Neindin er tómleg

Í Samdrykkjunni eftir Platón er að finna gamla kenningu um eðli ástarinnar. Gríska kómedíuleikskáldið Aristófanes segir frá því að eitt sinn hafi manneskjan verið ólöguleg vera með fjórar fætur, fjórar hendur og tvö andlit. Veran var „heil“, hún naut lífsins og gat spriklað um veröldina fremur áhyggjulaus. Þegar verurnar fylltust drambi og töldu sig vera guðlegar var þeim refsað af æðsta guðinum Seifi. Þær voru klipptar í helminga og látnar ráfa hálfar um heiminn. Allar götur síðan hafa menn lifað við ófullnægjandi þrá um að finna slitna hlutann, þennan útvalda. Sú leit hlýtur að vera vörðuð með ýmiskonar blindgötum og mistökum og í stað þess að fylla í skarðið með þeim rétta finnum við gjarnan aðrar verur og nýjar þrár sem leiðir af sér enn nýrri tilfinningar. En hvernig eigum við að díla við þær?

Bleikrými eftir Solveigu Thoroddsen teymir lesandann inn í vetrarmyrkrið eftir misheppnaða leit að þessum örlagahelmingi. Í farteskinu eru ástríðufullar myndir af söknuði, sorg og tómleika. Bókin hefst á ljóðinu „Haustvísa“ sem hefur nú bergmálað lengi í huga mér, karlkyns lesandans. Í ljóðinu er yfirvofandi vetur að loknu gróðursælu sumri en eitthvað fór úrskeiðis því eftir situr líkamlegur söknuður og tómleiki:

Innanverð augnlokin veggfóðruð lyngi
alsettu bústnum berjum.
Innanverð leggöngin: holt bleikrými saknaðar.
Sytrar úr veggjum.

Báðar tilfinningar eru innvortis, ólíkt því sem gerist þegar áfengi er hellt yfir þær í ljóðinu „Varúð!“. Þá „hanga tilfinningarnar utan á líkamanum/ eins og fylltir stómapokar/ gegnsæir.“ Bleikrými er því eins konar ljóðræn skurðaðgerð til þess að nálgast viðkvæmar tilfinningar sem finna má, eins og sjúkdóm, innst í iðrum líkamans. Nefnd eru nokkur læknisráð, s.s. að spangóla tregaljóð út í myrkrið („Tíkur“), byrgja sig upp af frostpinnum („Frostpinnadagar“) og í neyðartilfellum þarf að troða sykurpúðum í fylgsni hugsans „svo þar myndist ekki rými/ fyrir brúnu augun, ásæknu/ sem fyrir ekki svo löngu sögðu „við“ („Ekki við“). Bleikrými er einmitt full af slíku „ekki“:

Þegar maður er ekki lengur villihestur neins

En svo kemur að því að dagarnir verða ekki fleiri.

Þegar vorið er alls ekki á næsta leiti

Vá, hvað það er gott að elska ekki.

Ef ástarsorg er ekkert annað en vonbrigðin við að finna vitlausan helming Aristófanesar er auðvelt að álykta svo að sú leit sé tímasóun og skapi ekkert nema gremju. En ef til vill er ástarsorg aðeins einn sjúkdómur af mörgum sem hægt er að vinna á með ljóðum, sem þroska mann og auka skilning á sjálfum sér, jafnvel þegar verkfæri tungumálsins brestur, líkt og í ljóðinu „Orðin ríðandi“:

Riðu hjá á eldfextum hestum
hnarreist í söðli.
Glóheit
án tangarhalds
runnu þau mér úr greipum
inn í svarthærða nóttina.

Ljóðin geymi ég í hjartanu
án orða.

Kenning Aristófanesar um ástina er auðvitað bara skemmtilegur brandari. Hann var jú kómedíuleikskáld, uppistandari síns tíma. En það er þó einhver tilvistalegur lærdómur sem draga má af Bleikrými. Það er mikil og myndræn beiskja yfir mörgum ljóðum bókarinnar sem náðu mér inn að beini og mér fannst sárt að lesa mörg þeirra.

Það er vissulega erfitt að tjá eigin tilfinningar en það er lúxusvandamál við hlið þess að átta sig á eigin tilvist. Í lok Bleikrými finnst mér eins og búið sé að særa tómleikann út (að minnsta kosti binda í ljóð og gefa út). Að því loknu stendur eftir tilvistarleg spurning um framhaldið og finnst mér ljóðið „Gull“ koma þar að miklu gagni. Það er absúrd lýsing á því þegar fiðrildi fljúga inn um glugga og skipta ævi sinni út fyrir tímabundinn yl ljósaperunnar. Ljóðmælandi smyr gulli af vængjum þeirra á augnlokin og breytist í Kleópötru í draumi sínum. Því fyrir ástarsyrgjendur er ef til vill góð tilfinning að elska ekki en enn betri tilfinning að gleyma því alfarið hvað ástin er.