„Lífið á það til að gera leiksoppa úr okkur öllum“

Þrettán ástæður eftir Jay Asher

Þetta segir fólk stundum. Kannski ekki á þennan hátt, með þessum orðum, en oftar en ekki þykist fólk vita að lífið hafi eitthvað persónulega á móti þeim. Allt sem miður fer er útskýrt með einhverjum óræðum setningum um kosmíska hlutdrægni. Það er ekki í eðli veruleikans eða lífsins að velja eða skipa mönnum í fylkingar. Mennirnir draga þann sannleik sem þeir geta úr veruleikanum og sjá oftar en ekki mynstur þar sem hending ræður vali undirritaður gerir sér grein fyrir því að hending og val eiga ekkert sameiginlegt og heyra ekki saman í setningu, hinsvegar mun enginn sjá neitt að setningunni fyrr en bent hefur verið á það, svo sterk er þörf okkar að finna mynstur í öllu.

Í dag, 31. mars, komu út sjónvarpsþættir, þrettán talsins, eftir bók Jay Asher: „Thirteen Reasons Why“. Þáttunum hafði ég beðið eftir, fullur blendinna tilfinninga, ekki síst því að bókin hefur búið með mér og misþyrmt mér andlega frá því ég las hana á einni kvöldstund, í einum rykk, grátandi og hlæjandi í takt við það sem dauða stúlkan rakti harmsögu sína og hreytti út úr sér biksvörtum húmor.

Þrettán ástæður þykja eflaust frekar margar. Mig rekur ekki minni til þess að ég hafi nokkurntímann haft þrettán ástæður fyrir nokkru sem ég gerði eða sagði. Hver ástæða er kafli í bókinni, þáttur í þáttaröðinni, og hverju skrefi fylgja ögn betri kynni við Hönnu Baker. Það er undarlegt, hörmulegt og innilegt að kynnast manneskju með því að heyra af hennar verstu augnablikum, upplifa þau. Með því finnur lesandi/áhorfandi til einlægra tilfinninga gagnvart manneskjunni. Hörmungin hefur þó ekkert með innileikann að gera nema fyrir það að við upplifum einnig gleði Hönnu, sjáum góðu augnablikin inn á milli. Eintóm óhamingja – endalaus röð atburða sem hver er öðrum verri – er einfeldningsleg og óáhugaverð. Það eru þessi fáu og áhrifaríku augnablik þar sem lífsvilji aðalpersónunnar og tilraunir hennar til að eiga líf, sem litast ekki af bábiljum og fordómum annarra, sem gefa sorginni vægi og krefja lesandann um að láta af hendi tár. Tilfinningasemi er gjaldið sem greiða þarf við lestur bókarinnar og áhorf sjónvarpsþáttanna, hvert tár hefur þegar verið greitt að fullu af hendi höfundar, hvert tár er verðskuldað. Hvort tveggja bókin og þáttaröðin (að ég held) þvinga lesanda/áhorfanda til að elska Hönnu Baker. Allt í senn krefur þig um að hafa hjarta, samvisku og samviskubit.

I wanted people to trust me, despite anything they’d heard. And more than that, I wanted them to know me. Not the stuff they thought they knew about me. No, the real me. I wanted them to get past the rumors. To see beyond the relationships I once had, or maybe still had but that they didn’t agree with.

― Jay Asher, Thirteen Reasons Why

Bókin gerist í senn á einni nóttu og nokkrum mánuðum. Mánuðirnir líða í frásögn Hönnu Baker á þeim atburðum sem leiða hana til þeirrar afdrifaríku ákvörðunar sem hún tekur ― eða hefur öllu heldur þegar tekið. Samhliða þeirri sögu fylgjum við Clay Jensen, eiginlegri söguhetju bókarinnar, sem hlustar tilneyddur á sögu Hönnu Baker. Í upphafi er Clay, sem og lesendum, gert það ljóst að skókassinn með kasettunum hafi borist honum af einni ástæðu: hann beri að hluta ábyrgð á því  að Hanna Baker svipti sig lífi – sé ein af ástæðunum þrettán. Með því tekst höfundi að mynda togstreitu innra með söguhetjunni og milli söguhetju og lesanda. Þær tilfinningar sem er ljóst strax í upphafi,  að Clay ber til Hönnu sýna fram á að þeir sem við elskum eða elska okkur eru einnig þeir sem særa okkur hvað dýpst. Hugmyndir á borð við þessa, þar sem allt ljós skilur eftir sig slóð myrkurs, dúkka reglulega upp í sögunni. Þá eru persónurnar flóknari en svo að hægt sé að setja hvern og einn í annan tveggja hópa ― hóp góða fólksins eða þess vonda.

Bókinni tekst að koma því til skila að einelti á sér ekki bara eina birtingarmynd og að afleiðingar eineltis skorðist ekki við þann sem verður fyrir því. Einnig tekst henni að sýna fram á hvernig sjáanlega ótengdir atburðir, sem hafa það eitt sameiginlegt að koma fyrir eina og sömu manneskjuna, geta leitt til jafn hræðilegrar niðurstöðu og raun ber vitni. Spurt er: Hvað þarf til svo að manneskja kasti sér fram af hengibrún lífsins? Í þessu tilfelli fæst henni að minnsta kosti, svarað. Við erum öll ólík og við hugsum öll ólíkt; það sem bókin reynir að gera ― það sem mér finnst bókinni takast ― er að sýna okkur hvað lífið er hverfult og hvað við erum öll viðkvæm, innst inni.

You don’t know what goes on in anyone’s life but your own. And when you mess with one part of a person’s life, you’re not messing with just that part. Unfortunately, you can’t be that precise and selective. When you mess with one part of a person’s life, you’re messing with their entire life. Everything. . . affects everything.

― Jay Asher, Thirteen Reasons Why

Í nútímasamfélagi er grunnhyggnin efst í fæðukeðjunni, menn og konur fitna, liggja yfir imbakassanum og kvarta yfir því að allt sé að fara til fjandans. Enginn er tilbúinn að gera neitt í því meðal annars vegna þess að ekkert sem við sjáum hvetur okkur til dáða. Inn á milli felast gullmolar. Af og til finnst metnaður til að búa til eitthvað fallegt. Spurningin er hvort að fólk sé móttækilegt fyrir því að sjá eitthvað sem krefur þau um að kafa dýpra og reyna að takast á við tilfinningar en ekki erkitýpur. Fólk er svo vant því að lesa tuttugu ára gamla formúlu eftir fimmtugan, þybbinn kall sem gefur út bók árlega um lögreglumann sem rýnir í bein og kryfur fortíðina, eins og allir fimmtugir menn hér á landi. Bók um einelti, sjálfsvíg og þær raunir sem unglingur upplifir kemst ekki að fyrir æði fólks hér á landi fyrir mauksoðnum og hálfmeltum ráðgátum.

Það lítur út fyrir að ég hafi einskæra óbeit á reyfurum og afþreyingarbókmenntum, af fyrri málsgrein að dæma. Svo er ekki. Mér er þó heitt í hamsi að koma því að sem mér finnst vera hið dyggðugasta form listgreina. Sá hluti listarinnar sem snertir eitthvað djúpt innra með fólki, vekur upp tilfinningar sem oft á tíðum eru erfiðar og jafnvel niðurbrjótandi í fyrstu. List sem virkilega hefur áhrif. Þessháttar predikun, af því tagi sem ég stunda nú, er ekki möguleg nema listin snerti eitthvað innra með mér. Annars er hún ekki einlæg og ég hefði ekki neitt að segja. Bókin Thirteen Reasons Why ― Þrettán ástæður á íslensku, hún hefur verið þýdd og gefin út hér á landi ― sló mig rækilega á sínum tíma og það sem ég hef séð af þáttunum boðar grát og meyru næstu daga.

Melancholy ― melankólía eða depurð ― er tilfinning sem utan frá séð væri kallað sorg, en hún afmarkast af því að depurð er sorg sem helst hönd í hönd við þankagang. Depurð án umhugsunar eða pælinga er sorg. Sorg á sér ekki rökfræðilegar málsbætur, tilfinningalegar og tilvistarlegar vissulega, en ekki rökfræðilegar. Melankólía er sorg sem fylgir hugsun eða hugsun sem sprettur af sorg. Hvort um sig viðhalda þær hvorri annarri og dofna þegar viðkomandi kemst að niðurstöðu. Mér þykir mikilvægt að koma þessarri skilgreiningu að því að melankólía er sú tilfinning sem ég tengi hvað mest við bókina.

If you hear a song that makes you cry and you don’t want to cry anymore, you don’t listen to that song anymore.

But you can’t get away from yourself. You can’t decide not to see yourself anymore. You can’t decide to turn off the noise in your head.

― Jay Asher, Thirteen Reasons Why

Af og til lít ég yfir bókahilluna mína og minnist þeirra bóka sem ég hef lesið. Hver bók kallar fram tiltekna tilfinningu eða tilfinningar. Kjölur bókarinnar sem ég hef þvaðrað um í löngu máli hér að ofan kallar fram ljúfsáran trega. Ég fyllist hlýju af því einhver hafði hugrekkið og staðfestuna til að skrifa þessa bók sem bæði ögrar lesandanum að loka henni og líta aldrei um öxl en dregur hann á sama tíma af enn meiri krafti áfram í gegnum ástæðurnar. Við kynnumst sögumanni og á sama tíma þurfum við að sættast á það að kveðja hana, í byrjun er það ljóst og ekkert sérstaklega átakanlegt ― ekki frekar en tölur látinna í stríðshrjáðu landi sem við höfum ekki nokkurt tilfinningalegt samhengi fyrir ― um miðbik gleymist sorgin og hryllingurinn í kynnum okkar við Hönnu Baker og reiði læðist að eftir því sem okkur er gert kunnugt um lífshlaup hennar. Í lok sögunnar þekkjum við Hönnu Baker álíka jafn vel og ef hún væri einn æskuvina okkar. Það er galdur Jay Asher og kvöl okkar. Kvöð okkar liggur svo í því að þola kvölina, meðtaka hana og læra af henni. Lærum að koma almennilega fram hvert við annað og sýna öðrum skilning. Ég biðla til ykkar, lesið bókina eða horfið á þættina á Netflix ef þið nennið ekki að lesa. Það verður ekki bara hollt og tilfinningalega þroskandi, heldur gætuð þið haft gaman af sögunni.