Í hlýnandi veröld er verst að lifa

Um ljóðabók Magnúsar Sigurðssonar Veröld hlý og góð.  Dimma gefur út og er verkið eitt af ófáum ljóðabókum sem forlagið hefir gefið út undanfarið. Verkið telur 71 síðu og inniheldur 36 ljóð og prósa.

Vorir trumpuðu tímar

Það er auðvitað deginum ljósara þeim sem ekki eru trumpaðir á geði að heimurinn stendur fyrir margvíslegum vanda.  Einn sá helsti þeirra felst í hlýnun jarðar; gróðurhúsaáhrifunum. Það er vonandi að mannskepnunni auðnist að snúa þeirri þróun við áður en hún verður að aukaleikara í dystópískri Kevin Costner-bíómynd eða einhverri annarri ófagurri framtíðarsýn.

Ljóst má þykja að titill þeirrar bókar sem hér er til umfjöllunar vísar til skáldsögu Aldous Huxley, Veröld ný og góð eða Brave New World (1932) eins og hún heitir á frummálinu. Aukinheldur má spyrða heitið við Fagra veröld Tómasar Guðmundssonar frá 1933.

Hvað fyrra verkið varðar má skynja nafnbótina sem háðska, og því tenginguna líka. Í því seinna svífur fegurðin yfir vötnum eða máske öllu heldur yfir Reykjavík. Tómasi Guðmundssyni var hvunndagsleikinn og umhverfi Reykjavíkur hugleikið og sá það oftlega í upphöfnu ljósi.

Í þessu tvöfalda ljósi titlanna má lesa Veröld nýja og góða. Mótífin taka mið af hvunndagsleika, nánasta umhverfinu og eru því að gera fremur jarðbundin en upphafin á sama tíma. Þau vísa jafnframt út fyrir sig og benda á alheimsvandamál. Á eitthvað sem gæti verið vísir að dystópískri framtíð. Fegurðin er þó alltumlykjandi, býr í náttúrunni, en ógn (manngerð) svífur yfir vötnum. Til einföldunar skal þessu stillt upp á þennan máta:

Náttúra fögur og góð

andspænis

manninum og þeirri ógn sem hann hefir skapað

Vissulega eru  einnig frábrugðnir textar í verkinu, textar sem taka á öðrum málum. Til að mynda á hinu sígilda viðfangsefni um tilurð ljóða. Engu að síður er óhætt að segja að heildarmynd verksins taki mið af áðurnefndum þáttum.

Upphafið slær tóninn fyrir það sem koma skal:

Það er undur að líta í kringum sig:

Veröldin er allsstaðar nálæg.

-Wislawa Szymborska

Náttúra , ógn, ljóðskáld og ljóð um ljóð

Tónninn í fyrsta ljóði bókarinnar „SÓLSETUR“ er einnig skýr. Þar er sólsetri á ónefndum stað lýst. Til hægðarauka skal það staðsett á Ísafirði. Þar leit verðlaunaskáldið (hlaut hann til að mynda Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar árið 2008) Magnús Sigurðsson dagsins ljós árið 1984.

26. nóv

Skuggaröndin
mjakast niður
fjallshlíðarnar
sem rísa yfir
bárujárnsþökunum
á eyrinni,
og minna helst
á steingerða barma
risavaxinnar
kjötætuplöntu
frá síðustu hlý-
viðrisöld (þegar
allt var jú stærrra
í sniðum,
nema maðurinn
og verk hans).
Blaðvarirnar klemmast
hægt og rólega
saman núna
fyrir háveturinn,
með síðustu
sólargeislunum
þetta árið.

(bls. 7)

Auðvitað er ekki nein ein leið við að túlka téð ljóð. Freistandi er þó að setja það í samhengi við þá heildarhugsun sem imprað var á; að þrátt fyrir fegurð og öll undur náttúrunnar steðji yfirvofandi ógn að.

Þessa aðsteðjandi ógn er, eins og gefur að skilja, að finna víðsvegar í verkinu. Í titilljóðinu, „VERÖLD GÓÐ OG NÝ“ segir til að mynda

Einn góðan veðurdag
(sem á víst
eftir að fjölga
hér um slóðir)
verður kannski
hægt að sérpanta,
á hinum
eina sanna
veraldarvef

örlítinn himin
og örlítinn skóg
við örlítið vatn undir
örlítilli sól –

(bls. 65)

Þar að auki fer „góðum“ veðurdögum  fölgandi, vatnsborðið í sísúrnandi hafinu hækkar enda er „[m]aðurinn ekki eins hygginn [og íkorninn  er], alsæll með gufubaðslofthjúpinn sinn.“ („KOL“ bls. 64) Sólin veldur „[s]tighækkandi Fahrenheit-/gráðunum, sem hún stráir/einsog glóandi/kolum dag eftir dag yfir glerturna borgarinnar svo þeir virðast í ljósum logum“ („UNDIR NÝRRI SÓL“ bls. 68) og auðvitað er ljóst að „[v]eröldin eldist líka.//Hrörnar líka.//Deyr líka.“ („13,8 MILLJARÐAR“ bls. 58). Mætti áfram telja.

Er því um nokkuð seinfyrndan heimur versnandi fer boðskap að ræða. Boðskap þar sem afstaða er tekin með náttúrunni og hún sett í öndvegi. Og þó ekki sé um predikunartón að ræða er ljóst að vá steðjar að fyrir tilstuðlan mannkindarinnar og að varað er við vá þeirri.

Sólin og nóttin eru áberandi í myndmáli ljóða og prósa og yfir heildinni hvílir hæglæti þess sem fylgist með hlutunum hafa sinn gang. Beint og óbeint er og velt fyrir sér gildi hluta. Helst  hæglætið einnig í hendur við önnur þemu verksins.

Ef nefna á önnur viðfangsefni státar Veröld ný og góð af hinu sígilda umfjöllunarefni um gildi ljóðlistarinnar og tilurð hennar.

Hæna étur kartöfluhýði,
út kemur skínandi egg.

Þannig ætti það líka að vera
í ljóðlistinni.

Þessari einu sönnu
gullgerðarlist.

(„SKÍNANDI EGG“ bls. 42)

Engin ljóðlína
hefur gert höfund sinn
að milljónamæringi.

[…]

Samt er rétt orð
á réttum stað
í ljóði
þyngdar sinnar virði
í gulli.

[…]

þá er það eiginlega
ómetanlegt,
allavega á öllum
Mastercard-mælikvörðum

(VERÐMÆTASKÖPUN bls. 28)

Og svo er þetta brot tekið úr prósanum  „SJÓDDU POTTUR, SJÓDDU“ á  bls. 53

Þjóð mín hefur ekki lent í verulegum hörmungum, að minnsta kosti ekki nýverið, þótt ýmsir kunni ef til vill að halda öðru fram.

Þess vegna skiptir ljóðlistin hana svo litlu máli.

Í síðasta textanum má greina samfélagsádeilu. Auðvitað eru náttúrutengdu ljóðin einnig um margt ádeiluljóð en hér er róið á önnur mið. Mið sem verða einnig skynjuð í öðrum textum og prósum. Ætli fari ekki best á að klína vestrænni efnishyggju  á þetta. Auðvitað er það aukinheldur eitthvað sem spyrða má við heildarhugsun verksins.

Önnur ljóðskáld fá einnig talsvert pláss í verkinu. Það hefst jú á orðum pólsku skáldkonunnar Wislöwu Szymborsku en önnur skáld fá einnig pláss. Skáld líkt og danska framúrstefnuskáldið Inger Christenssen, kínverska skáldið Lí Pó, Goethe, Nicanor Parra frá Síle, Tor Ulven og fleiri. Kallast það á við aðra ljóðabók Magnúsar, Blindir fiskar. Þar skrifaði hann til fimm látinna skálda. Vert er, í þessu samhengi, að minnast á að Magnús hefir verið ötull ljóðaþýðandi og hóf til að mynda útgáfuferil sinn á því að þýða Söngvana frá Písa (2007) eftir Ezra Pound.

Meira pönk, meira helvíti?

Náttúrlega er hér um einföldun að ræða og næsta víst mætti kafa dýpra í ljóð og prósa og skoða myndmál og mótíf betur.  Á fremur yfirborðskenndan hátt er þó óhætt að halda fram að flest allir prósar og flest öll ljóðin falli á einn eða annan hátt að áðurnefndri heildarhugsun. Meira að segja þau sem leitast við að vera sniðug eins og „SPURNING UM VIRÐINGU“ á bls. 20 sem greinir frá óánægðum fíl í fjölleikahúsi sem er á því að honum sé ekki sýnd tilskilin virðing.

[…] „Hvað þarf maður eiginlega að gera til að manni sé sýnd svolítil virðing í þessum sirkus,“ hrópaði hann ofan af strandboltanum í kvöldmyrkrinu, einn og yfirgefinn, og ýtti skærbleika pípuhattinum lengra upp á ennið með rananum.

Lengi má ranann reyna, hugsaði fíllinn með sjálfum sér. Því eiginlega var hann hálf ranamæddur. Í huganum var hann líka byrjaður á uppsagnarbréfinu:

Kæri sirkusstjóri

Upp á síðkastið hef ég fílað mig …

Við lestur verksins er augljóst að Magnús er orðhagur og að hér er verk á ferð þar sem legið hefir verið yfir orðunum. Máske endurspeglast það í hæglæti bókarinnar. Verkið er nokkuð hnökralaust , fagmannlegt og yfirvegað en samtímis allmeinlaust. Raunar er verkið álíka grípandi og þessi texti sem leitast við að lýsa því. Það er erfitt að verjast þeirri hugsun að brodd vanti í verk sem tekur á trumpuðum tíma og að hugsanlega vanti meiri greddu/náttúru í það. Ef til vill  missir ádeilan nokkuð marks í hæglætinu og að kannski hefði mátt hefja puttann á loft og segja „fokk jú“. Slíkt er þó að sjálfsögðu smekksatriði.