Sundrung í smásjá

Innsetning Shia LaBeouf, HE WILL NOT DIVIDE US, hófst fyrir utan hreyfimyndasafnið, Museum of the Moving Image, í Queens, New York borg, á innsetningardegi nýs forseta, 20. janúar, og er ætlað að standa þar næstu fjögur ár.

Ég veit ekki hvort moldarflagið sem virðist liggja yfir blettinum fylgir sýningunni eða var þarna fyrir – en að undirlaginu frátöldu felst verkið í vefmyndavél sem fest hefur verið á vegg utandyra, á litlu torgi sem liggur milli gangstéttar og safnsins, ásamt áletrun fyrir ofan myndavélina: HE WILL NOT DIVIDE US. Hann mun ekki sundra okkur. Almenningi býðst að staldra hér við, dag og nótt, og gestir eru hvattir til að hafa einkunnarorðin eftir fyrir framan myndavélina, með hvaða lagi sem verða vill, til að sýna samstöðu gegn stefnu nýrrar ríkisstjórnar, í beinni útsendingu á netinu.

Verkið á sér þannig stað í tvenns konar rými – á lóðinni við safnið og online, það er á skjáum áhorfenda, símum og tölvum um allan heim. Flesta daga lítur torgið einhvern veginn svona út:

– svona:

– og stundum svona:

En svo var þetta:

Ryskingar

Ég hafði heyrt af verkinu útundan mér en veitti því ekki athygli fyrr en fréttir hermdu að Shia hefði verið handtekinn fyrir ryskingar í rýminu. Það var að kvöldi fimmta eða sjötta dags. Að því er ég kemst næst er þetta atvikið sem um ræðir: Einn gesta á svæðinu tekur utan um Shia, beinir símamyndavél að honum og sér og tekur selfí. Það virðist glatt á hjalla og gesturinn skiptir ekki skapi þegar hann kveður upp á ensku, í myndavélina, með handlegginn utan um listamanninn: „Hitler gerði ekkert rangt“. Þá líður sekúndubrotið sem fólk þarf til að trúa eigin skynfærum, þar til Shia hrindir manninum frá sér.

Viðbragðið væri jafn nauðsynlegt þó að Shia væri ekki af gyðingaættum, sem hann aftur á móti er og gesturinn sjálfsagt vissi. Yrðingin, og þessi tilraun til að innlima listamanninn í hana, var fólskuleg árás – en aðeins táknræn og sem slík varin af tjáningarfrelsisákvæði bandarísku stjórnarskrárinnar. Að hrinda manni getur hins vegar varðað við lög. Shia var handtekinn án mótspyrnu og sleppt eftir yfirheyrslu. Nasistinn gekk burt, að best er vitað, án eftirmála.

Það eru ekki tíðindi að í Bandaríkjunum finnist nasistar. Þau tíðindi síga aftur á móti yfir okkur um þessar mundir að þeir séu nú nógu kokhraustir til að bera sig svona fjálglega í almannarými – jafnvel á vettvangi mótmæla sem beinast gegn þeim.

Sundrung

Eftir þessa uppákomu hef ég opnað streymið frá Queens á ólíkum tímum og fylgst með um stund – nú í tæpa viku. Eldsnemma að morgni koma yfirleitt fyrstu þátttakendur á staðinn, einn eða tveir, og standa einarðir fyrir framan myndavélina til að kyrja: Hann mun ekki sundra okkur, hann mun ekki sundra okkur. Þegar líður á daginn fjölgar gestum. Um hádegisbil standa þar iðulega um tíu manns, og síðar um daginn jafnvel tugir. Krafturinn í mótmælunum, baráttugleðin, eykst í hlutfalli við fjölda gesta – í stað þess að kyrja hrópa þau slagorðið, slá trommur, leika á hljóðfæri, syngja og dansa.

Ég hafði í upphafi ákveðna fyrirvara við yfirskrift verksins, hann mun ekki sundra okkur. Ljóst er til hvers orðið hann vísar. En hver erum þessi við sem hann mun ekki sundra? Ef átt er við afmarkað mengi, til dæmis vinstrið, demókrata, íbúa New York, and-fasista, eða hverja sem skilgreina sig í andstöðu við hina nýju ríkisstjórn, væri skrítið að færa andstæðingnum þetta táknræna vald, að klifa á því að hann muni ekki sundra okkur. Auðvitað gerir hann það ekki – ekkert þjappar okkur betur saman en að eignast ótvírætt fífl fyrir andstæðing.

Ef, aftur á móti, okkur er hér ætlað að merkja alla, í það minnsta alla Bandaríkjamenn, þá virðist slagorðið einfaldlega rangt: ef yfirvöld standa að óhæfu verður andóf aðeins háð með því að slíta sig frá þeim, aðskilja sig – sundra. Réttum og sléttum fasistum úthýsir annað fólk, í það minnsta þar til þeir láta af fólskunni. Á því grundvallast allar and-fasískar hreyfingar Evrópu og raunar, frá seinna stríði, evrópsk stjórnmál yfirleitt. Þannig virtist mér yfirskrift verksins naíf.

Að láta eins og verkið strandi á orðavalinu væri aftur á móti orðhengilsháttur, og það jafnvel illkvittinn. Það sem mestu skiptir í orðavali svona verks er læsi á það samfélag sem því er ætlað að orka á. Ég bý ekki yfir því læsi en listamaðurinn virðist gera það. Verkið virkar. Það áorkar einhverju. Hverju, það er nú tekist á um.

Nasistar

Þegar líður að miðnætti standa örfáir þátttakendur eftir. Oft bara einn eða tveir. Svo tínast fleiri til. Það eru nasistar, mættir til að snúa verkinu gegn ásetningi listamannsins og gera það að vettvangi sinna skilaboða. Þegar líður á nóttina fjölgar þeim. Andspyrnan á dagana, nasistarnir næturnar. Og já, þetta eru nasistar. Einn veifar tölunni 1488 framan í myndavélina, kóða hvítra yfirburðasinna, annar myndum af froskinum Pepe. Ef þú þekkir ekki til þessara tákna gúglast þau ágætlega. Þriðji, ættaður frá Austur-Evrópu að eigin sögn, endurtekur nokkrum sinnum, til öryggis, að Slavar séu hvítir. Maður af ítölskum ættum að Ítalir séu líka hvítir. Og svo framvegis.

Þessi samræða heldur áfram, nótt eftir nótt. A lot of Japanese people are very pale. – I’m German but I’m also Spanish, so … – Well, Germany is a Middle-Eastern country, so I don’t know if they’re white. – I think it’s the same case with Spain, because a couple of hundred years ago they had the same situation as Germany. – It’s the same thing as a Swede saying he’s white. It’s just bullshit. – Who is white then? – Nobody. – Only Hitler. Only Hitler was white.

Hvernig þeir glotta og hvernig þeir hlæja. Að hverju þeir glotta og hlæja. Þegar galsinn í þeim verður mestur minna aulageiflurnar á ljósmyndir sem við þekkjum, af þýskum námsmönnum að brenna bækurnar sínar 1933. Kætin yfir ófjötraðri heimsku – að nú sé allt mögulegt, ekki að þú getir margt, því þú getur fátt, heldur að nú megir þú flíka því, hefja heimskuna á stall. Enginn láti þig blygðast þín fyrir það sem bara rétt áðan þótti svívirða.

Nasistar

I had a girl over once and I turned on my computer and she saw it and what the fuck? Is that a swastika? – Ha ha ha! – And I was like no no no, it’s Indian, it’s just a meme, it’s ironic. And that was before I got to know redpill so I actually was being ironic about it. – An ironic nazi. – Not anymore! – Ha ha ha!

Nasistarnir á torginu virðast flestir karlmenn um þrítugt. Þeir mæta í upphafi nætur og dvelja á lóðinni klukkustundum saman. Sumir hrópa aðeins slagorð í myndavélina. Flestir eru rólegri í fasi. Þeir standa fyrir framan myndavélina og ræða saman, um Trump, um innflytjendur, um hakakrossa, um hverjir eru hvítir, hverjir ekki, hvað er framundan – „kynþáttastríð“ – hvorir eru verri múslimar eða gyðingar. Þeir ræða líka um myndasögur og tölvuleiki og senda ótal kveðjur til félaga á netinu – og til Shia, sem þeir þakka fyrir að veita sér þennan vettvang. Hingað til hafi þeir aðeins þekkst online, nú séu þeir loksins að hittast, mynda hreyfingu.

Í sex manna hópi, eina nótt, spyr einn hlæjandi hvort Shia LaBeouf sé gyðingur. Annar svarar já, franskur gyðingur. Engin furða að hann er í Hollywood segir sá fyrsti, hlær hærra, þeir eru svo sneaky. Og þeir hlæja saman. Svo kyrja þeir Trump, Trump, he’s our man. If he can’t do it no one can. Þá hefur einn þeirra símann sinn á loft og spilar lag úr hátalaranum – það er Horst Wessel Lied, opinber söngur þýska nasistaflokksins, bannaður í Þýskalandi til dagsins í dag. Þeir hlusta á lagið til enda. Einn hefur hönd á loft til nasistakveðju. He will unite us kyrja þeir svo og spila lagið aftur.

Á sunnudeginum, tveimur dögum eftir að tilkynnt var um komubann fólks frá sjö löndum múslima, er haldinn á torginu kraftmikill samstöðufundur gegn Trump. Eftir ræður hrópa þátttakendur slagorð sem heyra má um allan heim síðustu ár: No hate, no fear, refugees are welcome here, ásamt slagorði sósíalista frá valdatíma Allende í Chile: The people united will never be defeated. Einn ræðumaður segist hafa móttekið bréf frá samtökum nýnasista þar sem þeir segi þessa lóð nú vera helga grund hreyfingar þeirra, vegna söfnuðarins sem þar hefur komið saman. Áheyrendur hlæja og búa.

Eftir nasistasöngvana nóttina áður slær það mig: ég er að horfa á senuna í Casablanca, þar sem hermenn Frakklands og Þýskalands reyna að kaffæra hver annan í söng, Frakkarnir með Marseillaisnum og nasistarnir einhverju þjóðræksni. Fjögurra ára löngu útgáfuna. Director’s cut.

Eina nótt taka tvö ungmenni sér stöðu fyrir framan myndavélina og endurtaka He will not divide us. Annað þeirra bætir við: „Ef þeir mála yfir vegginn og fjarlægja myndavélina mun ég samt halda áfram að koma hingað, táknrænt, og segja: hann mun ekki sundra okkur.“ Því næst rífur hann einhvern nasistalímmiða af veggnum undir myndavélinni og þau hrista hausinn yfir ósómanum. Hálftíma síðar eru þau horfin úr mynd og tveir menn nær þrítugu standa á torginu. Annar spennir greipar og fer með æðruleysisbænina. Hann útskýrir hversu mikilvægt það sé að greina á milli þess sem maður getur breytt og hins sem maður getur ekki breytt. Hann segist fullur þakklætis. Og að Richard Spencer hafi ekki gert neitt rangt.

Nasistar

Eina nótt er stjórnarandstæðingur samferða vakthafandi nasistum inn á lóðina. Áður en hann lætur sig hverfa segir hann við okkur sem heima sitjum: „Me and these people may not agree on everything. That’s OK. I still love them regardless.“ Þetta er kannski ekki sér-bandarískt viðhorf eða tjáningarmáti. En furðu einkennandi á þessum vettvangi. Hugtökin ást og hatur heyrast hér oftar en orð yfir nokkra pólitíska afstöðu – þau sem mótmæla Trump taka fram að þau hati engan, hér sé bara ást, og nasistarnir eiga til að segja það sama. Milli þess sem þeir fagna múslimabanninu og rétta upp arminn til að hylla heimskuna hreykja þeir sér af því að vera tilbúnir að eiga rökræðu við hvern sem er. Það sé svo mikilvægt að tala saman.

„Ég leita að tilgangi,“ segir næturgestur í myndavélina. „Það gerum við öll“. Glottir hann? Hann drekkur mjólk úr brúsa og svo kallar hann út kveðjur til ólíkra landa: Shoutout to Macedonia. Shoutout to Northern Italy but not Southern Italy – ha ha ha! – Northern Italy is white. Shoutout to Ancient Greece. Shoutouts – kveðja og kudos – eru gefin tvist og bast, nótt eftir nótt. Shoutout to NYPD. – Shoutout to Shia for giving us this opportunity to express ourselves. – Shoutout to museums, museums are important. – Predictions for the next eight years? – Race war. – The white side of the race war is going to be very diverse if Paul gets to be in. Allir hlæja.

Paul, sem virðist af indverskum ættum, svarar fyrir sig, ver rétt sinn til að vera nasisti óháð kynþætti: I was meme-ing about the race war. I think it’s going to be the pro-white side and the anti-white. Félagi hans tekur undir: Yeah, it’s not going to be blacks versus whites. – Do you think we’ll have a hundred years of Trumps? Will there be a Trump dynasty? Svo leiðist talið að öðru. I’m listening to Bach’s Goldberg Variations in my ears right now. Glenn Gould. If you don’t appreciate that shit, you’re a fucking idiot.

Þegar einn úr hópnum heldur heim á leið kveðjast félagarnir með því að taka höndum saman í hakakross.

Girðing

Margar nætur standa nasistarnir með síma í hönd, fylgjast með skilaboðum sem þeim berast frá áhorfendum, og svara. Einn les gagnrýni sem honum berst fyrir að líkja fyrirhuguðum múr að Mexíkó við múrinn í Jerúsalem. Hann tekur undir að líkingin sé líklega ekki góð, því í Jerúsalem ertu „damned if you do, damned if you don’t. If you support the wall you’re zionist, if you’re against it you’re …“ – Ég slekk í miðri setningu. Nátttröllin virðast hata múslima og gyðinga til jafns.

Enn sem komið er bregðast ótrúlega margir kurteisislega við óhæfunni. Eins og Mark Bray lýsir í nýlegri grein í Roar Magazine líta gamalgrónar and-fasískar hreyfingar á það sem skyldu sína „eftir Auschwitz og Treblinka … að traðka á rétti nasista til að segja nokkurn hlut.“ Það sé borin von að breyta afstöðu forhertra illvirkja með samtali en það megi gera þeim kostnaðarsamt að hafa hátt um hana. Að þagga niður í þeim sé skárra en að láta eins og siðað samfélag lifi það af að skeggræða kosti og galla útrýmingarherferða. Shia Labeouf virðist á sama máli og bregst afdráttarlaust við svívirðu. Margir aðrir, enn sem komið er, ekki.

Eftir fyrstu viku innsetningarinnar setur lögregla upp girðingu milli rýmisins og gangstéttarinnar sem það liggur að, til að stýra aðgengi þegar þurfa þykir. Vörður á vegum safnsins virðist eftir það standa vakt allan sólarhringinn. Náttfólin benda á girðinguna og hía á Shia: sérðu hvernig þú ert nú þegar að sundra okkur, Shia, hér er fyrsti veggurinn, nú mun þeim bara fjölga.

Þetta er brotakennd lýsing á verkinu, frá fyrstu viku Trump í embætti fram í viku tvö. Ég hef varið fleiri klukkustundum – og orðum – í tröllin sem spóka sig eftir miðnætti, kætast yfir illsku sinni og hverfa undir dögun en þá fjölmennari hópa sem taka höndum saman gegn fólskunni frá birtingu fram á kvöld. Kannski er svona þarft að horfast í augu við illskuna. Kannski er hún bara betra sjónvarp. Innsetning Shia LaBeouf gæti enn reynst frjór vettvangur til andófs. Dagarnir gefa það til kynna. Næturnar ekki. Hvernig sem það fer veitir verkið, fjögurra ára löng heimildamynd í einu skoti, forvitnilega, átakanlega, og á köflum dáleiðandi, míkróskópíska sýn á átökin um Bandaríkin.