Þann 10. október síðastliðin kom út ný plata frá Hafdísi Bjarnadóttur tónskáldi og gítarleikara. Sú ber heitið Já. Á plötunni er að finna tólf lög sem flest öll eiga sér einhverja sögu í ferli Hafdísar. Þar af leiðandi er að finna fjölda hljóðfæraleikara á plötunni sem, fyrir utan Hafdísi sjálfa, leika mest á tveimur til fjórum lögum hver. Upptökumenn eru fjórir, Paul Evans, Páll Sveinn Guðmundsson, Marc Casanovas og Hafdís sjálf og platan er tekin upp á árunum 2009 til 2017. Hafdís gefur út sjálf.
Platan hefst á titilaginu Já og setur strax tóninn með jákór sem er á vissan hátt fráhrindandi en á sama tíma hlýr og býður hlustandanum inn fyrir. Svo tekur við líflegur smá fönkaður avant garde djass. Næst kemur Breiðholt-Norrebro þar sem Hafdís nýtir sér umhverfishljóð úr hverfunum tveimur sem lagið er nefnt eftir. Svo heyrist hljóðfæraleikur koma inn, stundum úr fjarska en stundum nær en það hefur þau áhrif að svo virðist sem tónlistin sé hluti af umhverfinu.
Þriðja lagið, Hikk, var samið fyrir Trio Amerise. Sett saman úr laglínum sem minna á gangandi bassalínur í djass og endar svo í tónfræðilegum hiksta. Freyjugata, sem er fjórða lag plötunnar er aðeins 18 sekúndur að lengd er sett saman úr umhverfishljóðum, syntha og klipptum til saxófónspuna Jóels Pálssonar.
Svona heldur platan áfram. Tilraunamennskan er allsráðandi eins og í Mánudansi þar sem t.d. rennilás er notaður í slagverk. Í laginu Krónan er unnið með línurit og tölur frá íslenku bönkunum frá árunum 2007 til 2009. Lagið hefst á áhorfendahljóðum í körfuboltaleik og svo tekur við hljóðræn ringulreið sem þróast út í yfirvofandi hættu og að lokum í algjöra spennu. Lagið endar svo á fuglasöng.
Bestu lög plötunnar eru að mínu mati fyrrnefnd Krónan , titillagið Já og svo lokalagið Tunglsjúkar nætur, en það er lag sem Hafdís vann þegar hún var staðartónskáld í Skálholti og samdi hún verkið með hljómburð dómkirkjunnar í huga. Krónan þykir mér í raun svo gott að það er nánast hrunsins virði. Þetta verk er magnað.
Þetta er afar góð plata sem Hafdís hefur sent frá sér. Sannkölluð rós í hnappagatið. Það er ekki eitt slæmt lag að finna á henni og topparnir eru magnaðir, hvort sem hún er að eiga við djassaðar eða nýklassískar lagasmíðar þá gengur allt upp hjá henni á þessarri plötu. Hún má líka eiga það að þrátt fyrir alla tilraunastarfsemina, fjölda hljóðfæraleikara og tímans sem það tók að setja plötuna saman, að þá er þetta afskaplega heildstætt og hlýtt verk. Þetta er greinilega tónlist sem er unnin af gífurlegri hæfni, sterkri listrænni sýn, miklu hjarta og innilegri alúð.