Canute og Edmund Ironside takast á – mynd úr Chronica Majora, fengin af Wikipediu.

Glataður gauksungi

Edmund Ironside

Hvað skrifaði Shakespeare mörg leikrit? Það er nú það.

Í fyrstu heildarútgáfunni (F) eru 36 verk. Tvö til viðbótar (Pericles og The Two Noble Kinsmen) hafa lengi notið nokkuð almennrar viðurkenningar sem samvinnuverkefni þar sem okkar maður á umtalsverðan hluta. Kinsmen samt ekki nógu mikillar til að Helgi Hálfdanarson hefði það með í sinni heildarþýðingu.

Í F eru a.m.k. tvö leikrit sem Shakespeare er talinn hafa skrifað í samvinnu við kollega sína: Henry VIII (með John Fletcher) og Timon of Athens (með Thomas Middleton). Áhöld eru um fleiri verk séu úr fleiri pennum, t.d. Macbeth, Measure for Measure og jafnvel sum fyrstu verkin; Titus Andronicus og Rósastríðaþríleikurinn.

En kanónan telur sem sagt 38 leikrit. Þegar þessum sleppir höldum við inn á grátt svæði getgátna og fræðilegrar óskhyggju. Inn í ríki heilagrar Apókrífu.

Ég hef ákveðið að hafa fjögur verk úr konungsríki hennar með í þessum heildarlestri. Double Falsehood, sem ýmsir fræðimenn (og hin strangfræðilega Arden-útgáfa) telja innihalda leifar af hinu týnda samvinnuverki Cardenio frá síðustu árum Shakespeares. Thomas More, sem Ardenmenn hafa einnig bætt við sinn katalóg, en rithönd skáldsins er á þremur síðum í handriti verksins, og þar með eini leiktextinn sem þannig er varðveittur. Edward III, sem Shakespeare er nú af mörgum talinn hafa skrifað í félagi við Thomas Kyd um svipað leyti og Richard III varð til, og að síðustu, eða fyrstu: Edmund Ironside, sem hér er til umræðu.

Hér segir frá erjum Edmundar, sonar Ethelreds „the Unready“, og Canute (Knúts), erfingja Sveins tjúguskeggs. Verkinu lýkur snögglega með einvígi konunganna og mjög bröttum friðarsáttmála eftir að þeir leggja niður vopn, og nokkuð augljóst er að það verður framhald. Það leikrit, Hardacanute, er glatað.

Edmund Ironside var aldrei prentað en handritið varðveittist (ekki með rithönd Shakespeares), að því er virðist sæmilega óbrjálað, og ber merki þess að hafa verið í notkun í leikhúsi.

Það er ekki sérlega útbreidd skoðun að þetta eldgamla handrit sé Shakespearsk smíð. Með hæfilegri einföldun má segja að aðeins einn maður sé þessarar skoðunar. Breski fræðimaðurinn Eric Sams, þó upprunalega sé hugmyndin frá ameríska fræðimanninum E.B. Everitt og bæði Peter Ackroyd og Anthony Burgess hafi gefið því séns.

Sams er virtur tónlistarfræðingur með ljóðasöngva þýsku rómantíkurinnar sem sérgrein. Hann er aðeins meira sér á parti hvað varðar Shakespeare. Almennt er hann þeirrar skoðunar að hérumbil öll leikrit sem flestir telja fyrirmyndir, stælingar eða uppskriftir annarra á verkum Shakespeares séu frumgerðir frá hendi hans sjálfs. Lista af „umdeildum“ verkum sem Sams eignar skáldinu er lengri en flestra og hann er að finna á wikipedia-síðu fræðingsins.

Ólíkt Double Falsehood, Edward III og Sir Thomas More hefur Edmund Ironside ekki ratað á Arden-prent, en það eru áratugir síðan ég sá fyrst eintak af útgáfu Sams í Shakespeare-hillu Borgarbókasafnsins. Nú var kominn tími til að fá það að láni (fyrstur manna, virðist vera) og lesa.

Eðli málsins samkvæmt er svolítill eyðimerkurhrópandabragur á inngangi Sams. Hér skal gengið á hólm við ríkjandi skoðanir og lesendur sannfærðir um kenningu sem fæstir trúa. Sams viðurkennir fúslega að vera „pólemískur“, og eyðir ekki tíma eða orku í að skoða mótrök, nema þá til að hafna þeim snuðrulaust, oft með nettri fyrirlitningu.

Hér er meiri sannfæring en sönnunargögn. En áhugaverð og skemmtileg kenning, og Sams er ágætur penni. Fyrir utan talningu á sjaldgæfum orðum og álíka sparðatíning er mest gaman að sjá breiðari drætti kenningarinnar: Hvernig Edmund (og framhaldsverkið, hið týnda Hardacanute) voru skrifuð á lokaárum níunda áratugar sextándu aldar, urðu hertri ritskoðun upp úr 1590 að bráð, en handritin varðveittust í vörslu Edward Alleyn, hávaxna stjörnuleikarans sem Sams vill meina að hinn tröllvaxni Ironside hafi verið skrifaður fyrir. Shakespeare hafi síðan nýtt þemu og ýmislegt af texta og myndmáli og þróað áfram í Titus Andronicus, í öruggu skjóli hinnar heiðnu rómversku fornaldar fyrir ásökunum um guðlast.

Sams sér vegsummerki Shakespeare allsstaðar. Hér er ágætt dæmi um retórísk efnistök hans og stíl:

Who is this reader and quoter of Ovid, Plutark and the Bible, this student, adapter and versifier of Holinshed and Grafton, this deliberate rhetorician, inventor of new vocabulary, compount-word-coiner, poet and punster (in Latin too), ardent alliterator, lover of classical and legal allusion, bawdy humorist, amused observer of low life, purveyor of comic relief and dramatic irony, this pioneer of a new genre with a new subject from a new source, this showman of theatrical spectacle, this orignator of fresh imagery from the outdoor life of country pursuits and natural surroundings, from fables and proverbs and animal lore, with his curiously solecistic grammar, his eccentric scansion of proper names, his deliberate references to acting and the stage, his intense patriotism, his dread of civil war, his close concern with political stability and social status, his obsessive hatred of flattery, its association in his mind with the idea of sugar, melting and dogs, his further association of death with hollowness, and of blots with faces, the sky, constancy, coldness and kings, his persistent thinking in contrasts and antitheses – who can this possibly be?

(5)

Þetta er  nú dálítið skemmtilegt yfirlit yfir ýmis einkenni og áhugamál skáldsins, burtséð frá því hversu greinileg þau eru í verkinu sem hér er til umfjöllunar. Reyndar má segja að eitt af því sem stingur strax í augu er hvað höfundur Edmund Ironside er örlátari á beinar Biblíusögutilvísanir en sá sem skrifaði hin kanónísku verk, en það er hluti af ritdeilunálgun Sams að halda því fram að slíkar vísanir séu á hverju strái hjá Shakespeare. Ekki minnist ég þess.

Annað sem sannfæringarþörf hrópandans rekur hann út í er að boða gæði verksins. Hann vill meina að Edmund Ironside sé ágætis leikrit, fullt af kunnuglegum sprotum sem eiga eftir að ná fullum blóma nokkrum árum síðar, í Títusi og þríleiknum um Henry VI. Hann er líka á því að Edmund Ironside standi algerlega fyrir sínu sem sviðsverk.

Það er ekki rétt. Og á stóran þátt í að ég hef ekki gengið til liðs við söfnuð Sams, sem ég var alveg til í fyrirfram, og eftir lestur predikunarinnar í innganginum. Þetta er bara of andlaust. Það er ekkert grúv. Alltof lítil skáldleg tilþrif. Engin dramatík. Og fléttan er svo rýr og kjánaleg að jafnvel þar stendur höfundur Ironside langt að baki Shakespeare, sem átti nú alveg til að vera mátulega umhugað um gangverkið í söguleikritum sínum í upphafi ferilsins.

Aðallega virkar Edmund Ironside ekki á mig eins og byrjandaverk snillings, heldur frekar eins og  vandvirknislega samið verk eftir lágfleygt og hæfileikarýrt skáld með ekkert að segja.

Ég er ekki frá því að þessi ræða Edricusar komist næst því að hljóma eins og okkar maður.

Give not such scope to humorous discontent
we all aree partners of your private griefs
kings are the heads, and if the head but ache
the little finger is distempered.
We grieve to see you grieved, which hurteth us
and yet avails not to assuage your grief.
You are the sun, my lord, we marigolds
whenas you shine we spread ourselves abroad
and take our glory from your influence
but when you hide your face or darken it
with th’least encounter of a cloudy look
we clos our eyes as partners of your woes
drooping our heads as grass down-weighed with dew.
Then clear ye up, my lord, and cheer up us
for now our valours are extinguished
and all our force lies drowned in brinish tears
as jewles in the bottom of the sea.

3.5.1088–1103

Ekki sérlega innblásið eða eftirminnilegt svo sem, nema í samanburði við flatneskju umhverfisins.

Ég mun ekki ganga í þennan klúbb. Sorry Sams.

Texti verksins.

Ég setti mér fyrir lesverkefni. Að lesa öll verk Shakespeares, leikrit og ljóð, nokkurnvegin í líklegri ritunartímaröð. Já og horfa á kvikmyndagerðir eða kvikmyndaðar sviðsetningar þeirra.  Langflest leikritanna hef ég lesið áður, ýmist á frummálinu eða íslensku. Mörg hef ég séð og tveimur leikstýrt. Ljóðin þekkti ég lítið sem ekkert. Síðan skrifa ég eitthvað smávegis um hvert og eitt. Greiningu, gagnrýni, ágrip af fyrri reynslu minni af verkinu. Svona nokkurnvegin hvað sem mér dettur í hug út frá lestrinum. Starafugl birtir þessar ritsmíðar á föstudögum, meðan verk endast. 

Shakespeare’s „Edmund Ironside“ – Shakespeare’s Lost Play, ritstjóri: Eric Sams