Skítapleis Alabama

S-Town er heiti nýrra útvarpsþátta sem gefnir voru út þann 28. mars síðastliðinn í Bandaríkjunum. S-ið stendur að sjálfsögðu fyrir „shit“ – Shit Town, skítapleis. Þættirnir koma úr smiðju þáttargerðarfólks This American Life og Serial, þeir slógu undir eins í gegn og ruku efst á lista yfir hlaðvarpsþætti vestan hafs. Reyndar er merkilegt að þessum árangri náðu þættirnir nokkru fyrir útgáfudaginn og voru þær hlustunartölur bundnar við þriggja mínútna kynningarstiklu.

Margir biðu því í ofvæni eftir þáttunum og var ég í þeim hópi. Þrennt varð helst til þess að skapa þessa eftirvæntingu. Í fyrsta lagi getur maður gengið að því vísu að þættir úr þessum ranni séu vandaðir og áhugaverðir. Í öðru lagi var búið að tilkynna að þættirnir kæmu allir út einu á bretti sem er nýlunda í hlaðvarpsútgáfu. Þetta býður upp á svokallað „binge“ hlustun þ.e. að hlusta á alla þættina í beit, líkt og vinsælt er með sjónvarpsefni. Í þriðja lagi voru þættirnir afar vel kynntir í This American Life, Serial og á öðrum vettvangi með fyrr nefndri kynningarstiklu.

Stiklan hefst á grípandi, allt að því ljóðrænni lýsingu á þeim áskorunum sem klukkusmiðir standa frammi fyrir þegar gert er við antík klukkur. Í kjölfarið fá hlustendur svo í fyrsta sinn að heyra rödd klukkuviðgerðarmannsins John B. McLemore, aðalpersónu þáttanna. Suðurríkjahreimurinn, ástríðan í röddinni og einhver heillandi blanda af fáguðum og óhefluðum persónuleika kveikir strax forvitni. Að ekki sé talað um staðhæfingu hans að eitthvað sé rotið í skítapleisinu Woodstock í Alabama.

Intelektúal sveitalubbi

Í fyrsta tölvupóstinum sem John McLemore sendir þáttargerðarmanninum Brian Reed, staðhæfir hann að sonur ríkisbubba í bænum hafi framið morð sem síðan hafi verið hylmt vandlega yfir. Auk þess nefnir hann ýmsa aðra spillingu sem viðgengst í bænum og sýslunni. Eftir bréfaskriftir og símtöl um nokkuð langt skeið ákveður New York „yankee-inn“ Brian Reed loks að ferðast til krummaskuðsins í Alabama og hitta John til að rannsaka morðmálið. Strax þarna er hlustendum gefið undir fótinn að frásögnin verði eitthvað í ætt við Serial þættina þar sem fengist var við að fletta hluinni af gömlum sakamálum. Fljótlega kemur þó í ljós að þessir þættir eru af öðrum toga og smátt og smátt er lesandinn leiddur frá „whodunit“ frásögn yfir í frásögn sem er persónuleg og flókin. Í þessari flækju felast einmitt töfrar þáttanna. Þegar þú heldur að þeir séu komnir á beina braut tekur frásögninn óvænta stefnu.

Ég uppljóstra ekki miklu þegar ég segi að snemma kemur í ljós að morðmálið á sér ekki stoð í veruleikanum, þetta kemur fram strax í fyrsta þætti. Fljótlega færist áherslan yfir í það að greina frá lífi og skoðunum aðalpersónunnar.

John B. McLemore er heillandi persóna. Hann er einn af fáum mönnum í heiminum sem hefur kunnáttu til að gera við fágætustu klukkur heims. Sérviska John McLemore felst í fleiru en þessari sérstæðu atvinnu. Hann býr einn með aldraðri móður sinni sem þjáist af elliglöpum, hann bjargar flækingshundum, ræktar blóm, smíðar stórkostleg sólúr og hefur einnig plantað eina limgerðisvölundarhúsinu í gjörvöllu Alabama. Hann hefur einnig óvenjulegar skoðanir miðað við sveitunga sína og virðist vera einhversskonar intelektúal sveitalubbi. Hann hefur sterkar skoðanir á loftslagsbreytingum, trúarofstæki, kynþáttafordómum, kynjamisrétti, fordómum gagnvart samkynhnneigðum og misskiptingu auðs. Eyland í íhaldssömu sveitahéraði sem telur margfalt fleiri kirkjur en skóla, þar sem fáfræði ríkir á kostnað upplýsinga og menntunar og fordómar grassera. Eða eitthvað á þá leið mætti lýsa afstöðu John B. McLemore til stöðu sinnar í þessu samfélagi. Hann er í öllu falli utanveltu.

Sólúr sem John B. McLemore smíðaði fyrir lærimeistara sinn.

Í ljósi þessa kunna einhverjir hlustendur að hafa búist við að hér væri því á ferðinni einhversskonar pólitísk yfirlýsing um ástandið í Bandaríkjunum á tímum Trumps. Fljótlega eftir útkomu þáttanna mátti meira að segja sjá slíkar yfirlýsingar á íslenskum samfélagsmiðlum. Mikael Torfason sagði til dæmis á Facebook-síðu Sósíalistaflokks Íslands að þetta væri „saga um það hvernig Bandaríkin klofnuðu á þann hátt sem þau eru klofin í dag. Shit Town er Trump Town.“ Þótt vissulega sé þetta þráður í frásögninni er alveg ljóst að ómögulegt er að smætta hana niður í svo einfaldan boðskap. Hún hefur vissulega pólitíska þræði en fljótlega tekur hún stefnuna inn á við og verður miklu fremur að ítarlegri og allt að því óþægilega nærgöngulli lýsingu á lífi aðalpersónunnar John B. McLemore.

Framandi heimur? Bókmenntaheimur?

Það er afar mikilvægt að leggja áherslu á að þættirnir eru talsvert margbrotnari en svo að þá megi túlka sem rýni í pólitískt landslag Bandaríkjanna á okkar tímum eða einhversskonar rannsókn á stöðu kjósenda Trumps. Engu að síður fjalla þeir um fólk sem fjölmiðlar, einkum þeir sem teljast vinstra megin við miðju stjórnmálanna í Bandarikjunum, kepptust við að greina og skilja að loknum forsetakosningunum.  Sögusviðið og persónurnar skipta máli og á það bæði við um norðurríkja menntamennina frá New York og Chicago, sem framleiða þættina, sem og þær persónur sem fram koma í þeim. Þetta skiptir máli.

Líklegt verður að teljast að hlustendahópur S-Town sé sambærilegur við hlustendahóp This American Life og bandarísks almannaútvarps yfir höfuð. Hlustendurnir eru að mestu leyti í efri stéttarlögum Bandaríkjanna, hvítir, frjálslyndir og hámenntaðir. Ætla má að sögusvið S-Town og þær persónur sem fram koma í þáttunum séu nokkuð framandi fyrir þennan hlustendahóp, jafnvel þótt allt þetta fólk búi í sama landinu. Hið sama má án efa segja um okkur Evrópubúa. Við þekkjum þetta sögusvið einna helst sem einmitt það – sögusvið, hvort sem það er úr bókmenntum, kvikmyndum eða sjónvarpsþáttum.

Við, þetta frjálslynda, hvíta, menntaða fólk, sogumst svo inn í þennan heim í gegnum hina mögnuðu söguhetju John B. McLemore. Hann vekur samúð og forvitni því hann deilir skoðunum okkar á málefnum líðandi stundar, hnattrænni hlýnun, misskiptingu og misrétti af ýmsum toga. Staðsetning hans í tilverunni, í skítapleisinu, gerir þessi sameiginlegu áhugamál og áhyggjuefni svo enn meira heillandi. Hann er úr takti við nærumhverfi sitt en um leið eins og fiskur í vatni þar.

Erskine Caldwell var, einsog Faulkner, einn af forvígismönnum Southern Gothic bókmenntastefnunnar.

En John B. gengur líka inn í bókmenntategund sem við þekkjum og litar kannski afstöðu okkar til suðurríkja Bandaríkjanna að stórum hluta. Þetta er bókmenntagrein sem kalla mætti gotneskar suðurríkjasögur (e. Southern Gothic) og það er merkilegt sagan um John B. McLemore fellur nánast fullkomlega að bókmenntagreininni. Gotneskar suðurríkjasögur tefla nefnilega iðulega fram sérvitringum sem hafa einhvern djöful að draga, daðra jafnvel við voodoo galdur, eru í tvíbentum hlutverkum hvað kyn og kynhneigð varðar og búa á stöðum eða í samfélögum sem fara hnignandi. Þar er stutt í gróteskar aðstæður sem oft eiga rætur að rekja til fátæktar, einangrunar og/eða ofbeldis.

Maður kemst ekki hjá því að hugsa út í þessi bókmenntatengsl þegar hlýtt er á þættina. Og maður spyr sig að hve miklu leyti þættirnir eru klipptir og skrifaðir inn í þessa bókmenntagrein. Eða að hve miklu leyti aðalpersónan sjálf leiðir meðvitað fram þau minni sem bókmenntagreininni tilheyra. Því það er önnur hlið á þessu máli sem má hugleiða. Ákveðnar vísbendingar eru gefnar, fyrir þætti John B. McLemore í þessum plott vefnaði,  strax í fyrsta þætti. Þegar fundum þeirra ber fyrst saman sendir hann Brian Reed heim á hótelið sitt með lesefni. Smásögurnar, „Rós handa Emily“ eftir William Faulkner og „Hálsmenið“ eftir Guy de Maupassant. Verk Faulkners fellur beint inn í gotnesku suðurríkja sögurnar en „Hálsmenið“ eftir Maupassant fjallar um einangrun, misskiptingu auðs og lánleysi og fellur því einnig að umfjöllunarefni þáttanna. Báðar sögurnar verða sem speglar á líf John B. McLemore og aðstæður hans.

Spoiler Alert! Ertu ekki búinn að hlusta? Hættu þá að lesa og hlustaðu!

Þeim lesendum sem ekki hafa hlustað á þættina er ráðlagt að hætta hér, skruna upp og opna tengilinn efst á síðunni og hefja hlustun. Það sem hér fer á eftir gæti spillt hlustuninni svo um munar.

Klukkur og völundarhús

Þar sem ég hef vonandi forðað öllum sem ekki hafa hlustað á þættina frá því að lesa lengra er mér líklega óhætt að ljóstra upp um það að John B. McLemore fellur fyrir eigin hendi á meðan á gerð þáttanna stendur. Þar með tekur sagan nýja stefnu. Upp frá þessu ganga þættirnir lengra inn í líf aðalsöguhetjunnar. Gerð er tilraun til að skilja tilveru hans, þankagang, samskipti við annað fólk og e.t.v. hans dýpstu leyndarmál.

Það er á þessum tímapunkti sem sjónum er beint í meira mæli að klukkuviðgerðum John B. McLemore. Í öllu kynningarefni þáttanna eru klukkur og tannhjól áberandi, sem og myndefni sem tengist völundarhúsum á borð við það sem John B. hefur skapað á landareign sinni. Þessi tvö tákn, völundarhúsið og klukkurnar spila stóra rullu í því hvernig þáttargerðarfólkið nálgast frásögnina, eða öllu heldur hvernig það skapar frásögnina úr þeim gríðarlega efnivið sem safnast hefur upp hjá á því þriggja ára tímabili sem gerð þáttanna stóð yfir.

Völundarhús John B. McLemore er ekki full vaxið enn. Það býður upp á 64 mismunandi lausnir.

Það er því fleira en bókmenntir á borð við „Rós handa Emily“ sem virka líkt og speglar inn í frásögn S-Town. Í stiklunni sem minnst var á hér að framan, sem jafnframt er upphaf fyrsta þáttar, ræðir Brian Reed um klukkuviðgerðir og þann vanda sem viðgerðarmenn á borð við John B. McLemore standa frami fyrir. Klukkurnar eru ævagamlar, tvö til þrjú hundruð ára. Þær eru handgerðar og samsettar í hundruðum einstakra smáhluta, sannkallaðar ráðgátur. Til að ráða í þetta púsl reiða viðgerðarmennirnir sig iðulega á svokölluð „witness marks“ eða smávægileg teikn, rispur eða beyglur í úrverkinu, sem gefa vísbendingar um breytingar sem gerðar hafa verið í áranna rás og þar með upplýsingar um hvernig gripurinn ætti að vera. Í innslaginu segir Brian Reed:

Mér er sagt að það geti gert mann brjálaðan að gera við gamla klukku. Þú ert stöðugt að velta fyrir þér hvort þú hafir varið fleiri klukkustundum í að vafra niður stíg sem mun að líkindum enda í aungstræti. Það eina sem þú hefur eru þessi teikn [witness marks] sem hafa kannski ekki þá þýðingu sem þú heldur að þau hafi. Þú verður stöðugt að ákveða hvort þú sért að sóa tíma þínum eða ekki.

Eins og glögglega má sjá kallast þessi lýsing á klukkuviðgerðum á við verkefni Brians sjálfs í þáttargerðinni. Hún kallast líka á við hitt táknið, þ.e. völundarhúsið, sem þú getur eigrað um án þess að ná á leiðarenda. Og þegar frásögnin færist yfir í það að skilja persónu John B. McLemore er ljóst að klukkur og völundarhús eru ekki aðeins áhugamál og/eða atvinna hans heldur einnig myndhverfingar fyrir líf hans og það verkefni þáttargerðarfólksins að skilja það. Þetta upphafs innslag þáttanna er því merkingarþungið og kannski dæmi um hver vel skrifaðir þessir þættir eru.

Brian Reed og samstarfsfólk hans tekur til við að leita uppi þessi „witness marks“ sem geta útskýrt líf John B., skoðanir hans og örlög. Að sumu leyti rennur þetta saman þegar sú tilgáta kemur fram að e.t.v. hafi klukkuviðgerðirnar leitt John B. til glötunar.

Þættir sem aldrei hefði átt að framleiða?

Þættirnir hafa fengið nánast einróma lof fyrir frumleika og dýpt en einnig gagnrýni sem snýr að því hvort þáttargerðarfólkið fari yfir siðferðileg mörk og sé of ágengt gagnvart John B McLemore. Ég var afar feginn að sjá slíka gagnrýni enda ganga þættirnir ansi langt í því að upplýsa um einkalíf og jafnvel leyndarmál þessa einstaklings eftir að hann er allur. Við hlustun hnaut ég þó varla um þetta enda dregur sagan mann inn í sinn margslungna heim og kveikir forvitni sem, góðu eða illu heilli, ýtir siðferðilegum spurningum til hliðar. En frásögnin er ágeng og gagnrýnin er réttmæt.

Eftir að hafa velt þessu talsvert fyrir mér hef ég þó komist að þeirri niðurstöðu að þetta sé réttmætt. Það sem einkum hefur verið gagnrýnt er að þáttargerðarmennirnir uppljóstra um kynhneigð John B. og gefa e.t.v. óþarflega „góðar“ vísbendingar um einn ástmann hans án þess að fá leyfi fyrir þessum uppljóstrunum, hvorki frá ástmanninum né hinum látna John B. McLemore. Það er þó alveg ljóst að John B. er mjög meðvitaður um að upptökur eru stöðugt í gangi. Þetta sést best á því að í eitt skipti biður hann Brian Reed um að slökkva á upptökunni, einmitt þegar hann segir frá ástmanninum. Þetta gerir hann ekki til að bægja frá upplýsingum um eigin kynhneigð heldur til að gæta trúnaðar við manninn. Þeim trúnaði reynir Brian Reed að halda, þótt e.t.v. megi færa rök fyrir því að í litlum bæ séu smávægilegar upplýsingar nóg til að afhjúpa viðkomandi. Í öllu falli er ljóst að John B. er meðvitaður um að allt sem fer á milli hans og Brian Reed er tekið upp og gæti því endað í þáttunum. Hitt atriðið sem fær mig til að efast um að endanlega útkoma þáttanna hefði verið í óþökk John B. er það viðhorf sem snemma kemur í ljós að John B. deilir með mörgum sveitungum sínum. Viðhorfið er í stuttu máli það að láta allt flakka. Segja einfaldlega „fuck it“ og láta sér í léttu rúmi liggja hverjar afleiðingarnar verða. Þetta viðhorf kemur endurtekið fram, bæði  frá John B. sjálfum sem og öðrum persónum. Brian Reed túlkar þetta sem svo að þetta viðhorf sé tilkomið vegna þess að fólk hafi engu að tapa. Þetta er fólk á jaðrinum sem getur allt eins látið allt vaða og á það bæði við um smákrimma sem stæra sig af ofbeldisverkum sem og hluti sem John B. lætur flakka.

Kannski átti aldrei að gera þessa þætti. Kannski var þáttargerðarfólkið of djúpt sokkið í gerð þáttanna eftir rúmlega þriggja ára vinnu til að greina hvort það væri réttmætt. Kannski kemur slík réttmætisspurning aðeins fram þegar verk hafa einhverja raunverulega vigt.

Ég er að minnsta kosti feginn að hafa kynnst skítapleisinu í Alabama og hinum magnaða John B. McLemore sem og öðrum sem fram koma í þáttunum.

Býli John B. McLemore. Mynd: Google Earth.