Bubbi fyrir byrjendur og lengra komna

Um ljóðabækurnar Hreistur og Öskraðu gat á myrkrið eftir Bubba Morthens

1

Hreistur er önnur ljóðabók höfundar og inniheldur 69 ljóð á ótölusettum blaðsíðum. Hvert ljóð ber númer. Mál og menning gefur út. Öskraðu gat á myrkrið er einnig gefin út af Máli og menningu og inniheldur 33 númeruð ljóð á ótölusettum síðum. Þess má og til gamans geta að hér finnum við einnig ljóð eftir Bubba.

 

2: Ljóðskáldið og bragsmiðurinn Bubbi Morthens

Hvernig í andskotanum eigum við að skrifa um ljóðabók eftir jafn nafntogaðan mann og Bubbi Morthens er? Bubbi hefir verið á milli tannanna á fólki síðan Jón Hreggviðsson sarð hóruna í Amsturdammi eða allt að því. Hann hefir allavega notið lýðhylli síðan Eiríkur Örn Norðdahl var bara hugmynd 1. Það er ljóst sem sól að morgni.

Að skrifa um ljóðabók Bubba er, eða getur verið, snúið. Það fer að sjálfsögðu allt eftir því hverjar lyklaborði stýra. Sérstaklega kann það að vera snúið þar sem Bubbi er, svo að segja, nýgræðingur í ljóða(box)hringnum. Það vill nefnilega svo til að hann hefir einvörðungu gefið út tvær ljóðabækur og ættum við því kannski að láta hann, svona ósjálfrátt og sjálfvirkt án þessa að hafa lesið verkin, falla í flokk efnilegra skálda. Frumraunin kom út sama ár og konur fögnuðu því að 100 ár voru liðin frá því að þeim var leyft að kjósa og fjörutíu ár voru frá kvennaári Sameinuðu þjóðanna og seinni bókin er því að gera nýútkomin.

3

En annars. Tökum þetta til baka. Bubbi er enginn grænjaxl. Hann hefir auðvitað sent frá sér svo mikið af ljóðum að fingraför hans eru örugglega óafmáanleg af sálum sumra manna og kvenna enda sum þeirra algerar BOMBUR þótt ekki hafi nema tvær ljóðabækur litið dögun. Víkjum síðar að því hvort téðar bækur séu bombur, blindsker, nýbúi eða meskalín.

4

Byrjum upp á nýtt. Bubbi Morthens er stærri en Sigur rós og BJÖRK! Það kann að vera sagt af dæmigerðum Íslendingi eins og Sigmundi Davíð eftir að sá hinn sami hefir sagt við saklausan framandi Frónelskandi Friðrik eða erlendan álfariðil að nafni Agnes „YOU DON´T KNOW BUBBI MORTHENS, WHAT IS WRONG WITH YOU!?“ Að sjálfsögðu þarf að leiða aðkomukonum fyrir sjónir að Íslendingar setji upp kóksjálfsala fyrir álfa á heiðum úti og að Ísland sé konungsríki og kóngurinn þar heiti Bubbi.

Bubbi þessi er sannlega ekki óumdeildur á þeim almannarýmum þar sem sá sauðsvarti getur hagað sér eins og Húsavíkur-Jón, nauðgað með tjaldhælum og leyft sér að snúa sinni sjálfsveru á rönguna. Þar er Bubbi vissulega úthrópaður, kallaður allslags ónefnum af görpum sem líkast til eru löggildir hálfvitar og hlusta á HLH og Brimkló.

Ekki er heldur neinum blöðum um það að fletta að ómælda aðdáun og hrifningu hefir Bubbi vakið í góðglöðum jafnt sem steinrunnum hjörtum, svörtum Afgönum, þingmönnum, Rómeóum, blindum poppstjörnum eða konum sem gott er að elska. Á það jafnt við á Mýrdalssandi, í verbúð, dópgrenum eða á Arnarnesi.

5

Æ! Gerum nýja tilraun. Nýlega leit ljóðabókin Hreistur eftir söngvaskáldið góðkunna Bubba Morthens ljós. Er ljóðabókin atarna hans önnur ljóðabók. Bubbi er okkur best kunnugur í gegnum afrek sín á tónlistarsviðinu og hafa komið út heilu kókaínfjöllin af tónlistarupptökum með lögum og ljóðum/textum sem eins og fiskurinn, lambið, Framsóknarflokkurinn og hrútspungurinn hafa haldið í oss lífinu í Hólmanum sem kenndur var við Garðar og fer með okkur alla leið eins og þorpið sem ýtir æ úr vör með honum Jóni.

6

Hreistur, svo og Öskraðu gat á myrkrið, eru verk sem tengja má við fyrri verk höfundar. Sumar vísanir í verkinu eru augljósari en aðrar. Og okkur sem sumpart er kunnugt lífshlaup höfundar ætti að vera hreistur-ljóst að ekki er loku fyrir það skotið að hann hafi upplifað eitt og annað af þeim myndum sem dregnar eru upp í báðum verkum.

Það er enda nokkuð almenn vitneskja meðal okkar að Bubbi var farandverkamaður og flakkaði, og flakaði,  á milli verbúða á yngri árum. Opnar Hreistur dyr inn í þann horfna heim höfundar sem, þar að auki, er orðinn efniviður sögubóka og hugsanlega safna. Aukinheldur vitum við að  Bubbi bruddi jaxla, blár, undir augum fölur á kinn í endalausum partíum með dópið sem sinn eina vin (vísað er í lagið „Manstu“ af hljómplötunni Dögun 1987). Inn í þann heim opnar Öskraðu gat á myrkrið dyr. Sá heimur er ekki trénaður á söfnum heldur enn í fullu fjöri enda æ hægt að finna ástæðu til að droppa við hjá dópmangaranum (vísað er í lagið „Heilræðavísur II“ af plötunni Fingraför (1983). Megas á lag og texta).

7

Fyrir ljóðmælanda beggja bóka heyra þessir heimar fortíðinni til og tengist það einnig þema verkanna; að sá sem upplifir það sem lýst er á síðum bókanna öðlast nýtt sjálf, endurfæðist þótt útfrá ólíkum forsendum sé. Engu að síður er fortíðin farangur sem fylgir viðkomandi alla leið.

 

þú gleypir allan viðbjóðinn
liggur útglenntur
og öskrandi af sársauka
fæðir sjálfan þig
inní þennan heim

þú breiðir út faðminn
herakles var ekki sá eini
sem dvaldi meðal hinna dauðu
og braut sér leið til baka

(ljóð 33, Öskraðu gat á myrkrið. Héðan í frá verður verkið skammstafað með Ö.g.á m.)

 

fyrsti maí var ekki dagurinn heldur sá ellefti
endir á tímabili myrkurs og gleði
þrældóms og hörku

nútíminn var á leiðinni með opinn kjaftinn
að rista þorpið á hol svo kvótinn vall út
ennþá var stundin ekki runnin upp
ennþá var tíminn grunlaus um óveðrið
sem hann bar í andardrætti sínum

á þig höfðu vaxið vængir
þú stefndir á hæsta tindinn
til þess eins að stökkva fram af honum

(ljóð 69, Hreistur. Héðan í frá verður verkið skammstafað með Hr)

 

8

Báðar ljóðabækur má auðveldlega veiða í trossur prósaljóða og báðar segja þær sögu, eru frásagnarljóð, sem fela í sér mótun ljóðmælanda; persóna mótast, kjarni verður til sem fylgir ljóðmælanda æ síðan. Atburðum eða tímabili lífs er lýst og tímabilið og atburðir þess flúra varanleg spor í sálu persónunnar.

Í báðum tilfellum sér ljóðmælandi sig úr fjarlægð og á í eins konar samtali við sitt fyrra sjálf. Er því um tvo karaktera að ræða, þann sem

vakir fyrstu nóttina
muldrandi ofan í koddann
flæktur í vetrarkvíða
vindurinn úti
klýfur myrkrið
við borðið vaki ég
bókin er opin

(ljóð 1, Hr)

og þann sem ber þennan einkennisbúning:

ódýr rakspíri sjoppusjampó handþvegin skyrta
aldrei nærbuxur útvíðar gallabuxur
og grænn hermannajakki úr vinnufatabúðinni

svartir hermannaklossar frá sölunefnd varnarliðsins
klisjur frá karli marx

(ljóð 3, Hr)

Í Ö.g.á m. styður mikil notkun annarrar persónu eintölu þessa tilgátu.

lausnin kom til þín
á sautjánda árinu
sautjánda dag marsmánaðar

himinninn opnaðist

reykurinn fyllti lungu þín
reykurinn var orð hans
þú og hann urðuð eitt

faðir vor þú sem ert í pípu

þú varðst fullur
af heilögum
anda talaðir tungum

(ljóð 3, Ö.g.á m.)

9

Þessa aðferð getum við máske set í ker leiðslubókmennta. Í Hr er um sjö, talan er örugglega ekki tilviljun, svefnlausar nætur ljóðmælanda að ræða. Hér er átt við fyrstu persónu hlutann sem kemur fyrir jafn oft og næturnar.. Við getum séð fyrir okkur eins konar leiðslu sem opnar dyr inn í hráslagalegan og kaldan heim verbúðarinnar. Og ef við viljum slá um okkur gætum við meint að sá heimur hafi vítiskeim og neglt á svipaðan kross og níunda hring Dates í Inferno. Hvað Ö.g.á m. varðar er opnað inn í vítisheim eiturlyfjafíknarinnar.

Í Ö.g.á m. er þó ekki notast við eins augljós skil á milli sjálfanna eins og í Hr. Í fyrra verkinu er þó tvær undantekningar að finna. Önnur þeirra er í ljóði 25:

ég elskaði
elskaði þig heitar en blóð mitt
augu mín ófu sig um hlátur þinn

kossar þínir fengu mig til að gleyma

þú varst svo ung
hrein
eins og morgunbirtan
í júlí

skuggi minn var dökkur

hungur mitt tíndi af þér brosin
eitt af öðru
þar til sorgin
huldi andlit þitt

Í Hr er fyrsta persóna eintölu notuð fyrir það sjálf sem úr fjarlægð horfir á/talar við sitt fyrra líf/sjálf. Þegar fyrsta persóna er brúkuð er sá hluti skáletraður. Þannig eru skilinn milli þess sem segir söguna, ég, og þess sem sagt er frá, „þú“, skýr í Hr. En það er ekki nóg með að fyrsta og önnur persóna eintölu séu til staðar í Hr heldur ratar fyrsta persóna fleirtala talsvert upp á færibandið og er nærtækt að spyrða þá notkun við einhvers konar samvitund

það snjóaði hreistri

þegar við vöknuðum
blasti heimurinn við
með sína náttúrulegu skýjakljúfa
sína veðruðu turna
sína blágrænu breiðgötu
iðandi af lífi eftir endilöngum firðinum

(ljóð 2, Hr)

 

í þúsund fokkera fjarlægð
var borgin sem við höfðum flúið

við riðum þar til einhver öskraði haldið þið kjafti
við hlógum þar til einhver öskraði haldið þið kjafti
við sváfum þar til einhver öskraði ræs

(ljóð 40, Hr)

Kann þessi nýting persónufornafnsins að vekja upp hugrenningatengsl við bækur Jóns Kalmans Stefánssonar, Himnaríki og helvíti og Harm englanna. Má og leiða líkur að því að í báðum verkum sé sögusviðið, allavega sumpart, norðanverðir Vestfirðir, í báðum verkum er og fjallað um horfinn, háskalegan heim, ógnvekjandi, ægilega náttúru; einkum sjóinn og vindinn sem í Hr eru oft og tíðum persónugerðir. Kuldi er einnig einkennandi fyrir þessi verk Bubba og Jóns Kalmans. Kuldi og myrkur í eiginlegri og óeiginlegri merkingu. Og raunar er kuldi, á annan hátt þó, einnig einkennandi fyrir Ö.g.á m.

10

Það er þó annað verk og annar Jón sem augljóslega hefir haft mikil áhrif á Hr. Að líkindum einnig á Ö.g.á m. Verk það er eitt af brautryðjendaverkum íslenskrar bókmenntasögu, heitir Þorpið (1946) og er eftir Jón úr Vör (1917-1998). Ljóð Hr og Ö.g.á m. eru, eins og ljóð Þorpsins frásagnarljóð, prósaleg og segja sögu sem ekki er þó alltaf línuleg. Að sönnu hefst Hr á tilvitnun í téð verk og þetta ljóð; síðasta línan:

Enginn slítur þau bönd,
sem hann er bundinn átthögum sínum.
Móðir þín
fylgir þér á götu, er þú leggur af stað út í
heiminn
en þorpið fer með þér alla leið.

Ljóðmælandi Þorpisins, líkt og hjá Bubba, ávarpar sitt fyrra sjálf (líklega)

Bubbi beitir svipuðum stílbrögðum og svo er í báðum tilfellum um ljóðaflokka að ræða. Til gamans og til samanburðar er óvitlaust að berja eitt ljóð úr Þorpinu augum:

Útmánuðir

Og manstu hin löngu
mjólkurlausu miðsvetrardægur,
útmánaðatrosið
bútung, sem afvatnast í skjólu,
brunnhús
og bununnar einfalda söng,
báta í nausti
og breitt yfir striga,
kindur í fjöru,
og kalda fætur,
og kvöldin löng eins og eilífðin sjálf,
oft var þá með óþreyju beðið
eftir gæftum
og nýju í soðið.

Og manstu
eitt kvöld undir rökkur.
Þú stóðst í fjöru með fóstru þinni.
Þið horfðuð með ugg á frosna hlunna,
út á fjörðinn,
til himins, –
þið áttuð von á litlum báti fyrir eyrarodda,
en hann kom ekki.

Og rökkrið varð að þungu myrkri með veðurhljóði
þögn
og tárum í kodda,
og þú sofnaðir einsamall í of stóru rúmi

Og manstu
gleði þína á miðri nóttu,
er þú vaknaðir við, að á koll þinn
var lagður vinnuharður lófi
og um vanga þinn
strokið mjúku og hlýju handarbaki.
Fóstri þinn var kominn
– og kyssti þig, er þú lagðir hendur um háls hans.
Og það var enn kul í sjóvotu yfirskegginu.

Og næsta morgun var blár steinbítur
á héluðum hlaðvarpasteini,
og sól sindraði í silfri ýsuhreisturs, –
og hamingja í húsi fátæks manns.

11

Sagan sem sögð er í Ö.g.á m. spannar barnæsku til fullorðinsára. Sagt er (eða ljóðmælandi ávarpar sjálfan sig í annarri persónu) frá dreng sem er „tíu ára gamall / 36 kíló af ótta / með lítið kvíðabarn / í maganum / tíu ára gamall með hríðir“ (ljóð 2, Ö.g.á m.). Ástæðu óttans er að finna hjá föður barnsins.

þú vaknaðir við jarðskjálfta

gult ljósið
bakvið grænar gardínur
setti fingur sína á vegginn
og veggfóðrið rifnaði af

mamma öskraði gat á myrkrið
bróðir minn
ljónshjarta
hékk á baki pabba  

andlit hans var horfið
gríman sem þú sást
var geðveikin nakin

(sama ljóð)

 

Drengurinn vex úr grasi, finnur lausn á óttanum og bælir kvíðann með brúnum mola og „þú sem varst blindur / fékkst sjónina þú sem lifðir í skugga / gekkst út í ljósið / fætur þínir urðu sterkir / leið þin lá úr dimmum dal // komdu fagnandi / hrópaðir þú í eyðimörk kvíðans“ (ljóð 3, Ö.g.á m.). Leiðin liggur fljótlega á glapstigu vímuefnanotkunnar og sannleikanum er gefið illt auga (hér er vísað í lagið „Poppstjarnan“ á plötu Utangarðsmanna, Geislavirkir frá 1980) og meira til því knefinn er látinn „ríða á andlit sannleikans“ (sama ljóð).

12

Í annarri skáletraðri undantekningu, ljóði 4 í Ö.g.á m., birtist fyrsta persóna á ný í aðalleiðarstefi verksins: „vatnið lokaði bláum augum / augunum þínum“. Þar er dauða móður ljóðmælanda lýst:

sól mín
næring mín
orð hennar hvöttu mig
faðmurinn skýldi mér
augun sáu mig
eins og ég var

hvar var ég
nóttina sem hún dó
dópaður en hvar
man ég ekki
hún dó ein
drukknaði í rúmi sínu

13

Til að gera sæmilega langa sögu stutta þá upphefst ferð fíkilsins í landi dauðans þar sem leitast er við að komast yfir fljót dauðans (Styx) og ná landi hinna venjulegu en „karon bíður í svörtum bmw“ og ljóðmælandi á erfitt með að standast frestingar hans enda „hugstola af löngun / til að fylla kok [sitt] […] doða / finna framtennurnar / hverfa / fá aftur röntgensjónina / gleypa paranojuna / æla auðmýktinni / yfir andlit morgundagsins“ (ljóð 9, Ö.g.á m).

Komið er við á ýmsum stöðum í verkinu og er nærtækast að tengja við sum fyrri verk höfundar, að undanskildum þeim þar sem Salmo salar kemur við sögu. Er þar af ýmsu að taka.

nakin stóð hún upp og sagði
ég skal kenna þér faðirvorið
ef þú ríður mér
þú náðir honum aldrei upp
faðirvorið fékkstu
sem svefnlyf

þá nótt samdir þú lagið
sem einskonar yfirbót
fyrir getuleysi þitt

leyndarmál frægðarinnar

(ljóð 15, Ö.g.á m). Hér er talað um lagið „Leyndarmál frægðarinnar“ með Das Kapital af Lili Marlene 1984. Í ljóðabókinni (bókunum) er einnig, meðal annars, vísað í grískar goðsagnir, Biblíuna, HKL, dægurlög og dægurlagasöngvara og meira til, svo og atburði úr lífi höfundar. Eins og minnst var svo á fyrr í þessum barningi endar sagan á endurfæðingu, nýju lífi.

14

Hvað Hr varðar hverfist frásögnin um verbúðarlífið, harða vinnuna, þorpin á landsbyggðinni, tónlistina, djammið, dópið, manninn, hafið og náttúruna. Liggur auðvitað beint við að spyrða verkið við hljómplötuna Ísbjarnarblús (1980) með sínum þúsund þorskum og hrognum sem eru að koma svo og stál og hníf. Einnig má auðveldlega finna ljóð sem kallast á við Sögur af landi (1990) með Synetu og stúlku sem starir á hafið. Það væri þó einföldun og ekki réttlætanlegt að slengja fram að að um endurvinnslu sé að ræða. Á það við um báðar ljóðabækur.

15

Einnig er vert að minnast á nokkurs konar uppbrot á sem birtist í anektódum að finna má í verkunum eins og þegar greint er frá drykkjurúti sem finnst

raddlaus nánast dauður af ofþornun
fimm nátta gamall
flæktur í netatrossu
í gömlum skúr
áfengi leiðir menn á skrítnar slóðir

(Hr)

Og frá þeim sem

… var kallaður mammúturinn
hafði komið áður og brotið kjark okkar
vask og hurð

hann var 73 kíló sá sem felldi hann
með einu höggi

(Hr, ljóð 5)

Uppbrotin eru smellin.

16

Óneitanlega teljast það meðmæli með verki að auðsótt sé að hafa um það mörg orð. Þær bækur sem hér eru til umfjöllunar bjóða vissulega upp á það. Er af mörgu fyrir okkur að taka. Eins og vikið var að í byrjun getur sannlega reynst okkur erfitt að finna réttu sporin í foxtrot við Bubba sakir persónu hans og þeirra skoðana sem við kunnum að hafa á honum.

Ljóðin framkalla líka næsta víst ólíkar myndir og tengingar hjá okkur allt eftir aldri og fyrri störfum. Auðvitað á slíkt alltaf við en í þessu tilfelli er auðveldara en ella að sjá fyrir sér að þær okkar sem fæddar eru á sjöunda eða áttunda áratug síðustu aldar hafi aðra mynd og tengingu við Bubba og verk hans en þær sem fæddar eru á níunda og tíunda áratug tuttugustu aldarinnar, hvað þá ef þær eru fæddar á fyrsta áratug þeirrar tuttugustu og fyrstu.

17

Óneitanlega er fólgin viss fortíðardýrkun í því að hlusta á Bubba. Hugsanlega hjálpar það okkur að vera kominn á íhaldssaman aldur eða aldur þar sem síður er rými fyrir eitthvað nýtt sem hugsanlega gæti hreyft við kjarna tilverunnar. Hvað Bubba-bækurnar varðar gildir það einu þar sem að við sem þykjumst vita að Bubbi hafi sungið með Oxsmá árið 1983 og okkur sem höldum að „Stál og hnífur“ sé húsgagnaverslun getum sannlega fundið eitthvað sem hreyfir við okkur. Lítum af því tilefni aftur til Jóns úr Vör og á ljóð hans úr Mjallhvítarkistunni (1968):

Skáldið
og hinn góði lesandi
mætast andartak
á undarlegri strönd
í annarlegum
Hljómi
sem hvorugur veit
hver hefur
Slegið

Þessi nálgun á ljóðalestri eða lestri almennt á auðvitað alltaf við en passar ef til vill betur en ella vegna áðurnefndrar tengingar við Jón úr Vör. „Þetta kvæði er túlkun þeirrar vitundar, að allar góðar bókmenntir eru gæddar undarlegu lífi, sem er eilíft og í sífelldri sköpun. Engar tvær kynslóðir lesa bókmenntaverk á sama hátt.“ 2 Þetta má blygðunarlaust færa upp á „Öskraðu gat á hreistrið“ kannski aðeins meir á hreistrið en öskrið þótt það sé smekksatriði.

18

Myndmál verkanna er fremur einfalt, mikið um náttúrumyndir, kulda, vind, snjó, storm og allslags veðrabrigði. Oft erum við á því að honum takist vel upp, stundum finnst okkur myndirnar frekar margþvældar en það er þó heildarmyndin sem skiptir máli og tilfinningin sem verkið vekur hjá okkur. Þar erum við ekki svikin. Og Bubbi hefir sannlega eitthvað að segja, honum liggur eitthvað á hjarta. Ljóðin eru ekki endilega alltaf áferðarfalleg. Sjaldan eru þau vemmileg. Krúttleiki er ekki til staðar heldur klám, tittlingar, brund, dóp og landi svo eitthvað sé nefnt. Ljóðin eru hrá. Og svo vísað sé í aðra ljóðabókarumfjöllun hér á Starafugli þá vantar ekki sjitt í þau þessi.

fjórtán herbergi fimmtíu og sex sálir
verbúðin lyktaði af fiski brundi slori rakspíra
ilmvatni táfýlu svita ákavíti brennivíni vodka

verbúðin ilmaði

langir fölgrænir veggir með blóðblettum leifum af uppköstum
voru okkar kjarval

(ljóð 1, Hr)

19

Þótt Bubbi hafi samið sinn skerf af verkum þar sem hamingjan ræður ríkjum og fegurðin ein þá verður ekki annað sagt en að skuggahliðar mannlífsins með ælu inn á baðherbergi, brotinn stól í stofunni, blóðslettur á gólfinu dúkki oftlega upp í verkum hans (vísað i lagið „Laugardagsmorgun“ af plötunni Sögur af landi frá 1990). Dagarnir eiga til með að vera „eins og langdregin jarðarför“ (ljóð 4 í Hreistri) og þar er kuldi og stormur úti sem inni og ógn svífur oftlega yfir vötnum enda er „svarrandi brimið froðufellandi fyrir utan húsið / hótar að ryðjast inn“ (ljóð 6, Hr). Miðlun þessa tekst vel í umræddum verkum.  

20

Verkin eru bæði þroskasaga og lýsa göngu á glóðum tilverunnar. Þau segja sögu manns sem að lokum, eins og útlagi Jóns Gnarr, ætlar sér að verða eitthvað. Ætlar sér að brjótast úr aðstæðum sínum

Ég ætla að verða eitthvað. Ég ætla að verða einhver. Ég ætla að búa til sögur og ég ætla að búa til ljóð. Ég ætla að búa til og segja frá öllu. Ég ætla ekki að leyfa neinum að stoppa mig í rétti mínum að fá að vera ég. Og ég ætla aldrei að gefast upp. 3

Ég er frjáls. (bls. 384)

21

Á einum stað þessarar umfjöllunar var sagt að vikið yrði að því síðar hvort téð verk væru bombur, blindsker, nýbúi eða meskalín. Við erum á því að þau sé allt það og meira til og þau geta vel ljáð okkurvængi eins og Unnur Benediktsdóttir gerði í eina tíð. Þau opna fyrir okkur dyr, taka okkur í ferð, hreyfa við okkur. Bubbi er fyrir byrjendur jafnt sem lengra komna.

   [ + ]

1. Við vitum að Eiríkur Örn er fæddur árið 1978 og að Ísbjarnarblús kom út 1980.
2. Hvort tveggja ljóðið og tilvitnunin er tekið úr bókinni Að yrkja á atómöld (1970) eftir Svein Skorra Höskuldsson. Bls. 7.
3. Jón Gnarr. 2015. Útlaginn. Mál og menning, Reykjavík. Verkið er skrifað í samstarfi við Hrefnu Lind Heimisdóttur. Bls. 384.