Er þetta góð bók?

Saga af hjónabandi eftir norska rithöfundinn Geir Gulliksen var tilnefnd til tveggja norskra bókmenntaverðlauna árið 2015 og til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs ári seinna. Það ætti að benda til þess að bókin sé góð.

En er bókin góð? Við skulum geyma þá spurningu aðeins. Mig langar aðeins til að velta því upp hvort hún stendur undir því sem stendur á kápunni. Það siður að skreyta kápur með tilvitnun í gagnrýnendur eða aðra rithöfunda. Þetta á að gefa lesandanum einhverja hugmynd um innihaldið áður en lesturinn hefst. Benedikt bókaútgáfa, sem gefur bókina út sem þriðju bókina í bókaklúbbnum Sólinni, velur að hafa þrjár tilvitnanir á kápunni.

Hnífskörp saga um ást, kynlíf og svik.

Sterk og grípandi lýsing á þögninni sem leggst yfir eftir átök í hjónabandinu.

Svo vel skrifuð að það verður óþægilegt (…) lesandinn grípur andann á lofti yfir opinskáum kynlífslýsingum.

Það vakti athygli mína við lestur bókarinnar hversu illa mér fannst hún í raun standa undir þessum lýsingum. Ekki vegna þess að bókin sé neitt verri en það sem lofað er. Það er alls ekki svo. En mér finnst lýsingarnar bara hreint ekki ná almennilega utan um það sem er að finna í bókinni.

Mér finnst hún ekki hnífskörp. Mér fannst hún hins vegar leggjast á mig eins og þoka. Maður rambaði inn í hana og vissi ekki fyrri til en hún var allt um kring og tók yfir skynfærin. Og þó sagan sé um ást og kynlíf komi við sögu, þá eru svik ekki endilega lykilþáttur í framvindunni. En kannski meira um það seinna.

Lýsingin á þögninni er sannarlega sterk og grípandi. Og það sem gerir hana svo sterka sem raun ber vitni er eiginlega skortur á átökum á milli aðalpersónanna.

Ég skal kvitta upp á að bókin er bæði vel skrifuð og óþægileg. En hvað varðar að grípa andann á lofti þá er undirritaður sennilega eitthvað síður hneykslunargjarn en sá sem skrifaði þessa athugasemd. Það ber að taka með í reikninginn að viðkomandi er væntanlega Norðmaður …

En já, það er samt nóg af kynlífi. Svo ef þið hafið gaman af því, þá verðið þið ekki fyrir vonbrigðum.

Það má jafnvel segja að sagan standi varla undir titli sínum, því hún fjallar auðvitað fyrst og fremst um upplausn hjónabands frekar en hjónabandið sem slíkt. En það er kannski með ráðum gert og höfundurinn leikur sér sumpart að því að planta hjá manni fræjum þeirrar hugsunar að kannski hafi þetta hjónaband sem um ræðir aldrei átt séns, þrátt fyrir að líta vel út á yfirborðinu. Að sagan af þessu hjónabandi sé óhjákvæmilega saga af endalokum þess. Á tímabili verður það jafnvel freistandi að ætla að höfundurinn sé að dæma öll hjónabönd feig og ég stóð mig aðeins að því á tímabili að lesa söguna sem einhverskonar samfélagsádeilu.

Það er samt varhugaverð ályktun. Stundum er hollt að muna að saga er saga. Höfundur segir eina sögu af tilteknum persónum og það eru ekki allir höfundar uppteknir af því að flytja einhvern sérstakan boðskap þar með. Stundum er sagan bara saga og atburðir bara atburðir. En einn af stærstu kostum sögunnar er samt sem áður næmni og skilningur á nútímasamfélagi sem ætti að auðvelda flestum lesendum að mynda tengsl við persónur og atburði sögunnar. Það reyndist mér óþægilega auðvelt að setja sig í spor þessa fólks.

Sagan fjallar um endalok hjónabands. Framhjáhald kemur við sögu og þá er kannski ekki skrýtið þó að í því sambandi tali menn um svik. En annað það sem gerir söguna bæði sterka og óþægilega er að maður getur varla sagt að um svik sé að ræða. Það er auðvitað afar þægilegt að geta bent fingri á svikarann í sambandinu en sagan veitir manni ekki þau þægindi.

Ég hef fulla samúð með þeim sem hafa setið í stól gagnrýnanda og reynt að lýsa þessari bók. Það er ekkert sérstaklega auðvelt. Ekki held ég að mér takist það.

Það má kannski búa til eina nothæfa lýsingu úr þessum þremur hér að framan.

Saga um ást. Sterk og grípandi lýsing á þögninni sem leggst yfir hjónaband. Svo vel skrifuð að það verður óþægilegt.

Þarna. Ég geri ekki betur en þetta. Ég er hvort sem er of seinn að komast á bókarkápuna.

En er bókin góð?

Já það er hún. Mjög góð hreinlega. Ég mæli með henni.