Sögupersóna bókarinnar Velkomin til Ameríku er stelpa á óræðum aldri. Í byrjun bókarinnar viðurkennir hún að það er langt síðan hún hafi hætt að tala. Jafnframt segir hún að áður en hún hætti að tala hafi hún logið. Hún lýgur að því er virðist að tilefnislausu.
Þegar pabbi hennar deyr, eitthvað sem hún hafði óskað sér og beðið Guð um, þá hættir hún að tala. Það er samt ekki alveg víst að það sé satt því hún talar líka um það að hún vilji ekki vaxa, henni fannst hún vera að vaxa of hratt og vísar í það að þetta sé ástæða þess að hún hætti að tala.
Sú staðreynd að þögnin komi í kjölfar þess að hún er byrjuð að vaxa er eitt af því sem bendir til kynferðislegar misnotkunar af hendi föður hennar. Samt þori ég ekkert að fullyrða um það. Stelpan er tímalaus persóna og ég veit ekki hvort hún er barn eða fullorðin og röddin svolítið á sveimi. Hún veit það ekki sjálf en samt er eins og hún viti meira en hún segir. Rödd stelpunnar, sögumannsröddin, flæðir fram og frásögnin er tær og snörp en að sama skapi frekar ruglingsleg.
Heimilið stjórnaðist af föður hennar; alkóhólista og geðveikum manni, bæði meðan hann var á lífi og í rauninni líka eftir að hann dó. Mamma hennar er meðvirk og tönnlast á því að það sé bjart yfir fjölskyldunni. Stelpan segir að birtan flæði frá mömmu sinni og hún vilji ekki sjá myrkrið á meðan stelpan „þvoði hárið úr myrkri, allan líkamann“ (bls. 28).
Litla stelpan vill ekki taka þátt í að skapa frið eða stríð. Hún vill ekki vaxa úr grasi og það er eins og hún vilji ekki horfast í augu við neitt en með því að sleppa því að tala sleppur hún líka við að leika blekkingarleiki.
Stíllinn er snarpur og einfaldlega framsettur. Hann er að sama skapi tær og kuldalegur en orðin eru falleg.
Hugsanirnar koma svo hægt og þær eru svo lágværar:
kögglar, brauðsneið, rykið.(bls.6)
Annars hafði ég litla samúð með stelpunni. Hún talaði og sagði allt en samt ekki allt. Textinn orkaði á mig eins og villtur skrúðgarður. Þetta gerðist og þetta gerðist en svo er einhver undirliggjandi geðveiki. Hún talar um það þegar hún heimsótti pabba sinn á spítalanum, þegar hann kveikti í húsinu en höfundur segir frá sisvona, lýsir því úr fjarlægð.
Mér finnst allir í sögunni vera sekir á einhvern hátt. Þeir sem eru eftirlifandi neita að horfast í augu við sannleikann. Móðirin er leikkona sem úthellir birtu, bróðir stelpunnar neglir aftur hurðina á herberginu sínu, man mest eftir hinu góða í föðurnum og stelpan þegir.
Þögnin er náttúrulega stór partur af sögunni og hún talar ekki af því að hún er hrædd um að orðin hafi of mikinn mátt en svo er hún líka með því að taka að sér einhver völd, með því að taka ekki þátt. Mamma hennar talar um birtu sem er í algjöru ósamræmi við heim stelpunnar sem sér ekkert nema myrkur, sér pabba sinn liggjandi í sófanum starandi út í loftið. Stelpan vill að tíminn standi í stað:
Maður vill verða fyrir vonbrigðum. Maður vill verða sár og berjast fyrir lífi sínu.
(bls.8)
Það er eins og hún geti ekki höndlað hamingjuna og vill að allt sé í einhvers konar skipulagi þó að það skipulag sé óreiða. Ef börn kannast ekki við neitt annað þá er erfitt að taka hið góða í sátt. Með þeim fyrirvara um að hið góða sé eintóm blekking. Kannski snýst þögnin um að hafna hamingjunni, að neita að taka þátt í því sem er eitthvað annað en það sem var.
Velkomin til Ameríku fékk mig til að spekúlera í þögninni, sem ofbeldi, sem eitthvað sem krefst mikils en gefur ekkert til baka. Ég mæli með bókinni sem er fallega skrifuð en þó kom það mér á óvart hversu litla samúð ég hafði með fjölskyldunni. Kannski minnka hjörtun í vaxandi myrkri.
Velkomin til Ameríku kom út hjá Benedikt útgáfu í bókaklúbbnum Sólin. Þórdís Gísladóttir þýddi.