Bláa Hawaii: Brynjar Jóhannesson

rúmið hennar er bara rúm og drasl, við sjáum smokka og óléttupróf, túrtappa og naríur og vodkaflöskur og vodkaflöskur og sígarettupakka tóma sígarettupakka og hvað og hvað með það ég sukka rúmið mitt daglega segir hann segir hún daglega ættuð bara að sjá landabrúsana og orkudrykkjadósirnar og ef þú vissir ef þú bara vissir hvað ég hef í nóttinni

allt í drasli svo sköllóttur í gúmmíhönskum og með sjónvarpsteymi hrynur inn um útidyrnar ofan á og um babúskusafnið sem hrynur í sundur og minni og minni konur brjótast út um minni og minni konur eins og líking um eitthvað og hann horfir í kringum þig strýkur veggi og hillur undir bókum undir bókum undir blöðum og segir
gott
segir
gott að geta leitað sér hjálpar

hjálpar
segir þú til baka
ég ætlaði nú bara að leggja mig

og hann og sjónvarpsteymið vagga húrrandi fram og um íbúðina zooma innar og innar, finna ryk og mylsnu glotta
nei sjáiði moggana
grípa borð
nei þetta er löngu úrelt
brjóta veggi
nei opnum skrifstofurnar
segja
nei hvað sé ég hér
love what I‘ve done with the place
hlæja
þú sérð það manna best og veist á eigin skinni þetta gengur ekki
þú segir
ég ætlaði bara

Ljóðakvöldið Bláa Hawaii verður 22. nóvember næstkomandi. Brynjar er eitt af skáldunum sem les upp.

Feisbúkk viðburð fyrir Bláa Hawaii má nálgast hér