Ást eftir ást
Sá tími mun koma að
þú, glaður og reifur, takir á móti
sjálfum þér á þínu eigin
dyraþrepi, í þínum eigin spegli
og báðir brosa við höfðinglegum móttökum hins
og segja, fáðu þér sæti.
Borðaðu.
Þú munt aftur elska þennan ókunna mann sem þú varst.
Gefa vín að drekka.
Gefa brauð að borða.
Gefa hjarta þitt aftur
sjálfu sér, ókunna manninum sem elskaði þig
alla ævi, sem þú hunsaðir
fyrir annan, sem kann þig utan að.
Taktu ástarbréfin niður úr bókahillunni,
ljósmyndirnar, örvæntingarfullar orðsendingarnar,
flettu ásjónu þinni af speglinum.
Fáðu þér sæti.
Gerðu þér veislu úr lífi þínu.
Bleeckerstræti, að sumri
Sumar fyrir prósa og sítrónur, fyrir nekt og slen,
fyrir eilíft iðjuleysi hinnar ímynduðu endurkomu,
fyrir fátíðar flautur og bera fætur, og svefnherbergi í ágúst
úr þvældum lökum og sunnudagssalti, ó, fiðlur!
Þegar ég þrýsti saman sumarrökkrum verða þau
að mánuði af nikkuspili og sjálfvirkum vökvurum
sem binda rykið, litlir skuggar á hlaupum frá mér.
Það er tónlist þegar opnar og lokar, Italia mia, á Bleecker,
ciao, Antonio, og vatnsærsl barnanna
sem rífa róslitan himininn í pappírsræmur;
það er rökkur í nösunum og lykt af vatni
niður sóðalegar götur sem leiða ekki að neinu vatni,
og safnast eyjur og sítrónur í huganum.
Þarna er Hudsoná, einsog hafið í logum.
Ég myndi berhátta þig í sumarhitanum
og hlæja og þerra rakt hold þitt ef þú kæmir.
Derek Walcott fæddist 23. janúar árið 1930 á eyjunni Sankta Lúsíu í Karíbahafi. Hann er einn af mikilvægustu höfundum enskrar tungu á 20. öld og hlaut Nóbelsverðlaun í bókmenntum árið 1992. Hann lést síðastliðinn föstudag.
Eiríkur Örn Norðdahl þýddi.