Dominatrískt veldi Æon Flux

Ég hef alltaf verið haldin nokkrum sérviskum. Ein þeirra er sú að frá barnæsku hefur mig þyrst í sögur af öllu tagi. Ég las allar bækur sem ég komst yfir (það vildi svo heppilega til að móðir mín var bókasafnsvörðurinn í þorpinu og ég notfærði mér þá aðstöðu óspart) og meðan ég var að leika mér vildi ég helst hafa sjónvarpið í gangi  bara svo ég gæti fylgst með söguþræðinum með öðru auganu. Síðan ég lærði almennilega á internetið hef ég verið óþreytandi í lotuglápi (e. binge), spænt mig í gegnum hverja seríuna á fætur annarri af ýmsu misgáfulegu efni, alltaf með hugann við eitthvað handverk á meðan. En inn á milli rekst maður á sjónvarpsefni sem gefur ekkert rúm fyrir  annað, sjónvarpsefni sem gerir meiri kröfur til hugans og ímyndurnaraflsins. Eitt af því sem rekið hefur á fjörur mínar er Æon Flux.

Ég var kynnt fyrir Æon í Finnlandi, þar sem kunningi minn, sem deilir áhugasviði minu á teikningu og vísindaskáldsögum, spilaði fyrir mig fyrsta þáttinn. Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið. Ég er eiginlega ekki viss ennþá. En sem einlægur aðdáandi óhefðbundinna frásagna og fallegra teiknimynda kolféll ég fyrir þáttunum.

SPOILER ALERT

Smelltu hér til að sjá spoiler

END OF SPOILER 

Þannig endar fyrsti og eini þátturinn í fyrstu seríu. Enginn díalóg, einfaldlega sjónræn frásögn sem fylgir engum hefðbundum frásagnarreglum.

Höfundur þáttanna er kóresk-ameríski teiknarinn Peter Chung. Chung er þekktur fyrir sérstakan teiknistíl, innblásinn af verkum Egon Schiele, sem nýtur sín sérlega vel í Æon Flux. Langir limir og teygjanleiki holdsins eru í forgrunni og þrátt fyrir að allir karakterar séu oft lítið sem ekkert klæddir er ekki beinlínis einhver sexý-sjarmi yfir seríunum, frekar myndi ég tala um óhugnaðar element sem er að mörgu leyti sprottið  af því hversu vel höfundurinn nær að halda áhorfandanum í óvissu. Chung talar um að barnaþættirnir Rugrats, þar sem hann vann ásamt öðrum við hönnun karaktera, hafi verið mikill áhrifavaldur í gerð þáttanna, en á fremur óvenjulegan hátt. Æon Flux mun hafa fæðst upp úr skapraunum hans yfir því að vinna með karaktera sem hann „mátti eiginlega ekki láta gera neitt“. Og þarmeð varð Æon til í öllu sínu dominatríska dauðaveldi.

Chung  hitti á rétta augnablikið; á þeim tíma sem hann var að móta hugmyndina að Æon Flux áttu sér stað miklar breytingar að  á MTV. Stöðin var að færa sig frá því að spila bara tónlistarmyndbönd og lagði töluvert fjármagn í að framleiða avant garde teiknimyndir. Upphaflega átti pilotinn bara að verða ein stuttmynd en ákvörðunin um að halda áfram með þennan frásagnarheim var tekin síðar og Æon var reist upp frá dauðum í fyrsta skipti en svo sannarlega ekki það síðasta. Þetta er einmitt einn af veiku punktum Æon, að hún er ekki þróuð sem heildstæð sería heldur sem tilraun sem er stöðugt bætt við. Heildarmyndin verður frekar brotakennd og hefðbundið skemmtanagildi er kannski ekki aðalatriði hjá höfundum þáttanna.

Þrátt fyrir þetta er nógu mikið af áhugaverðum punktum til að halda manni við skjáinn í gegnum allar seríurnar. Þó ég hafi fengið mig fullsadda af vitleysunni öðru hverju þá var ég alltaf byrjuð aftur að horfa á Æon Flux viku eða mánuði síðar. Niðurstaðan er því: Þetta eru geggjaðar seríur. Ef þú ert ekki búin/n að sjá þær farðu og horfðu á þær, NÚNA.