gömul slæða
Tómur, svangur, léttur svífandi.
Kaldur að utan, heitur að innan.
Svífandi upp
húðin harðnar
líffærin mýkjast.
Húðin harðnar
líffærin leysast upp.
Á örskotsstundu skil ég allt.
Ekkert hefur breyst.
Maður – loftbelgur – egg.
slökkt ljós
Þú sagðir mér að þú værir að bíða,
hefðir ekkert betra að gera en láta tímann líða.
Það er enginn að koma og þú ferð ekki út.
Fyrir utan er himinninn grár,
inni hjá þér er svartamyrkur
og þú drekkur af stút.
Þú ert að bíða, það bergmálar eitthvað
í eyrunum á þér, eitthvað sem ég hef aldrei heyrt,
en þekki samt þegar það lendir á eyrunum á mér.
Ég veit þú ert að bíða
og ég heyri bergmálið þitt.
Nú erum við komnir.
Nú veit ég af hverju þetta ljós hefur alltaf verið slökkt.
Tvö ljóð úr bókinni Skordýr eftir Benedikt H. Hermannsson