Snjór gerir borgina að eyðimörk.
Nokkur fótspor. Týndur hundur gengur á milli húsa.
Veikur maður liggur í rúmi og drekkur vatn en lifrin ræður ekki við andstyggilegar tilfinningar.
Hundur gengur um borg. Hún var byggð í landslagi þar sem sólin rís aldrei upp fyrir sjóndeildarhringinn. Í íbúð manns liggja föt í hrúgum eins og ættingjar hans hafi gufað upp.
Köld eyðimörk. Það þýðir ekki að fara að sofa – ekkert breytist á nóttunni. Hundur hættir að gelta.
Einhvers staðar langt í burtu eru ský sem ferðast bara að nóttu til. Og undir þeim: Stór olíuskip. Svo stór að þau virðast kyrr. Svo stór að þau virðast mannlaus.
Einn daginn verður sokkahrúgan litríkt fjall og allt í einu finnst mér ótrúlega fallegt að á hverjum degi opni einhver nýjan veitingastað.
Einu sinni leið mér eins og heiminum áður en kjarnorkan var fundin upp. Svo opnuðust dyr sem er ekki hægt að loka. Kjarnorkusprengjurnar sprungu eins og stærsta leyndarmál í heimi og stuttu síðar lauk seinni heimsstyrjöldinni. Þetta gerðist árið 1945. Árið 1987 var meðalhitinn í Reykjavík 5,4 gráður á Celsíus. Hitinn í kjarnorkusprengju er í kringum 80 milljón gráður á Celsíus og breytir manneskjum í kol. 5,4 gráður breyta manneskjum ekki í neitt. Fólk horfir á líf sitt eins og kvikmynd og bíður eftir að eitthvað gerist. Kannski vegna þess að á veturna er dimmt eins og í bíósal og birtan frá ljósastaurunum er kornótt eins og á filmu.
Þeir sem þurfa að grafa sig út úr snjóflóði vita ekki hvað snýr upp eða niður. En sumir eru ekki að grafa sig út úr snjóflóðinu heldur í hina áttina, inn í fjallið. Og hinum megin við fjallið er önnur manneskja, hún er líka að grafa sig í gegn, og þegar þessar tvær manneskjur mætast skín ljós í gegnum göngin. Ekki kornótt ljós eins og á filmu heldur tært ljós frá sólinni. Hitinn á yfirborði sólarinnar er 5500 gráður á Celsíus.
Winston Churchill var forsætisráðherra Bretlands þegar kjarnorkusprengjurnar sprungu og á tveimur litlum punktum á landakortinu varð hitinn á jörðinni í kringum 80 milljón gráður á Celsíus. Þegar Churchill var á lífi var líkamshiti hans í kringum 37 gráður á Celsíus en eftir að hann var grafinn var líkamshiti hans sá sami og hitastig moldarinnar. Hann var þunglyndur en samt vann hann seinni heimsstyrjöldina.
Jónas Reynir Gunnarsson hlaut í gær Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2017 fyrir ljóðahandritið Stór olíuskip. Starafugl birtir af því tilefni þrjú ljóð úr bókinni.