeim með þögn okkar. Jafnvel hatrið á þeim truflar samtalið sem ljóðin okkar vilja halda áfram. Jafnvel að minnast á það breytir þessu í mig talandi, skellur á þversögn sem var sannleikur þeirra.
Við skrifum ekki fyrir hvort annað. Við erum geðvond útvarpstæki (en myndin af talandi hrosshöfðinu á veggnum í fyrri Orfeifi Cocteaus var sannari mynd) en ljóðin okkar skrifa fyrir hvort annað, verandi uppfull af eigin ráðagerðum, eflaust ekkert dularfyllri í þeirra alheimi en okkar í okkar. Og varir okkar eru ekki okkar eigin. Heldur eru þær varir á höfðum skálda. Og ættu að hrópa bylting.

Ástarkveðja,
Jack