Skortir kraft heildarinnar

Um Safnljóð 2006-2016 eftir Gísla Þór Ólafsson

Árið 2003 kvað skáldið Gísli Þór Ólafsson sér hljóðs í Lesbók Morgunblaðsins með ljóðinu „Ást á Norðurpólnum“. Í ljóðinu er spaugileg sviðsetning þar sem brugðið er upp mynd af elskendum sem njóta ásta á Norðurpólnum í engu nema vettlingum. Það er samt ekki sviðsetningin sem slík sem gerir ljóðið eftirminnilegt, heldur sjónarhornaskiptin þegar ljóðmælandinn spyr: „Hversu oft / ætli mörgæsir hafi séð þig / sveitta ofan á mér“? Eftir stendur lesandinn með áleitnar spurningar um það hvernig heimurinn horfi við mörgæsum og hvort manneskjur geti yfirleitt sett sig í þeirra spor. Í þessu ljóði birtist líka eitt helsta höfundareinkenni Gísla Þórs, ávarpið „þú“ sem hefur síðan gengið eins og rauður þráður í gegnum höfundarverkið sem nú telur fimm ljóðabækur og fjóra hljóðdiska. Úr þessum verkum hefur höfundurinn nú tekið saman úrvalið Safnljóð 2006-2016 (2016) sem hér er til umfjöllunar.

„Þú“-ið sem birtist í ljóðum Gísla Þórs er breytilegt en í flestum tilvikum er um að ræða viðfang ástar ljóðmælandans. Vísað er til aðstæðna sem gefa til kynna að „þú“-ið sé „raunveruleg“ persóna en síðan er eins og órar ljóðmælandans taki yfir og hún verði ekki síður hugsmíð hans sjálfs. Þessa persónu mætti kalla músu hans, en það hugtak hefur í gegnum tíðina haft karllæga slagsíðu, músan er oft og tíðum hlutgerð og passíf um leið og hún er lofsungin fyrir þá þætti í fari sínu sem karlkyns ljóðmælanda hugnast. Ljóð Gísla Þórs eru samt ekki hefðbundin í þessum skilningi, ekki síst vegna þess að sjálfir órarnir eru umfjöllunarefni þeirra, þá skiptir líka máli að mikið af samskiptum ljóðmælandans og „þú“-sins fara fram í gegnum tölvu. Þannig er „þú“-ið að verulegu leyti texti sem birtist á skjá og ljóðmælandinn þarf að ráða í án þess að raddblær, áherslur eða svipbrigði komi að haldi. Lengst ganga tilraunir höfundarins með sambandið milli ljóðmælanda og viðfangsins í bókunum í Aðbókin (2007) og Ég bið að heilsa þér (2008) en þar gegnir samskiptaforritið MSN veigamiklu hlutverki eins og t.d. í ljóði sem heitir eftir því:

ég sakna þess að geta ekki lengur glatt þig
og komið þér til að hlæja
ég sakna þess að geta ekki faðmað þig
hvort sem er á skjá eða í alvörunni
ég sakna þess að geta ekki snert þig
hvort sem er á skjá eða í alvörunni
ég sakna þess að geta ekki gefið þér blóm
hvort sem er á skjá eða í alvörunni

það eru engin kertaljós í tölvu

(2008: 15)

SMS-skilaboð koma líka við sögu í þessum bókum en eina eftirminnilegustu ljóðlínu Gísla Þórs er að finna í Aðbókinni: „Að senda sms getur verið glapræði (2007: síður bókarinnar eru ekki tölusettar)“. Í báðum bókunum magnast upp spenna, í fyrstu virðist ljóðmælandinn ástfanginn, hann er brjóstumkennanlegur og jafnvel eilítið krúttlegur en smám saman verða hugsanir hans um viðfangið áráttukenndari og lesandanum verður ljóst að viðfangið vill sleppa úr viðjum hans og loka á öll samskipti. Í Aðbókinni er þetta sérstaklega greinilegt en þar hefjast mörg ljóðanna á „Að“ og á eftir fylgja setningar sem virðast bergmála einhverja visku eða gullkorn úr sjálfshjálparbókum, dæmi: „Að vellíðan snúist um / að hemja langanir og nautnir“, „Að njóta þess sem maður hefur / en ekki velta sér uppúr því / sem maður gæti haft“, „Að ég sé ekki geðveikur / bara ástfanginn“. Styrkleiki Aðbókarinnar og Ég bið að heilsa þér er fólginn í endurtekningum, stefjum sem lesandinn fer að þekkja, smávægileg tilbrigði geta kallað fram hlátur eða dýpkað skilning lesandans á þeim tilfinningasamböndum sem ljóðmælandinn lýsir. Ljóðmælandinn er óvæginn við sjálfan sig og hann kemur manni fyrir sjónir sem andhetja sem þroskast ekki endilega þrátt fyrir að hann gangi í gegnum erfiða reynslu. Þannig er niðurstaða Aðbókarinnar þessi: „Að við gerum öll mistök einhverntímann / að ég geri bara alltaf sömu mistökin / aftur og aftur“. Í Aðbókinni er undirtexti, hann birtist beinlínis í neðanmálsathugasemdum ljóðmælandans. Athugasemdin við lokaljóðið er þessi: „Byggt á smsi sem hún sendi mér. Stafirnir hennar eru við eitt ljóðið í handriti næstu bókar.“ Um leið og athugasemdin vísar fram í tímann, til næstu bókar þá vísar hún líka aftur, ef svo mætti segja, til þeirrar bókar sem lesandinn hefur nýlokið við. Athugasemdin staðfestir nefnilega það sem lesandann var e.t.v. farið að gruna að það væru meira og minna orð viðfangsins sem endurómuðu í orðum ljóðmælandans og þannig er „þú“-ið e.t.v. ekki eins passíft og það virtist í fyrstu. Aðbókin er með öðrum orðum margbrotið verk sem e.t.v. væri forvitnilegt að skoða nánar í samhengi við aðrar ljóðabækur sem komu út um líkt leyti og hún, þá vil ég einkum nefna ljóðabók Þórdísar Björnsdóttur Ást og appelsínur (2004) sem er líka rannsókn á sambandi „ég“-s og „þú“-s.

Í Safnljóðum 2006-2016 birtast einungis 11 af þeim tæplega 60 textum sem finna má í Aðbókinni og það verður að segjast eins og er að sú útgáfa sem þar er að finna gefur engan veginn rétta mynd af verkinu í heild. Sömu sögu má segja um Ég bið að heilsa þér. Í þessu má segja að helsti galli Safnljóða 2006-2016 sé fólginn því styrkleiki Gísla Þórs sem ljóðskálds felst ekki í einstökum ljóðum heldur í heildinni. Mörg ljóða hans standa ekki undir sér ein og sér en verða fullburðug í krafti heildarinnar. Þegar ljóðskáld kjósa að taka saman ljóðasöfn er það gjarna vegna þess að þau sjá einhverja samfellu í höfundarverki sínu sem þau vilja benda á. Ljóðasöfn gefa þannig höfundum tækifæri til að túlka höfundarverk sitt upp á nýtt og þegar best lætur endurskapa sig sem höfunda. Í fyrsta ljóði Safnljóða 2006-2016 „Bernskuminnið“ er sleginn tónn sem ætla mætti að höfundur hygðist spinna út frá:

og augun voru lokuð fyrir öllu þessu ljóta
þessum óhugnaði í minninu
sem seinna meir birtist mér
og greip sig og gróf
í minni gleymskunnar
gleymskunnar sem að fæ ekki breytt

Þetta upphafsljóð er samt bara stakur þráður og því miður virðist höfundurinn ekki hafa lagt upp með neina skýra heildarmynd – vefnað ef svo mætti að orði komast. Það skal tekið fram að sá sem hér skrifar er aðdáandi ljóða Gísla Þórs Ólafssonar og hefur fjallað um verk hans á öðrum vettvangi eins og kemur fram í „Skrá yfir ljóðabækur“ aftast í Safnljóðum 2006-2016. Í þessu sambandi er mér bæði ljúft og skylt að geta þess að í höfundarverki hans er að finna ljóð sem heitir einfaldlega „Haukur Ingvarsson“ (2016: 52) það breytir því þó ekki að mér finnst Safnljóð 2006-2016 hvorki takast að birta rétta mynd af höfundarverki hans né breyta þeirri mynd sem hafði þegar mótast í huga mínum.