Arfleifðin pimpuð upp!

Um myndasöguna Vargöld eftir Þórhall Arnórsson, Jón Pál Halldórsson og Andra Sveinsson.

Vargöld varð fyrsta hreinræktaða myndasagan sem tilnefnd var til íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki barna- og ungmennabóka. Iðunn gefur út. Síðurnar eru ótölusettar en teljast 68.

Inngangur

Eins og nafn sögunnar kann að benda til byggir sagan atarna á heiðnum minnum. Nánar tiltekið er nafn hennar líkast til fengið úr 44. erindi Eddukvæða. Eins og það birtist í Konungsbók:

Bræður munu berjast

og að bönum verða,

munu systrungar sifjum spilla,

hart er í heimi,

hórdómur mikill,

skeggöld, skálmöld,

skildir klofnir,

vindöld, vargöld

áður veröld steypist

mun engi maður,

öðrum þyrma.

 (Tekið úr Eddukvæðum sem Mál og menning gaf út 1998)

Ætli megi ekki nokkuð staðfastlega halda því fram að heiðin minni, víkingar, Íslendingasögurnar, Eddukvæðin og íslenskar miðaldabókmenntir séu ávallt móðins. Og þótt upptalið fari ef til vill nokkuð halloka í samkeppni við Angry Birds og annað afþreyingarefni samtímans þá eru Íslendingar allajafna meðvitaðir um að spyrða má land sitt við þann tíma er hetjur riðu um héruð svo og að íslenskir menn hafi fest mikilsháttar verk á kálfskinn í gamla daga.

Ekki er verra að láta sér vaxa grön, berja sér dólgslega á brjóst og telja erlendum trú um að Íslendingar séu upp til hópa víkingar, rithöfundar og náttúrubörn. Og það að sjálfsögðu á meðan sýnt er hvernig á að bera á sig að við hið skoskættaða víkingaklapp.

Ekki á þó óskhyggja sumra þýðverskra blaðamanna við sem halda því fram að íslensk börn eigi til að bregða sér í hlutverkaleikinn „ég er Gunnar, þú er Grettir!“ Það er nú eitthvað ofsögum sagt en verður látið liggja milli hluta hér. Já, og svo má auðvitað ekki gleyma þessu:

Kann þetta að vekja upp „mein Gott“  eða „meine Fresse“ viðbrögð. En það skal einnig látið liggja milli hluta. Alltént er ljóst að menningararfur þessi er nokkuð áberandi í samtímanum þótt fæstir kunni kannski á honum stórkostleg skil og telja fullkomlega eðlilegt að skella hornum á víkingahjálma og gera bændur að atvinnu vígamönnum. Að vera víkingur var jú atvinnuheiti í þá tíð.

Það er og almenn vitneskja að oft hefir verið unnið efni upp úr sagnaarfinum. Og til að þrengja aðeins sjónarhornið skulum við einskorða okkur við heiðin minni, germanska arfleifð og víkinga. Óhætt er að segja að fjölmargir hafi unnið með þessa arfleifð. Þar má draga fram Richard Wagner og Ring des Nibelungen, Gunnlaðarsögu Svövu Jakobsdóttur, Flateyjar-Frey eftir Guðberg Bergsson Goðheima eftir Peter Madsen og Vicke Viking eftir Runer Jonsson sem síðar varð að Wickie und die starken Männer í Þýskalandi. Skálmöld og Sólstafir hafa ekki heldur látið sitt eftir liggja í þessum efnum. Listinn er vissulega langur og alltaf bætist við hann.

Vargöld heggur í sama knérunn.

Hverju er greint frá?

Áður en innihaldi sögunnar er lýst er vert að taka fram að hér er um fyrstu bók að ræða. Væntanlega eiga fleiri eftir að líta dagsins ljós og er því ekki öll sagan sögð. Þessi fyrsti hluti skiptist í tvo hluta „Svikalogn“ og „Blóðbragð“ sem eru lýsandi fyrir innihald þeirra; logn á undan storminum og brátt mun blóð renna.

Verkið er fremur stutt og því ekki ráð að láta of mikið uppi. Sagan á sér stað í Miðgarði og Ásgarði og eru aðalpersónurnar Óðinn og maður að nafni Vikar.

Sögutíminn er óræður en gera verður því skóna að tímabilið sem um ræði geti verið frá áttundu öld fram á þá elleftu eða hið svonefnda víkingatímabil sem talið er marka upphaf sitt með árás víkinga á klaustrið í Lindisfarne í Englandi árið 793.

Óðinn er þess áskynja að heimsendir er í nánd og veit jafnframt að sá fjöldi einherja sem hann hefir til að berjast fyrir sig er ekki nægilegur þegar kemur að ragnarökum þegar barist verður við jötna og annað illþýði. Bregður hann því á það ráð að senda Freyju til Miðgarðs til að etja mönnum saman svo vígaferli eigi sér stað með tilheyrandi mannfalli. En þeir sem látast í bardaga fara, eins og kunnugt er, til Valhallar og verða liðsmenn Óðins.

Vikar er uppgjafarvíkingur. Er þá verið að meina þann sem fór rænandi hendi og vílaði fyrir ekki fyrir sér að ganga bókstalega milli bols og höfuðs á fólki. Hann á sumsé ekkert sammerkt með boltabulluklappandi víkingum samtímans (okkur). Máske á hann eitthvað sammerkt útrásarvíkingunum svokölluðu þó. Hann hefir lagt af fyrri iðju og býr í sátt við guði og menn með þungaðri konu sinni Grían. Eða það heldur hann.

Er óþarfi að láta meir upp um innihald því skilst fyrr en skellur í tönnum.

Og vituð ér enn, eða hvað?

Þegar unnið er með téða arfleifð er allur gangur á því hve frjálslega er farið með hana. Það vill brenna við að stórt skáldaleyfi sé tekið. Til að mynda á Thor Stans Lee kannski ekki svo mikið sammerkt með Þór Eddukvæðna og Snorra-Eddu. Og eins er Erik the Viking kannski sagnfræðilega séð ekki besta fyrirmyndin hvað víkingalíf áhræir. Það þarf þó ekki endilega að vera ókostur.

Við lestur/skoðun á Vargöld má ljóst þykja að höfundar hafa vissulega stuðst við heimildir. Helst ber að nefna Sörlaþátt eða Héðins sögu og Högna eða þeim hluta þar sem Óðinn felur Loka að stela Brísingameni Freyju sem hann og gerir. „Þegar Freyja heimtar heimtar hálsmenið aftur af Óðni setur hann það skilyrði að hún komi af stað eilífu stríði milli tveggja konunga“ (Rudolf Simek.1993:43). Augljóst er og að höfundar notuðust við Snorra-Eddu svo og Eddukvæðin. Nánar til tekið Völuspá. Tekst og afar vel að fanga sumpart drungalegan anda kvæðisins.
Myndasagan er nefnilega ansi hreint drungaleg. Svo drungaleg að ef tíðarandinn væri annar þá er hætt við að bókin fengi á sig stimpilinn „Þessi bók er bönnuð börnum yngri en sextán ára“ og það yrði farið eftir því.

Auk þess sem myndir fanga téðan anda verður að segjast að þær eru allmennt fremur uggvænlegar og endurspegla innihaldið vel. Er þá ekki bara átt við söguþráðinn sem slíkan heldur ekki síður forlagahyggju og hefndarskyldu þessa tíma. Það er ekki annað hægt en að kaupa það sem á síðunum fer fram. Aukinheldur er þær áhrifaríkar og er framvinda þeirra vel klippt saman.

Það verður og að segjast eins og er að myndirnar eru svalar og hafa nútímalega þræði. Það hefir verið unnið með arfleifðina og hún þróðuð áfram. Kannski er hægt að segja að arfleifðin hafi verið „pimpuð“ upp.

Þeir sem hittast á Iðavelli

Eins og tæpt var á er enginn skortur á bókum, kvikmyndum og öðru sem tekst á við umrædda arfleifð. Margt af því er vægt til orða tekið miður gott. Annað er hjákátlegt,sumt stórkostlega broslegt. Myndasaga þessi tilheyrir þeim hópi sem eitthvað er spunnið í eða þeim hópi sem hittist á Iðavelli eftir ragnarök og verður spennandi að fylgjast með framhaldinu.

Heimildir

Rudolf Simek. 1993. Hugtök og heiti í norrænni goðafræði. Heimskringla: Háskólaforlag Máls og menningar, Reykjavík.