Besta kvikmynd Orson Welles (er ekki Citizen Kane)

Chimes at Midnight: Criterion Collection

Vert er að vekja athygli kvikmyndaunnenda á nýútkominni endurbættri útgáfu á vanmetnu og hálfgleymdu meistaraverki frá ekki minni manni en Orson Welles. Fagfólkið hjá The Criterion Collection gáfu nýlega út Chimes at Midnight frá 1965. Ég er búinn að bíða nokkuð lengi eftir þessu og hafði aldrei botnað í því hvers vegna ekki var búið gefa hana út í mannsæmandi gæðum fyrir löngu. Í langan tíma þurftu kvikmyndaaðdáendur að sætta sig við hræðileg VHS afrit, ef þeir voru þá það heppnir að komast yfir þau því þau voru hreint ekki auðfundin. En nú getum við verið viss um að hún sé loksins komin út í mestu gæðum sem völ er á, því Criterion er ekki þekkt fyrir neitt minna, ásamt alls kyns aukaefni og kápu sem er oft á tíðum listaverk í sjálfu sér. Þessu ber ekki einungis að fagna vegna þess að við fáum loksins að upplifa kvikmynd Welles í útgáfu sem henni sæmir, heldur ekki síst vegna þess að mögulega fær myndin loksins þá athygli og virðingu sem hún á skilið. Ég vil ganga svo langt að fullyrða að hún sé besta mynd Welles.

Chimes at Midnight (eða Falstaff: Chimes at Midnight sem er breski titillinn) var gerð á mjög erfiðum tíma á ferli Welles.  Hann var lengi búinn að vera að vinna í ýmsum verkefnum í Evrópu með einstaka Hollywood hlutverkum inn á milli, en óþarfi er að fara nánar út í afleiðingar Citizen Kane fyrir feril hans – sú saga ætti að vera flestum kunn.  Shakespeare áhuginn var þó ævinlega jafn mikill og hann vann að ýmsum kvikmyndaaðlögunum og lék hlutverk, en þar má helst nefna hina sérstöku útgáfu hans af Macbeth (1949) og Othello (1952). Chimes at Midnight var byggð á uppfærslu sem hann hafði sett á svið á Broadway 1939 sem nefndist Five Kings þar sem hann lék einnig Falstaff. Hann setti verkið aftur á svið síðar á Írlandi, og lét það oft í ljós að hlutverk Falstaff væri stærsti metnaður hans í lífinu. Um miðjan 7. áratuginn ákvað hann loks að hrinda verkefninu í framkvæmd. En eins og svo oft áður átti hann í miklum erfiðleikum með að fjármagna myndina. Hann gerði samkomulag við spænskan framleiðenda (sem hafði enga trú á myndinni) um að fá fjármagn gegn því að gera einnig aðlögun á hinni vinsælu bók Fjarsjóðseyjan – eitthvað sem Welles samþykkti en ætlaði sér aldrei að standa við. Myndin var því tekin upp á Spáni en Welles kláraði allt fjármagn í miðjum upptökum svo gera þurfti hlé á meðan að hann leitaði að öðrum fjárfestum. Það tókst á endanum og Welles kláraði myndina fyrir rest. Hún var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes 1966 og fékk mjög jákvæðar viðtökur. En þegar kom að útgáfu í Bandaríkjunum var ein slæm umfjöllun gagnrýnanda New York Times sem sá hana í forsýningu á undan öllum öðrum nóg til að sannfæra drefingaraðilann um að takmarka verulega dreifingu hennar og  kynningu. Þegar hún loks kom út fékk hún einhverja slæma dóma frá gagnrýnendum, sem beindu oft spjótum að leik Welles. Hins vegar fékk hún einnig mjög jákvæðar viðtökur hjá t.d. Pauline Kael og Serge Daney hjá Cahiers du Cinema. Þessar blendnu móttökur leiddu til þess að hún féll fljótt mest megnis í gleymsku, var á einhverjum tímapukti gefin út á VHS í takmörkuðu upplagi (lengi vel voru einu fáanlegu eintökin af henni lélegar afritanir af VHS útgáfunni) en átti sér í rauninni fáa talsmenn fyrir utan Welles sjálfan sem var mjög stoltur af henni og taldi Falstaff vera erfiðasta hlutverk sem hann hafði nokkurn tímann glímt við.

Segja má að Shakespeare í kvikmyndum hafi lengi vel fallið í tvo flokka: myndir Laurence Olivier og svo allar hinar. Olivier setti vissan standard sem erfitt var að mæta. Stöku leikstjórar komu þó annað slagið með vel heppnaðar aðlaganir byggðar á misdjörfum tilraunum (hér þarf að minnast á Kurosawa en meistaraverk hans, Ran, Throne of Blood, The Bad Sleep Well, eru þó á mörkum þess að geta talist aðlaganir), en fæst komst nálægt myndum Olivier: Henry V, Hamlet og Richard III sérstaklega sem hafa elst vel og eru enn á meðal þess allra besta í þessari kvikmyndagrein. Nýrri verk, einna helst The Hollow Crown sjónvarpsþáttaserían, komast þó mjög nálægt, ef þær taka hreinlega ekki framúr myndum hans.

Chimes at Midnight er ein af þessum tilrauna Shakespeare myndum. Hún er ekki bein aðlögun heldur er hún saga sem Welles mótar sjálfur með því að blanda saman og raða upp senum úr báðum hlutum Henry IV fyrst og fremst, en einnig Richard II og Henry V ásamt línum úr The Merry Wives of Windsor. Eins og áður segir leikur Welles Sir John Falstaff, Keith Baxter er mjög góður í hlutverki Prins Hal og hinn reyndi John Gielgud í hlutverki Henry IV. Allir leikararnir eru mjög góðir, sérstaklega Baxter sem túlkar Hal á mjög eftirminnilegan hátt. En Welles sýnir svo mikinn stórleik að hann gnæfir yfir allar aðrar persónur sem eiga í rauninni engan séns á móti honum.

Þannig á það líka að vera. Falstaff er auðvitað ein allra áhugaverðasta persóna bókmenntasögunnar og er aðeins í öðru sæti á eftir Hamlet á listanum yfir mestu afrek Shakespeares í persónusköpun. Hvað gerir Falstaff að svona stórbrotinni persónu? Finna má ótal túlkanir á honum, sem er eitt og sér auðvitað merki um dýpt hans. Margir eru sammála dómi Hals í einni senu og sjá hann sem heigul fyrst og fremst. Það þarf þó ekki að kafa djúpt undir yfirborðið til að sjá að það er mun meira á seyði. Fyrir utan hnyttni hans, sem á sér fáar hliðstæður, er eitt helsta einkenni hans og aðdráttarafl hversu fullkomlega frjáls hann er. Hann tekur ekkert inn á sig, óhöpp, móðganir, persónuárásir og annað hefur nákvæmlega engin áhrif á hann, allt skoppar áreynslulaust af honum, oftast með bros á vör og jafnvel gleði og hlátri. Enginn virðist hafa meira gaman af að gera grín að Falstaff meira en hann sjálfur. Heimssýn hans virðist aðallega einkennast af frelsi frá öllum hugsjónum, prinsippum og viðteknum hugmyndum og gildum. Á þann hátt mætti lýsa honum sem einhvers konar níhilista, en sá níhilismi sem hann aðhyllist er engan veginn svartsýnn og mannfjandsamlegur eins og hann er oftast skilinn. Enginn nýtur lífsins meira en Falstaff ásamt því að hann er mjög skemmtilegur og vingjarnlegur (hreinskilni er þó ekki hans sterkasta hlið). Dauðadæmdur vinskapur þeirra Hals hefur þennan áhrifamátt einmitt vegna þessa, við finnum til með og söknum Falstaff vegna þess að hann er augljóslega mun meira en heigull og letingi, sem er þó ímynd sem hann virðist ekkert hafa á móti.  Hvernig allir mótsagnakenndu þættir persónuleika hans passa saman og mynda þá heilsteyptu persónu sem við kynnumst í verkunum er auðvitað ein af helstu ástæðum þess að enginn stendur Shakespeare framar í persónusköpun.

Falstaff er svo skeytingarlaus um allar venjulegar áhyggjur og gildi, að maður á ekki einungis bágt með að sjá hann fyrir sér í flestum aðstæðum, heldur virðist hann ekki einu sinni passa inn í eigið leikrit. Huglægni hans er svo stór og hugarafl hans svo kraftmikið að hann gerir það að verkum að leikritin fara nánast út af sporinu vegna viðveru hans. Algeng kenning kveður á um að Shakespeare hafi gert sér fulla grein fyrir þessu vandamáli og því gefið honum mjög einkennilegan snöggan og ódramatískan dauða í Henry V sem er auðvitað ekki í neinu samhengi við stærð og mikilvægi hans í leikritinum sem komu á undan. Hvað svo sem er til í því, þá er þetta ein af stærstu ráðgátunum við Shakespeare og það má telja til ótal fleiri dæmi: leikritið sjálft –, uppbygging þess – og, söguframvinda, o.s.frv. – hefur enga þörf fyrir slíka persónu. Falstaff (ásamt Hamlet) er einhver dularfyllsta persóna bókmenntasögunnar, persóna sem endalaust er hægt að endurnýja kynni við og sjá eitthvað nýtt, án þess að maður komist nokkurn tímann til botns eða skilji hann til hlítar. Welles undirstrikar einnig stærð persónunnar í myndinni á sjónrænan hátt. Falstaff hans er risastór. Hann fyllir flesta ramma og íturvaxinn líkami hans gnæfir og skyggir yfir allar aðrar persónur. Ég minntist áður á The Hollow Crown sem eina af bestu Shakespeare aðlögunum. Stærsti galli þeirrar seríu er þó einmitt Falstaff í meðförum Simon Russel Beale. Nú er Beale góður leikari sem stendur sig alls ekki illa, en eftir Welles getur manni ekki annað en fundist lítið til Falstaff hans koma.

Ég hef einungis rétt krafsað í yfirborðið, en ástríða Welles fyrir persónunni og ástæðan fyrir  að hann taldi hann vera erfiðasta hlutverk sitt kemur ekki á óvart.

Gildi Chimes at Midnight liggur þó ekki einungis í velheppnaðri aðlögun á verkum Shakespeares og stórleik Welles. Tæknilega er Welles í sínu besta formi nokkurn tímann. Hann reiðir sig mikið á vörumerki sitt, löngu skotin sem hann skráði sig á spjöld kvikmyndasögunnar með í Touch of Evil. Einstök og frumleg klippingin ásamt meistaralegum samhljómi hljóðs og myndar gerir myndina að augljósum jafnoka annarra verka hans. Allt kemur þetta saman í orrustunni við Shrewsbury, en sú fimm mínútna sena, verk sanns snillings í kvikmyndagerð, er með því albesta sem Welles afrekaði nokkurn tímann á ferlinum.

Citizen Kane er vissulega mikilvægari kvikmyndasögulega. Touch of Evil er óumdeilanlega meistaraverk þar sem Welles á annan stórleik og Harry Lime er einhver eftirminnilegasta kvikmyndapersónan í einni bestu mynd allra tíma. En persónulega tek ég þó Chimes at Midnight fram yfir þær allar og myndi útnefna hana sem bestu mynd Welles og Falstaff hans mesta leiksigur. Frábær túlkun á nánast óyfirstíganlega erfiðri persónu, kvikmyndagerð í hæsta gæðaflokki, djörf og frumleg aðlögun á verkum Shakespeare sem heppnast mjög vel og gefur manni nýja sýn á verkin, ásamt ástríðu Welles sjálfs á viðfangsefninu sem skín í gegnum hvern ramma, gerir það að verkum að hún er sú mynd hans sem ég myndi mæla með ef ég mætti aðeins velja eina. Vonandi leiðir þessi nýja útgáfa til þess að hún öðlist loks þann sess sem hún á skilið, bæði í ferli Welles, meðal kvikmyndaaðlaganna á Shakespeare sem og í kvikmyndasögunni allri.