Þrjú ljóð eftir Atla Sigþórsson


Sunnudagskvöldið 2.október, á Gauknum, Tryggvagötu 22, halda Starafugl og Samtök ungra skálda (SUS) ljóðapartí.

Atli Sigþórsson (f. 1983) er norðlenskur orðfimleikamaður sem betur er þekktur undir listamannsnafninu Kött Grá Pje. Hann hefur vakið umtalsverða athygli síðustu misseri, bæði á eigin vegum með laginu Aheybaró, en einnig sem gestur í hópi annarra rappara, t.d. hinu fræga Brennum allt með Úlfi Úlfi. Á næstu vikum birtist fyrsta breiðskífa Atla – sem og hans fyrsta bók. Atli á kött sem er fyrirferðarmikill á samfélagsmiðlum. Hún heitir Kālikā og tortímir illum öflum.

langhlaup

Einlægt sjálfshatur er langhlaup.

flugeðlan

Á svölum blokkaríbúðar í Vesturbænum hefur vængjuð ófreskja aftan úr grárri forneskju gert sér bæli. Þaðan herjar hún á leikvelli hverfisins. Sækir sér börn í svanginn. Engum dettur í hug að lyfta litla fingri vegna þess, því nútímafólk hefur um svo margt annað og alvarlegra að hugsa en forsögulegar vængjaðar ófreskjur.

þvottavélin sem enn vindur

Í annarri þvottavélinni niðri í kjallara, þeirri sem ennþá vindur almennilega þegar hún er stillt á suðu, býr tröll. Það borðar ekki börn eða nauðgar bændum heldur hreytir ónotum í þá íbúa sem hætta sér þangað niður. Það spyr hluta á borð við: „Hví þarf maður á þínum aldri að nota skitið þvottahús? Ættirðu ekki að eiga eigin þvottavél? Hvenær ætlarðu eiginlega að koma undir þig fótunum? Og systkini þín svona efnilegt ungt fólk. Æ, æ og ó og romm-tomm-tomm-í tromlunni!“ Enginn kemur ánægður með sjálfan sig eða þvottinn sinn neðan úr kjallara. Þótt vélin sem slík standi fyrir sínu og vel það.

Birtist upprunalega 30. júní 2016.