Nasasjón:

Ferð til hinna og sagan af því

Um ferðasögu Halldórs Friðriks Þorsteinssonar, Rétt undir sólinni eftir. Folda gefur út. Folda virðist vera hluti af Crymogeu því þar er bókina að finna. Verkið telur 207 síður. Engar myndir skreyta bókina. Lesandi verður að notast við ímyndunaraflið.

 

 

Í septembermánuði 2013 er verðbréfasalinn, athafnamaðurinn og stofnandi H.F. verðbréfa, Halldór Friðrik Þorsteinsson, staddur einn síns liðs á Charles de Gaulle-flugvellinum í París. Ferðinni er heitið til Senegals með flugi 451.

Halldór er á leiðinni til höfuðborgarinnar Dakar sem er hans fyrsti áfangastaður á fyrirhuguðu ferðalangi hans um Afríku. Önnur lönd sem Halldór hefir í hyggju að sækja heim eru Fílabeinsströndin, Búrkína Fasó, Gana, Tógó, Benín, Kamerún, Eþíópía, Tansanía, Simbvave, Sambía, Gabun, Lesótó og Suður-Afríka. Í ferðalagið ætlar hann sér að verja um sex mánuðum. Ferðin byrjar í Vestur-Afríku og liggur yfir til Austur-Afríku og endar í Suður-Afríku. Norður-Afríka er ekki hluti af ferðaáætluninni.

Innskot: Hver man ekki eftir frækilegri framgöngu senagalska knattspyrnuliðsins á Heimsmeistaramótinu árið 2002 þegar liðið lagði ríkjandi heimsmeistara og fyrrum nýlenduherra landsins Frakka. Sú staðreynd kemur þessari umfjöllun ekki við.

Tilgangur ferðalagsins er, eins og ferðalag hans um heiminn 2011 „að sjá og læra“ (bls. 9), að sporna gegn heimskt er heimaalið barn og þar fram eftir götunum. Ferðalög geta enda boðið upp á annað en afþreyingu, strandlegu, diskó-dans, kýlda vömb, sólbruna, ölþamb, uppáferðir og kynsjúkdóma. Eflaust má þó draga ýmislegan lærdóm af slíku.

En svo notuð séu orð Halldórs sjálfs þá hefir hann þetta að segja:

Skógarnir og grundirnar sem ólu af sér manneskjuna fyrir óralöngu. Álfan sem hýsir kynstur þjóða og tungumála. Mig langar að kynnast henni af eigin raun, því þröng Afríkuhilla hugans geymir helst stríð, farsóttir og hungursneyð. Það er fátæk mynd af ríkri álfu.

(bls.8)

Má blygðunarlaust halda því fram að Afríkumynd margra mótist af neikvæðum eða sorglegum tengingum. Slíkar tengingar eru einkar áberandi þegar Afríku ber á íslenska góma.

Myndir þessar hverfast iðulega um hluti eins og ófrið, ofbeldi, kynþáttahatur, aðskilnaðarstefnu, plágur, einræðisherra sem maka krókinn og lifa í vellystingum á meðan alþýðan á vart til hnífs og skeiðar, þjóðflokkaerjur, limlestingar kynfæra kvenna, hryðjuverk, barnahermenn, eyðni, ebólu, nauðganir, þjóðarmorð, þrælahald og þróunarhjálp sem fer í ranga vasa. Ekki má svo heldur gleyma framandi dýraríkinu með sínum rándýrum og myrkum frumskógum.

Heimsbókmenntirnar hjálpa lítt  til við að draga upp aðra hlið mála og það þótt „[k]læðnaður í öllum regnbogans litum, karlar með fez-hatt á höfði og konur með slæður“ (bls. 7) sé vel til þess fallandi að koma fleiru fyrir á borðinu en eintómum hryllingi.

Með orðinu hryllingur er að sjálfsögðu vísað til frægrar skáldsögu Josephs Conrads, Heart of Darkness sem kom út 1899 og árið 1992 í þýðingu Sverris Hólmarssonar undir heitinu Innstu myrkur. Sagan sú er, eins og nafnið gefur til kynna, myrk og tekur á villimennsku og siðmenningu, hvernig siðmenning verður villimennsku að bráð. Sögusviðið er auðvitað í Afríku.

Ekki hafa heldur Suður-Afríkubúarnir og Nóbelsverðlaunahafarnir Nadine Gordimer og J.M Coetzee  (hann er reyndar fyrrverandi Suður-Afríkubúi) alltaf dregið upp bjarta mynd af Suður-Afríku í verkum sínum. Þar í landi er „[á]hættusamt að eiga eitthvað: bíl, skópar, sígarettupakka. Ekki nóg handa öllum, ekki nóg af bílum, skóm, sígarettum. Of margt fólk, of fáir hlutir.“ 1

Að ekki sé minnst á allar kvikmyndirnar. Kona lifandi! Hægt væri að spyrja sig hvort ástin og kærleikurinn þrífist yfirhöfuð í þessari heimsálfu.

Í sannleika sagt mótast viðhorf margra á Thule líkast til af heimsku og þar er ekki átt við gáfnaskort. Mörgum er ugglaust tamt að líta á Afríku sem eina heild en ekki fjöldann allan löndum með ólíkum þjóðum,tungumálum, menningararfleifð og náttúru.

Á Íslandi hefir „Hjálpum þeim“ vafalítið lagt sitt af mörkum í þá veru að draga mynd bjargarvana heimsálfu. Fyrir þá sem ekki þekkja til (ólíklegt) má hér, hér og hérna berja hlustir og augu.

Þess fyrir utan er málum þannig háttað hjá mörgum mörlandanum að ef þeir vissu um Belgíu að Brüssel sé höfuðborg landsins og að þar séu einkum tvö tungumál ríkjandi, flæmska og franska (reyndar er þýska einnig opinbert mál þar í landi) þá vita þeir hinir sömu örugglega minna um Afríku.

Innskot: Hvaða nafntogaða Belga þekkir landinn? Hercule Poirot telst ekki með.

Alltént er allmenn vitneskja um tilvist Belgíu. Einnig vita mörg nokkurn veginn hvar landið er staðsett í Evrópu Vel hugsanlega er íslensku mannfólki vitanlegt að landið sé hluti af Benelúx svo og að hluti landsins liggi að Norðursjó og að borgirnar Gent og Antwerpen séu belgískar.

Líklega eru minni líkur á þeirri vitneskju að í Belgíu sé þingbundin konungstjórn og að konungurinn heiti Phlippus og að foveri hans í starfi, Leopold II (1835-1909) hafi stuðlað að einkar vondri meðferð á íbúum nýlendu sinnar, Kongó, sem var hans einkaeign á 19. öld.

Vita konur almennt að Gabon, Sambía, Djíbúti og Eritría séu til?

Sennilega er hætt við að margt hvað Afríku viðkemur renni saman í einn graut og lítill greinamunur sé gerður á löndum og lýð. Konur vita kannski að tengja má Idi Amin, Nelson Mandela, Didier Drogba, Mugabe, Die Antwoord, Charlize Theron, Eusebio, Apartheid, nýlendur Evrópuríkja, blökkufólk, villimenn, Roger Milla, Bruce Grobbelaar, vuvuzela og mannætupott við Afríku. Kannski má henda Livingstone, Stanley, Freddy Mercury  og Desmond Tutu í pottinn til bragðbætis.

Það er skemmst frá því að segja að ferðasögur Halldórs eru ekki hörmungarsögur af því kaliberi sem við eigum að venjast þegar Afríka á í hlut. Vissulega er ekki allt í rósrauðum bjarma en engu að síður er vart annað hægt en að setja ferðasöguna í þann flokk verka sem draga ekki álfuna í gegnum innstu myrkur mannlegar tilveru.

Sagan er ekki náskyld túrhestabókum og myndi lítt gagnast þeim sem leita að praktískum upplýsingum um ferðamannastaði þeirra slóða sem lýst er í verkinu. Hún ætti fremur að virka semhvati til þess að láta slag standa, henda sér út í krókódílasíkið, frumskóginn, hina framandi Afríku.

Þetta er fyrst og fremst einföld ferðasaga manns sem ólíkt svo mörgum lætur draum sinn verða að veruleika og leggur land undir fót. Það er auðvitað til eftirbreytni enda líkast til ekki nokkurri sál hollt að burðast með steinbarn í maganum. Alls lags fróðleiksmolar og skemmtisögur fá að fljóta með.

Af ofangreindu að dæma liggur vonandi beint við að halda fram að ferðasaga Halldórs leitist við að skapa eitthvað heiðskírara útsýni yfir hina framandi heimsálfu (kannski ofan af Kilimanjaro sem Halldór gekk á og er 3875 m hærri en Hvannadalshnúkur).

Augljóslega kemur lesanda ýmislegt öðruvísi fyrir sjónir og kallar sá annarleiki á samanburð við íslenskt líf þar sem ekki „[s]töku bíl stoppar hjá, bílstjórinn stígur út, tekur upp veskið, kaupir kind og treður henni  nauðugri í skottið.“ (bls. 13) Og bifreiðar á Íslandi eru sjaldnast á þennan veg: „Varla heill mælir í mælaborðinu. Bifreiðarnar hérna væru ekki brúklegar fyrir partasölu í Hafnarfirði.“ (bls. 15) Ólíklegt er jafnframt að nokkur hafi upplifað eftirfarandi á Íslandi: „Maður stendur við veginn og heldur með uppréttri hendi í halann á rottu. Reykt rotta er herramannsmatur hér um slóðir. (bls. 22) Mannlífið á Fróni á heldur ekki mikið sammerkt með lýsingu þeirri sem hér fylgir og fátæka flokksins fólk býr sennilega betur en hér er lýst:

Mannlífið meðfram lestarteinum úthverfana er mergjað. Þar ægir saman fólki, kvikfénaði, hreysum, logandi eldstæðum og rusli. Margir utanhúss að sýsla eitthvað. Hér blasa við mestu fátækrarhverfin, hráasta umhverfið. Hreysin eru svo nöturleg að það sýnist skárra að halda sig utandyra.

(bls. 25-26)

Og til að bæta um betur eða verr:

Hús, veggir, hurðir, gluggar og þök eru mislit,skítug, rispuð, skröpuð, flekkuð, ryðguð, götótt, beygluð, skörðótt, rifin,brotin, brömluð, sprungin, skæld, skökk, flögnuð eða af hjörum. En falleg á sinn hátt.

(bls.51)

Sjö bjuggu saman í bárujárnshrófi sem hann sýnir mér. Gólfflöturinn er í mesta lagi 20 fermetrar. Enn búa hér þrjú börn og fjórir fullorðnir.

(bls.112)

Hann vinnur líka sem þjónn meðfram búrekstrinum, fær 30 dollara á mánuði fyrir þjónustustörfin og búðin skilar 50 dollurum. [um 8400 krónur]

(bls. 113)

 

Og þótt trú á álfa og hindurvitni á Íslandi sé útbreidd og jafn sönn þeirri fullyrðingu að allir Þjóðverjar sofi með mynd af Adolf Hitler undir koddanum og Austurríkismenn af Jörg Haider trúa þeir allajafna ekki á nornir eins og einn þeirra sem Halldór kynnist hefir orð á:

Við trúum á nornir, þær eyða öllu. Þetta er verulegt vandamál í Afríku, þær eyða öllu. Margir deyja af þeirra völdum […] eina leiðin er að vera kristinn, það veitir vörn gegn þessum voðalegu nornum.

(bls. 35)

Og þó svo að flest á klakanum þurfi að kaupa dýru verði þá er hæpið að hótelherbergi kosti

„á við árstekjur hjá fólkinu handan við hornið“.

(bls. 38)

 

Einnig er málum svo farið að jafnvel þótt margt sé efalaust ófullkomið þegar kemur að menntun íslenskra eyjaskeggja á þetta vart við:

Við vitum að ofbeldi er partur af menningunni hérna. Börn eru barin og það er nokkuð algengt. Við erum ekki frjáls í huga. Menntun gerir þig frjálsan. Fátæktin er stór þáttur. Menntunarskortur og fátækt.

(bls. 57-58)

Helvíti Húsavíkur-Jóns er og blessunarlega laust við stríð:

Það eru skærur í næsta landi, Suður-Súdan, búið að drepa eitt þúsund manns á einum mánuði.

Og í þarnæsta landi, Miðafríkulýðveldinu, er líka stríð og búið að vara lengi. Jólin á morgun.

(bls. 114)

Hér er af ásettu ráði ekki greint frá því (fyrir utan þá síðustu bersýnilega) hvar í landi tilvitnanirnar eiga sinn uppruna. Lesanda verks skal látið eftir að finna það út. Auðvitað staðfesta þessar skírskotanir þá ímynd sem íslensk höfuð geyma; að Afríka sé öðruvísi, að ferð Halldórs sé reisa um lendur hinna (annar heimur), að álfan geymi vá, vanefni og hungur.

En lönd Afríku eru frábrugðin þótt ýmislegt eigi þau sammerkt. Afríka er og „ ættbálkaálfa að upplagi, heimkynni þúsund ættbálka. Á Fílabeinsströndini eru 60 ættbálkar, í Nígeríu 400.“ (bls. 20) Þar að auki er fjöldi tungumála í Afríku mikill. Í Jóhannesborg eru t.a.m.töluð ellefu tungumál. Má því segja að margt sé í mörgu í álfunni þar sem „[n]ýjustu DNA-rannsóknir rekja mannkyn allt til einnar konu af tegundunni Homo sapiens sem lifði í Afríku fyrir á að giska 200 þúsund árum. Hin genetíska Eva.“ (bls. 92) Rétt undir sólinni tekst ágætlega að miðla því.

Einnig tekst bókinni vel að miðla þeirri tengingu sem er á milli fátæktar og trúar; þeimur minna sem fólk á, þeimur erfiðari sem staðan er, því meiri þörf virðist vera fyrir trú á Guð. Kannski helst það hönd í hönd við þá staðreynd að „[s]jö af hverjum tíu Afríkubúum eru án rafmagns. Allt vatn er borið í hús, 20 mínútna leið frá ánni. Salernið er undir tjaldi í garðinum, hola í jörð, beggja vegna eru tréplankar sem staðið er á.“ (bls. 134). Á Íslandi var trú algengari þegar rafmagn var ekki til staðar og fólk fann haldreipi í Guði þegar hungur og hörmungar steðjuðu að.

Þessi umfjöllun er orðin helst til of löng en það ætti að sýna fram á að umrætt verk eða þá umfjöllunarefni verksins getur sannlega ýtt undir pælingar. Og þótt ekki sé verkið langt, ekki neitt sérlega ítarlegt, forðist öll gífuryrði, enda er stíllinn að mestu jarðbundinn og með hlutleysisbrag, þá getur það vel stutt ímyndunaraflið, víkkað rörsýnir og frætt lesandann, þótt það gefi ekki annað en nasasjón af álfunni.

Bókin sem slík er sæmileg. Hún er ágætlega skrifuð og lítt höktandi í lestri þótt sumar tengingar á milli atburði eða lýsinga séu ankannalegar. Litast það af því að verkið er eins konar dagbók, þótt skrifuð sé í sögulegri nútíð, og virðist ekki endilega ætlunin að skapa samfellda frásögn.

Aukinheldur má vel lesa úr sögunni hliðarsögu eða óbeina sögu um mannlegan ójöfnuð og múra (við og hinir). Því þótt ferðalagið og sagan séu góðra gjalda verð og vissulega sé til eftirbreytni að taka sér svona ferð fyrir hendur segir sagan meira en mörg orð um þá forréttindastöðu sem þær sem líta dagsins ljós í okkar heimi eru í. Þær hinar sömu geta leyft sér að ferðast á fyrsta farrými og geta hrist fram pening, fjárfest í verslun, menntun ungs blökkumanns og haft burðarmenn til að bera upp byrðar sínar á Kilimanjaro.

Þetta er alls ekki hugsað sem gagnrýni á Halldór. Hvað framtakið varðar verður einvörðungu sagt „Hut ab!“ Og þó ekki sé bókin bautasteinn mikilsverðra bókmennta né ástæða til að fagna út í eitt með vuvuzela í villtum dansi þá er hún áhugaverð, hún kallar fram allslags lykt, sé það „stæk kynþáttalykt […] [sem] líkt og ælulykt í áklæði […]fer ekki úr“ (bls 175) eða lykt hina fjölbreyttu og litríku ávaxta svo og allslags rétta sem kallast ekki á við þorramat. Einnig eru þar heimspekilegar vangaveltur um þjóðfélagsstöðu, „[e]itt mannkyn. Eitt vistkerfi. Sömu örlög“(bls.165) og allslags samanburður eins og sá á fangelsisgarði Mandela á Robben Island við garð Hegningarhúsins við Skólavörðustíg 9. Mandela „afplánaði bróðurpartinn af 27 ára fangelsisvist“ á Robben Island. Sveppi í kvikmyndinni Veggfóður eftir Júlíus Kemp eyddi einni nótt í Hegningarhúsinu.

 

____

 

Aukalega: Í verkinu var minnst á þessa tónlistarkonuna Bi Kidue og tónlistarmanninn Baaba Maal. Eru þau allrar athygli verð.

 

   [ + ]

1. J.M. Coetzee. 2000. Vansæmd. Bjartur, Reykjavík. Rúnar Helgi Vignisson þýddi. Tilvitnun er að finna á bls.95.