SÖGULEGT KVÖLD
(úr Uppljómunum í þýðingu Sigurðar Pálssonar)
Eitthvert kvöldið, til dæmis, þegar hrekklaus túristi hefur losnað undan vorum efnahagslega hryllingi, þá er leikið snillingshendi á sembal engjanna; spilað er á spil á botni tjarnarinnar, spegillinn vekur upp mynd af drottningum og eftirlætis hirðmeyjum; þarna eru heilagar konur, slæður og samhljómandi strengir og hin víðfrægu litbrigði sólarlagsins.
Hann titrar þegar veiðimenn og hjarðir fara hjá. Það drýpur af gamanleiknum niður á grasflöt leiksviðsins. Og vandræðagangur hinna fátæku og veikbyggðu á þessum heimskulegu flötum!
Andspænis þrældómssýn sinni klöngrast Þýskaland upp í tunglin; tartaraauðnirnar lýsast upp; þá iða fornar uppreisnir í miðju Himneska Keisaradæminu; berast um stiga og hægindi konunganna, lítill heimur, gugginn og daufur, Afríka og Vesturlönd, mun þá rísa. Síðan verður ballettsýning sjávarins og þekktra næturstunda, verðlaus efnasamsetning og ómögulegar melódíur.
Hvarvetna þar sem póstlestin nemur staðar og skilar okkur af sér eru sömu borgaralegu galdrarnir! Jafnvel byrjandi í eðlisfræði finnur að það er ekki lengur hægt að sætta sig við þetta persónulega andrúmsloft, þoku úr líkamlegri iðrun, bara að hugsa til þess er þolraun.
Nei! – Stund suðupottsins, brottnám úthafsins, neðanjarðar eldsvoði, burtsópun plánetunnar og tilheyrandi útrýmingar, fullvissa sem illgirnislaust er greint frá í Biblíunni og hjá Völvunum, það kemur í hlut hinna alvörugefnu að fylgjast með þessu. – Samt verður ekkert goðsagnakennt við þetta!
ALKEMÍA ORÐSINS
(úr Árstíð í helvíti í þýðingu Sölva Björns Sigurðssonar)
Ljóðræn fyrnska átti stóran þátt í alkemíu orðsins.
Ég vandist einfaldri skynvillu: mjög skýrt sá ég mosku í stað verksmiðju, trumbuskóla engla, hestvagna á götum himinsins, stássstofu á botni stöðuvatns; skrímsli og leyndardóma; veggspjald fjölleikahúss vakti með mér skelfingu.
Svo útskýrði ég töfrandi tálrök mín með skynvillum orðanna!
Að endingu varð mér óreiða sálarinnar heilög. Ég var iðjulaus, heltekinn sóttþungum hita: ég öfundaði hamingju skepnanna. Fiðrildalirfurnar: sakleysið í forgörðum helvítis. Og moldvörpurnar, svefn meydómsins!
Skapgerð mín varð beisk. Ég sendi heiminum kveðju mína í einhvers konar ástarljóði.
Söngur úr hæsta turni
Lát stundir renna
er stríðast hjörtun brenna.
Svo ært varð mitt þol
að ég öllu gleymdi.
Öll hræðsla og allt vol
til himins streymdi.
Af þorsta skæðum
varð skuggsýnt í æðum.
Lát stundir renna
er stríðast hjörtun brenna.
Þannig varð engið
algleymi fengið,
af gróanda óx það
af illgresi jókst það,
sem einrænu býi
og óhreinu mýi.
Lát stundir renna
er stríðast hjörtun brenna.
Ég hélt upp á eyðilendur, skrælnaða aldingarða, niðurníddar verslanir, hálfvolga drykki. Ég drattaðist um í daunillum öngstrætum og með lokuð augun gaf ég mig á vald sólinni, gyðju eldsins.
„Hershöfðingi, ef gömul fallbyssa leynist á ónýtum virkisgörðum þínum, skjóttu okkur þá með skotum þurrar jarðar. Skjóttu á rúður dásamlegra verslana! Inn í stássstofurnar! Láttu borgina éta sitt eigið ryk. Tærðu upp vatnspípurnar. Fylltu hóruhúsin brennandi rúbínpúðri…“
Ó, ölvaða mýflugan á pisseríu krárinnar, ástfangin af munablóminu, og gleypt af sólargeislanum!