Framan á kápu bókarinnar er ritað stórum stöfum „textar“: eins almenn lýsing og hugsast getur, en um leið örlítið villandi, því miðað við almenna málvitund og fyrri störf höfundar gæti lesandi auðveldlega haldið að hér sé búið að taka saman og gefa út rapptexta herra Kötts. Það var jú í tónlist sem hann náði fyrst lýðhylli og hér hefur verið kosið að nota sama listamannsnafn. Staðreyndin er þó sú að þetta skáldverk númer tvö frá hendi þessa höfundar inniheldur stutta prósa sem ýmist mætti kalla örsögur, flash fiction, afórisma, huganir, svipmyndir í lausu máli, jafnvel prósaljóð eða einhverja blöndu af þessum formum, enda eru mörk þeirra fljótandi. Það er semsagt ekki einfalt mál að hólfa verkið niður ‒ það „ögrar greinavitund“ okkar, gætu bókmenntafræðingar sagt. „Merkimiðinn skiptir heldur ekki öllu“, gæti maðurinn á götunni sagt. Köllum þetta einfaldlega örsögur, allavega í bili, svona til hægðarauka.
Í stað vangaveltna um í hvaða skúffu væri réttast að stinga þessum skrifum er ef til vill gagnlegra að hugleiða hvort nokkur ættarsvipur, í skilningi Wittgensteins, sé til staðar. Trúlega er ein frægasta örsaga í heimi sagan um risaeðluna eftir Augusto Monterroso sem hljóðar svo í heild sinni: „Þegar hann vaknaði var risaeðlan þar enn.“ Lesandinn fær algjörar lágmarks upplýsingar því að í raun er verið að bjóða honum að ekki aðeins fylla í eyðurnar, eins og í öllum góðum skáldskap, heldur hreinlega að semja söguna sjálfur. Perurnar í íbúðinni minni sver sig dálítið í þessa ætt; í einni sögunni er meira að segja flugeðla. Þannig getur heimur þessara sagna verið: sumar þeirra mega heita nokkuð jarðbundnar en á köflum erum við stödd í fantasískri, jafnvel allt að póst-apókalyptískri furðuveröld þar sem allt getur gerst; svangar flugeðlur sveima yfir leikvöllum; úlfar með glóandi augu strjúka úr martröðum og inn í veruleikann; kafbátar stíma ofanjarðar um gatnakerfin með tilheyrandi umferðarröskun og sú athöfn að drekka kaffi úr farbolla getur reynst hættulegri en nokkurn hefði grunað.
Sögurnar geta verið allt frá heilli blaðsíðu og niður í eina setningu. Þær virðast ekki mynda neina sérstaka heild né hafa neitt ákveðið þema sem bindur þær saman, að minnsta kosti liggur það ekki í augum uppi ‒ sem er auðvitað í góðu lagi. Semsagt opið verk, sarpur sem allt eins væri hægt bæta endalaust við, fjölmörg sýnishorn hugmynda sem sumar hverjar hefði kannski verið hægt að teygja í lengri verk, kannski ekki. En þótt svo að fátt sameini þær eru samt sem áður nokkur minni sem skjóta upp kollinum oftar en einu sinni, til dæmis kafbátarnir, úlfarnir og svartmunkurinn í turni sínum, sem er „byggður úr tánöglum góðborgara, átti ekki að geta hrunið en gerði það nú samt“ („Turninn“). Einnig eru hlutfallslega nokkuð margar sögur sem virðist einboðið að túlka sem ádeilu á trúarbrögð eða kristindóminn sérstaklega. Orðaval og –röðun bera vott um nostur og yfirlegu. Sögurnar eru margar ‒ alls 166 ef mér telst rétt til, að meðtalinni þeirri síðustu, þessu dularfulla ávarpi til lesandans:
„Í þessari bók eru engar líkingar nema einsog. Sögurnar í þessari bók ber að lesa bókstaflega þó einhverjum kunni að þykja þær barnalegar.“
Sé litið til fortíðar svona stuttra, brotakenndra bókmennta má greina áhrif, bein eða óbein, frá hinum og þessum sögulegum fyrirmyndum, einkum frá því snemma á 20. öld. Ýmsir expressjónískir höfundar á þýska málsvæðinu skrifuðu svipmyndir í nokkrum línum, gróteskar og nöturlegar og fólu oft í sér ádeilu, líkt og upphafssagan í Perunum, um dauða lundann sem liggur með iðrin úti í fjörunni. Eitthvert fólk á þar leið hjá, danglar í lundann með þeirri umsögn að þetta séu nú ekki merkilegar skepnur og heldur leiðar sinnar. Endir. Hafðu þetta, túristaparadísin Ísland með þína sykurhjúpuðu þjóðernisdýrkun.
Daniil Kharms og Henri Michaux (sérstaklega sögurnar um furðukarakterinn Plume) koma einnig upp í hugann sem mögulegir áhrifavaldar. Galgopaháttur og geggjaður, anarkískur húmor eru áberandi hjá þessum gömlu meisturum, oft í bland við absúrdískt ofbeldi (þó að hugtakið ‚absúrd‘ þyrfti sjálfsagt að fara í hundrað ára notkunarbann til að öðlast aftur einhverja merkingu). Má vera að stuttu formin bjóði upp á beitingu non sequitur og annarra stílbragða sem henta vel fyrir grín. Atli ‒ afsakið, KGP ‒ getur líka verið mjög fyndinn (sjá til dæmis tilvitnunina í fyrirsögn þessarar greinar) en almennt er þó farið nokkuð sparlega með húmorinn hér og yfirleitt er hann meira deadpan; grunntónninn er alvarlegri, jafnvel stundum angurvær. En eins og hjá áðurnefndum snillingum getur líka verið stutt í ofbeldið, ýmist yfirgengilegt eins og í teiknimyndum, eða bara hrottafengið.
En ef það er eitthvað sem tengir sögurnar innbyrðis þá er það ekki innihald né form heldur röddin, rödd hins þunglynda sögumanns, gegnsýrð doða. Hinum þunglynda er í raun sama um allt. Hann er áhorfandi að lífinu, kannski nóterar hann hjá sér það sem fyrir augu ber til að halda sjálfum sér gangandi, en það snertir hann ekki raunverulega. Hvað sem er getur gerst án þess að hann kippi sér upp við það, líkt og í sögunni „Zebra“ þar sem stóð af trylltum sebrahestum ryðst niður Laugaveginn en sögumaðurinn og vinur hans fara bara að fá sér kaffi og kleinuhringi (kleinuhringir finnst mér einstaklega vel valið viðfang til að miðla akkúrat þessari tilfinningu). Raunar er tónninn í mörgum sögunum einmitt þannig: fjarrænn, dofinn, úr tengslum og það er mjög áhrifamikið þegar maður hefur áttað sig á því. Í þessu tilliti standa Perurnar kannski nær súbversífa meistaraverkinu Skáldsögur í þremur línum eftir Félix Fénéon, eða rússneska samtímahöfundinum Viktori Pelevin, sem er nefndur á nafn á einum stað í bókinni. Eitthvað furðulegt eða skelfilegt gerist en það vekur hvorki furðu né skelfingu. Þess í stað er bara haldið rakleitt áfram í næstu sögu.
Eitt af mínum uppáhalds stykkjum (og margra annarra) úr bókinni er afórisminn með titilinn „Langhlaup“: „Einlægt sjálfshatur er langhlaup.“ Hér er einhver samanþjöppuð snilld á ferðinni. Gott og vel, svo að einlægt sjálfshatur er langhlaup (ekki eins og, vel að merkja, heldur bara er); en samasem-merki virka í báðar áttir þannig að langhlaup er líka einlægt sjálfshatur. Maður sér fyrir sér endalausar raðir, heilt land, heila siðmenningu af hlaupurum, öllum rennandi undan djöflum sem þeir geta ekki flúið. Eða það væri ein túlkunarleið af mörgum, auðvitað.
Örlítið verð ég að hnýta í lengd bókarinnar. Þegar svona margir textar eru saman komnir finnur maður óhjákvæmilega að þeir eru ekki allir í sama þyngdarflokki. Fáeinir þeirra virðast vilja verða að prósaljóðum en eru ekki nógu burðugir sem slíkir („Sólin, veggurinn og skugginn“). Almennt hafði ég samt talsvert gaman að bókinni, svo að það sé nú sagt.
Ein lítil uppástunga í lokin. Eftir að hafa lesið Perurnar fór ég að hlusta meira á sköpunarverk KGP á tónlistarsviðinu og leggja mig meira eftir textagerðinni þar. Nú þykist ég ekki hafa vit á rappi en held að ég viti eitt og annað um ljóðlist og í þessum rapptextum finnst mér ég heyra sitthvað kunnuglegt. Fullvíst er að óþarflega þröng hugmynd um hvað ljóðlist sé þvælist fyrir mörgum. Á hinn bóginn hefur sum hiphop-tónlist heilmikil og augljós líkindi við til dæmis New York-skólann í ljóðlist. Við gætum sagt að báðar þessar greinar einkennist meðal annars af hraða, flæði og uppátækjasemi, þær noti tungumálið á óvæntan hátt og geti af sér texta sem eru víbrant, snjallir og hugmyndaríkir. Þær geta höfðað til svipaðs hóps: fullt af fólki hlustar á Kendrick Lamar á milli þess sem það les Ashbery eða O‘Hara. Þannig að ég varpa þeirri hugmynd fram sisona, af fullkomnu ábyrgðarleysi, hvort Köttið vilji ekki prófa að senda frá sér ljóðabók einhvern tímann? Annars bara: takk fyrir mig.
Áður skrifaði Ólafur Guðsteinn Kristjánsson um sömu bók á Starafugl – Guð slekkur ljósið, en Guð er ekki til.