Guð slekkur ljósið, en Guð er ekki til!

Um Perurnar í íbúðinni minni eftir Kött Grá Pje

Bjartur gefur út og telur verkið 96 síður.Guð er dauður segir dauðvona barn gömlum manni með skugga í buxum á spítala á meðan trú á æðri tilvistarstig er haldið uppi af kommúnista er horfir á kafbáta á götum úti með grænmetisætu sér við hlið. Og grænmetisætan er á því að gömul kona, sem skilur ekkert í þeim tiktúrum að leggja sér ekki einu sinni kjúkling til munns, sé hálfviti. Má svo finna úlf með glóandi augu á Suðurlandi með trefil frá Davíð Stefánssyni sem er góðvinur góða mannsins sem átti til að dangla í konuna sína. Var hann þó svo vandaður að hann losaði heiminn við sjálfan sig, enda nóg myrkur í honum heimi, jafnt í Kjarnaskógi sem í Laugardal. Þannig er enda málum háttað þegar perurnar hætta að lýsa upp skammdegið í höfðum mannskepnunnar sem jafnt og þétt byrgir glugga hýbýla sinna. Í miðbæ Reykjavíkur er hífað par í stakk búið að nota líkamsparta erfðasyndarinnar til annars en þvagláta. Og Zelanzy er „steindauður fáviti með kokteilsósu í skegginu.“ (bls.28) Yfir og undir öllu þessu er svo „helvítið Guð“ (bls. 34) með sína herskara af svörtum hundum sem eru á því að það sé „einkum þegar tilteknar bækur eru valdar á kestina sem bókabrennur orka tvímælis (bls.29). Í ofanálag hengir prestur sig í messu, gólem spásserar í Mýrunum, örsmár maður dúkkar upp í hænueggi, rotturnar yfirgefa Akureyri, efsta hæð tilverunnar er tóm en samt trúir fólk á Guð og Guð heitir Þuríður. Kettirnir fylgjast með þessu öllu og hrista höfuðið hlessa.

Svona mætti halda áfram að tvinna saman umfjöllunarefnum bókarinnar Perurnar í íbúðinni minni á máski smávegis afkáralegan og frjálslegan hátt. Allavega fyrir bókaumfjöllun. Tekið skal fram að inntaki bókarinnar er ekki blandað á þennan hátt í verkinu.

Hér er lokahluti verksins. Ber hann heitið „Sögurnar í þessari bók“.

Í þessari bók eru engar líkingar nema einsog. Sögurnar í þessari bók ber að lesa bókstaflega þó einhverjum kunni að þykja þær barnalegar. (bls. 90).

Kött Grá Pje/Atli Sigþórsson

Listamaðurinn Kött Grá Pje hefir skapað sér nafn sem tónlistarmaður og er á einhverra vitorði. Afköstin eru að vísu enn sem komið er ekki svo mikil hvað útgefið efni varðar. Til þessa hefir hann einkum fengist við rapptónlist. Hver man til að mynda ekki eftir laginu „Brennum allt“ með hljómsveitinni Úlfur Úlfur þar sem hann var í gestahlutverki svo og laginu „Aheybaró.“ Téð lög náðu allnokkuri lýðhylli. Einkum þó „Brennum allt.“

Á því herrans ári 2016 kom út það verk sem hér er er tekið fyrir. Er ekki um sönglaga- eða rapptexta að ræða. Má vel að merkja ráða það af fyrsta hluta þessara skrifa. Hrynjandin og rímið eru fjarri. Líklega fer best á að nota hugtakið örsögur um textana.

Er umrætt verk ekki fyrsta verk Kött Grá Pje í íslensku bókmenntalandslagi. Árið 2014 gaf Tunglið út Stálskipið í 69 eintökum. Sú bók inniheldur, líkt og sú sem hér er til umfjöllunar, örsögur. Sú bók var að vísu ekki gefin út undir listamannsnafninu heldur því sem finna má í þjóðskrá: Atli Sigþórsson.

Aðeins meir um sögurnar í þessari bók

Örsögurnar, sem teljast 166, eru mismunandi að lengd. Frá einni setningu til einnar síðu. Textinn „Langhlaup“ á blaðsíðu 16 er ágætt dæmi um eina málsgrein: „Einlægt sjálfshatur er langhlaup.“ Eins og gefur að skilja er ekki beint fléttu fyrir að fara í sögunum heldur er brugðið upp svipmyndum eða senum. Textarnir eru ýmist í fyrstu eða þriðju persónu og hafa yfir sér hvunndagslegt yfirbragð. Flestir þeirra eru þó framandlegir.  Kynlegir, óvæntir, ómögulegir eða illmögulegir atburðir eiga sér stað. Fer ágætlega á að notast við orð höfundar sjálfs sem kallar sögurnar furður úr hversdagsleikanum.

Sitthvað kunnuglegt er sett í framandi búning eins og þegar „[k]afbáturinn líður hljóður“  upp Ingólfsstræti „og fólkið fylgist með í forundran.“ (bls. 5) Textarnir eru misframandlegir. Sumir eru raunar bara ansi raunsannir og jarðbundnir eins og „Ástarsaga frá Suður-Spáni“.

Við kynntumst útúrdrukkin á troðinni baðströnd á Suður -Spáni. Samt vorum við hamingjusöm um hríð. Svo einhvern veginn fjaraði það út. Ég fór aldrei aftur á þessa strönd. Veit ekki með hann. (bls. 10)

Mætti hér tína til ófá dæmi. Stíll kallast á við efnivið og er látlaus og skrautlaus, engar stílæfingar eða stílleikfimi á ferð. Sumir textarnir eru meira að segja barnalegir í einfaldleika sínum.

Þetta er allt bókstaflega meint

Segir í lokatextanum að lesa beri bókstaflega. Sú forskrift er ágæt fyrir þá sem hafa eigi nennu til að pæla í yfirfærðri merkingu og má vel hafa nokkurt gaman af því að sjá óvanalega atburði og kringumstæður fyrir sér.

Engu að síður er auðvitað hægt að lesa ýmislegt í textana kæri maður sig um. Það er sem dæmi freistandi að spyrða textana við þunglyndi, svarta hunda, bringsmalaskottu, hugsýki, lífsleiða og óyndi. Persónur sagnanna eru enda duglegar við að loka sig af í myrkri, byrgja fyrir ljós og taka sitt eigið líf eða hafa það í hyggju. Einnig er óhætt að segja að mælendur textanna séu alljafna ekki par hrifnir af guðstrú og telji hana humbúkk hið mesta. Í sumum tilfellum helst þetta í hendur og verður niðurstaðan einhvers konar tómhyggja án þess að kafað sé djúpt niður í þá fullyrðingu. Svo er næsta víst að hugrenningatengsl ættu að skjóta upp kollinum hjá sæmilega vel lesinni manneskju með toppstykkið í lagi.

Alltént býður verkið upp á lög sem brjóta má heilann um en er á sama tíma það hversdagslegt að taka má sögurnar bókstaflega. Er það vel. Það er og vel mögulegt að hafa nokkurt gaman af báðum lestrarháttum og bjóða textarnir sumir hverjir upp á endurtekinn lestur. Þeir eru jú ekki langir. Helsta vandamálið er að í sumum tilfellum eru þeir hvorki nægilega áhugaverðir né nægilega vel stílaðir. Vel má þó vera að frekari lestur breyti þeirri skoðun.

Niðurstaða

Bók þessi er ágætis innlegg inn í þunglyndislegan hedonískan tíðaranda sem tapar stöðugt haldreipum fyrri tíðar. Hún vinnur á við frekari lestur en er samt engin ástæða til að telja sig hafa fundið glugga með útsýni yfir í „fjarlæga stjörnuþoku“ (bls. 27).