Óskiljanleg upphefð: Um Góðfúslegt leyfi til sígarettukaupa

Öll verðlaun verða að eiga sér prófíl – einhvern karakter sem skilur þau frá öðrum verðlaunum, einhverja fagurfræðilega afstöðu – og Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar falla að manni sýnist iðulega í skaut hnyttnasta skáldi landsins. Þar drottnar húmorinn, svo að segja – í öllu falli er sigurvegarinn oftast nær mjög hnyttinn og árið 2016 var engin undantekning þegar Eyrún Ósk Jónsdóttir fór heim með bikarinn góða fyrir bókina Góðfúslegt leyfi til sígarettukaupa, hvers helsti eiginleiki er einmitt áðurnefnd hnyttni.

Lestrarupplifun 0: Mér var lofað að tími hnyttninnar væri liðinn

Ég á í erfiðu sambandi við hnyttnina. Augljóslega er ég ekki beinlínis mótfallinn henni – ég er smám saman að verða gamall karl, en svo gamall karl er ég kannski ekki smám saman að verða að ég þoli ekki húmor, hvort sem hann heitir hnyttni, fyndni, kímni eða annað. Ég segi einsog sá sem þekkti svertingjann: margir af mínum eftirlætis höfundum eru ofsalega hnyttnir. En tiltekin hnyttni finnst mér óþolandi og ég get ekki alveg sett fingurinn á það hvernig er best að lýsa henni, hverjir eiginleikar hennar eru. Sennilega – ef ég á að gera tilraun til að benda – er það samt hin ofurstrúktúreraða hnyttni, ljóð sem eru beinlínis byggð upp einsog brandarar; Íslendingur, Dani og Þjóðverji voru saman í flugvél og svo sjá: pönslæn! – sem fer svona hrottalega í mig. Að ég sjái það á textanum strax í fyrstu línu, fyrsta orði, stellingunum sem ljóðmælandi setur sig í að nú komi eitthvað sniðugt í lokin. Þá er einsog ljóðið hafi verið rænt eigin fyndni.

Nema þetta truflar mig minna þegar ég les/heyri brandara en þegar ég les/heyri ljóð. Hugsanlega er það eitthvað viðhorfsvandamál, texti er texti er texti, hugsanlega ætti ég alls ekki að gera ólíkar kröfur. Og kannski vex ég upp úr þessu. En svona er þetta samt.

Lestrarupplifunin I: Sjónarhorn barnsins

Íslensk tunga er í bráðri hættu
segir fréttaþulurinn
og ég loka munninum
tala ekki í viku
svo hún detti ekki úr.

(Viðeigandi ráðstafanir I, bls. 46)

Góðfúslegt leyfi til sígarettukaupa er skrifuð út frá sjónarhorni barnsins. Í titilljóðinu, sem er lýsandi fyrir stemninguna annars, er vísað í þessa fornu tíð er börn gátu farið (með miða frá foreldrum sínum) út í búð og keypt sígarettur. Ég er rétt nógu gamall til að kannast við að þetta hafi verið „fræðilegur“, einsog það var kallað – en á foreldra og eldri systkini fyrir hverjum þetta var daglegt brauð (mamma keypti sígarettur í stykkjatali til að fylla á sígarettubox hjá foreldrum sínum – sem var ekki síst ætlað gestum).

Ljóðmælandi Góðfúslegs leyfis til sígarettukaupa er í senn gæddur einfeldni og hreinskilni barnsins og þroska hins fullorðna höfundar. Einfeldningslegi sögumaðurinn sem er notaður til þess að varpa fersku og viturlegu ljósi á veröldina er auðvitað vel þekkt aðferð úr alls kyns sagnamennsku – upp í hugann koma sögur einsog Furðulegt háttalag hunds um nótt, Blikktromman, Extremely Loud and Incredibly Close, bíómyndir einsog Forrest Gump, Rainman, Stand by Me og ljóðabálkar einsog Mother Said eftir Hal Sirowitz og Songs of Innocence eftir William Blake. Og kannski er vandamál Góðfúslegs leyfis til sígarettukaupa einfaldlega að þótt hún sverji sig í þessa kunnuglegu ætt þá bætir hún engu við – einfeldnin ristir hvorki nógu djúpt í barnslegri hreinskilni sinni eða grimmd, né er viskan sannfærandi. Þetta er einfaldlega ekki nógu vel gert. Þess utan húmorinn or óttalega la-la og gerir lítið fyrir mig.

Lestrarupplifunin II: Réttlætisriddarinn les

Borðaðu matinn þinn
og hugsaðu um vesalings börnin í Afríku
sem skjóta þig í hausinn
ef þú klárar ekki af disknum.

(Matartími, bls. 5)

Játning: Þegar ég byrjaði að lesa Góðfúslegt leyfi til sígarettukaupa – þegar ég opnaði bókina, eftir að hafa séð brot úr henni hér og þar, áður en ég kom að fyrsta ljóðinu – óttaðist ég að mér myndi ekki þykja þetta mjög skemmtilegt. Kannski hafði einhver sagt eitthvað við mig, kannski var það titillinn eða stök ljóð sem ég hafði séð á netinu – ég hreinlega man það ekki. Svo las ég fyrsta ljóðið, sem var meinlaust en alltílagi, þá næstfyrsta ljóðið (þ.e.a.s. annað ljóðið, þetta hér að ofan) og sendi vini mínum – sem ég hafði deilt þessum áhyggjum mínum með – og sagði: Þetta er nú hreinlega ekki svo slæmt. Kannski pínulítið rasískt, en hvað er ekki rasískt? Og kannski – sennilega – er þetta bara rasískt einsog skopmyndin af Alan Kurdi sem birtist framan á Charlie Hebdo. Brútalt og ágengt og vogað.

„Svo nálægt …“
„Tilboð: Tvær barnamáltíðir á verði einnar.“

List sem réttlætist af óþægindum sínum. Réttlætist af því að undirstaða hnyttninnar er djúpt og sárt óréttlætið í veröldinni. Að á meðan sum börn alist upp við að byggja kofa „inni í runna við Hafnarfjarðarveginn“ (Urðun, bls. 30) og að þeirra stærstu vandamál séu léleg kynfræðsla í skólum (Einkasvæði, bls. 52) þá drepist ekki bara önnur („í Afríku“) úr hungri heldur alist jafnvel upp við að drepa annað fólk.

Og svo les ég næsta ljóð:

Ef þú platar
verður tungan í þér svört.

Ef þú svíkur
verður hjartað í þér svart.

Ef þú stelur
verður sálin í þér svört.

En af hverju verða menn svartir
þegar þeir spila körfubolta?

(Svart, bls. 6)

Og ég hlæ alveg svolítið – ég meina, hver hefur ekki gaman af dálítið PC free húmor? Ha ha. Svartir menn í körfubolta, svört hjörtu. Ég er alltaf sjálfur eitthvað að gera grín að helförinni og ekki er það fyndið. En á sama tíma yggli ég brúnina og spyr mig: Er bókin í alvöru að fara að vera svona? Átti þetta ekki að vera einhver saklaus hnyttni? Í hverju á ég nú að fara að verða samsekur?

Eftir einhverja umhugsun og áður en lengra er haldið kemst ég að þeirri niðurstöðu að á meðan fyrra ljóðið fjalli um rasismann og óréttlætið þá sé það seinna sennilega frekar einhvers konar speglun eða portrett af þessum rasisma, ef ekki hreinlega performans á honum – rasisminn framinn umorðalaust. Bókin er einsog áður segir skrifuð út frá hinni bernsku sýn, en engu að síður af fullorðinni konu, sem kemur fram undir nafni (undir sumum ljóðum er meira að segja heimilisfang og undir öðru netfang) – og barninu fyrirgefur maður heimskuna, hlær að henni, útskýrir síðan eitthvað í hálfkæringi og treystir því að þroskinn svipti það vitleysunni. Fullorðnu konuna langar mann að spyrja hvað henni gangi til. Sennilega er þetta sjálfsháð – fullorðna konan að gera grín að barninu sem hún var – en orð fyrir orð er þetta auðvitað fullgilt djók á hvaða rasistaþræði á internetinu sem er. Og þá skal reyndar tekið fram að samúð skáldsins er augljóslega með hinum jöðruðu og smáðu – það kemur (full) berlega í ljós í öðrum ljóðum. Ég er ekki að segja að hún rasisti – ekkert er mér meira fjarri. Sennilega er ætlun skáldsins allt önnur.

Þetta hljómar kannski einsog smotterí – ef ekki hreinlega PC-ofsóknir – en ég held að þetta séu línur sem skipta máli. Ég á ekki beinlínis við að seinna ljóðið sé lélegt eða óþarft – það er önnur spurning – hugsanlega er það meira að segja dásamlegt í krafti einhvers botnlauss naívítets, sem á sér rætur í öðru en barnslegu yfirborðssjónarhorninu. En það þýðir augljóslega ekki heldur að það sé ekki pípandi rasískt (og það er fyrra ljóðið sennilega líka).

Lestrarupplifunin III: Meinleysi og geispar

Þegar ég held áfram að lesa kemst ég að því mér til talsverðs léttis – í fyrstu – að svona heldur bókin ekki áfram. Hún er að vísu í svipuðum dúr hvað varðar frásagnartækni og uppbyggingu og stemningu – svo mjög reyndar að stundum finnst manni einsog skáldinu hefði farnast betur að hrista aðeins upp í stílnum af og til – en það er ekki orð til viðbótar um „svarta fólkið“. Guði sé lof.

En þá tekur í staðinn við eitthvert meinleysi, sem er fallegra og betra eftir því sem það reynir minna að vera eitthvað annað:

Ástin klukkar mig
klukk
nú er ég hún.

(Gagntekin, bls. 56)

En forvitnilega þunnt þegar það reynir að takast á við „samfélagsmálin“:

Eina krónu fyrir mér
einn, tveir og þrír
og svo kom hrun

(Mammon, bls. 22)

Kosturinn við hinn einfeldnislega sögumann er að hann getur verið brútal – einsog í kynþáttadæmunum hér að ofan – en brútalítet er vandmeðfarið. Þegar maður áttar sig á hættunum er algengast að maður falli í aðra af tveimur gryfjum: 1) Maður gerist of meinlaus, skrifi of mikið um ekki neitt eða 2) Maður undirstriki boðskap bókarinnar svo rækilega að það svipti hana allri tvíræðni – og þar með listrænum eiginleikum sínum, ljóðrænu sinni, því hvað er ljóðræna annað en að segja eitt og meina eitthvað sem liggur ekki í augum uppi? Ljóðin í Góðfúslegu leyfi til sígarettukaupa falla flest í aðra hvora gryfjuna og sum jafnvel í báðar.

Lestrarupplifunin IV: Við verðum að tala um Tómas Guðmundsson (o.fl.)

Augljóslega skil ég ekki hvers vegna Góðfúslegt leyfi til sígarettukaupa hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar – svo mikið ætti þó að vera ljóst – en það gerði hún samt sem áður og það þýðir væntanlega að hún hafi haft djúpstæð áhrif á dómnefndina, sem sagði að ljóðin „töluðu með ferskum hætti inn í hversdagsleika okkar Íslendinga og opnuðu augu okkar með ljóðrænum, hugvitsamlegum og frumlegum hætti fyrir dularfullum mörkum einkalífs og opinbers lífs og væru því afar vel að Bókmenntaverðlaunum Tómasar Guðmundssonar komin“ (einsog Bjarni Bjarnason, dómnefndarmeðlimur, orðaði það). Það er ágætt að halda þessu til haga, því mér þætti mjög vænt um ef einhver gæti útskýrt þetta fyrir mér – ef einhver vildi berjast fyrir virði þessarar bókar. Því þótt hún sé í sjálfu sér meinlaus – einsog áður segir – og henni sé ekki með fullu og öllu alls varnað, þá er mér alls ekki ljóst hvers vegna hún ætti að hljóta þessa upphefð, og þykir sem heimurinn skuldi mér útskýringu (hann gerir það ekki, heimurinn skuldar manni aldrei neitt).

Nú hef ég ekki kembt öll tímarit og héraðsfréttablöð í landinu en eftir því sem ég kemst næst hlaut Góðfúslegt leyfi til sígarettukaup hvergi dóm þegar hún kom út síðasta haust. Ekki einn einasta. Bókmenntakrítík á að vera formálalaus (og augljóslega endar hún ekki á formála, það er of seint). En það er samt ástæða til þess að segja þetta: Það er mjög vanþakklátt verk – í merkingunni óþægilegt fyrir þann sem tekur það að sér – að skrifa eina ritdóminn um einhverja tiltekna bók, jafnvel þegar maður er hrifinn af bókinni. Bækur, einsog önnur listaverk, nærast á ólíkum viðbrögðum, ólíkum lestrum – bæði skáldin, lesendurnir og bókmenntirnar sjálfar vaxa af því að bækur geti þýtt ólíka hluti fyrir ólíku fólki við ólíkar aðstæður – hver og ein niðurstaða speglast í öðrum niðurstöðum, öðrum lesendum. Fyrir um 15 árum síðan fengu nýjar ljóðabækur á bilinu 5-7 dóma að lágmarki – þá voru dagblöðin enn að fjalla um bækur, Víðsjá rýndi í megnið og nokkur vefsetur birtu dóma – og helsta vandamálið var kannski að ritdómarar áttu til að apa upp skoðanir hvers annars. Í dag getur ljóðabók unnið stærstu ljóðabókaverðlaun landsins í október og ekki hafa fengið einn einasta dóm – ef frá er talin umsögn dómnefndar og 3-4 setningar frá Þorgeiri Tryggvasyni á Facebook og annað eins á einu bloggi. Þetta er vonlaust ástand fyrir ljóðlistina í landinu. Hún er þá í bráðri hættu með að glata öllu perspektífi á sjálfa sig og vantar bara korter í alkul.