Prince (1958-2016)

Það voru áreiðanlega 15 þúsund manns sem skildu okkur að – mannhafið fyrir framan mig og hann einsog pínulítill tindáti í móðu lengst, lengst í burtu – ég var lúinn og einn og drónið var endalaust, mannfjöldinn kannaðist bara við tón af og til, likk af og til, og þá fóru hrollstunur um hópinn.

Og svo byrjaði það. Og þótt hann væri búinn að daðra við það í áreiðanlega tíu mínútur kom það einhvern veginn samt einsog þruma úr heiðskíru lofti. Ég man að ég hugsaði að það þyrfti brjálæðislega stórt egó – egó sem fyllir upp í heiminn – til að geta náð kontakt við svona stóran hóp fólks í einu, til að geta snert mig svona djúpt þar sem ég stóð lengst aftur í rassgati. Og kannski meinti ég bara að maður þyrfti að vera brjálæðislega stór manneskja, mikill listamaður.