Skáldin eru ekkert að æpa á hvert annað

viðtal við Brynjar Jóhannesson

upp úr kjallara hleyp ég framhjá ljóslausum staurum, sinubruni í lungunum og alheimurinn riðar þótt ég viti ekki af því, kaffibragðið á tungunni er upprifju­n á kossi, hitna í andlitinu fyrir hornið hleyp ég niður barnlausan vagn
hleyp upp
upp götuna
og hólinn

læt mig falla
og upp

sólin kemur upp
og ég riða með henni

sinubruni í lungunum

(úr bókinni Suð)

Brynjar Jóhannesson (fæddur 1991) er ljóðskáld og ritlistarnemi. Í ár vinnur hann að ritverkinu Tólf þar sem hann hyggst gefa út eina ljóðabók í hverjum mánuði. Þegar þetta birtist eru komnar níu bækur og þá (væntanlega! vonandi! líklegast!) þrjár á leiðinni.

Brynjar gaf einnig út út þrjár bækur árið 2014 í samstarfi við Drífu Thoroddsen og Listhópa hins hússins – það var afurð ljóðaþjónustu hans og Drífu, sem hafði það megin verkefni að skrifa og afhenda ljóð eftir pöntunum.

Árið 2014 vann Brynjar Ljóðslam Borgarbókasafnsins.

OK, Brynjar, þetta er svona döll upptalning svo allir sem lesa þetta viti hver þú ert. Það eru ekki allir vinir þínir einsog ég – það er kannski hálf sjálfhverft af mér að taka viðtal við þig, en mér til varnaðar vorum við ekki vinir þegar þetta var ákveðið í mars. Ertu sáttur við þennan texta eða viltu breyta einhverju?

Ég gengst við þessu. Ég skrifaði líka útvarpsleikrit þar sem Arnar Jónsson lék mann sem þuldi upp texta eftir Eminem. Það var gaman.

OK byrjum þetta á einföldum spurningum um ritferlið.

MAÐUR SKRIFAR EKKI ENDILEGA BULL NIÐUR

Þú ætlar að gefa út tólf bækur í ár, hverja þeirra í fjörtíuogátta eintökum. Ég er skíthræddur við talnaspeki en verð þó að spyrja: Hvers vegna fjörtíuog átta?

Fyrst ætlaði ég að gefa fyrstu bókina út í tólf eintökum. Tólf eintök sinnum tólf gera alveg hundrað og eitthvað. Mánuðirnir eru tólf og bækurnar verða tólf. Vinkona mín vildi meina að ég hefði gott af því að reyna að selja einhverjum ókunnugum. Fjórum sinnum tólf eru fjörutíu og átta og það virðist vera góð tala.

Ef ég held mig undir fimmtíu þá þarf ég bara að skila inn tveimur eintökum á þjóðarbókhlöðuna en ekki fjórum, og það er stofnun sem ég þori ekki annað en að hlýðnast. Ég þekki bókaverði þar sem ég vil helst halda góðum.

Er ekki skrítið að gefa út bók einu sinni í mánuði? Hvað ætlarðu að gera þegar þessu verkefni lýkur?

Ég hef pælt svolítið í þessu og er á báðum áttum og er pínu hræddur um að ég hætti bara að skrifa eða ég verði óttalega eirðarlaus í janúar þegar ég er ekki að skrifa bók stöðugt. Þetta er örugglega ekki hollt, sérstaklega ekki þegar maður er í vinnu eða eitthvað líka.

En er vinna eithvað hollari?

Nei. Nei hún er það ekki. Vinna er illnauðsynleg. Það er alveg hægt að vera með „góða“ vinnu en hún er samt oft fyrir því sem manni langar raunverulega að gera. Vinna er eitthvað sem þarf að gera en á sama tíma gefur manni minni tíma til að bulla.

Er bull nauðsynlegt?

Ég held það sé litið almennt á bull sem léttvægan hlut sem skiptir engu máli en á sama tíma koma margar hugmyndir úr bulli, það er samt ekki praktískt, maður þarf að bulla bullsins vegna. Ljóð eru samt ekki bull. Ég held að mikið af ljóðum verði til uppúr bulli og ég hef fundið fyrir því að því meira sem ég er búinn að bulla því hraðar get ég skrifað. Það er kominn forði af efnivið.

Ritstýrirðu þá bullinu eftirá, eða virkar bullið sem kveikja fyrir einhverju nýju?

Bullið þarf ekki að vera í beinni skiljanlegri tengingu við ljóðin, bull heldur manni vakandi og í réttu ástandi. Eða að þegar ég er búinn að vera í ástandi til þess að bulla er ég líka í ástandi til þess að skrifa ljóð.

Bull já, þetta er önnur tilraun okkar til að græja þetta viðtal. Í fyrra skiptið sátum við þunnir í sjoppu á Ísafirði og ekkert varð úr því nema bull.

Ég held að gallinn við Ísafjarðar mómentið var að við vorum ekkert að skrifa neitt niður. Það er kannski munurinn á ljóðum og bulli að maður skrifar ekki endilega bull niður, það bara bullast og verður að engu.

Ég tek vel í þessa ábendingu. Ég ætti ekki að reyna taka viðtöl við fólk þunnur, án skriffæra – ef ég tek þá nokkurn tímann aftur viðtal, þetta er eflaust fullreynt og vonlaust hjá mér.

SKÁLD ÆTTU EKKI AÐ TALA VIÐ HVORT ANNAÐ EINSOG ÞEIM LEIÐIST LJÓÐ

Um daginn birtist á Starafugl dómur eftir Braga Pál um bók eftir Jónu Kristjönu – dómurinn sjálfur og bókin kannski ekki eitthvað sem mig langar að spyrja út í – en í kjölfarið skapaðist skemmtileg umræða á Feisbúkk um fagurfræði ljóðlistar.

Á meðan jafnaldrar þínir töluðu gegn pönki, og vildu meira handverk, penari og fallegri ljóð, talaðir þú fyrir hráleika.

Ætli það haldist ekki svolítið í hendur að vinna hratt og skrifa hátt. Að minnsta kosti hrátt. Þegar ég skrifa handrit, brýt um og hanna kápu á einum mánuði er hálfútilokað að þetta verði pent og fallegt. Ég hefði heldur ekki farið út í svona verk ef það væri ætlunin. Og svo kemur hávaðinn svolítið eðlilega með hraðanum, finnst mér. Það hlýtur að minnsta kosti að vera erfitt að viðhalda öskri í gegnum margra mánaða langt fram og til baka ritstjórnarferli. En já, mér fannst þetta mjög hressandi umræða. Svolítið loksins er einhver að öskra um ljóð moment. Og ég held ég hafi enduruppgötvað svolítið hversu miklu þetta skiptir mig. Að mér er ekki sama um ljóð eða fagurfræði.

Já, stjórnarslitin og umræður í samfélaginu hreyfðu frekar lítið við mér – en þegar saman voru komin nokkur ungskáld á feisbúkkstatus að segja að brund mætti ekki vera í ljóðum fannst mér ég verða að æpa eitthvað. Þetta er kannski samtal sem á sér alltof lítið stað, og því var ég ekki viðbúinn því? Fagurfræði er kannski ekki rædd nógu mikið opinberlega?

Það gerðist að minnsta kosti eitthvað þarna, á þessum facebook þræði. Þetta er örugglega eitthvað sem mörg af þeim sem tjáðu sig höfðu rætt sín á milli en þarna var það fyrir opnum tjöldum. Svo skáld gátu loksins móðgast út í hvort annað. Þú segir að þér finnist fjöll vera leiðinleg svo ég segi þér að brund sé banalt. Þú segir að spíttljóð séu orðin þreytt og ég hóta að lemja þig, eða svona allt að því.

Hmm, kannski ættu skáld að lemja hvort annað oftar?

Þau ættu að minnsta kosti ekki að tala um ljóð við hvort annað eins og þeim leiðist þau.

ÉG LAS EINU SINNI UPP KONKRET LJÓÐ. ÓMÁLGA BARNI FANNST ÞAÐ VERA SKEMMTILEGT.

Í lok hverrar bókar kemur vísbending um þema næstu bókar. Og þú virðist fylgja því nokkuð grimmt eftir. Ekki bara í textunum sjálfum og útlit bókanna – heldur líka í því hvar útgáfuhófinu eru haldin. Til dæmis hét bókin sem kom út núna í september Hár og útgáfuhófið fyrir hana var haldið á hárgreiðslustofu.

Þetta byrjaði með fyrstu bókinni sem hét bara Ég. Ég ákvað að hún kæmi út á slaginu um miðnætti á gamlárskvöldi. Fyrsta bók ársins. Þá sagði ég að þar sem ég væri, þar væri útgáfuhóf. Eftir það fannst mér eðlilegt að Flugvél kæmi út á flugvelli og Stríð í friðarhúsinu. Þemun eru nauðsynleg finnst mér, á þessum hraða. Annars yrði þetta líka svo stefnulaust. Það hefur svo orðið ákveðin þróun í þemavinnu hjá mér. Tilfinning fyrir byggingu þar sem hver bók hefur nokkra þræði. Sennilega er best að hafa þrjá þræði.

Þú hefur (einsog kemur fram í kynningartextanum í upphafi) unnið einhver slamljóðaverðlaun og ég hef heyrt þig ræða upplestratrikk – einsog til dæmis, að maður eigi aldrei að vera með of þunn blöð upp á sviði, það sé erfitt að grípa fast í þau til að fela skjálftann. Hversu mikið pælirðu í upplestrunum? Og afsakaðu klisjuna: ÖÐLAST LJÓÐIÐ NÝTT LÍF VIÐ UPPLESTUR?

Ég held ég skrifi fyrst og fremst upplestrarljóð. Þau eru yfirleitt þungamiðja hverrar bókar. Ég skrifa inn í ryþma, hlusta á ljóðin um leið og ég skrifa þau. Eins og eitthvað skáld kom inn á, þá finnst mér skipta máli að ljóð sándi vel. Og nýtt líf? Ég hef að minnsta kosti oft skipt um skoðun á ljóðum eftir að ég heyri þau lesin upp. Finnst ég þá eftir á hafa misskilið eitthvað.

NÆST ÆTLA ÉG AÐ LESA UPP KONKRET LJÓÐ. ÞAÐ ER MYND AF SVANI Á BLAÐINU EN ÞIÐ SJÁIÐ ÞAÐ EKKI!

Ég las einu sinni upp konkret ljóð. Ómálga barni fannst það vera skemmtilegasta ljóðið á upplestrinum.

Já börn hafa það þó framyfir venjulega hlustendur að þau koma ekki og segja: „Ég dáist að tilfinningunum og/eða skoðunum í ljóðum þínum“ einsog ma’ sé í framboði

Skáld ættu ekki að bjóða sig fram. En ég veit ekki með áhorfendur yfir höfuð. Þegar ég las upp í friðarhúsinu var ég klappaður upp. Ég hafði lesið næstum því alla bókina og endað á endanum en þau hálfvegis öskruðu: MEIRA MEIRA Ég tók þá bara upp næstu bók og las svona helminginn af henni. Seldi fullt. Ég veit enn ekki hvort þau hafi verið að gera grín að mér.

Nei, nei, þú ert skemmtilegur upplesari. Krávdplíser. Leggur þig fram um að vera skemmtilegur, ólíkt okkur mörgum. Ég leit alltaf á upplestra sem eitthvað tækifæri til að vera fökka í fólki, og rugla í samkomunni – æ, stundum einsog leim gjörningar. Núna lít ég á þetta einsog sveitaball. Alltaf enda þetta á ljóðinu sem fulli frændi minn kom til að heyra.

Ég er náttúrulega nýlega að mestu að lesa upp áður óheyrt efni. Nýjasta nýtt. Held að fólki leiðist yfirleitt svoleiðis á sveitaböllum. Það er, man ég núna, kveikjan að þessu verkefni. Ég var búinn að lesa nokkrum sinnum upp í röð án þess að hafa skrifað neitt nýtt og fannst ég þurfa að bæta úr því. Hefði sennilega aldrei farið af stað ef ég hefði fattað þetta með sveitaböllin.

Ekki það, ég er nú mjög hrifinn af endurtekningum.

Já, ég líka en… Æ, ég er alltof svo hræddur um að öll svona viðtöl verði of mikið sjálfhverft rúnk. Ég verð að spyrja þig eitthvað út í hin skáldin. Hin skáldin! Hvernig finnast þér upplestrarsenan vera núna?

Of lítið af henni. Held ég hafi ekki komist á neitt síðan á menningarnótt. Eða kannski er ég bara svona sjálfhverfur, mætti þá á tvo upplestra og las upp á þeim báðum. Kannski mörg skáld í einhverju haustlægðarsleni líka og lítið um að vera. Það er oftast gaman þegar maður mætir, þótt það sé aldrei allt flott. Og skáldin ekkert að æpa á hvert annað.

ég skal mála allan heiminn elsku mamma
ég skal hvítta borðstofuborðið
og panelinn
hvítta eldhúsinnréttinguna
og sigurbogana
og hvítta tennurnar
hvítta fótsporin
ég skal hvítta skuggann þinn mamma
ef þú getur bara aðeins verið kyrr
ég skal hvítta gasgrillið

ég skal hvítta í þér augun elsku mamma

(úr bókinni Stríð)