Þóra svikaskáld

 

Minnið er svikul skepna

Minn sannleikur er ekki lengur sá sami og þinn
tíminn okkar markar svipuför á minni mínu
ég valdi þig, vildi þig, tærðist upp með þér

það hefði verið hraðvirkara að gleypa bláa og
hvíta uppþvottavélartöflu

Bölvun

Ég fór um heimili þitt
ber að neðan
í karrýgulum ullarsokkum

ég néri mér utan í sófa, veggi, eldhúsáhöld og tók um hurðarhúna með rasskinnunum
mér skilst að almennt séu fleiri bakteríur á hurðarhúnum en á klósettsetum
núna á það svo sannarlega við um heimili þitt

ég setti koddann þinn milli læranna á mér svo þegar þú reynir að hvílast herjar römm mýrarlykt að vitunum, tannburstann þinn notaði ég til að greiða hár í söltum handarkrikum
ég snýtti mér í sum handklæða þinna
en alls ekki öll

ég vil að þú efist um skynjun þína
ég vil að þú finnir hvernig ég ásæki þig